Ríkið komi sér úr veginum

Starfsgreinasambandið setur nú fram hugmyndir sínar um framkvæmdir sem það vill að farið verði í á Íslandi á næstu misserum. Sumt eiga útlendingar að fjármagna, annað er á herðum innlendra aðila og svo eru það auðvitað framkvæmdir hins opinbera.

Ég vil beina því til Starfsgreinasambandsins og annarra að vera ekki að heimta of margar framkvæmdir á kostnað skattgreiðenda, því þær eru ekki "sköpun" á störfum og verðmætum, heldur tilflutningur í besta falli. Ríkið tekur frá einum og afhentir öðrum, þá ýmist af núlifandi skattgreiðendum með skattheimtu, eða af skattgreiðendum framtíðar með skuldsetningu. Brúin sem ríkið byggir í dag fyrir fé skattgreiðenda eru allar þær fjárfestingarnar sem skattgreiðendur gátu ekki komið á laggirnar því fé þeirra var fjarlægt af hinu opinbera. Sjá nánar hér.

Hreinlegast er að benda ríkisvaldinu á að koma sér úr veginum og að þannig sé hjólum atvinnulífsins hraðast komið af stað á nýjan leik. Ríkið er að gera allt nema það í dag. Eða eins og segir á einum stað:

Það má vel vera að það sé lítill áhugi á því almennt í fjármálaheiminum að lána til Íslands. En að það tengist Icesave með öðrum hætti en þeim að áhugi muni minnka enn frekar ef ríkissjóður verður hlaðinn skuldum er fjarstæða.

Miklu nær væri að líta til þeirra skemmdarverka sem ríkisstjórnin hefur unnið á skattkerfinu að undanförnu. Hækkun og flæking á tekjuskatti einstaklinga, hækkun á tekjuskatti fyrirtækja, hækkun á fjármagnstekjuskatti, hækkun á launaveltuskattinum tryggingagjaldi, hækkun á eldsneytisgjöldum, bifreiðagjöldum og áfengisgjöldum svo eitthvað sem nefnt eykur ekki líkur á að menn vilji leggja fé í íslenskt atvinnulíf.

 Ríkisvaldið er beinlínis að valda vísvitandi skemmdarverkum á nú þegar löskuðu hagkerfi. Það fer varla framhjá neinum lengur. Og gegn því þarf að álykta. 


mbl.is Krefjast aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Starbuck

Ég hef nú sjaldan heyrt annað eins bull og þú ert að bjóða upp á.  Ríkið er að hækka skatta til að geta borgað af skuldum sem hafa fallið á það frá einkaaðilum!  Það voru einkaaðilar sem ollu hruninu vegna þess að þeir höguðu sér af fullkomnu ábyrgðarleysi og komust upp með það vegna þess að ríkisvaldið brást skyldum sínum og leyfði þeim að komast upp með það.  

Að ríkið geti ekki skapað störf er bara ein frjálshyggudellan sem menn trúa á í blindni án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því.

Íslenskir frjálshyggjumenn eru líklega mestu hræsnarar sem fyrirfinnast - þeir heimta frelsi og afskiptaleysi til að geta gert það sem þeim sýnist en þegar síðan kemur að því að fara að borga fyrir sukkið og spillinguna þá finnst þeim ekkert eðlilegra en að láta almenning borga brúsann.

 Tókstu eftir því að það var frjálshyggjuflokkurinn - Sjálfstæðisflokkurinn sem ríkisvæddi bankana!  Hvar í fræðum ykkar frjálsyggjumanna fyrirfinnst réttlæting á slíkri gjörð?

Málið er að þið eruð bara tækifærissinnar sem beitið fyrir ykkur vonlausri hugmyndafræði til að koma ykkar í gegn - sem er að einkavæða gróðann og koma tapinu á ríkið og almenning. 

Má ég biðja um nýtt laissez-faire.  Að sameiginlegir sjóðir og eignir landsmanna verði látnir í friði fyrir siðlausum auðmönnum sem hugsa ekki um neitt annað en eigið rassgat.

Starbuck, 17.3.2010 kl. 14:20

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Kæri Starbuck (sem er eitthvað meira fyrir að blóta en rökstyðja),

"Ríkið er að hækka skatta til að geta borgað af skuldum sem hafa fallið á það frá einkaaðilum!" 

Engar skuldir hafa "fallið" á ríkið. Stjórnmálamenn eru að taka pólitíska og vísvitandi ákvörðun um að taka á sig skuldir.

Hvernig skapar ríkið störf án þess að það einfaldlega drepi önnur í fæðingu?

Ef ríkið getur skapað störf án neikvæðra afleiðinga, af hverju skapar það þá ekki 30 þúsund störf og eyðir atvinnuleysi?

Ríkisvaldið þarf bara að minnka sig niður í stærð sína árið 2005 til að reka sig á núllinu án skattahækkana, að mér skilst. Og sleppa því að taka á sig ábyrgð vegna innistæða, þvert á lög og reglur ESB og EES.

Hvað varðar ríkisábyrgð á peningaútgáfu og ætlaðri ríkisábyrgð seðlabanka á innistæðum í einkabönkum þá bendi ég þér á þennan texta. Það eru ekki frjálshyggjumenn sem boða samkrull ríkisvalds og peningaútgáfu. Krafan um slíkt kemur frá nánast öllum öðrum.

Það að þú segir að ríkið geti skapað störf og að frjálshyggjumenn boði ríkisrekstur á peningaútgáfu gerir hvorugt satt. 

Geir Ágústsson, 17.3.2010 kl. 14:31

3 Smámynd: Starbuck

"Stjórnmálamenn eru að taka pólitíska og vísvitandi ákvörðun um að taka á sig skuldir."  Ég skil þig þannig að þú viðurkennir og sért ósáttur við að ríkið hafið verið að taka á sig skuldir einkaaðila - það er gott. 

Ríkið getur búið til störf engu síður en einkaaðilar.  Dæmi: Ríkisfyrirtæki getur keypt skip, ráðið áhöfn og farið á þorskveiðar.  Selt aflann og notað peningana sem eftir eru þegar búið er að borga laun, olíu, viðhald o.s.frv. í eitthvað uppbyggilegt eins og að bæta þjónustuna á Landspítalanum (það er ekki æskilegt að grunnheilbrigðisþjónusta sé rekin með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi).  Helsti munurinn á þessu fyrirtæki og hefðbundnu einkafyrirtæki er sá að gróðinn er notaður í góðan málstað.  Hann fer ekki í vasa einhverra hluthafa sem hafa ekki lyft litlafingri við að skapa verðmætin (veiða fiskinn og vinna hann).  Hann fer í eitthvað uppbyggilegt í stað þess að fara í spilavíti hlutabréfamarkaðarins eða leikföng handa liði sem nennir ekki að vinna almennilega vinnu en vill lifa hátt á kostnað annarra. 

Af hverju skapar ríkið ekki vinnu?  Ríkið er að skapa vinnu. Það er stærsti vinnuveitandi landsins! - t.d. Landspítalinn, Háskóli Íslands, Landsvirkjun o.fl. Því miður er hins vegar mikill niðurskurður í gangi þannig að verið er að fækka störfum í stað þess að fjölga þeim - eins og ætti að gera.  Ástæðurnar fyrir þessu eru annars vegar vegna þess að ríkið þarf að spara til að geta borgað skuldir "góðærisins" og hins vegar sú sorglega staðreynd að menn eru almennt farnir að trúa frjálshyggjubullinu um að ríkið geti ekki skapað störf og ríkið geti ekki rekið fyrirtæki með hagkvæmari hætti en einkaaðilar.  Þessu halda fjölmiðlar og þrýstihópar einkaframtaksins stöðugt á lofti. Þessi hugsun virðist líka hafa síast inn í huga óhugnanlega margra sem telja sig vera vinstrimenn. 

Ég vil þó taka það fram að það má vel taka til innan ríkisins.  Það mætti eflaust fækka embættismönnum og einfalda marga hluti til að minnka kostnað.  Svo mætti hætta að eyða peningum í ýmis konar vitleysu eins og t.d. NATO.  Því miður virðist þó mikil tregða til að fara í slíkar aðgerðir enda margir flokksgæðingar (ekki síst úr Sjálfstæðisflokknum) sem eru þar á jötunni og komast upp með það vegna stuðnings síns flokks.  Spillingin veður uppi þarna eins og í einkageiranum en mikilvægur munur er þó á - landsmenn eiga að geta haft áhrif á það sem gerist innan ríkisins í gegnum lýðræðið en venjulegt fólk getur nánast engin áhrif haft innan einkageirans.

Hvernig er það annars, þurfa sannir frjálshyggjumenn ekki að hafa stjórnmálaflokk fyrir sig?  Varla telst sjálfstæðisflokkurinn mikill frjálshyggjuflokkur. Á 18 ára valdatíma hans hækkuðu skattar á almenning, ríkisvaldið blés út og svo kórónuðu þeir allt saman með mestu ríkisvæðingu einkafyrirtækja í sögu landsins! 

Starbuck, 17.3.2010 kl. 15:42

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Starbuck,

Varðandi skoðanir mínar á frjálshyggjuflokknum þá hef ég sagt þetta (í sept. 2008): "Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera búinn að missa stöðu sína sem hið eina mögulega athvarf hægrimanna í kosningum. Mun annar flokkur fylla í skarðið, hristir Sjálfstæðisflokkurinn af sér slikju sósíaldemókrata eða á að láta atkvæði hægrimanna falla dauð niður?"

Því miður er skortur á frjálshyggjumönnum sem vilja helga sig stjórnmálum, enda frjálshyggjan í eðli sínu and-stjórnmálaleg (setja reglur um hvernig aðrir eiga að haga viðskiptum sínum og lífi), og pró-þátttaka á frjálsum markaði.

Varðandi meintar skattahækkanir Sjálfstæðisflokksins þá var nú ekki um slíkar að ræða. Skatthlutföll hækkuðu m.a. vegna þess að laun hækkuðu og vægi persónuafsláttar minnkaði. En það eru ekki skattahækkanir. Skattar lækkuðu, en alltof lítið og alltof hægt. Og núna sitjum við uppi með stjórn sem vill fyrir engan mun skera niður í ríkisrekstrinum þótt góðæristekjurnar séu farnar (virðisaukaskattur og tollar af "lúxus"varningi, fjármagnstekjur, tekjuskattar af háum launum). Og því er gripið til skattahækkana og skuldsetningar.

Ríkið skapar ekki störf. Ríkið getur haft fólk í vinnu og greitt því laun með skatttekjum (embættismenn, tollverðir, lögregla, byggingaverkamenn við Tónlistarkastalann í Reykjavíkurhöfn) og dregur þar með fé út af markaði og veitir í sérvalin verkefni. Ríkið getur átt fyrirtæki sem skapa verðmæti (OR, Landsvirkjun, Íslandspóstur) og keppt við önnur fyrirtæki um starfsfólk á mjög ósanngjörnum grundvelli (nettófjöldi starfa því óbreyttur eða minni). Yfirleitt verða slík fyrirtæki að pólitískum verkfærum (sögu OR þekkjum við vel) eða þau rekin með tapi á kostnað skattgreiðenda.

Geir Ágústsson, 17.3.2010 kl. 17:43

5 Smámynd: Starbuck

Hérna kemur ein langloka ef þú hefur lyst :)  Eitthvað af þessu ætla ég að láta birta á einhverjum vefmiðlinum.  Ég biðst afsökunar ef þér finnst óviðeigandi að fólk setji inn svona langar athugasemdir inn á bloggið þitt.

Af hverju segirðu ríkið geti ekki greitt laun af þeirri verðmætasköpun sem starfsmenn þess búa til en hljóti að nota skatttekjur til þess?  Það er enginn svona eðlismunur á ríkisfyrirtæki og einkafyrirtæki - Landsvirkjun borgar sínu starfsfólki með peningum sem fyrirtækið fær fyrir sölu á orku, nákvæmlega eins og hún myndi gera ef hún væri í einkaeigu.  

Það er einn stóri misskilningurinn sem nú veður uppi að rekstrarform fyrirtækja skipti öllu máli, hvort þau eru í einka- eða almenningseigu. Það er rangt, mestu skiptir fyrir reksturinn að stjórnendur og aðrir starfsmenn séu hæfir í sínu starfi og heiðarlegir.  Þegar allt kemur til alls skiptir það mestu máli að fyrirtæki geti boðið upp á góða vöru eða þjónustu á sanngjörnu verði og starfsmenn þeirra geti lifað góðu lífi af laununum sínum.

Annað þessu tengt er sá misskilningur að almenningur sé háður atvinnulífinu en ekki öfugt.  Þetta kemur t.d. fram í afskriftatamálum þar sem fyrirtæki fá sum hver afskrifaðar gríðarlega háar fjárhæðir (og eigendurnir fá að halda þeim) á meðan fólk fær nánast ekki neitt afskrifað af sínum lánum.  Sagt er að atvinnuleysi aukist ef fyrirtækjunum er ekki bjargað.  En hverjir halda fyrirtækjunum í raun og veru gangandi með því að kaupa þær vörur og þá þjónustu sem þau hafa upp á að bjóða?  Auðvitað fólkið, neytendurnir - sem nú hafa margir hverjir ekki efni á að kaupa margs konar vörur og þjónustu af því að peningarnir fara í það að borga af stökkbreyttum lánum.  Viturlegra væri að afskrifa vænan hluta af lánum fólksins, þá hefur það efni á að kaupa ýmsar vörur og þjónustu sem það hefði annars ekki efni á og bjarga með þessu þeim fyrirtækjum sem eiga skilið að lifa.  Hvort er mikilvægara að forða fólki eða fyrirtækjum frá gjaldþroti?  Að sjálfsögðu fólki! 

Engar skattahækkanir hjá sjálfstæðisflokkknum? Ég skal segja þér fréttir! Það kom út skýrsla um íslenska skattkerfið haustið 2008 (http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/adrarskyrslur/Islenska-skattkerfid-samkeppnishaefni-og-skilvirkni.pdf) sem enginn virðist hafa nennt að kynna sér þó innihaldið sé athyglisvert.  Þarna má t.d. sjá að að hlutfall tekjuskatta af heildarlaunum hækkaði úr 17,2% 1993 í 21,6% árið 2007 (sjá töflu og mynd 7.1).  Í skattabreytingum lentu auðvitað þeir fátækari verr í því en hinir ríkari því hjá þeim 30 prósentum sem höfðu lægstar tekjur hækkaði skatthlutfallið um 10 - 13,6% en hjá þeim 5 prósentum sem höfðu hæstar tekjur lækkaði skatthlutfallið um 15,1% (frá 1993 - 2005; sjá töflu 7.2). Helstu ástæðurnar fyrir þessum breytingum voru þær að hlutfall persónuafsláttar fór stöðugt lækkandi, hátekjuskattur var afnuminn og fjármagnstekjuskattur lækkaður.  
Einnig er mjög athyglisvert að skoða mynd 3.2 en þar má sjá að hvergi innan OECD hækkaði hlutfall skatttekna opinberra aðila af vergri landsframleiðslu meira en á Íslandi, fyrir utan Tyrkland (1985 - 2006).

Frjálshyggjan er sú stefna sem nú ræður ríkjum, bæði á Íslandi og í flestum heimshornum (nema þegar valdhöfum og vinum þeirra hentar betur einhver önnur stefna).  Á Íslandi kemur hún fram í því að sumir eru mjög ríkir og þar af leiðandi mjög frjálsir, svo frjálsir að þeir þurfa ekki einu sinn að borga skuldirnar sínar. Á hinn bóginn eru flestir frekar fátækir eða eru a.m.k. stórskuldugir og vinna ansi margar stundir á ári til að bankinn þeirra fái rúmlega sitt í gegnum vexti og ýmsan kostnað (væri nú ekki betra að þessir peningar færu í skatta því þá kæmu þeir að einhverju leyti til baka, t.d. í formi menntunar og heilbrigðisþjónustu).   Ísland virðist vera að færast að því sem kalla mætti "draumaland frjálshyggjunnar". Skoðum aðeins þá framtíðarsýn.  Þar er engin opinber þjónusta heldur geta hinir ríku sent börnin í dýra einkaskóla þangað sem bestu kennararnir hafa verið keyptir og boðið er upp á besta námsefni sem völ er á.  Í skólum hinna fátækari verður aðhaldssemi lykilhugtak og passað upp á að börnin séu ekki að læra neitt umfram það sem undirbýr þau fyrir að vinna þau störf sem hinum ríku nenna ekki að vinna eða finnst sér ekki sæmandi.  Sama á við um heilbrigðiskerfið - bestu læknarnir og dýrustu græjurnar eru á einkaspítölum hinna ríku, þar sem orðið "biðlisti" heyrist aldrei en almúginn fær kannski einhverja þjónustu til að halda sér gangandi - ef hann getur nurlað saman fyrir kostnaðinum.  Hinir ríkari mun geta keypt sér einkalöggæslu og auðvitað þarf að hafa öfluga, brynvarða sérsveit ef almúginn lætur sér detta í hug að ybba gogg.  Þannig verða allir frjálsir og hamingjusamir á Nýja Íslandi Frjálshyggunnar öö nema náttúrlega þorri almennings.   

Frjálshyggjan er í umræðunni alltaf í bundin kapítalismanum (sönn frelsishugsjón er samt í raun ekki háð neinum sérstökum "isma").  Það er því áhugavert að pæla í því hvað verður um frjálshyggjuna nú þegar kapítalisminn er að hrynja.  Staðan í efnahagsmálum heimsins er þannig núna að tekist hefur að stöðva hrun tímabundið með því að koma skuldum einkafyrirtækja og yfir á skattborgara og dæla skattfé í þau að auki. Er það m.a. að þakka hinni fáránlegu (og andkapítalísku) stefnu að sumir bankar og fyrirtæki séu "of stór til að falla". Fáránlegt að láta sér detta í hug að þetta bjargi málunum til lengdar. Þarna er verið að veita ákveðnum aðilum (líklega gráðugustu mannverum í heimi) frelsi án ábyrgðar - þ.e.a.s. eigendur og stjórnendur stærstu fyrirtækjanna eru að fá þau skilaboð að þeir geti sukkað áfram eins og þeim sýnist án þess að hafa áhyggjur af rekstrinum því þeir geta treyst því að ríkið komi og bjargi þeim ef illa fer.  Þetta endar að sjálfsögðu með ósköpum og spái ég því að ekki verði langt að bíða næsta skells fyrir efnahagslíf heimsins. 

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti tærri frelsishugsjón, eins og frjálhyggjan gefur sig út fyrir að vera.  En því miður getur hún bara virkað eðlilega ef allir eru góðir og fylgja hugsjóninni af einlægni (eins og sagt hefur verið um kommúnismann).  Því miður er sú ekki raunin og er það vegna þess að menn misnota frelsið sjálfum sér til hagsbóta og á kostnað annarra.

Í raun er um tvenns konar frelsi að ræða: frelsi til að gera það sem manni sýnist í einkalífinu á meðan maður skaðar ekki aðra.  Þessu er ég sammála.  Hins vegar er frelsi til að sýsla með peninga og eignir að vild.  Þessu er ég ósammála vegna þess að þessu frelsi fylgir ábyrgð og fæstir virðast hafa siðferðisþrek til að standa undir henni.  Þróunin verður alltaf sú að þeir sem ná að safna meira en aðrir af auð og völdum (þetta tvennt fer yfirleitt saman) nota þetta til að safna ennþá meiri auði og völdum.  Í krafti auðs og valda kúga þeir þá sem minna eiga og berjast af hörku gegn öllum þeim sem vilja sanngjarna dreifingu auðsins.  Þeir kaupa sér völd og áhrif gegnum eignarhald á fjölmiðlum og styrkja (múta) stjórnmálamenn og -flokka.  Þetta má t.d. sjá mjög skýrt í BNA þar sem helstu fjölmiðlarnir eru í höndum örfárra aðila, stjórnmálamennirnir eru flestir í vasanum á lobbýistum stórfyrirtækjanna.  Eins eru þessi einkenni mjög augljós á Ítalíu Berlusconis.  

Sagt hefur verið um kommúnismann að allir ættu að vera jafnir en síðan verði þróunin óhjákvæmilega sú að sumir verði "jafnari" en aðrir.  Hvað sem því líður þá er það augljóst að í heimi frjálshyggjunnar eru sumir alltaf mun frjálsari en aðrir.  Í þeim heimi verður maður nefnilega að eiga nóg af peningum til að geta nýtt sér frelsið.  En nú segir kannski einhver: "allir hafa jöfn tækifæri til að safna auði"  Ef það væri nú bara satt, því miður eru tækifærin líka söluvara og ganga að erfðum.  Ef við skoðum t.d. BNA þá er það mjög ólíklegt að fátækur maður komist í hóp þeirra ríkustu nema sýna yfirburða klókindi og siðblindu og vera tilbúinn til að sleikja rétta afturenda (það eru þó einhverjar undantekningar á þessu og fjölmiðlar blása þau tilfelli út svo almenningur trúi því að þetta sé raunhæfur möguleiki og ekki svo fjarlægur).  Hvers virði er frelsið ef engir eru valkostirnir? Líf hins ríka er frjálslegt vegna þess að hann hefur efni á að kaupa allt mögulegt og fara þangað sem honum sýnist meðan hinir fátækustu hafa sárafáa valkosti vegna þess að allt kostar peninga. 

Sorrý Geir ef þú ert sannur frjálshyggjumaður í þeim skilningi að þú viljir frelsi fyrir alla.  Það virðist bara ekki ganga upp.  Það virðist vera sama hversu fagrar og góðar hugsjónir menn aðhyllast, þegar þeir komast til valda lenda alltaf í sama drullupytti spillingar og sérhagsmunagæslu, hugsjónirnar gufa upp og menn hika ekki við að ljúga og svíkja.  Ef þeir láta sér ekki segjast og reyna að vera heiðarlegir og samkvæmir sjálfum sér er þeim bara bolað í burtu með góðu eða illu.

Eina leiðin sem ég sé til þess að stjórnmálin verið heilbrigðari og einhver stöðugleiki skapist í efnahagslífinu er að almenn hugarfarsbreyting verði hjá fólki þannig að menn hætti að líða græðgi og spillingu og fari að setja heiðarleika og réttlæti í forgang.  

Starbuck, 18.3.2010 kl. 03:42

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Starbuck,

Ég þakka langlokuna. Hún er áhugaverð lesning og sennilega innblástur í 20 nýjar bloggfærslur hjá mér. Læt samt duga að spurja tveggja spurninga núna:

  1. "Þarna má t.d. sjá að að hlutfall tekjuskatta af heildarlaunum hækkaði úr 17,2% 1993 í 21,6% árið 2007" - hvernig skýrist þetta af einhverju öðru en hækkandi launatekjum í krónum talið, og lækkandi vægi persónuafsláttar þar með?
  2. Ef ríkið getur búið til verðmætaskapandi störf, af hverju er þá atvinnuleysi á Íslandi? Af hverju að bíða eftir að markaðurinn taki við atvinnulausum?
Hvað varðar spillingu og annað sem virðist mikið í tísku að tala um núna, þá tengi ég hana beint við skort á ábyrgð, og meira ríkisvald er þar enginn lausnari og raunar þvert á móti.

Geir Ágústsson, 18.3.2010 kl. 08:40

7 Smámynd: Starbuck

Gott að heyra að ég veiti innblástur

1. Ég er nú enginn talnasérfræðingur en ég get ekki skilið þessar tölur öðruvísi en þannig að ríkið hafi verið að hækka það hlutfall af tekjum fólks sem það tekur til sín í formi tekjuskatta - í þessu tilfelli um ca. 4,5%.  Þegar persónuafsláttur fylgir ekki launaþróun þá jafngildir það skattahækkun. 

2. Ég hélt að ég hefði verið búinn að svara þessu í fyrri athugasemd - það virðist hvorki vera til staðar vilji né geta til að láta ríkið skapa störf og er það alveg örugglega að hluta AGS að kenna sem ávallt krefst þess að hið opinbera dragi úr umsvifum sínum. En skoðum þetta út frá öðru sjónarhorni. Best að ég taki dæmi sem er nærtækt mér.  Ég vinn á Landspítalanum.  Þar má segja að verðmætasköpun sé í gangi vegna þess að þar er verið að bæta heilsu fólks og góð heilsa er verðmæti.  Það má líka líta svo á að heilbrigðisþjónusta sé þjónusta við atvinnulífið því hún hjálpar sjúku og slösuðu starfsfólki fyrirtækja að komast sem fyrst í vinnu aftur svo það geti haldið áfram að framleiða verðmæti.  

Heilbrigðiskerfið fékk ekki að njóta "góðærisins" heldur voru stöðugar niðurskurðaraðgerðir í gangi allan þann tíma (þó ótrúlega lítið hafi tekist að spara).  Léleg launakjör heilbrigðisstarfsfólks höfðu það m.a. í för með sér hæft og áhugasamt fólk leitaði síður í vinnu þarna en í einkageiranum þar sem launin voru betri, jafnvel þó það hefði menntað sig á þessu sviði (dæmi: ég veit að þó nokkrir hjúkrunarfræðingar kusu frekar að vinna sem flugfreyjur frekar en hjúkrunarfræðingar*)

Nú þegar harðnar á dalnum er fyrst ráðist á veikasta hlekkinn og skorið grimmt niður í þetta kerfi sem er veikt fyrir eftir allar sparnaðaraðgerðirnar undanfarin ár (hvernig er það annars - maður heyrir ekkert um niðurskurð í ríkisfyrirtækinu Landsbankanum?).  Aðgerðirnar felast í ráðningarbanni, yfirvinnubanni o.fl.) og hefur það fyrst og fremst neikvæðar afleiðingar.  Laun starfsfólks lækka og álagið á því eykst sem hefur í för með sér að það verður meira um veikindi, kulnun í starfi, mistök í starfi o.s.frv. Þessu öllu fylgir aukinn kostnaður fyrir spítalann.  Auk þess er það varla hagkvæmt fyrir ríkið að borga fólki atvinnuleysisbætur frekar en lág laun fyrir mjög mikilvæga vinnu.  Ráðamenn eru með þessum niðurskurði byrjaðir að brjóta niður bráðnauðsynlega stofnun sem tók áratugi að byggja upp.

Það er áhugavert að bera saman flugfreyjur og hjúkrunarfræðinga til að sjá muninn á kjörum ríkisstarfsmanna og starfsfólks í einkageiranum.  Til að geta orðið flugfreyja þarf sáralitla menntun en hjúkrunarfræðin er fjögurra ára háskólanám.  Flugfreyjur eru aðallega í því að bjóða kaffi og te og svoleiðis en hjúkrunfræðingar eru oft með líf fólks í lúkunum og smá mistök t.d. við lyfjagjöf geta verið mjög dýrkeypt.  Eru kjörin í samræmi við þetta? Flugfreyjan hefur hærri laun, styttri vinnutíma og meiri fríðindi en hjúkrunarfræðingurinn!  Ef hægt er að tala um verðmætasköpun í þessu samhengi þá er hjúkrunarfræðingurinn að skapa meiri verðmæti en flugfreyjan.  Er þetta eðlilegt? Sanngjarnt? Hagkvæmt? 

Mér finnst með ólíkindum að grunnþjónusta sem var í fjársvelti á þenslutímanum sé skorin niður núna á meðan ekkert virðist gert til að skera niður fjármálakerfið sem blés út í "góðærinu" og þar sem mesta ábyrgðin á ástandinu liggur.     

Það er spilling í stjórnkerfinu þegar stjórnmálamenn setja eigin hagsmuni og/eða hagsmuni ákveðinna hópa fram yfir hagsmuni fólksins í landinu(vinnuveitenda þeirra).  Það er spilling í atvinnulífinu þegar stærstur hluti þess er í höndum fárra aðila, fákeppni ræður ríkjum og náin tengsl eru við ákveðna stjórnmálamenn og -flokka.  Þannig er staðan í dag.  Það þurfa að vera til staðar skýr og einföld lög og reglur til að hindra spillingu, hlutlausir eftirlitsaðilar til að fylgjast með og viðurlög sem refsa þeim sem gera sig seka um spillingu.  Það virðist vanta töluvert upp á að þetta sé til staðar á Íslandi. 

Starbuck, 18.3.2010 kl. 14:57

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Starbuck,

1. Satt. Skattar voru að hækka á "meðaltekjur" vegna minnkandi vægi persónuafsláttar. Þetta er hins vegar ekki hægt að kalla "skattahækkun" eins og orðið er notað t.d. um það sem er að gerast í dag - skattprósentur á rjúkandi uppleið. Nær væri að tala um of hæga lækkun skatta til að mæta hækkandi tekjum í samfélaginu. 

2. Varðandi meinta starfasköpun hins opinbera þá nær hún ekki lengra en það að ef nú ríkið ákvæði í dag að þrefalda fjölda lækna, kennara, hjúkrunarfræðinga og annarra sem fá borgað með skattfé, þá verður ekki mikið eftir af launum á einkamarkaðinum, þess sem fjármagna rekstur hins opinbera. 

Heilbrigðiskerfið, skólakerfið, götusópun og umönnun aldraðra er allt vissulega nauðsynlegt. En þetta eru útgjöld (eins og kaup á þvottaefni og tannkremi og matvælum og nefskattur RÚV eru á þínu heimili), fjármögnuð með verðmætasköpun t.d. sjómanna og verkamanna álveranna. Og raunar óþarfi að deila um það. 

3. Spilling vegna afskipta stjórnmálamanna af hagkerfi og fyrirtækjarekstri verður ekki upprætt með ennþá meiri afskiptum stjórnmálamanna. 

Geir Ágústsson, 19.3.2010 kl. 08:42

9 Smámynd: Starbuck

Það er enginn að tala um þreföldun á fjölda starfsfólks, bara að það sé nóg af því til að starfseming geti gengið eðlilega fyrir sig.  Það var nóg af fólki í heilbrigðisgeiranum áður fyrr en er ekki lengur vegna niðurskurðar.  

