Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Hatar þú hommahatarann?
Sumar skoðanir eru einfaldlega ekki leyfðar í opinberri umræðu á Íslandi. Ein er sú að telja samkynhneigð vera synd. Skal engan undra að þeir sem taka meira mark á orðum Biblíunnar en öðrum bókum hafi þá skoðun. Biblían er nokkuð skýr hvað þetta varðar og má t.d. lesa um það hérna.
Aðrar bannaðar skoðanir eru þær að telja neyslu vímuefna vera einkamál hvers og eins, að vændi sé þjónusta eins og nudd og naglalökkun, að börn séu heilaþvegin til hlýðni við ríkisvaldið á skólaskylduárum sínum, að sífellt meiri menntun kennara sé tíma- og peningasóun sem virðist bara leiða til lakari og lakari námsárangurs barna, og svona má lengi telja.
Samkynhneigð er auðvitað eins og gagnkynhneigð að því leyti að hún er einkamál hvers og eins, sem hver og einn má bera á borð annarra eins og viðkomandi hefur áhuga á, en á ekki að koma neinum við ef viðkomandi vill halda hneigð sinni fyrir sjálfan sig.
Að kennari í skóla prediki orð Biblíunnar á einkabloggi sínu er hans mál og viðkomandi gerir sér væntanlega grein fyrir því að það valdi einhverjum taugatitringi. En nema hægt sé að sýna fram á að hann sé verri kennari fyrir vikið þá á það ekki að setja ráðningu hans í uppnám.
Hatar þú hommarahatarann? Gott og vel. Hefur það hatur áhrif á þig í starfi? Kannski. Ef svo er, þá á atvinnuveitandi þinn að hugleiða uppsögn á þér. En annars ekki.
Æfir vegna skrifa um samkynhneigð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er kannski hægt að leiða að því líkum að hann sé verri kennari fyrir þessar skoðanir sínar. Krakkar leggja aðra krakka í einelti fyrir alls konar sakir. Ein þeirra er að einhver krakki þykir annar vera "hommalegur". Er hægt að treysta því að kennari sem telur samkynhneigð vera synd hvers laun eru dauði standi með þeim sem lagður er í einelti af þeirri einu ástæðu að vera hommalegur?
Að þessu leiti er ráðning hans sem kennara komin í uppnám.
Ragnar (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 10:22
Ég þekki Snorra ekki nógu vel til að þekkja skoðanir hans almennilega og get því ekki tjáð mig um þetta einstaka dæmi.
En hitt vil ég segja, að ég er kristinn og umgengst marga kristna. Sumir eru sannfærðir um það að samkynhneigð sé synd, aðrir ekki. Sjálfur hef ég skoðað þetta og sveiflast fram og til baka í þessu. Ég trúi því þó að Biblían sé orð Guðs og treysti því sem hún segir, en samt snýr þetta að ákveðnu túlkunaratriði og þýðingaratriði, sem ég ætla ekki að fara út í nánar. Enn sem komið er er mín niðurstaða samt að ég get ekki sagt við samkynhneigðan mann að þessi lífstíll sé Guði þóknanlegur og ég get ekki heldur sagt við hann að hann sé það ekki, af því ég er ekki 100% sannfærður sjálfur um hvað Guð á við í Ritningunni.
En það er ekki það sem ég ætlaði að tala um.
Ég veit að hjá flestu kristnu fólki er samkynhneigðum vel tekið, hvort sem það trúir því að kynlíf milli fólks af sama kyni sé synd eða ekki. Reyndar kennir Biblían að það eigi að elska allt fólk, líka syndarana, enda erum við öll syndarar.
Að auki verður að benda á það að Biblían segir líka að lygi sé synd, kynlíf fyrir hjónaband, það að maður girnist konu annars manns og margt fleira sem stór hluti Íslendinga gerir.
Ef Snorri Óskarsson bendir á einhver af þessum atriðum, á þá líka að reka hann?
Laun allrar syndar er dauði. Hvort sem fólk er sammála Snorra eða ekki, þá væri glapræði að banna honum að segja frá einhverju sem hann segir af hjartans einlægni. Hann trúir því af hjartans einlægni að þessi lífstíll, eins og aðrir sem Biblían talar gegn, valdi fólki á endanum dauða (sem þýðir reyndar ekki dauða hér á jörðu, heldur "hinn annan dauða", þar sem fólk eignast ekki eilíft líf á himnum).
Til þess að svara Ragnari aðeins:
Biblían segir að allir menn hafi syndgað og skorti Guðs dýrð, því er engin ástæða til þess að halda að Snorri haldi sérstaklega með þeim sem er minna "hommalegur", enda veit hann vel að báðir eru syndarar. Og veit vel að sjálfur er hann líka syndari. Hann er einmitt vel hæfur, ef hann fer eftir Biblíunni, því hún fyrirskipar að hann eigi að elska alla menn og að sá maður sé "mestur" sem gefur líf sitt í að þjóna öðrum.
AF (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 10:52
Athyglisvert allt saman.
Við ætlumst til þess að kennarar séu allt sem við erum ekki, "hinir syndlausu" nánast. Þeir mega ekki hafa neinar skoðanir á börnum, sama hvernig þau haga sér eða hvernig þau koma fram við aðra. Þeim er kennt um slæmu einkunnir barnins. Ábyrgðin á slæmri hegðun barnsins er kennarans. Foreldrar senda börn sín í skóla frá kl. 8 á morgnana til 16 á daginn og ætlast til þess að á þessum 8 tímum sjái skólinn um að ala þau upp, mata, klæða og fóðra.
Þetta er dapurleg þróun að mér finnst.
Hvað með alla kennarana sem eru í laumi rasistar og þola ekkert nema hvíta/bleika húðlitinn, rauðsokkurfemínistar sem ímynda sér að það sé "hræðilegt" að verða foreldri drengs, sósíalistar sem láta stuða sig á hverjum degi yfir því að þurfa versla mat og föt og bensín hjá einkaaðilum, eða þá kennara sem var kennt að haga sér með líkamlegu ofbeldi í gamla daga og dreymir um það allan daginn að fá að taka í lurginn á þessum óþekktarormum?
Allar þessar hugsanir og skoðanir og hneigðir kennara eru þeirra einkamál á meðan þær hafa ekki áhrif á starf þeirra til hins verra (sem vitaskuld er undir hverjum og einum skólastjórnanda að vega og meta).
Geir Ágústsson, 9.2.2012 kl. 11:16
Á jörðinni búa 7 milljarðar manns. Ekki ein einasta manneskja hefur séð sjó verið skipt í sundur, mann ganga á vatni, eða vatni breytt í vín. Gæti hugsanlega verið að Biblían hafi bara einfaldlega rangt fyrir sér hvað varðar samkynhneigð?
Gangið þið eftir vegi einfaldlega vegna þess að einhver setti upp skilti um að þið ættuð að halda áfram?
Samfélagið breytist - bókin staðnar. Er ekki bara kominn tími á að sætta sig við það?
Jón Flón (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 12:41
Ágæt grein að mörgu leiti,
þetta málefni er svo margþætt að það er ekki fyrir heilbrigðan mann að ætla að útkljá það hérna en það er engum blöðum um það að flétta að Snorri er öfgafullur heilaþveginn jesúmaður og öfgar eru sjaldnast af hinu jákvæða hvort sem það er jesú tal eða annað.
Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem Snorri Betel hrellir fólk með öfgabullinu í sér og ef hann hefur ekki þá lámarks skynsemi að átta sig á því hvað veldur honum vandamálum að segja út á við í þjóðfélaginu þá á hann heldur ekki að vera að kenna börnum okkar því maður með öfgaskoðanir hann plantar þessu í börning á unga allskonar öfgabulli sem fylgir börnunum kannski alla æfi.
Setja Snorra bara á vatn og brauð og loka búrinu.
Riddarinn , 9.2.2012 kl. 12:43
Geir. Þér gengur ekki alveg nógu vel að útvíkka málið. Nú vitum við ekki hvað nákvæmlega fór fram á fundi skólanefndarinnar en væri ég meðlimur þá finnst mér aðalatriðið ekki snúast um skoðanir Snorra per se heldur fremur eineltisforvarnir. Með það að sjónarmiði samþykki ég líkindin hjá þér við kennara sem eru laumurasistar, enda getur barn verið lagt í einelti á þeim forsendum. Ég skil hins vegar ekki tenginguna við rauðsokkufemínista eða sósíalista - hvað þá vændi eða vímuefni. Þú verður að átta þig á að hér er um hugarheim barna að ræða.
