Forgangsröðun: Góð, en ekki nóg.

Það er jákvætt að einhverjir þingmenn tali núna loksins um breytta forgangsröðun í útgjöldum ríkisins. Að menn stilli upp hinum ýmsu útgjaldaliðum ríkissjóðs, og velji suma verðuga og aðra ekki.

En betur má ef duga skal. Breytt forgangsröðun ein og sér skilar ekki árangri. Niðurskurðurinn sem nú þegar hefur verið boðaður þarf að rista dýpra og ná til alls hins opinbera rekstur (t.d. þingmannanna sjálfra).

En niðurskurður er heldur ekki nóg. Ríkið þarf að slaka á skattheimtu sinni um heilan helling. Landflótti, gjaldþrot og samdráttur í hagkerfinu eru vandamál sem hafa bara versnað undanfarin misseri, að mörgu leyti vegna þess að skattalóðið er að kremja allt sem enn lifir á Íslandi. Stjórnvöld hafa ekki leyft Íslandi að jafna sig á hruninu. Þau hafa aukið á vandann. Vont hefur versnað.

En vægari skattheimta er heldur ekki nóg. Ríkið þarf að minnka. Umsvif þess þurfa að dragast saman. Það sem ríkið hefur á sinni könnu í dag, og bannar í mörgum tilvikum einkaaðilum að gera, þarf að skera úr krumlum ríkisins. Ríkið þarf að hætta að rukka fyrir, fjármagna og reka t.d. heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og vegakerfið (svo eitthvað af því helsta sé nefnt). Það er ekki nóg að ríkið skeri útgjöld til þessara tegunda starfsemi niður - ríkið þarf að breyta lögum og koma sér út úr þessari starfsemi.

Ríkið á líka að koma sér út úr framleiðslu peninga. Það er mjög mikilvægt. Eða hvað eiga menn nú eftir af rökum fyrir því að ríkið stundi og einoki peningaútgáfu? Rökstuðning Kommúnistaávarpsins?

En að ríkið sé minnkað og umsvif þess dregin saman er heldur ekki nóg. Ríkið þarf að hætta að skipta sér af hagkerfinu. Ríkið hefur mörg, alltof mörg!, tæki og tól til að skipta sér af viðskiptum og samskiptum fólks og fyrirtækja. Dæmi: Tollar, boð og bönn á sölu ýmis konar varnings og þjónustu, opinbert eftirlit, reglur um hitt og þetta, neysluskattar, skilyrði fyrir inn- og útflutningi, gjaldeyrishöft. Þetta þarf að fjúka. Góð byrjun væri að leyfa sölu og auglýsingar á öllu því sem er leyft að selja og auglýsa í Danmörku. Það væri góð byrjun. (Í gær sá ég, í dönsku sjónvarpi, sjónvarpsauglýsingar á spilavíti, viskí og verkjalyfjum í einum auglýsingatíma.)

Umræða á Alþingi um breytta forgangsröðun ríkisútgjalda er góð byrjun og nánast bylting frá því sem áður var. En betur má ef duga skal.


mbl.is Vilja breyta forgangsröðun í fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er hræddur um að greinin þín hljómi eins og argasta guðlast í eyrum vinstra fólks, og það sem verra er að þingmenn upp til hópa skilja ekki svona skynsemi og ráðdeild.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 16.11.2011 kl. 09:00

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristján,

Það að eitthvað hljómi eins og "guðlast" í eyrum vinstrimanna er oftar en ekki merki um að maður er fullur af skynsemi. Tekur kannski eftir því að ég vísa í Kommúnistaávarpið á einum stað og vona að einhverjir hægrimenn taki það til sín líka (þetta með að boða ríkiseinokun á peningaútgáfu var ráð frá sjálfum Karls Marx til þeirra sem vildu flytja auðævin frá þeim sem sköpuðu þau og til þeirra sem vildu þau).

Geir Ágústsson, 16.11.2011 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband