Þriðjudagur, 25. júní 2013
Kínverjar að sjá fram á hið óumflýjanlega?
Góðar fréttir koma nú frá Kína. Þar á að hægja á peningaprentvélunum og leyfa vöxtum að hækka. Það er gott. Þá hætta fjárfestingar að vera knúnar af ódýru og nýprentuðu fé. Sparnaður eykst. Fjárfestingar geta þá sótt í þann sjóð. Þannig flyst fé frá neyslu í sparnað og fjárfestingar, og vextir fara á ný að endurspegla framboð og eftirspurn eftir lánsfé. Þetta er gott.
Á meðan þessu ástandi er komið á er lítil "kreppa" nauðsynleg og óumflýjanleg til að skola í burtu öllum þeim fjárfestingum sem þola ekki hærri vexti. Þetta hefur í för með sér einhverja gjaldþrotahrinu. Gjaldmiðillinn á einnig eftir að styrkjast, valda einhverri verðhjöðnun og senda þá sem tóku mikil lán á hausinn, því tekjur þeirra lækka á meðan skuldirnar standa í stað. Almenningur mun njóta vaxandi kaupmáttar gjaldmiðils síns í stað þess að vinna baki brotnu til að senda Vesturlöndum hluti og fá til baka pappírsmiða sem kallast dollarar og evrur og er hvorki hægt að borða né klæðast.
Nú er auðvitað ekkert víst að Kínverjar ætli sér að taka tiltektina á hagkerfi sínu alla leið. Kannski verða þeir hræddir við hræðsluáróður þeirra sem vilja að Kínverjar eyði lánsfé í glórulausar fjárfestingar og pumpi nýprentuðu fé áfram í þaninn húsnæðismarkað sinn. Kínverjar ætla nú samt ekki að fara grísku eða spænsku eða írsku leiðina sýnist mér. Til lengri tíma litið er það gott fyrir alla sem fá næringu úr hinu kínverska hagkerfi.
Tími ódýrs fjármagns í Kína er liðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Svo er spurningin hvort Kaninn fer að gera eitthvað svipað? Þeir eru búnir að koma sér í hrikalegan vanda.
Kaninn er auðvitað gjaldþrota en skuldbindingar þeirra vegna Medicare, medicaid og social security eru metnar á 125 trilljónir dollara af tryggingastærðfræðingum þessara sjóða. Ekki vildi ég vera eldri borgari í USA núna :-(
Skuldbindingar íslenska ríkisins vegna lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna eru um 400 milljarðar næstu 20 árin eða svo. Opinberar skuldir íslenska ríkisins eru rúmir 700 milljarðar króna. Þá er ótaldar skuldir SÍ.
Svo má ekkert virkja og ekkert gera vegna vinstri manna og umhverfisverndarsinna. Þeir segja okkur ekki hvernig á að borga þessa skuldasúpu. Eiga allir að yrkja ljóð, skrifa bækur og tína hundasúrur? Held að Andri Snær og fleiri vilji það, eða hvað?
Helgi (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 07:14
Sammála þessari grein, hvað er í raun nauðsynlegt, en hvernig það gerist svo er annað mál. Sparnaður er kannski úreltur eða ekki til, heldur er offramboð peninga heimsins sífellt í leit að skammtímaávöxtun. Bjara gjaldeyrisverslun hvers dags er um 4 trilljónir (US) dollara. Hver vaxtahækkun áhrifamikils ríkis „styrkir“ gjaldeyri þess ríkis tímabundið, að hætti Íslands forðum. Þetta gerist enn helst með afleiðum, sem tvöfölduðust þegar heimurinn þóttist ætla að gera útaf við þær,enda er það ekki hægt.
Þegar skrúfað er fyrir endalaust peningaútstreymi á einum stað kreppir að fólkinu vegna þess að vöxturinn stöðvast, en þá hækka vextir og skammtímafé kemur inn í bankann að utan. Það fer ekki út í hagkerfið, heldur býr til hávaxtastöðnun, sem er hrikaleg.
Þetta heróín, platpeningar, er búið að gegnsýra svo peningakerfi heimsins að eina ráðið er að halda vitleysunni áfram! En þó er hægt hér að virkja og gera eitt og annað af viti, bara ekki treysta á meira gerfifé að utan til vaxtar. Maður vill frekar FIAT en Fiat- peninga...
Ívar Pálsson, 25.6.2013 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.