Vont hefur versnað

Á það er alltof sjaldan bent, en núverandi stjórnvöld bera ábyrgð á núverandi stjórn Íslands.

Nei, ekki þarseinasta eða þarþarseinasta ríkisstjórn heldur sú ríkisstjórn sem núna situr.

Til hvers að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa og gera svo ekki annað en benda hálfan áratug aftur í tímann til að finna blóraböggla fyrir eigin getuleysi?

Skuldasöfnun ríkisstjórnarinnar er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Skuldir frá þarseinustu og þarþarseinustu ríkisstjórn eru á ábyrgð þarseinustu og þarþarseinustu ríkisstjórnar.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bera ábyrgð á því að hafa haldið ríkisbólunni í vexti, t.d. í gegnum Íbúðarlánasjóð, á misserunum upp undir hrun. Hrunið varð því meira áfall en það hefði geta orðið. 

Fjármálakerfið hrundi, en vinnuvélar, verksmiðjur, tölvur, hæfileikar og menntun stóðu eftir sem áður í fullkomnu ásigkomulagi. Úthreinsun á vondum samningum og skuldum er hægur leikur ef stjórnvöld standa ekki í veginum.  

Samfylkingin og Vinstri-græn bera ábyrgð á skuldaklafanum sem hefur verið hengdur um háls íslenskra skattgreiðenda í stjórnartíð Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna. Stöðnun í fjárfestingu og mikið atvinnuleysi er sömuleiðis á ábyrgð þessara flokka.

Hagkerfið er bara 2-3 misseri að útrýma atvinnuleysi, koma fjárfestingu af stað og hefja niðurgreiðslu skulda ef ríkisvaldið fjarlægir nógu mikið af böndunum sem það leggur á verslun, viðskipti og samskipti.

Ég vona að stjórnarandstaðan fari nú að vakna. Betra er seint en aldrei! 


mbl.is Skuldir þjóðarbúsins hafa aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Vandinn við vinstri menn er m.a. sá að þeir skilja ekkert í efnahagsmálum. Harding var rétt rúma 18 mánuði að koma málum á réttan kjöl. Við höfum því gott sögulegt dæmi um hvernig snúa eigi niður svona kreppu. Obama verður sennilega minnst sem forsetans sem setti USA á hausinn.

Ég er nokkuð viss um að eftir ca. 2-4 ár munum við sjá nokkur ríki fara á hausinn, jafnvel fyrr. Fjármálamarkaðir virðast ekki enn átta sig á vandanum en þegar það gerist munu fjárfestar kippa hratt að sér höndunum, lánamarkaðir lokast og ríki ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Þetta gerðist þegar Lehmann bros bankinn fór á hausinn, þá lokaðist millibankamarkaður hratt og íslensku bankarnir urðu meðal fórnarlambanna. Kreppan 2008 verður smá í sniðum borið saman við þá sem í vændum er. Það er hægt að leysa núverandi kreppu á 2-3 misserum eins og þú segir réttilega en nú rúmum 4 árum eftir upphaf kreppu hér er vandinn óleystur og sennilega bara verri en þá!!

Innan ESB er ástandið slæmt, flest ríki þar mjög skuldsett og verðmætasköpun mun minni en verið gæti. Hagvöxtur nánast enginn. Atvinnuleysi innan ESB er 11%, var 10% fyrir rétt rúmu ári. Mikill mannauður liggur ónýttur. Fólk innan ESB eignast helst ekki börn enda framtíðin svört og enga vinnu fyrir flest ungt fólk að fá.

Ísland er gjaldþrota, vandinn er bara að alltof margir skilja það ekki. Ég heyri afskaplega fáa ræða hrikalegar lífeyrisskuldbindingar ríkisins!! Tryggvi Herberts benti á vandann í sambandi við gjaldeyri nýlega og mikinn kostnað af þessum gjaldeyrisforða sem snillarnir hjá IMF sögðu okkur að fá lánaðan. Þá á eftir að bæta lífeyrisskuldbindingum við og hver segir að einstaklingar sem nú eru t.d. í framaldsskóla vilji borga fyrir vitleysu annarra?

Helgi (IP-tala skráð) 20.11.2012 kl. 11:24

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Mikið rétt, gjaldþrotahrinurnar eru ekki einu sinni byrjaðar! Að þessu sinni verða þær ekki hjá bönkum heldur ríkissjóðum. AGS og Þjóðverjar og jafnvel Kínverjar munu ekki geta bjargað öllum heiminum. Það er útilokað.

Þetta er svo sérstakt með hið opinbera (og þess vegna mikilvægt að minnka það til að lágmarka skaðann af því). Skatttekjur dragast saman en útgjöldin eru nánast óbreytt. Á mínum vinnustað var farið í 15% flatan niðurskurð í öllum deildum í kjölfar kreppunnar til að lækka rekstrarkostnaðinn. Þetta var erfiður tími og margir, t.d. ég, fundu hreinlega fyrir auknu álagi því við vorum færri til að sinna verkefnunum. En það tókst að halda fyrirtækinu réttu megin við strikið og við njótum þess í dag. Margir starfsmenn komnir aftur og skuldir fyrirtækisins litlar.

Hjá hinu opinbera má ekki reka neinn. Þegar tveimur opinberum stofnunum er slegið saman í eina fylgir iðulega sögunni að "enginn" muni missa vinnuna.

Bráðum verður vandinn í ríkisrekstrinum orðinn eins og sá sem við sjáum hjá flugfélaginu SAS: Öllum samningum sagt upp á einu bretti, og ný kjör send út, og ef þau verða ekki samþykkt blasir gjaldþrotið við.

Geir Ágústsson, 22.11.2012 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband