Ánægðir, en ...

Ég hef búið í Danmörku í nokkur ár og ætla að leyfa mér að taka undir niðurstöðu þessarar könnunar: Danir eru vissulega ánægðir með lífið.

Þeir eru til dæmis mjög ánægðir þegar þeir opna kaldan bjór í lok vinnuviku. Þeir eru ánægðir með góða vínið eða sæmilega bjórinn sem þeir fengu á góðu verði í næsta stórmarkaði. Þeir kunna vel að meta góðan mat. Mörgum þeirra finnst gott að reykja. Danir eru lífsnautnafólk og láta ekki segja sér fyrir verkum þegar kemur að því að njóta hins óholla og vímuvaldandi í lífinu.

En hafa Danir það eitthvað betra en Íslendingar? Já, sennilega þessi misserin á meðan vinstristjórnin sendir íslenska hagkerfið á bólakaf, en annars ekkert endilega. Þeir lifa álíka lengi og Íslendingar, þeir drekka og reykja meira og eru mjög ánægðir með það en eru ekkert sáttari en Íslendingar við umferðarhnúta, biðstofur á troðfullum neyðarmóttökum, þola ekki að þurfa bíða í síma eftir að fá þjónustu, finnst ótrúlega og óþolandi dýrt að kaupa og reka bíl (enda keyra þeir um á druslum), og svona mætti lengi telja.

Ég held að munurinn á "ánægju" Íslendinga og Dana sé að mestu leyti fólginn í viðhorfi. Daninn gerir sér grein fyrir því að lífið er skin og skúrir, að margt mætti betur fara, og að lengi getur vont versnað eða gott batnað, en hann hefur a.m.k. ódýra rauðvíns- eða bjórflösku og sígarettu til að halla sér að eftir vinnu. Íslendingurinn bítur á jaxlinn, tuðar aðeins meira, vinnur aðeins lengur til að geta keypt aðeins meira og hrynur svo í það um helgina. 

Þetta var félagsfræðigreining dagsins hjá mér. Ég lofa því ekki að hún standist gagnrýni. 


mbl.is Danir ánægðastir með lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Býsna góður pistill og margt til í honum

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 11:44

2 identicon

Algjörlega sammála þessu, átti einmitt heima úti í DK líka. Takk fyrir góða lesningu.

Bjarni Rúnar Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband