Mánudagur, 7. apríl 2014
Eftir hverju er beðið?
Á hverju einasta ári setjast Alþingismenn niður og ræða og kjósa um það hvað ríkisvaldið á að sjúga til sín mikið af verðmætum samfélagsins og endurúthluta. Á hverju einasta ári getur meirihluti Alþingismanna ákveðið að gera eitthvað allt annað en fráfarandi meirihluti. Á hverju einasta ári getur meirihluti Alþingismanna ákveðið að lækka ríkisútgjöld um 75% og lækka skatta um að minnsta kosti það.
Ég geri mér grein fyrir að enginn meirihluti er á Alþingi fyrir því að sleppa kæfandi taki hins opinbera á hinum íslenska skattgreiðenda. Eðli málsins samkvæmt dregur hið opinbera inn í sínar raðir einstaklinga sem vilja völd og skattalækkanir minnka völd stjórnmálamanna.
Ég geri mér líka grein fyrir að enginn sérstakur stuðningur er hjá almenningi fyrir róttækum niðurskurði á hinu opinbera. "Ríkisvaldið er sú mikla goðsögn að allir reyni að lifa á kostnað allra annarra" sagði Bastiat á sínum tíma (í lélegri þýðingu minni). Almenningur trúir meira og minna á þessa goðsögn. Flestir telja sig vera að fá eitthvað fyrir skattpeninginn sinn - eitthvað sem fengist ekki án skattheimtu og opinberrar íhlutunar. Sumir trúa því t.d. að menntun, listir og heilbrigðisgæsla eigi allt sitt undir ríkisafskiptunum. Flestir trúa því að án ríkisafskiptanna væri engin heilbrigðisgæsla, menntun og afþreying í boði fyrir þá sem þéna minnst.
Ég geri mér hins vegar líka grein fyrir að hið íslenska ríkisvald er rekið á það sem mætti kalla ósjálfbæran hátt. Það er rekið á sama hátt og fíkillinn kemst í gegnum daginn: Með neyslu eiturefna sem smátt og smátt draga líkamann til dauða þótt hver og einn dagur sé svipaður og sá á undan.
Það sem vantar hjá bæði stjórnmálamönnum og almenningi er "áfallið" - sú skelfilega uppgötvun að bjargbrúnin er skammt framundan og nálgast óðfluga og að nú verði að stíga á bremsurnar og spóla til baka. Því lengur sem þessi uppgötvun lætur bíða eftir sér, því verra verður áfallið.
Er beðið eftir því?
Vill fækka tekjuskattsþrepum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.