Að mínu mati, væri ég meðlimur skólanefndarinnar þarna, snýst málið um hvort Snorra væri treystandi til að taka á eineltismálum er snúa að samkynhneigð. Eða hvort einhver annar kennari sem væri að viðra rasískar skoðanir á bloggsíðu væri treystandi til að taka á eineltismálum þar að lútandi.
Ragnar (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 13:19
Auðvitað er það mikið ábyrðgarmál að ráða mannn eins og Snorra til kennslu í grunnskólum.. Það er ekkert nema rugl að setja slíkan mann yfir ung börn með ómótaða huga; Hafið það hugfast að trúboð er það sem Snorri stendur fyrir, er það sem er miðjan í kristni.. og best er að ná til barna.
Nákvæmlega þetta sem Snorri er að gera, blogga og kalla samkynhneigða vera syndara, brenna í víti; Nákvæmlega þetta hefur orsakað sjálfsmorð unglinga í USA.. og það oftar en einu sinni
Allar samlíkingar þínar voru út úr korti...
DoctorE (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 13:51
Það er ekkert blogg einkablogg.Nemendur þessa manns hafa allir möguleika á að lesa bloggið hans sama hve gamlir þeir eru. Ég er með barn í fyrsta bekk og internet kunnátta hans er orðin svo góð að ég er farinn að þurfa að stoppa hann.
Það er í góðu lagi að vera ekki hlyntur samkynhneigð en að benda kurteisislega á að samkynhneigt fólk á skilið dauða, sama hvernig þið kristnir skilgreinið dauða, er óásættanlegt og getur kynt upp hatur hjá ungu fólki. Orð af þessu tagi eru að sjálfsögðu eingöngu gerð til þess að valda hatri.
Tryggvi (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 14:34
Það er auðvitað ekki hægt að koma í veg fyrir að fólk með vafasamar skoðanir verði kennarar.
En þegar manneskja getur ekki haldið öfgafullum skoðunum sínum frá opinberum vettvangi, líkt og netinu, þá eiga að hringja hjá okkur viðvörunarbjöllur.
Það er stór munur á því að vera "laumurasisti" og að vera rasisti á opinberum vettvangi.
Snorri þarf að vera ansi veruleikafyrrtur til að átta sig ekki á því að þessi grein hans stuðar marga. Fólk sem gerir í því að stuða fólk með jafn tabú-ískum skoðunum og hér ræðir myndi ég perónulega telja varasamt fólk.
Það er eins og það vanti einhvern "stoppara" í heilastarfsemina. "Skynsemistoppara" getum við kannski kallað þetta.
Sammála DoctorE, rosalega slappar samlíkingar.
Arnþór (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 14:49
Það má frekar líkja Snorra við kynþáttahatara ef við breytum aðeins orðalaginu þá gæti þetta verið frá KKK
"Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að vera svartur telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg."
Kári (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 16:50
Það skemmtilega er að það er leyfilegt að hata þá ef þeir segjast vera kristnir því að Biblían nefnir ALDREI samkynhneigð, fóstureyðingar né MARGT af því sem fólk segir að guð sé á móti þar á meðal smokkar t.d.
En allar þessar RANGhugmyndir eru komar frá vatikaninu sem var gegn smokkum í tugi ára og er enn gegn samkynhneigð og fóstureyðingum.
Anepo, 9.2.2012 kl. 18:26
man nú eftir einum kennara sem gerði grín að mér fyrir framan allan bekkinn fyrir að segja að menn væru komnir af öpum.
man ekki eftir neinum svona opinberum hommahatara, sem ekki var afhjúpaður sem hommi sjálfur seinna..
eða hommahöturum yfirhöfuð, man eftir einum sem var alltaf að reyna að lemja mig því honum fannst ég svo hommalegur, greyið var náttla að beina athyglinni frá því sem kom svo seinna í ljós, greyið var hommi sjálfur (reyndar bi)
sveinn sigurður ólafsson (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 20:40
Sælir allir og takk fyrir innlegg ykkar,
Þetta er greinilega mál sem fer mikið fyrir brjóstið á mörgum, svo mikið að engin samlíking finnst í hugum margra á milli manns með óvinsælar skoðanir á kynhneigð og t.d. einstaklinga sem flokka einstaklinga eftir húðlit, kyni eða trúarbrögðum og meðhöndla þá mismunandi í kjölfarið (hvort sem þær skoðanir viðkomandi eru opinberar eða ekki).
Mér finnst það frekar þröngt sjónarhorn.
Mér sýnist enginn hérna hafa neitt fram að færa sem dregur úr fagmennsku þessa kennara sem opinberaði óvinsælar skoðanir sínar, nema kannski getgátur. Er fólk sem syndir í getgátum treystandi fyrir kennslu barna?
Geir Ágústsson, 10.2.2012 kl. 07:14
Þess má geta að;
Geir Ágústsson, 10.2.2012 kl. 07:20
Þetta snýst ekki um skoðanir, heldur traust. Ekki misskilja mig, ég er allur fyrir það að við eigum að virða skoðanir annarra sem ekki eru settar fram með ofbeldi. En fólk verður eðlilega ofurviðkvæmt þegar kemur að eigin börnum og verður traustið því að vera nokkuð sterkt á milli þeirra og kennara barnanna.
Samlíkingar eru mjög erfiðar en ég ætla engu að síður að koma með eina. Gefum okkur að þú hafir ættleitt barn frá Afríku og kennari þess í skólanum sé að virða rasískar skoðanir sínar á bloggi. Gefum okkur þar að auki að þessi kennari sé mjög góður í sínu fagi. Engu að síður fullyrði ég að þú gætir ekki treyst þessum aðlia fyrir velferð barnsins þíns og þú viljir að hann fari.
Þú getur talað um prinsipp um að virða skoðanri annarra en þegar að kemur að þínu eigin barni breytast forgangsreglurnar.
Ragnar (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 11:46
Ég á sjálfur barn í grunnskóla (7 ára strák) sem er ekki vinsæll hjá einum kennaranum hans, og veit því ýmislegt um mismunun og sérmeðhöndlun og hvað foreldrar geta gert í því án þess að fara í fjölmiðla og segja "sjáðu mig, ég afhjúpaði kennara með óvinsælar skoðar".
Geir Ágústsson, 10.2.2012 kl. 12:17
Það er óþarfi að endurtaka sig, ég sá þetta í fyrra skiptið.
Ég veit ekki hvernig þetta mál endaði í fjölmiðlum og ég skil ekki af hverju það ætti að skipta máli.
Engu að síður þá væri þetta mál ekkert issue nema vegna þess að þessi maður er barnaskólakennari.
Eitt enn. Nú gagnrýnir þú þá sem gagnrýna þá sem hafa óvinsælar skoðanir. Hvar endar þetta. Það væri hægt að skrifa blogg með yfirskriftinni "Hatar þú hommahatarahatarann?" með nákvæmelga sömu formerkjum og þú gerir hér. Það sem ég á við er að það er mjög erfitt að generalísera þetta eins og þú vilt gera. Það er góðra gjalda vert að virða skoðanir annarra en aðstæðurnar skipta líka máli.
Ragnar (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 12:43
Ragnar,
Maður þarf að passa sig á öfugunum auðvitað. En ég kann ákaflega vel við boðskapinn í þessari grein.
Geir Ágústsson, 10.2.2012 kl. 13:19
Ég er sammála. Það væri rangt að banna Snorra að hafa þessar skoðanir sínar en að sama skapi væri rangt að banna öðrum að hafa skoðanir á Snorra vegna þessa. Einnig væri rangt að banna fólki að hafa þá skoðun að vilja banna Snorra að hafa sína skoðun. Þetta er mjög háll ís og það þýðir lítið að halda sér í prinsipp til að passa sig á að detta ekki.
Ragnar (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 13:59
Þetta snýst ekkert um frelsi fólks til að hafa skoðanir. Þetta snýst um að orðum fylgir ábyrgð, þegar að í hlut eiga einstaklingar í ábyrgðarstöðum. Félag grunnskólakennara hefur siðareglur, og Brekkuskóli hefur skólastefnu sem Snorri hefur ítrekað brotið með hatursáróðri sínum, þrátt fyrir kvartanir foreldra og áminningar stjórnenda. Dómari sem myndi blogga um hvað e-r þjóðfélagshópur væri mikið skítapakk gerir sig einfaldlega vanhæfan í starfi, það kemur skoðanafrelsi hans ekkert við. Sama mætti segja um lækni sem bloggaði um heilsufar skjólstæðinga sinna. Skiptir ekki máli þótt skrifin eiga sér stað utan vinnutíma, þetta er samt opinber vettvangur.
aynrandvarhræsnari (IP-tala skráð) 16.2.2012 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.