Þriðjudagur, 18. febrúar 2014
Um stjórnmálamenn og peningaprentvélar
Umræðan um peningastefnu á Íslandi minnir mig oftar en ekki á rifrildi um það hvort sé betra, pulsa eða pylsa.
Deilt er um það hvort afskipti af seðlabanka ríkisvaldsins eigi að vera pólitísk eða ekki. Er ekki í lagi? Seðlabanki Íslands er banki ríkisvaldsins, sem er stjórnað af stjórnmálamönnum. Eitt af yfirlýstum markmiðum Seðlabanka Íslands er raunar "að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika", og skal engum detta í hug að markmiðið um verðstöðugleika sé bankanum mikilvægt. Eftir stendur þá að Seðlabanki Íslands er verkfæri ríkisvaldsins og valdhafandi stjórnmálamanna til að ná pólitískum markmiðum.
Hið íslenska ríkisvald á að koma sér algjörlega af markaði peningaframleiðslu og hleypa einkaaðilum að. Mun það leiða til þess að óteljandi tegundir peninga spretti fram og fari í kapphlaup í rýrnun kaupmáttar? Öðru nær. Til að fólk byrji að nota eitthvað sem peninga þarf annaðhvort þvingun löggjafans eða trú á að viðkomandi peningar haldi kaupmætti sínum. Til að öðlast þá trú þarf eitthvað meira en innantóm loforð gamalla kommúnista.
Í dag er markmið Seðlabanka Íslands að helminga kaupmátt íslensku krónunnar á um einnar kynslóðar fresti (oft kallað 2,5% verðbólgumarkmið). Það er slæmt markmið. Á sama tíma og hinn frjálsi markaður keppist við að dæla meira og meira af sífellt ódýrari og/eða fullkomnari varningi á markað, sem að öllu jöfnu ætti að valda lækkun verðlags, þá keppist ríkisvaldið til að hirða ávinninginn af okkur í gegnum verðbólgu, sem spekingar í fílabeinsturni kalla "nauðsynlega" og jafnvel "góða".
Ríkisvaldið gerir sjaldan meiri skaða og þegar það hefur einokunaraðstöðu á markaði peningaframleiðslu.
Að leggja niður Seðlabanka Íslands, í skiptum fyrir ekkert nýtt eða annað en afnám viðeigandi lagabálka, er eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna í dag. Fyrst þurfa þeir að fá þá flugu í höfuðið að vilja lágmarka skaðann af sjálfum sér.
Ummælin skapa óvissu um verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.