Föstudagur, 8. október 2010
Hvað næst? Þjóðaratkvæði um heimili Ólínu Þ.?
Ólína Þorvarðardóttir vill að vernd á eignaréttindum kvótaeigenda verði sett í þjóðaratkvæði.
Hvað sem mönnum finnst um kvótakerfið og hvernig veiðiheimildum "eigi" að úthluta/ráðstafa, þá er það svo að kvóti í dag er eign eins og reiðhjól og einbýlishús, sem menn kaupa og selja og semja um verð á, og treysta því svo að ríkið verndi eign þeirra fyrir þjófnaði og ágangi.
Ef ríkið allar að ógilda alla kaupsamninga um kvóta á einu bretti þá má búast við því að þeir sem voru sviptir eignum sínum krefjist bóta.
Og þar sem 98% kvótans hefur skipt um hendur síðan kvótakerfinu var komið á, þá er um að ræða nánast hvert eitt og einasta kíló sem má veiða við Íslandsstrendur.
Ég velti því fyrir mér hvort húseign Ólínu þingmanns verði gerð að pólitísku þrætuepli næst. Hún gæti búist við því að vera borin út í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu og þurfi að sækja sér bætur í gegnum dómskerfið.
Hitt er svo að Samfylkingin hefur sýnt að henni er nákvæmlega sama um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðsla, ef hún kærir sig þá yfirleitt um þær, og það þrátt fyrir allt sitt tal undanfarin ár um mikilvægi og skynsemi þeirra. Oft bylur hæst í tómri tunnu. Oft eru umræðustjórnmálin innihaldslausust allra stjórnmála.
Þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er merkilegur fjandi með suma ykkar sem kallið ykkur "frjálshyggjumenn" að þið eruð í raun dogmatískir ofstjórnunar- kerfis- og kvótasinnar af guðs náð.
Í fyrstu gr. fiskveiðistjórnarlaganna segir: " Fiskveiðiheimildum er úthlutað til eins árs í senn og geta þær aldrei myndað eignarétt"
Þessa málsgrein túlkar þú sem afsal fyrir fasteign. Ég spyr mig hvort um sé að kenna lesblindu eða óskhyggju sem stafar af djúpri þrá til að koma öllu atvinnulífi í kvóta?
Sigurður Þórðarson, 8.10.2010 kl. 10:58
Á hvaða forsendum eru menn þá að kaupa kvóta dýrum dómum og gera fjárhagsáætlanir fyrirtækja mörg ár fram í tímann með það sem gefið að kvóti/veiðiréttindi séu ekki að fara neitt?
Ég bara spyr.
Því mér finnst hæpið að fólk geri langtímaáætlanir með notkun skammtíma atvinnuréttinda sem á að endur"úthluta" af stjórnmálamönnum á hverju ári.
Þætti mjög vænt um útskýringar á því.
Geir Ágústsson, 8.10.2010 kl. 12:05
Það er til alveg ljómandi góð ástæða fyrir því að frjálshyggjumenn styðja hið íslenska kvótakerfi umfram til dæmis kerfi "sameignar" þar sem stjórnmálamenn ákveða hvað og hvert og hvenær:
Eignarétturinn.
Best væri að sjórinn yrði einkavæddur og allt sem syndir í honum eða finnst á hafsbotni yrði á einhvern hátt einkaeign. En fyrir því er sennilega ekki pólitískur vilji. Næstbest er þá að nýting (eða friðun) sjávar sé seljanleg eign, eins og hugsunin með kvótakerfinu er. Hún fylgi þá sömu lögmálum "búskapar" og t.d. beitarland eða skóglendi bóndans - sé hans að ráðstafa og nýta og sé seljanleg ef hann kýs sem svo.
Svo frjálshyggjumenn styðja kvótakerfið með sömu rökum og þeir styðja einkaeign á landi. Menn geta ekki sogið upp 1000 tonn af þorski án eignaréttinda á slíkri veiði, rétt eins og menn geta ekki skorið upp beitarland bóndans og keyrt í burtu án leyfis frá eigandanum.
Við það er ekkert dularfullt eða skrýtið, og í raun er um ákaflega samræmt hugarfar að ræða.
Geir Ágústsson, 8.10.2010 kl. 12:31
Ágæti Geir, stundum geta sæmilega gefnir menn orðið svo forskrúfaðir t.d. í trúmálum eða kennisetningum að þeir verða rökheldir. Þetta virðist mér einkum eiga við um túlkun trúar- eða kennisetninga.
Þú tókst dæmi um hús Ólínu og við skulum þá halda okkur við það.
Segjum sem svo að ég myndi selja þér hús sem Ólína Þorvarðardóttir á þá myndi það ekki gefa þér rétt til að bera hana út.
Sigurður Þórðarson, 8.10.2010 kl. 12:51
Sigurður,
Ekki veit ég hvernig þú tekur á óvelkomnum gestum á heimili þitt, en ég myndi tvímælalaust segja að þeim megi vísa á dyr, og að eignarétturinn sé ekki mikils virði ef í honum felst ekki rétturinn til að ráða nýtingu eignarinnar.
Ein af stóru trúsetningum dagsins í dag er að eitthvað geti haft alla kosti einkaeignar en jafnframt verið "þjóðareign" eða "sameign". Í praxís virkar það samt ekki þannig, og ef ríkið telur sig geta ónýtt alla kaupsamninga með kvóta, af því einhver lagaklausa kallar eignina "sameign", og gert það bótalaust t.d. gagnvart dómstólum, veður í villu. Trúvillu.
Geir Ágústsson, 8.10.2010 kl. 13:12
"Kaupsamninga"?
Værir þú kannski tíl í að kaupa af mér fugla himingeimsins?
Sjávarútvegráðherra hefur margsinnis breytt úthlutunarreglum t.d. með strandveiðum eða jafnvel með því að afnema kvóta.
Ef þessir "kaupsamningar" gefa einhvern rétt þá sækja menn hann fyrir dómstólum.
Sigurður Þórðarson, 8.10.2010 kl. 13:53
Pólitískt óöryggi (sem þú lýsir) sem útgerðarmenn búa við er ekki öfundsvert. Að einhver þori að leggja fé sitt í útgerð er stundum ofar mínum skilningi. Á sérhverjum tímapunkti er hægt að búast við að einhver "tilskipun" komi frá ráðuneytinu í Reykjavík sem gerir hlutabréf, kvótaeign, húsnæði, skip, fjárfestingar og skuldbindingar verðlaust með einu pennastriki.
Og svo þegar menn hafa keypt eitthvað þá er ætlast til þess að þeir réttlæti eignarétt sinn þegar þjóðnýtingu er sleppt lausri á þá? Já þetta er skrýtið.
Geir Ágústsson, 8.10.2010 kl. 14:06
Sigurður, ég átta mig ekki á því hvað þú hefur á móti varanlegri úthlutun veiðiheimilda og að gera þær framseljanlegar svo þær líkist venjulegri eign, en mér sýnist þín helsta andstaða við það vera sú aðferð sem var notuð fyrir tveimur áratugum til að koma veiðiheimildum út á markað þar sem þær hafa synt kerfinu í átt til hagræðingar.
Og að þú sért sjálfsagt með fulla kistu af hugmyndum um "endurúthlutun" eftir einhverju öðru kerfi.
En þá skaltu búast við að eftir 20 ár muni einhver líta til baka og segja, "já þessi Sigurður, úthlutaði bara kvótanum í örfáar einkahendur þáverandi kvótaleysingja, og lokaði okkur framtíðarfólkið frá greininni".
Nú eða segi: "Þessi Sigurður, gerði kerfið þannig að það er engin leið að ganga að veiðirétti vísum nema með endalausum uppboðum þar sem allt getur gerst á meðan skipin standa við bryggjuna og bíða þess að komast af stað".
Nú eða segi: "Já Sigurður var harður á móti þáverandi kerfi þáverandi kvótaeigenda, en við erum núna harðir á móti hans kerfi sem gat af sér núverandi kvótaeigendur."
Í stuttu máli: Að ef menn eru sífellt að agnúast út í það hvernig einhverju var komið í kerfi eignaréttar, þá verður sá eignaréttur aldrei mikils virði.
Eða hvernig eignaðist Ingólfur Arnarson Reykjavík? Hann hljóp með kyndil í einn sólarhring og afmarkaði þannig land sitt. Það stóð og bændur réðust ekki á hann með Samfylkinguna fremsta í flokki og heimtuðu endurúthlutun.
Geir Ágústsson, 8.10.2010 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.