Kannski gott, en kannski ekki

"Jöfnuður" er oft nefndur sem sérstakt markmið og baráttumál. Sagt er: Eftir því sem allir eru með jafnari laun eða jafnari ráðstöfunartekjur, því betra. "Jöfnuður" á að hafa ýmsa kosti í för með sér: Minni öfundsýki, betra samfélag einstaklinga, samfélag einstaklinga á jafnréttisgrundvelli og jafnari dreifingu "byrðanna" sem hvert og eitt samfélag þarf að bera. 

Jöfnuður er samt ekki góður í sjálfu sér. Hann er slæmur ef honum er komið á með valdbeitingu. Andstæða jöfnuðar, sem komið er á með valdbeitingu, er ekki ójöfnuður (valdbeiting hins sterka á hinum veika) heldur tækifæri. En núna flækist myndin örlítið.

Tökum tvö dæmi um samfélag sem "mælast" jöfn í jöfnuði: Í Klíkulandi hefur jöfnuði verið komið á með notkun skattkerfisins. Þeir sem þéna vel fá háan reikning frá skattinum, og afraksturinn er notaður til að hækka ráðstöfunarfé þeirra tekjulægri. Þeir sem á annað borð komast upp í hátekjuflokkinn fá jafnóðum reikning sem færir tekjurnar í miðflokk og tekjur tekjulægri upp í hann. Hvatinn til að leggja hart að sér, stofna fyrirtæki og vinna allar nætur til að koma því á koppinn, vinna yfirvinnu, berjast við að hækka sig í tign í vinnunni og þess háttar gufar upp. Erfið langtímamenntun í verðmætaskapandi þjálfun verður ekki lengur góð fjárfesting, enda mætti nota námsárin í eitthvað annað, t.d. vinna vinnu sem krefst minni þjálfunar. Jöfnuður í Klíkulandi er slæmur, og hefur slæmar langtímaafleiðingar fyrir alla (bæði þá tekjulágu og tekjuháu).

Í öðru landi, Tækifærislandi, eru skattar lágir og opinberar fyrirstöður fáar og lágar. Þeir sem þéna vel fá að halda sama hlutfalli tekna sinna og áður, en ráðstöfunartekjurnar hækka. Þeir sem þéna illa geta gert ýmislegt til að auka verðmætasköpun sína og hækka í launum. Í slíku umhverfi er oft að finna stóran hóp ungs fólks (t.d. námsfólks) með lélegar tekjur, en sömu einstaklingar munu að öllu jöfnu hafa fært sig hratt upp í hærri tekjuflokka nokkrum árum seinna, þegar krefjandi þjálfun er yfirstaðin og starfsreynsla rúllar inn. Í slíku umhverfi mælist ekki endilega mikill jöfnuður, og það er ekki slæmt út af fyrir sig, en kannski er hreyfanleiki einstaklinga upp á við í hærri tekjuflokka svo hraður að jöfnuður mælist þrátt fyrir allt mikill. Það er þá góður jöfnuður.

En eitthvað þurfa menn nú að dunda sér við að mæla og setja upp í línurit án þess að ræða raunveruleikann eða forsendur og þannig er það. 


mbl.is Jöfnuður óvíða meiri en á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Galdurinn er að blanda þessum tveimur sviðsmyndum saman. Það hefur mönnum tekist einna best með á Norðurlöndum, sem koma í fjölda kannanna og mlæinga út sem þau samfélög heims þar sem lífsgæði og almenn velsæld mælast hæst.

Einar Karl, 5.11.2013 kl. 13:02

2 Smámynd: Ingi Þór Jónsson

það hefur bara sínt sig að það þarf að vera regluverk sem beinir áttinni í átt jöfnuðar.

Fólk sem hefur fengið sjálft að hafa áhrif á sína afkomu hefur flest ef ekki allt farið með það í bull(endilega bendi á einhverja starfsgrein þar sem þeir hafa haldir þessu í góðu jafnvægi).

Ingi Þór Jónsson, 5.11.2013 kl. 14:02

3 identicon

Sæll.

Einhvers staðar í athugasemd á bloggi var ég að velta því fyrir mér af hverju jöfnuður ætti að vera markmið? Af hverju er jöfnuður góður? Getur ekki verið að jöfnuður sé bara skýjaborg sé haft í huga hvers ólíkir einstaklingar eru? Til að ná jöfnuði þyrftu allir að vera jafnir (eins) og það verður auðvitað aldrei. Jafnaðarstefnan hefur aldrei verið rökstudd í mín eyru og er auðvitað ekkert annað en falleg orð. Jafnaðarstefnan er dæmd til að mistakast vegna þess að náttúran sér til þess að við erum ekki jöfn. Í einstaklingsmun eru auðvitað fólginn lykillinn að því hvað mannheimar hafa upp á margt að bjóða.

