Mánudagur, 27. ágúst 2012
Stjórnmálamenn og loforð: Mótsögn
Stjórnmálamenn eru oft krafðir um að "standa við orð sín", t.d. kosningaloforð eða yfirlýsta stefnu í kosningabaráttu. En hvers vegna ættu þeir að gera það? Þeir eru með "samning" til fjögurra ára um að fá að sitja á Alþingi og þiggja fyrir það laun. Þetta er meira starfsöryggi til lengri tíma en flestir geta látið sig dreyma um. Starfsmenn fyrirtækja geta alltaf átt von á því að verða sagt upp með að jafnaði 3ja mánaða fresti. Það er "venjulegt" starfsöryggi. Um það gilda önnur lögmál en hjá þeim sem eru með fjögur ár af tryggðum launagreiðslum.
Stjórnmálamenn þurfa í stuttu máli ekki að standa við orð sín. Þeir geta svikið hvert einasta loforð í 3,5 ár og á seinasta augnabliki, rétt fyrir kosningar, rýnt í skoðanakannanir til að athuga hvað sé nú "rétt" að segja og lofa fyrir næstu kosningar. Reynslan sínir að það dugi mörgum til að ná endurkjöri. Sú reynsla er mikið nýtt.
Einkafyrirtæki sem haga sér svona þurrkast út á augabragði. Neytendur geta lýst yfir andúð á fyrirtækjum með því að hætta á einu augabragði að kaupa vörur og þjónustu þess. Tekjur fyrirtækis geta farið niður í núll á svipstundu. Þau verða því að vanda sig og standa við sína samninga, t.d. um ábyrgð af varningi eða umsamið viðhald og þjónustu. Engar slíkar kröfur er hægt að gera til stjórnmálamanna.
Af þessari ástæðu meðal margra annarra er nauðsynlegt að ríkisvaldið sé sem minnst og að stjórnmálamenn hafi sem minnst að gera, hafi sem minnsta ábyrgð og taki sem minnst af verðmætum hagkerfisins og samfélagsins í sína vörslu til endurdreifingar. Því minna sem ríkisvaldið er og hefur til ráðstöfunar, þeim mun minni skaði er af stjórnmálamönnum með fjögurra ára tryggðar launagreiðslur.
Samstaða um að fara yfir stöðuna í Evrópumálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.