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa rökfræði í sambandi við atvinnusköpun.  Ég geri ráð fyrir að þú myndir telja jákvætt að heilbrigðiskerfið yrði einkavætt eins og það leggur sig.  Hvers vegna í ósköpunum ætti það að verða eitthvað betra? Það myndi í engu breyta eðli starfseminnar, sömu aðilar (læknar, hjúkrunarfræðingar o.s.frv.) myndu áfram vera á sama stað að vinna sömu vinnuna við að veita sömu þjónustuna.  Það eina sem myndi breytast er eignarhaldið og hvernig borgað er fyrir þjónustuna.  Auðvitað er borgað fyrir alla þessa þjónustu með verðmætasköpun sjómanna og annarra, það breytist ekki við það að þjónustan sé einkavædd.  Fyrir utan að menn geta ekki orðið sjómenn og verkamenn í álverum nema vegna þessarar þjónustu, þeir þurfa allavega að læra að lesa og skrifa!  Skip verða að hafa skipstjóra sem hafa farið í skóla til að læra allt sem máli skiptir um stjórn skipa.  Menntun og heilbrigðsþjónusta annars vegar og verðmætaskapandi atvinnugreinar eru háð hvort öðru, það er ekki bara þannig hið fyrrnefnda sé algjörlega háð hinu síðarnefnda 

Svo er rétt að benda á að bankastarfsemi er atvinnugrein sem skapar engin verðmæti (samkvæmt þinni skilgreiningu á verðmætasköpun).  Þar held ég að sé full ástæða til að skera verulega niður enda bankakerfið allt of stórt.  Þá væri hægt að lækka vexti, sem myndi minnka óþarfa fjárútlát sjómanna, verkamanna og annarra. 

Skoðum annað dæmi um ríkisrekstur og einkarekstur. Eitt sinn var til fyrirtæki sem hét Póstur og Sími og var það ríkisfyrirtæki með fullt af fólki í vinnu. Síminn var einkavæddur, sem þýddi í raun aðeins það að (í mörgum tilfellum) sama fólkið hélt áfram að vinna sömu vinnu fyrir svipuð laun, við að bjóða sömu þjónustu. Það eina sem breyttist var að arðurinn af rekstrinum fór ekki lengur í ríkissjóð heldur vasa þeirra einkaaðila sem eignuðust fyrirtækið. 

Þú virðist vera að halda þessu fram: Einkafyrirtæki sem gengur vel skapar atvinnu og gerir samfélagið um leið ríkara en ríkisfyrirtæki í sömu atvinnugrein sem er nákvæmlega eins uppbyggt og skilar jafn miklum arði til eigenda sinna er ekki atvinnuskapandi heldur byrði á samfélaginu. 

Þegar allt kemur til alls þarf fólkið í landinnu að borga fyrir alla þjónustu sem það vill hafa aðgengilega (there is no such thing as a free lunch!)  Spurningin er bara hvort það er borgað fyrir hana gegnum skattakerfið eða beint til einkafyrirtækja sem veita þjónustuna.  Seinni kosturinn er verri vegna þess að þar bætist við aukakostnaðarliður sem er arðgreiðslur til eigendanna en ríkið gerir ekki kröfu um slíkt (ef það er gert þá fara þeir peningar í sameiginlegan sjóð okkar allra ríkissjóð).  Það hefur líka komið á daginn víða um heim þar sem einkavæðing almannaþjónustu hefur verið reynd að kostnaður notenda eykst við breytinguna eða gæði þjónustunnar minnka, nema hvort tveggja sé.  

Mér finnst sjálfsagt að borga skatta til að halda megi uppi öflugri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.  Ég er hins vegar mjög ósáttur og reiður yfir því að skattarnir fari í að borga fyrir ævintýramennsku bankamanna og braskara.  Sjálfur tók ég engan þátt í ruglinu sem var hér í gangi, keypti engin hlutabréf, setti enga peninga í peningamarkaðssjóði, ég hef aldrei verið með yfirdrátt og tók engin önnur lán en námslán.  Hins vegar keypti ég ásamt kærustunni 85 fm blokkaríbúð snemma árs 2008.  Mér sýnist allt stefna í að við verðum gjaldþrota vegna þessarar ákvörðunar áður en langt um líður.  Auðvitað þurftum við að borga allt of mikið fyrir íbúðina vegna þess að bankarnir höfðu búið til fasteignabólu með ábyrgðarausu útlánaflóði. Verðbólga hefur hækkað lánin og minnkað kaupmáttinn, launatekjur (við vinnum bæði í heilbrigðiskerfinu) hafa lækkað vegna niðurskurðar og skattar hafa hækkað. Allt þetta má rekja til hrunsins sem braskarar, bankamenn og vanhæfir stjórnmálamenn bera ábyrgð á.  Á sama tíma er þetta lið sem ber ábyrgð á því að við lendum í þessari stöðu ennþá að lifa hinu ljúfa lífi og virðist ætla að losna við að borga stærstan hluta skulda sinna og taka út refsingu fyrir glæpi sína.   

Starbuck, 19.3.2010 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband