Játningar menntskælingsins

Ég fór óvart inn á Eyjan.is og sá þar frétt um "játningar menntskælings" og verð að segja að mér finnst þær játningar vera mjög athyglisverðar.

Þar segir meðal annars:

Albert Einstein sagði einu sinni að við ættum aldrei að leggja á minnið upplýsingar sem við höfum aðgengi að… og við höfum aðgengi að þessu öllu og hikum ekki við að nýta okkur hana, hvað mynduð þið gera ? Ritstuldur er orðinn landlægur í menntaskólum, jafnvel háskólum því að wikipedia veit allt nú þegar. Af hverju erum við að rembast við að koma þessum skólalærdómi í okkur þegar við höfum aðgengi að honum nú þegar? Ég styð grunnmenntun og allt það en svona án gríns, skólinn er farinn að hamla mér í því að læra, skyldulærdómur á borð við þýsku, jarðfræði, eðlisfræði og fleiri fög sem ég er þvingaður af skólakerfinu eru farin að hamla fróðleiksfýsi minni. [...]

Menntun á að hafa þann tilgang að þjálfa fólk upp svo það geti fundið sér verðmætaskapandi vinnu við eitthvað sem því finnst athyglisvert eða skemmtilegt eða getur sinnt án þess að drepast úr leiðindum. 

Menntakerfið er samt ekki hannað til að ná þessum tilgangi menntunar. Menntakerfið er að mörgu leyti hannað til að geyma fólk, halda því frá atvinnumarkaðinum eins lengi og hægt er til að fullorðið fólk þurfi ekki að keppa við það um störf.

Þeir sem hanna menntastefnu ríkisins hafa ákveðnar hugmyndir um hvað á að predika fyrir börnum og unglingum landsins, og hvað ekki. 

Skólar fá svo það vonlausa verkefni að mata nemendur með námsefni hins opinbera, og afraksturinn er hugsunarháttur eins og lýst er í pistil mennskælingsins. 

Menntaskólar eru í fæstum tilvikum í beinni samkeppni um nemendur (og enn síður eftir að hverfaskipulag þeirra var tekið upp aftur). Þeir þylja upp námsefnið, og stundum síast það inn og stundum ekki. Sumir menntaskólar (eins og MR) segja við nemendur sína að þeir séu í þjálfun fyrir háskólanám, og aðrir ekki. Háskólinn þarf svo að lækka sínar kröfur til að fá nemendur inn. Háskólanám er líka í minnkandi mæli þjálfun fyrir atvinnumarkaðinn - flest nám væri hægt að setja í flokk áhugamála - eitthvað sem mörgum finnst gaman að lesa og stúdera, en nýtist ekki einum né neinum.

Afraksturinn er svo auðvitað sá sem mennskælingurinn lýsir: Menn sofa í tímum, endurnýta vinnu annarra til að skrifa skýrslur og ritgerðir, og frumleg hugsun í námi snýst fyrst og fremst um frumlegar leiðir til að eyða sem minnstum tíma í námið.

Menntun er yfirleitt góð, en ekki allt námsefni er menntun.

Fyrirtæki þurfa oftar en ekki að eyða miklum tíma til að þjálfa nýútskrifaða starfsmenn sína þannig að þeir nýtist í eitthvað. Ég veit um mörg dæmi þess í því fyrirtæki þar sem ég starfa. Nýútskrifaðir verkfræðingar koma inn í fyrirtækið og kunna ekki á Excel eða Word; hafa fengið sína þjálfun í hugbúnaði sem er of dýr eða óaðgengilegur til að nokkurt fyrirtæki geti keypt hann. 

Kannski hristir grein mennskælingsins upp í einhverjum. Kannski getum við minnst þess tíma þar sem menntun var greidd af þeim sem fengu hana, og varð því að nýtast í eitthvað verðmætaskapandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband