Mánudagur, 17. janúar 2011
Hvað er markmiðið? Að nýta eða ekki?
Stjórnmálamenn gleyma því stundum að úti í heimum stóra heimi er fólk sem tekur ákvarðanir byggðar á því hvaða lagaumhverfi er hægt að búast við í framtíðinni. Ef sífellt er verið að sópa öllum grundvelli undan fjárfestingum og framtíðaráætlunum þá er hætt við að fólk veigri sér við að leggja í fjárfestingar og gera áætlanir.
Núna eru stjórnmálamenn til dæmis að tala um að kippa öllum grundvelli undan fiskveiðikerfinu á Íslandi. Slíkt skapar rekstraráhættu, fjárfestingafælni og stöðnun.
Iðnaðarráðuneytið er núna á fullu að vinna að því að kippa grundvellinum undan rekstri HS Orku í höndum nýrra eigenda fyrirtækisins. Hvað halda menn að slíkt geri fyrir fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi?
Er mönnum kannski alveg sama? Vilja menn að allar ákvarðanir um fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi séu í höndum opinberra fyrirtækja? Telja menn að það sé til bóta? Eða er markmiðið kannski að stöðva fjárfestingu í orkuiðnaði á Íslandi (t.d. í nafni umhverfis"verndar")?
Hafa sömu menn gleymt því að Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki sem er þannig séð gjaldþrota?
Hafa sömu menn gleymt því að stjórnmálamenn hafa oft allskyns sjónarmið að leiðarljósi, eins og "byggðasjónarmið" og "atvinnusköpunarsjónarmið", og ýta því opinberum fyrirtækjum út í fjárfestingar með lélegri arðsemi og háum fórnarkostnaði, og jafnvel tapi?
Það sem skiptir mestu máli fyrir rekstrarskilyrði allra fyrirtækja er að þau séu stöðug. Að menn geti verið nokkuð vissir um að lagaumhverfið sé ekki á fleygiferð, að skattar séu nokkuð svipaðir frá ári til árs, og að afskipti af rekstrarumhverfi séu sem minnst. Þetta skiptir mestu máli. Í stöðugu laga- og skattaumhverfi er hægt að gera áætlanir. Á grundvelli þeirra er hægt að taka ákvarðanir um fjárfestingu.
Óvissan sem sumir stjórnmálaflokkar hella yfir hinar ýmsu atvinnugreinar er verra en flest, og með öllu óþolandi. Vonandi stendur Jóhanna Sigurðardóttir við áramótheit sín og vonandi fylgja aðrir ráðherrar hennar fordæmi ef og þegar hún uppfyllir sín heit.
Afnotaréttur verði til hóflegs tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Geir: Faraverður eftir sanngjörnum leikreglum. Finnst þér eðlilegt að erlendur aðili geti keypt með aflandskrónum auðlindir Íslendinga á hálfvirði? Íslendingum gefst ekki kostur á slíkum vildarkjörum.
Lífeyrissjóðir og margir smáhluthafa töpuðu gríðarlegu fé gegnum Geysir Green Energy og Atorku. Hlutabréf þessara félaga voru auðvitað bóla en reksturinn var að mörgu leyti áfátt þó hann byggði á traustum grunni.
Mjög mikilvægt er að auðlindir á Íslandi lendi ekki í höndunum á erlendum aðilum sem mikil hætta er á ef ekki er tekið á þessu núna.
Það á ekkert skilt við að laða að erlenda fjárfesta eða hvetja þá áð fara annað. Íslendingar eiga sjálfir að ráða ferðinni um nýtingu þessara auðlinda, ekki erlend fyrirtæki sem munu ábyggilega stunda rányrkju.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 17.1.2011 kl. 11:45
Ef verslun auglýsti að hún myndi gefa 25% afslátt á morgun en ekki í dag, myndir þú versla í dag?
Ef nágranni þinn myndi fjárfesta í landi og fá afslátt af fjárfestingunni sinni en þú vissir að þú fengir engan afslátt af sambærilegri fjárfestingu, myndir þú fjárfesta þar eða leita annað?
Þessum spurningum er ekki beint til þín Geir, en þær gefa góða mynd af fjárfestingaumhverfinu á Íslandi.
Alveg sammála þér að hér þarf stöðugleika, miklu betri hagstjórn, en það þarf einnig jafnræði á milli fjárfesta.
Lúðvík Júlíusson, 17.1.2011 kl. 11:57
Ég er hjartanlega sammála öllum sem setja út á áhrif gjaldeyrishaftanna. Þau stuðla að spillingu, mismunun og óvissu. Í umhverfi þessara hafta er nánast ómögulegt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að þekkja sína réttarstöðu og slíkt er nánast trygging fyrir því að hér verði lítið sem ekkert fjárfest nema fyrir innlendan sparnað íslenskra ríkisborgara.
Ef menn vilja banna erlent eignarhald á t.d. orkufyrirtækjum, þá er miklu hreinlegra að banna slíkt með lögum (hugsanlega þarf Ísland líka að segja sig úr EES og draga ESB-umsókn til baka). Case closed. Núverandi ástand skapar einfaldlega óvissu. Hvað eru t.d. fjárfestar að hugsa núna þegar þeir sjá hvaða vandræði er verið að baka Magma Energy, eftir á?
Geir Ágústsson, 17.1.2011 kl. 12:14
Það er a.m.k. ekki hægt að lifa við ákvörðunarfælni stjórnvalda til lengdar. Annað hvort geta útlendingar fjárfest í orkuiðnaði á Íslandi (eins og Íslendingar í útlöndum), eða ekki. Það eru engin haldbær rök fyrir því að ESB-ríki eins og Ítalía og Eistland geti fjárfest á Íslandi (í gegnum EES), en ekki Kanada og Nýja-Sjáland, svo dæmi séu tekin (um lönd sem varla verða kölluð annað en þróuð ríki).
Persónulega hallast ég frekar í áttina að viðskiptafrelsi þótt 50 þúsund Íslendingar séu búnir að skrifa undir áskorun um aukin viðskiptahöft á fjárfestingar á Íslendinga. En skárra eru skýr og skiljanleg og undanþágulaus viðskiptahöft en núverandi ástand. Þá geta fyrirtæki a.m.k. sleppt því að hætta fé sínu á Íslandi í von og óvon um að lögum verði ekki breytt og áður löglegir samningar gerðir ógildir.
Geir Ágústsson, 17.1.2011 kl. 14:03
Það sem þú ert að kvarta yfir heitir einfaldlega sósíalismi. Af einhverjum ástæðum virðast sósíalistar ekki skilja það sem felst í hugtakinu eignarréttur.
Hef ekki séð að Íslendingar séu eitthvað betri en aðrir að fara með hluti eins og t.d. náttúruauðlindir. Það á eitthvað annað að stýra málum en ríkisfangið.
Steinarr Kr. , 17.1.2011 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.