Hvaða efnahagsáætlun?

Nú veit ég ekki um hvaða efnahagsáætlun Íslands á að fjalla, en fyrir mér virðist hún fyrst og fremst snúa um að fá lán til að greiða fyrir neyslu og fjármagna hallarekstur á íslenska ríkinu.

Á einum stað er spurt:

Það er kannski kominn tími til að skoða í hvað á að nýta þessi fínu lán frá fínu frændum okkar á Norðurlöndunum. Fljótt á litið virðist ríkisstjórnin hafa hugsað sér þrennt:

  • Í fyrsta lagi á að nota þessi lán til að komast hjá því að spara hjá hinu opinbera. Það á einfaldlega að reka ríkissjóð með yfir 100 milljarða króna halla á ári um ókomna tíð.
  • Í öðru lagi á að nota lánsféð til styðja við pappírspeninga ríkisins með gjaldeyrisvaraforða.
  • Í þriðja lagi verður féð notað til að greiða, já, lausn úr Icesave ánauðinni, bæði óheyrilega vexti af lánum Breta og Hollendinga til Tryggingasjóðs og svo höfuðstólinn hrökkvi eignir þrotabús Landsbankans ekki til.

Það hefur lítil sem engin umræða farið fram um þessa ráðstöfun á lánsfénu sem ríkisstjórnin þráir. Er einhver glóra í þessum þremur útgjaldapóstum?

Það eru sterk rök fyrir því að íslenska ríkið sé á höttunum eftir lánum til að geta stundað áframhaldandi hallarekstur á hinu opinbera, og komast þannig hjá öllum sársaukafullum niðurskurðaraðgerðum. Ef einhver hefur rökstuddan grun um að svo sé ekki, þá vil ég gjarnan heyra af því.

Vinstri stjórnin veit að hún lifir ekki af næstu kosningar. Í mínum huga er því takmark hennar fyrst og fremst að halda stjórnarsamstarfinu lifandi fram að kosningum, og í millitíðinni:

  • Þenja "öryggisnetið" út svo það nái yfir enn fleiri en áður, og þegar næsta ríkisstjórn þarf að fara taka til, þá geta vinstrimenn hrópað að hinum vondu hægrimönnum sem "stækka möskva velferðarkerfisins" og "taka frá þeim sem minnst mega sín"
  • Keyra gælumálum sínum í gegnum stimplunarverksmiðjuna á Alþingi eins hratt og hægt er svo þau séu ekki lengur til umræðu (fyrst og fremst boð og bönn), og þegar næsta ríkisstjórn vill gefa svolítið af frelsinu til baka þá geta vinstrimenn hrópað að hinum vondu hægrimönnum sem vilja "leyfa mansal" og "spilla börnunum okkar"
  • Beina athyglina að öllu öðru en eigin vanhæfni. Hvað hefur batnað síðan núverandi ríkisstjórn tók við fyrir um ári síðan? Getur einhver sagt mér það? Hversu lengi á stjórnin að komast upp með að benda á eitthvað sem var rætt fyrir hálfu öðru ári síðan til að afsaka sig?

Hún kann á fjölmiðla, þessi ríkisstjórn, og hefur þá raunar í vasanum. En almenningur lætur ekki blekkjast að eilífu. Vonandi.


mbl.is Ísland kann að skorta stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband