Fimmtudagur, 9. janúar 2014
Skemmtileg og bráðholl hugleiðing, en ýmsu er gleymt
Það er gott að einhverjir innan bankakerfisins geri sér ennþá grein fyrir skaðlegum afleiðingum af ríkisvörðum, seðlabankastuddum og peningaprentandi rekstri banka í dag.
Allt sem sagt er í fréttinni svo langt sem það nær. Mikið innstreymi nýrra peninga í eitthvert hagkerfið rýrir kaupmátt þeirra peninga. Séu peningarnir gull rýrnar kaupmáttur þess. Séu peningarnir pappírsseðlar með andlitsmyndum rýrnar kaupmáttur þeirra. Fyrstu viðtakendur peninganna geta keypt á gamla verðlaginu, en aukin eftirspurn þeirra þrýstir á verð og þeir sem seinna koma hafa því hvorki fengið nýja peninginn né gamla verðlagið, heldur nýtt og hærra verðlag með sömu ráðstöfunartekjur.
Sem sagt, tilflutningur á verðmætum frá þeim sem eru á föstum tekjum til þeirra sem fá fyrstir hina nýju peninga í hendurnar.
Svona lagað er samt fljótt að jafna sig, gefið að fiktið við peningamagn í umferð hættir. Í tilviki Miðgarðs í sögu J.R.R. Tolkien má ætla að sú aðgerð að koma auðævum Smeygins í umferð sé bara möguleg einu sinni. Verðlag tekur kipp, sérstaklega í kringum fjallið sem hann bjó í. Markaðurinn mun hins vegar jafna sig, gefið að fleiri drekaauðævi sé ekki að finna eða að langur tími líði á milli þess sem þau eru opnuð fyrir neyslu.
Boðskapurinn er þessi: Hvaða magn peninga sem er í umferð í dag er nægjanlegt til að öll viðskipti geti átt sér stað. Breyting á því magni leiðir til aðlögunar á verði og tilflutnings á verðmætum. Þegar sú aðlögun er yfirstaðin er hið nýja peningamagn í umferð einnig nægjanlegt til að öll viðskipti geti átt sér stað.
Seðlabankar eru sífellt og endalaust að fikta við peningamagnið í umferð. Þess vegna eru þeir slæmir. Drekinn Smeyginn er slæmur, og auðævi hans munu valda miklu uppnámi á mörkuðum, en bara í eitt skipti. Hann er því minna slæmur en seðlabankar heimsins fyrir frjáls samskipti og viðskipti.
Smeyginsgull leiðir til óðaverðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef við skoðum söguna, þá söfnuðu dvergarnir gullinu og eyddu því ekki áður en Smeyginn kom. Þeir lofa vatanfólkinu einhverju og eflaust fer eitthvað í að borga stríðið. Líklegt er að þeir sitji svo á restinni. Er þetta þá ekki bara tímabundið innskot í kjölfar stríðs, líkt og gerðist í lok seinni heimstyrjaldar?
Steinarr Kr. , 10.1.2014 kl. 21:35
Það er rétt. Sennilega færi ekki mikið af gullinu í umferð. En þótt það færi allt í einu í umferð þá yrði það bara í eitt skipti og svo búið. Færi það út í jöfnu streymi yrði það að jafnri en fyrirsjáanlegri verðbólgu. Færi það út í óreglulegum "skotum" yrði það að tíðum verðbólguskotum, en um leið tímabundnum á meðan gullið tæmdist.
En allt væri betra en núverandi óendanlega peningaprentun sem engan endi tekur og enginn getur séð fyrir, nema vera í innsta hring bjúrókrata.
Geir Ágústsson, 12.1.2014 kl. 19:15
@2:
Jú, þessi peningaprentun tekur enda. Bjúrkratarnir vita ekki hvenær frekar en nokkur annar en gamanið tekur enda bráðum.
Helgi (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 16:21
Það er að vísu og að sjálfsögðu alveg rétt. Það kemur að þeim tímapunkti að almenningur missir trúna. Þá er spilið búið.
Geir Ágústsson, 22.1.2014 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.