Mánudagur, 11. mars 2013
Ríkiseinokun er ósk margra
Lögbundin ríkiseinokun er af mörgum talin besta rekstrarformið. Að eitthvað sé fullkomlega varið fyrir samkeppni er af mörgum talið vera æskilegt ástand. Að stjórnmálamenn megi einir taka afstöðu til hinna ýmsu nýjunga og tilrauna er draumaaðstaða margra. Að enginn greiði beint fyrir notkun eða þjónustu, heldur óbeint í gegnum skattkerfi og ríkistryggingar, er af mörgum talið vera hið besta kerfi af öllum mögulegum.
Nú þarf ekki að lesa margar og þykkar bækur í hagfræði til að sjá að lögbundin ríkiseinokun er óhagkvæm. Það má sjá nánast með tilfinninguna eina að vopni.
Nú þarf heldur ekki að lesa margar og þykkar sögubækur til að sjá afleiðingar lögbundinnar ríkiseinokunar, t.d. fyrir fátæka og þá sem lenda undir í lífsins ólgusjó. Afleiðingarnar eru iðulega skammtanir, biðlistar og "flokkanir" á sjúklingum í þá sem á að bjarga og þá sem eiga að deyja. Hagfræðin segir okkur að gríðarleg sóun muni eiga sér stað í umhverfi lögbundinnar ríkiseinokunar, og stjórnmálamenn eiga engra kosta völ en að skammta sífellt minnkandi þjónustuna til færri og færri.
Á ríkið að selja kokkteilsósu og kex? Nei. Nóg er samt til af báðu, í öllum verðflokkum, hvar sem er.
Á ríkið að sjá um innflutning, sölu og viðgerðir á bílum? Nei. Nóg er samt til af bílum af öllum stærðum og gerðum og í öllum verðflokkum.
Á ríkið að skylda alla til að sækja alla sína heilbrigðisþjónustu til sprenglærðra lækna sem þurfa milljónir í laun til þess eins að geta greitt af námslánum sínum? Nei. Þannig er það nú samt. Það er talið réttlætismál að ríkisvaldið traðki á frjálsu framtaki í heilbrigðisþjónustu. Greyið fórnarlömb þess fyrirkomulags: Við öll.
Einkavæðingardans Bjartrar framtíðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Fréttablaðinu í dag er sagt að borgin ætli að leigja ríkinu Perluna fyrir 80 milljónir á ári.Það sé forsendur sölu Perlunar nú?
"Besti flokkurinn" og ríkisstjórnin vinna saman. Ekki er leitað tilboða í leiguhúsnæðið fyrir náttúruminjasafn, enda þótt það sé skylt samkvæmt lögum með slíkar upphæðir. Kaupverð Perlunar er furulegt, í ljósi þess að skattgreiðendur í Reykjavík voru látnir greiða margfalt hærra verð. Enginn stjórmálamaður þarf að svara eða axla ábyrgð.
Sigurður Antonsson, 12.3.2013 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.