@Einar Karl: Þú talar um að blanda þessu saman. Hvernig og í hvaða hlutföllum? Hvað er það sem gefur hinu opinbera rétt til að taka af einum og láta annan fá? Hugleiðum eftirfarandi: Ég ríf 10 þús kall af Geir (án hans samþykkis) og læt t.d. bændur fá eða mæðrastyrksnefnd. Svo kemur t.d. ríkið og rífur 10 þús kall af Geir (án hans samþykkis) og lætur t.d. bændur fá eða mæðrastyrksnefnd.

Hvaða munur, ef einhver, er á mínum gjörðum og gjörðum ríkisins?

@IÞJ: Af hverju segir þú að fólk sem hefur sjálft fengið að hafa áhrif á sína afkomu hafi farið með það í bull? Bull miðað við hvað? Veist þú þá betur en þetta fólk í hvað það á að nota sína fjármuni? Ef svo er, veit ég þá ekki betur en þú hvað þú átt að nota þína peninga í eða öfugt?  Af hverju er fólk sífellt að skipta sér að öðrum?

Helgi (IP-tala skráð) 6.11.2013 kl. 06:21

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég mæli með þessari litlu bók:

http://www.forlagid.is/?p=596522

Af heimasíðu útgefanda:

"Ábyrgðarkver fjallar um hvernig persónuleg ábyrgð var aftengd á árunum fyrir hrun með bæði raunverulegri og ætlaðri ríkisábyrgð á bönkum. Þannig gátu bankar farið með peninga annarra að eigin vild án eðlilegs aðhalds eigendanna.

Höfundur dregur svo þann lærdóm af bankahruninu að persónuleg ábyrgð eigi að vera sem mest á öllum sviðum og skapi jafnvægi. Boðskapurinn á því ekki aðeins við um fjármál eða stjórnmál, heldur einnig einkalíf og önnur mál. Þannig kann boðskapurinn að gagnast lesendum í persónulegu lífi þeirra."

Geir Ágústsson, 6.11.2013 kl. 07:16

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Styrkur Norðurlanda hefur verið vald fyrirtækja til að reka og ráða eftir þörfum. Í Danmörku kaupa launþegar atvinnuleysistryggingar á eigin reikning á blómlegum markaði slíkra trygginga (hvers andvirði má draga frá skattstofni), ella eiga á hættu að lenda á mjög lítilli opinberri framfærslu (til að eiga rétt á henni þarf svo að sanna að maður eigi engan sparnað og engar eignir). Það veitir starfsfólki svolítið aðhald, sérstaklega þeim sem freistast hvað mest til að leggjast á spenann (margir eru á þeim spena, en yrðu enn fleiri ef atvinnuleysistryggingar væru líka fjármagnaðar með skattfé).

Þetta er "norræna módelið" sem ég þekki til. Á Íslandi getur maður lagst á atvinnuleysisbætur án nokkurs beins framlags til atvinnuleysistrygginga (þær eru fjármagnaðar með veltuskatti á fyrirtæki). Eru Íslendingar sósíalískari en sósíaldemókratarnir á Norðurlöndum? Kaþólskari en páfinn? Það liggur við.

Í Svíþjóð og Danmörku hafa menn lækkað skatta á laun eftir hrunið. Opinberar skuldir eru ræddar og fordæmdar í opinberri umræðu og stjórnmálamenn þurfa sífellt að sannfæra almenning og atvinnulífið um að þær séu tímabundnar. Hallarekstur á ríkissjóði er litinn hornauga. Allt þetta kunna Norðurlandabúar. Þeir gera líka kröfu um að himinháir skattarnir nýtist, t.d. til að geta heimsótt lækna án komugjalda og gíróseðla. Á Íslandi eru bæði háir skattar og há gjöld fyrir allskonar opinbera þjónustu. Eru Íslendingar svona veikir í hnjánum gagnvart hinu opinbera?

Ég gæti haldið endalaust áfram en punkturinn er þessi: Norðurlöndin eru hlutfallslega rík miðað við flest önnur ríki, ekki vegna skattanna, heldur þrátt fyrir þá, og með því að hafa almenning sem er sífellt á varðbergi gangvart hinu opinbera.

Geir Ágústsson, 6.11.2013 kl. 07:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband