Seðlabankinn getur gert hvað sem hann vill

Vátryggingamiðlarar sem þjónusta erlend tryggingafélög segja fund með sérfræðingum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) í gær ekki hafa eytt óvissu um það hvort ýmsar gerðir tryggingasamninga verði metnar ólögmætar. 

Sem kunn­ugt er hef­ur regl­um um gjald­eyr­is­mál verið breytt þannig að sparnaður á veg­um er­lendra trygg­inga­fé­laga hef­ur verið bannaður.

Þá höfum við það. Seðlabanki Íslands breytti reglum og gerði þannig marga samninga ólöglega. Athugið: Reglum var breytt, og það gerði samninga ólöglega. Lögin standa óbreytt, en af því Seðlabanki Íslands getur gert hvað sem hann vill þá urðu reglubreytingar hans til þess að samningar urðu ólöglegir. Seðlabanki Íslands er eins og ríki í ríkinu sem ræður því sem hann vill ráða. Embættismenn innan Seðlabanka Íslands hljóta að ganga um í blautum nærbuxum vegna ánægju með þau miklu völd sem þeir hafa.

Það er kominn tími til að Íslendingar íhugi alvarlega tilganginn með því að hið íslenska ríki reki seðlabanka. Seðlabanki Íslands er stjórntæki. Með honum má þurrka út sparnað Íslendinga með seðlaprentun til að bæta stöðu útflutningsfyrirtækja. Með honum má lækka kaupmátt launa á Íslandi til að bjarga gjaldþrota og skuldsettum fyrirtækjum frá gjaldþroti (gjarnan fyrirtæki sem eru í náðinni hjá stjórnmálamönnum). Með honum má beina fjárfestingum lífeyrissjóða inn í ríkissjóð. Með honum má blása í bólur rétt fyrir kosningar til að laða kjósendur að ráðandi stjórnmálaflokkum. Með honum má raða embættismönnum inn í stjórnkerfið og búa til þæga kjósendur úr þeim - kjósendur sem fá að ganga um í jakkafötum á daginn og halda ráðstefnur með öðrum í jakkafötum.

Seðlabanka Íslands á að leggja niður.  


mbl.is Seðlabanki boðar svör á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem hafa getað sparað erlendis með þessum hætti þrátt fyrir höft eiga að þakka fyrir það því að það eru engin rök fyrir því að höftin eigi ekki að ná yfir þeirra sparnað eins og séreignasparnað lífeyrissjóðanna.

Það er engin ástæða til að gera mikið úr því að samningar verði ólöglegir núna en ekki þegar höftin voru sett á. Þeir gilda einfaldlega ekki lengur. Menn eiga áfram þennan sparnað í gjaldeyri en þurfa héðan í frá að sætta sig við séreignarlífeyrissparnað í krónum.

Það er eðlilegt að menn séu ósáttir en þetta er einfaldlega afleiðing þess að hér eru gjaldeyrishöft sem rekja má til þess að við erum með ónýtan gjaldmiðil.

Þegar gjaldeyrishöft voru sett á voru þessir samningar við erlend tryggingarfélög fáir. Þess vegna þótti ekki taka því að láta höftin ná yfir þá. En eðlilega fjölgaði þessum samningum þegar menn áttuðu sig á þessari smugu til að spara í gjaldeyri.

Annars er þetta gott dæmi um hvernig höft virka. Við eigum eftir að sjá fleiri takmarkanir því að víða leynast smugur sem menn læra að notfæra sér. Meðan krónan er við lýði verða óhjákvæmilega gjaldeyrishöft í einhverri mynd.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 10:04

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Ásmundur,

Ég er sammála því að í hagkerfi þar sem öllu má stjórna með lögum, og þar sem samninga má gera ógilda með einfaldri reglusetningu, þar geta menn ekki gengið að neinu vísu. Ég bíð enn eftir innflutningshöftunum. Þau hljóta að fara koma.

Hitt er verra að fólk hefur verið að nýta sér "smugur" til að spara til efri ára. Tryggingarfélögin erlendu sjá bara að greiðslur eru hættar að berast og í einhverjum tilvikum mun það þýða að sparnaður verður að engu (t.d. vegna lágmarksárafjölda inngreiðslna). Kannski eiga einhverjir inni skaðabætur hjá ríkinu?

Enn verra er svo að enginn virðist sjá skóginn fyrir flísinni. Vandamálið er ekki krónan sem slík, frekar en evran fyrir Spánverja eða bandaríski dollarinn fyrir Argentínu á sínum tíma. Vandamálið er ríkiseinokun á peningaútgáfu. Hún hefur verið til eilífra vandræða alla 20. öldina. Þessi skemmtilega tilraun til að treysta stjórnmálamönnum og hinu opinbera fyrir peningunum okkar hefur mistekist og má hætta.

Um leið auglýsi ég eftir stærri tortryggni á ríkisvaldið. Ríkisvald sem nýtur trausts er hættulegt ríkisvald.

Geir Ágústsson, 20.6.2014 kl. 12:08

3 identicon

Geir, það er ljóst að það felst mismunun í því að leyfa einstaklingum að greiða  séreignarlífeyrissparnað hjá erlendum tryggingarfélögum en banna lífeyrissjóðunum að ávaxta séreignarlífeyrissparnað sinna félaga erlendis.

Ég sé ekki að neinn skaði sé skeður hjá þessum erlendu tryggingarfélögum fyrir utan að þau missa framtíðarviðskipti. Það er einfaldlega eitthvað sem öll þjónustufyrirtæki verða að búa sig undir. Ég sé ekki hvernig menn geta misst áunninn rétt vegna þessara breytinga.

Gjaldeyrishöftin hjá okkur eru auðvitað afleiðing þess að við höfum krónu sem gjaldmiðil. Ef við værum með evru væri engin snjóhengja og því ekkert gengishrun gjaldmiðilsins yfirvofandi við stórfellda fjármagnsflutninga úr landi. 

Eftir því sem menn nýta sér fleiri smugur til að komast hjá höftum þarf að herða á lögum og reglum svo að höftin virki. Það er einfaldlega eðli gjaldeyrishafta.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 17:58

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Undanþágurnar frá höftunum eru margar. Íslendingar sem ferðast mega t.d. kaupa erlendan gjaldeyri. Það er mismunun.

En ég skil punkt þinn. Undir gjaldeyrishöftum má í raun ekkert nema það sem er sérstaklega leyft. Þegar alræði ríkisins er algjört er í raun ekkert leyfilegt nema það sem er sérstaklega leyft. Þetta er veruleiki þeirra sem þurfa að sýsla með ríkisgjaldmiðil Íslands í dag.

Og ég bíð sem sagt ennþá spenntur eftir innflutningshöftunum.

Geir Ágústsson, 21.6.2014 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband