Stjórnmál hlýðninnar

Hvernig stendur á því að mikill meirihluti tiltekins ríkis sættir sig við kúgun fárra sem verma valdastólana? Hvernig getur konungur komist upp með að stjórna þúsundum og jafnvel milljónum einstaklinga eins og harðstjóri? Hvernig stendur á því að lítil valdaelíta getur mokað rjómann af brauðstriti margfalt fleiri þegna?

Þessum spurningum reynir höfundur bókarinnar The Politics of Obedience: The Discourse of Voluntary Servitude, Etienne de la Boetie, að svara. Bókin, eða ritgerðin (80 bls. frá kápu til kápu), var skrifuð fyrir nálægt 500 árum síðan en á ennþá mjög vel við (jafnvel meira en nokkurn tímann), og er aðgengileg á hvaða formi sem hver kýs (prent, PDF, rafbók).

Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að margt stuðli að því að fáir geti stjórnað mörgum, og jafnvel með harðræði:

 

  • Konungurinn og valdaklíka hans stuðla að því að ákveðinn leyndardómur umleiki þá sem stjórna, þannig að almenningur líti á þá sem stjórna sem einhvers konar öðruvísi manneskjur en sauðsvartan almúgann. Um þá sem stjórna gilda aðrar reglur og önnur siðferðislögmál. Ríkisvaldið er eining sem er allt í senn nauðsynleg og ósnertanleg.
  • Valdaklíkan sér til þess að undir sér sé enn stærri hópur sem þrífst á því sem ríkisvaldið nær að draga til sín af verðmætum. Undir þeim hóp er svo enn stærri hópur sem þakkar lífsviðurværi sínu að eiga hópinn fyrir ofan að. Svona sé sem flestum talið í trú um að allt hið góða komi að ofan, þegar raunin er auðvitað sú að verðmætin eru sköpuð af almenningi og síðan dregin til hins opinbera.
  • Almenningur lifir í núinu. Í núinu er honum stjórnað, og verðmætin hirt af honum í núinu, og þannig hefur það verið lengi, og þess vegna er erfitt að ímynda sér að eitthvað annað gæti tekið við en arðrán ríkisvaldsins.

 

Höfundur leggur til mjög friðsama leið til að koma þrúgandi stjórnvöldum frá: Að hætta að hlýða. Þannig hættir almenningur að vökva hið opinbera, eins og jarðvegur sem hættir að gefa af sér steinefni og vatn til róta plöntunnar. Ríkisvaldið getur ekki þrifist öðruvísi en að meirihlutinn beygi sig undir kúgun minnihlutans.

Við það má bæta því við hér að í lýðræði er það ekki þannig að "við ráðum okkur sjálf". Þeir sem ráða, þeir ráða. Hinir - ekki. 

Í annarri bók, sem ég las einnig nýlega, er fjallað um það hvernig ríkisvaldið klippir í sífellu í burtu hluta af frelsi okkar, og gerir það í svo litlum bitum að við tökum ekki einu sinni eftir því. Þetta er bókin It's a Jetsons World: Private Miracles and Public Crimes, eftir Jeffrey A. Tucker.  Í sumum köflum bókarinnar bendir höfundur á að margt af því sem mátti fyrir bara 5 eða 10 árum síðan er bannað í dag, en enginn tekur eftir því. Góð og ódýr hreinsiefni eru orðin léleg og við kennum uppþvottavélinni eða þvottavélinni um, en raunveruleg ástæða er sú að eitthvert virka efnið var sett á bannlista (t.d. því það má nota til að framleiða eiturlyf eða hvað það nú er) án þess að nokkur hafi hátt um það (af ýmsum ástæðum sem höfundur nefnir einnig). 

Og hvað gerir almenningur við þessum litlu skrefum sem hafa beinlínis það markmið að senda okkur aftur í hellana þar sem við getum ræktað okkar eigin mat, handþvegið úr vatni og dáið fyrir fertugt? 

Ekkert.

Við tökum ekki einu sinni eftir því að það sem mátti fyrir 10 árum má ekki í dag, án þess að nokkur haldbær rök hafi verið færð fyrir átroðningum á athafnafrelsi okkar og frelsi til að eiga friðsöm og ofbeldislaus viðskipti og samskipti við aðra.

Við ættum öll að hugleiða stjórnmál hlýðninnar meira.  Við erum þrátt fyrir allt ekki bara rollur sem hlaupa í áttina að næsta gati á girðingunni, sem fer sífellt minnkandi. Við eigum að gera meiri kröfur til okkar sjálfra en það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband