Líkönin eru vandamálið

Markmiðið er að bæta hefðbundin líkön hagfræðinnar sem margir telja ekki nógu góð til að hjálpa til í glímunni við fjármálakreppur. 

Þegar ég les svona texta er mér skapi næst að vísa í margra áratuga gamlar tilvitnanir í menn (hagfræðinga og aðra) sem sáu fyrir þróun hagfræðinnar úr yfirvegaðri rökhugsun í átt að líkanagerð og stærðfræðileikfimi.  

Hvað er það nákvæmlega sem er að meintum líkönum? Þurfa þau að taka inn fleiri breytur? Þarf að þróa í þau gervigreind af einhverju tagi? Þarf að eiga við forsendurnar? Eru stærðfræðilýsingarnar af hegðun og atferli fjárfesta rangar?

Heimurinn hefur breyst hratt undanfarna áratugi. Núna eru allir gjaldmiðlar heims undir stjórn seðlabanka sem prenta peninga eins og óðir og hafa gert lengi. Til að reyna temja hina nýju peninga eru settar á reglur í pappírstonnatali.  Seðlabankar vilja prenta til að fresta timburmönnum fyrri peningaprentunar svo stjórnmálamenn geti náð endurkjöri og geti endurkjörið yfirmenn seðlabankanna. Vítahringurinn er á fljúgandi ferð og versnar með hverjum deginum. Í stað þess að greina gerendur og þolendur í þessu hræðilega kerfi eru smíðuð líkön. Þau eiga að aðstoða stjórnmálamenn og aðra spekinga í afskiptasemi þeirra af hagkerfinu og fiktinu með peningana. Líkönin eru skálaskjól þeirra sem lifa á því að rústa kerfinu. 

Líkanagerð komst í tísku hjá hagfræðingum snemma á 20. öld og hefur aldrei gefist vel. Líkanaliðið hefur ekki séð neitt fyrir sem máli skiptir. Líkönin eru vandamálið.  


mbl.is „Erfitt að gera líkan af áhættu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Fín hugleiðing.

Vandamálið er að það hefur ekki mikið upp á sig að kenna hagfræðingum alla þá stærðfræði sem þeim er kennd vegna þess að hagfræði er mannvísindagrein og hingað til hefur okkur gengið fremur brösuglega að reikna út mannlega hegðun.

Kannski eru hagfræðingar að reyna að gera sína grein bara fyrir "hagfræðinga" með því að þvæla stærðfræði inn í sína grein í jafn ríku mæli og gert er.

Vera kann að þessi líkön séu eins konar skálkaskjól, ef menn geta smíðað líkön sem virðast sennileg geta þeir falið sig á bakið við sín mistök með því að benda á líkönin. Það er þægilegt vegna þess að þá þarf ekki að endurskoða grunnforsendurnar, bara fikta í nokkrum breytum.

Helgi (IP-tala skráð) 24.6.2013 kl. 12:50

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Tek undir allt sem þú segir. Sumir hafa kallað þessa líkanaáráttu hagfræðinganna "eðlisfræði-öfund" sem fæddist í kjölfar stórra uppgötvana eðlisfræðinga á sínum tíma. Hagfræði var þannig dulbúin sem náttúruvísindagrein og átti þannig að öðlast meiri virðingu. Kannski eru tímarnir að breytast núna eftir að fleiri og fleiri eru byrjaðir að sjá að rökhugsun er mun öflugra vopn til að greina samfélagið en stærðfræðilíkön?

Geir Ágústsson, 24.6.2013 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband