Einn pappír engu betri en annar

OECD mælir með því að Ísland hætti að gefa út sinn eigin pappírsgjaldmiðil og hefji upptöku á öðrum pappírsgjaldmiðli - gjaldmiðli sem á vel á minnst mjög vafasama framtíð í höndum.

Það má vel vera að það sé skárra að hafa gjaldmiðil sem Þjóðverjar prenta en gjaldmiðil sem Íslendingar prenta sjálfir. En á íslensku krónunni og evrunni er ekki eðlismunur heldur stigsmunur. Báðir gjaldmiðlar eru háðir sömu lögmálum um framboð og eftirspurn, og hvort tveggja er mikið til háð því hversu miklar breytingar á eftirspurninni eru gerðar. Gjaldmiðill sem er prentaður í stóru upplagi og statt og stöðugt er dæmdur til að verða verðlaus. Gjaldmiðill sem í stöðugu upplagi og þannig með stöðugan kaupmátt heldur vinsældum sínum.

Vandamálið við krónuna er ekki smæð hennar, heldur eilíft fikt við hana.

Annars skil ég ekki áhuga íslenskra stjórnvalda á því að gefa út gjaldmiðil yfirleitt. Hvað er unnið með því? Jú, reglulega má rýra lífskjör almennings með gengisfalli og peningaprentun, en er það kostur? 

Íslendingar gætu haldið úti stöðugasta gjaldmiðli í heimi með því að setja íslensku krónuna á gullfót og sleppa henni svo lausri og frjálsri með því að leggja niður Seðlabanka Íslands. Væri það ekki ráð í tíma tekið? Heimurinn fer jú aftur á gullfótinn í einhverri mynd innan fárra ára, eða svo segir mér hugur. 


mbl.is OECD mælir með upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vandinn með gull hér á Íslandi er að það er enginn virkur markaður með það. Seðlabankinn á reyndar nú þegar tvö tonn af gulli sem mætti nota sem baktryggingu, en það er spurning hversu vel það virkar nema þá gagnvart útlöndum. Önnur hugmynd væri að tengja ekki eingöngu við gull heldur hrávörukörfu sem innihéldi t.d. ál og fisk, okkar meginútflutningsvörur, eða í bland við körfu erlendra gjaldmiðla svipað og með myntráði. Þetta gæti hentað betur hér vegna þess hversu háð við erum innflutningi vara og hráefna.

Á meðan ríkið innheimtir skatta í gjaldmiðli sem er ekki staðlaður (fiat) þarf slíkur gjaldmiðill að vera gefinn út af ríkinu og fólk skyldað til að nota hann. Þessu væri þó hægt að breyta ef ríkið myndi einfaldlega skilgreina vörukörfu til að nota sem mynteiningu, og leyfa fólki að greiða skatta í einhverjum af þeim samþykktu gjaldmiðlum sem í umferð eru, svo lengi sem þeir eru skiptanlegir yfir í þær vörur sem myntfóturinn samanstendur af. Restin væri bara smá Excel æfing, og í rauninni höfum við vísi að þessu nú þegar því fólk sem hefur tekjur í erlendum gjaldmiðlum getur skipt þeim í krónur til að borga skattana sína.

Fyrsta skrefið hlýtur samt að vera afnám á einkarétti bankanna sjálfra á útgáfu (og fölsun) 98% þeirra fjármuna sem eru í umferð og kallaðir peningar, en hafa í raun ekkert á bak við sig nema samábyrgð bankakerfisins, hversu mikils virði sem hún kann svo að vera (í því liggur einmitt fölsunin).

Næsta skref væri (endur)innleiðing ríkisútgáfu á nýjum peningum og reglustýrð úthlutun þeirra til þjóðfélagslega uppbyggjandi verkefna. Þetta er nauðsynlegur grunnur fyrir næstu skref svo ekki myndist tómarúm á meðan skipt er um kerfi. Þetta er líka það skref sem flestir óttast, en af ólíkum og gildum ástæðum.

Lokaskrefið væri svo að gefa gjaldmiðilsútgáfu algjörlega frjálsa á ný. Þá gætum ég og þú farið í samkeppni á sviði peningaútgáfu. Ef rétt er að því staðið yrði til einhverskonar fjölmyntakerfi þar sem fleiri en einn gjaldmiðill stæðu til boða og gætu verið sérsniðnir að ólíkum þörfum, en sá sem best þjónar þörfum markaðarins í heild yrði líklega sjálfkrafa notaður af flestum.

Þeir sem vilja endilega taka upp evruna gætu þá einfaldlega gert það og verði þeim að góðu sem það vilja. Ég persónulega myndi frekar taka upp gjaldmiðil með tengingu við hrávöru sem hefur virkan markað á bak við sig hér á landi, og helst hrávöru sem hefur frekar stöðuga og beina samsvörun við kaupmátt, til þess að ná fram alhliða verðtryggingu á gjaldmiðilinn sjálfan. Slík hrávara er til staðar nú þegar í talsvert mikilli umferð á Íslandi og hefur haldið verðgildi sínu merkilega vel miðað við hina verðtryggðu krónu undir núverandi fyrirkomulagi. Ég ætla ekki að upplýsa hvaða vara þetta er því það er viðskiptaleyndarmál, en um er að ræða hversdagslega vöru sem fellur til í einhverju magni á flestum heimilum og vinnustöðum og er gjarnan álitin einskis eða lítils virði. Myntvæðing þessarar vöru myndi enn fremur vera á vissan hátt þjóðþrifaverk.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2011 kl. 13:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Guðmundur,

Takk fyrir gott og ítarlegt innlegg sem hefur hreyft við mörgum tannhjólum í hausnum á mér.

Ég hef samt eina spurningu: Þegar þú segir "Vandinn með gull hér á Íslandi er að það er enginn virkur markaður með það." - hver er þá vandinn?

Sá sem selur bananakíló á x grömm af gulli (þar sem x er mjög lítil tala), er honum ekki alveg sama þótt menn séu að kaupa og selja gull á fulli í kringum sig? Vill hann ekki bara fá pening sem hann getur treyst á til að kaupa sér lífsnauðsynjar í skiptum fyrir bananasöluna? 

Ég mundi segja að hrávara eins og ál væri verri "fótur" en gull því báxítið, sem álið er unnið úr, er auðveldlega hægt að moka upp og auðveldara að þenja út framboð á áli en t.d. gulli, silfri eða platínu. Og ef "ál"dollarinn færi að verða vinsæll, þá væri báxít-námueigendum í lófa lagt að blása út myndarlega verðbólgu á áldollurum, kaupa upp fullt af eignum og sitja síðan rólegur á meðan hinu nýju peningar valda verðbólgu út um allt.

Geir Ágústsson, 23.6.2011 kl. 06:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband