Miðvikudagur, 6. febrúar 2013
Óáreiðanlegur varnagli
"Varnagli" í formi "neitunarvalds" forseta Íslands er óáreiðanlegur. Ef forsetinn ákveður að "virða ákvörðun Alþingis" í hvívetna er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn lætur sannfærast um ágæti vonds málstaðar meirihluta Alþingis er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn er erlendis og staðgengill hans ólmur í að skrifa undir er varnaglinn brotinn. Ef forsetinn telur að embætti forseta eigi bara að vera til skrauts er varnaglinn brotinn.
Á hinn bóginn getur varnaglinn líka orðið að bremsu eða stíflu. Ef forsetinn er ólmur í að fá athygli getur varnaglinn orðið að stíflu. Ef forsetinn er eindreginn stuðningsmaður stjórnarandstöðunnar og hafnar öllu sem henni er ekki þóknanleg er varnaglinn orðinn að stíflu. Ef forsetinn talar fyrir "beinu lýðræði" og "milliliðalausri ákvörðunartöku" og sendir öll stór mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er varnaglinn orðinn að stíflu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ágætar en þær eru of dýrar og þunglamalegar í færibandalagasmíði nútímans.
Góður varnagli á ríkisvald í útþenslu er vandfundinn. Einn gæti samt verið viðhorf almennings. Ef almenningur hættir að umbera sívaxandi ríkisvald, byrjar að efast um ágæti núverandi ríkisvalds, og fer jafnvel að hallast að stórkostlega minnkandi ríkisvaldi, þá er hætt við að þrýstingur á stjórnmálamenn til að taka til í ríkisrekstrinum (þrífa, henda og skera niður) aukist.
Besti varnaglinn er fólginn í sterku og háværu aðhaldi almennings. Almenningur á að krefjast þess að stjórnmálamenn sjúgi loftið úr ríkisvaldinu. Almenningur á að hætta að líta á ríkisvaldið sem stóra fóstru sem elur upp fullorðið fólk. Almenningur á að hrifsa til sín það vald sem ríkisvaldið hefur tekið til sín með valdi. Til dæmis valdið til að borða sykrað og litarefnaríkt Cocoa Puffs eða sprauta sig með heróini ef þannig liggur á einhverjum.
Þetta er besti varnaglinn. Um leið er hann líka sá versti, því almenningur lætur glepjast. Þannig er það bara. Vonandi er tilhneigingin að gleypa við áróðri ríkisvaldsins samt á undanhaldi.
![]() |
SUS vill halda í forsetann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eins er sagan um varadekkið, það verður að halda ákveðnum þrýstingi í því og varast að það sé ekki loftlaust en fyrst og fremst hugsa hvaða tilgangi það þjónar.
Bullumsull (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 14:36
Vel mælt.
Í Þýskalandi er heilt dómstig sem sér um það að halda aftur af löggjafanum af hann brýtur á stjórnarskránni. Er það gott kerfi?
http://en.wikipedia.org/wiki/Basic_Law_for_the_Federal_Republic_of_Germany#Federal_Constitutional_Court
Því það er nú þannig að sumir hafa hreinlega efast um lögmæti þess að t.d. ábyrgjast skuldbindingar á við Icesave.
Geir Ágústsson, 6.2.2013 kl. 14:42
Sæll.
Dómstólar eru oft að skipta sér að málum sem þeim koma ekki við og yfirleitt arfalélegir. Það er eitthvað mikið að lögfræðinámi hérlendis.
Frá 1937-1995 voru ekki ein einustu alríkislög í USA dæmd af hæstarétti landsins vera í trássi við stjórnarskrá þess lands. Segir þetta ekki ansi mikið?
Hve mörg lög hérlendis standast ekki stjórnarskrá okkar lands?
Hvernig stendur á því þeir sem eru frá Evrópu mega koma hingað og vinna en ef menn eru annars staðar frá, t.d. USA eða Kanada, er nánast útilokað fyrir þess lenda að setjast hér að? Er hér ekki verið að mismuna eftir uppruna og litarhætti? Kannski þurfa menn að vera lögfræðimenntaðir til að réttlæta svona dellu?
Með forsetann, einhver varnagli er betri en enginn - hversu gallaður sem hann er.
Helgi (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 14:52
Stjórnarskrá íslendinga er ekki alþjóðleg, hún kveður aðeins um mismunun þegna landsins.
Samþykkt á EES samningnum var hins vegar skýrt brot á stjórnarskránni.
Bullumsull (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 15:13
Sæll Geir.
Tók mig tíma til að kynna mér Germany´s federal constitutional court.
Ekkert ákvæði er í stjórnarskrá þjóðverja um þjóðaratkvæðagreiðslur eða beint lýðræði nema þá helst ef um er að ræða stjórnarskrábreytingar.
Þjóðverjar eiga sitt Icesave, nýlega gaf rétturinn græna ljósið á þátttöku þjóðverja í ESM (European Stability Mechanism.) að upphæð 190 billjóna evra.
Niðurstaðan leiddi til umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Ef þjóðaratkvæðagreiðslur eru kostnaðarsamar hvað kostar þá að halda út Stjórnarskrárétti?
Samkvæmt drögum að nýrri stjórnaskrá íslenska lýðveldisins þá sýnist mér að þingmenn geti sett mál lík ESM og icesave á fjárlög, en fjárlög eru undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt drögum að nýrri stjórnarskrá.
Já, það er margt að varast.
Bullumsull (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 01:03
Helgi, góð ábending með Bandaríkin. Stjórnarskráin þar var viljandi skrifuð stutt og skýr en samt er búið að gata hana eins og svissneskan ost. Núna sleppur þar hvað sem er í gegn.
Bullumsull, ég þakka þessar athugasemdir. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að ekkert kemur í stað aðhalds almennings. Án þess er hægt að orða hvað sem er þannig að stjórnmálamenn fái sínu framgengt, sama hvað einhver stjórnarskrá segir eða segir ekki.
Geir Ágústsson, 7.2.2013 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.