'Öðlast' eignarrétt á vatnsauðlindum?

Það er vægast sagt furðulegt að tala um að löggjöf "veiti" eignarréttindi og þá sérstaklega á einhverju sem er í raun eign einhvers. Eða hvað var það sem gaf landeiganda "leyfi" til að setja upp dýran borbúnað, bora eftir vatni og síðan nýta það? Gaf löggjafinn "leyfi" fyrir því að verð á landi endurspeglaði m.a. aðgang að vatni á því?

Ekkert slíkt átti sér stað. Landeigandi lítur einfaldlega á vatnsból á landi sínu sem hluta af eign sinni rétt eins og grasið og steinana, og leggur í fjárfestingar út frá þeirri vitneskju (rétt eins og hann girðir af graslendi, grefur skurði á landinu eða slær grasið). Landeigandinn treystir því svo að ef einhver spillir vatninu hans eða sýgur það í burtu án leyfis þá geti hann leitað til yfirvalda sem verja eignarrétt hans með lögreglu og dómstólum.

Nú er hins vegar talað um að "veita" eða "afnema" eignarréttindi á vatnsbólum með löggjöf. Landeigandinn horfir upp á réttarstöðu sína komast í algjöra óvissu. Hann veit ekki hvort löggjafinn ákveði að þjóðnýta eign hans eða ekki. Skiptir engu máli hvort ríkið talar um "bætur" eða annað slíkt. "Bætur" vegna þjóðnýtingar eru einfaldlega handahófskennd upphæð sem er ákveðin einhliða af "kaupanda", án þess að "seljandi" hafi nokkuð um það að segja. Sannkölluð andstæða frjálsra viðskipta.

Í stað þess að tala um að landeigendur "öðlist" eignarrétt eða ekki væri mun hreinlegra og hreinskilnara að tala um "þjóðnýtingu" eða ekki þjóðnýtingu. Sú orðanotkun er mun betur lýsandi fyrir þessa umræðu alla og varpar skýrari ljósi á undirliggjandi hugmyndafræði hlutaðeigandi.


mbl.is Ósáttir við þjóðnýtingu vatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband