Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 18. desember 2024
Þegar sjálfsagðir innviðir fá grænt ljós
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur undirritað samning við orkufyrirtækið Rarik um að fyrirtækið taki að sér að leggja háspennulögn úr Kelduhverfi að Dettifossi og Grímsstöðum á fjöllum.
Þetta er að sögn til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum en er í raun bara sjálfsögð innviðaframkvæmd: Að tengja landshluta við raforkukerfið.
Ætli það létti aðeins leyfisveitingar að segja að eitthvað sé gert til að laga veðrið frekar en hleypa fólki að innviðum? Maður fer að halda það. Og þá opnast jú aldeilis fyrir möguleikana!
Mögulega festast sjálfsagðar framkvæmdir ekki í kerfinu svo árum skiptir ef þær eru rökstuddar með tilvísun í veðrið frekar en mannlegar þarfir.
Svo sem að reisa stíflur og byggja vatnsfallsvirkjanir og leggja nýjar háspennulínur til að hvíla díselrafstöðvarnar við fiskvinnslurnar.
Rask á umhverfi á meðan á framkvæmdum stendur? Sjónmengun? Gleymdu því. Menn eru hérna að minnka útblástur á koltvísýringi!
Hverfur þá ekki öll andspyrnan í skuggahernum hjá ýmsum opinberum stofnunum sem reynir í dag að stöðva allar framkvæmdir í orkuframleiðslu?
Mögulega.
Þetta er snilldarbragð hjá veðurmálaráðherra og til fyrirmyndar. Kerfið látið snúa upp á sjálft sig, og fólk fær orku.
Meira svona takk.
![]() |
Leggja háspennulögn að Dettifossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. desember 2024
Næstu kosningar: 2025
Það getur tekið tíma fyrir þrjá aðila að verða sammála um verkefnalistann til fjögurra ára. Ég skil það.
En um leið ætla ég að spá því, lauslega, að Íslendinga bíði Alþingiskosninga á næsta ári. Árið 2025.
Það er af því að stjórn mun myndast sem lætur ekki grundvallaratriði stjórnarflokka flækjast fyrir sér, með innanborðs fullt af fólki sem kann ekkert að haga sér í stjórnmálum - lítur á þau sem stökkpall til að fá athygli umfram allt - og mun sprengja allt í klessu.
Ég vona að mér skjátlist. Vona jafnvel að formanni Samfylkingar muni takast að smala köttunum og tryggja einhvers konar atlögu að verðbólgu og hallarekstri ríkissjóðs.
En spyr um leið: Hvaða veðbanki leyfir mér að veðja á sprungna stjórn árið 2025?
![]() |
Viðræðurnar stranda ekki á neinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 15. desember 2024
Þetta með jafnrétti kynjanna
Á Vesturlöndum gilda sömu lög fyrir alla, konur og karla. Bannað er að mismuna eftir tegund kynfæra nema þegar það er beinlínis lögskylda (jákvæð mismunun svokölluð).
Þetta hefur leitt til nokkurs sem fáir bjuggust kannski við: Að þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest, þar myndast í auknum mæli stéttir sem mætti alveg kalla karla- og kvennastéttir - stéttir þar sem fólk er yfirgnæfandi af öðru kyninu.
Og þetta fer í taugarnar á mörgum.
Af hverju eru hjúkrunarfræðingar og kennarar yfirgnæfandi kvenmenn? Af hverju eru slökkviliðsmenn og járnsmiðir yfirgnæfandi karlmenn? Sumt má kannski skrifa á gamalt og gott innsæi sem segir að strákar hafi gaman af hlutum á meðan stelpur hafi gaman af fólki. Sumt má skrifa á líkamlegt erfiði í starfi sem gerir það aðeins erfiðara fyrir kvenfólk en karlmenn. Sumt má kannski skrifa á hefðir og venjur, eða á að einhverjir líti upp til einhvers ættingja eða foreldris og vilji feta í sömu fótspor.
Eftir standa þægilegu skrifstofustörfin þar sem allir sitja bókstaflega við sama borð.
Af hverju eru ennþá skökk kynjahlutföll þar? Hefst nú löng og mótsagnakennd skýring á því úr viðtali við lögmann og meðeiganda lögmannsstofu (feitletrun mín):
Það er áhyggjuefni að konur virðast síður endast í lögmannsstéttinni. Hlutfall kvenkyns lögmanna er rúmlega 32% og hefur nánast staðið í stað í 10 ár þrátt fyrir að fleiri konur útskrifist úr lagadeildum en karlar.
Þá er áhugavert að hlutfall kvenkyns lögmanna með réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti er um 15% og hefur sömuleiðis lítið breyst síðan 2014. Ég kann ekki skýringar á þessu en það má velta því upp hvort kvenkyns lögmenn fái sömu tækifæri. Ef til vill fá konur síður verkefni í gegnum tengslanet eða þær jafnvel gleymast við val á lögmönnum.
Ef skoðuð eru munnlega flutt mál í Hæstarétti á árinu 2023 þá voru einungis 10% lögmanna á lögmannsstofum sem fluttu þar mál konur. Dæmin eru mun fleiri. Þá sjaldan það gerist að ég flytji mál á móti kvenkyns lögmanni þá eru þær alltaf mjög vel undirbúnar og flytja málin ákaflega vel og skipulega. Á þessum tímum sem við lifum í dag er langt í land hér í jafnrétti kynjanna.
Hérna stendur ekki steinn yfir steini, sem kemur á óvart því ég hélt að lögmenn væru umfram aðra betri í að byggja upp málflutning svo hann standist skoðun.
Geymum það aðeins að kannski höfði langir og einmanalegir vinnudagar síður til kvenna en karla þótt kaupið sé gott. Hvað annað er hér boðið upp á?
Jú, að kvenmenn gleymist. Gleymist! Eru lögmannsstofurnar virkilega að sóa miklum mannauði því hæfir starfsmenn hreinlega gleymast? Fái ekki tækifæri til að skara fram úr þótt allar hendur séu á lofti og markmiðin rædd fram og til baka í árlegum frammistöðuviðtölum?
Og þegar kvenfólk fær tækifæri, er það einhver hörmung? Nei, þvert á móti, því kvenkyns lögmenn eru alltaf mjög vel undirbúnir og flytja málin ákaflega vel og skipulega, gefið auðvitað að þeir gleymist ekki býst ég við.
Er ekki búið að benda hér á risavaxið viðskiptatækifæri? Að stofna lögmannsstofu og fylla af kvenmönnum sem fá öll heimsins tækifæri til að spreyta sig, taka málflutningsréttindi og mynda þar með bestu lögmannsstofu landsins þar sem lögmennirnir eru alltaf mjög vel undirbúnir og flytja málin ákaflega vel og skipulega.
Að vísu nefnir eigandi lögmannsstofunnar sem hér talar ekki að hann hafi komið auga á þetta viðskiptatækifæri, bara að þetta sé vandamál sem hann og aðrir stjórnendur lögmannsstofa láti draga úr hagnaði sínum, ár eftir ár - af því hæfileikaríkt fólk gleymist, sjáðu til.
Ég held að það séu alveg nákvæmlega jafnmargir lögmenn af kvenkyni og framboð er á. Ekki allir sem klára lögmanninn í háskóla vilja vinna langa vinnudaga í lokaðri skrifstofu og þurfa svo að standa í dómssal með tugi manns að góna á sig. Vilja kannski frekar aðstoða fólk beint, svo sem að aðstoða fólk í skilnaðarferli við að stíga varlega til jarðar og aðstoða mæður við að gera börn sín föðurlaus og föðurinn að öreiga. Aðstoða fólk beint og milliliðalaust, með notkun þekkingar sinnar.
En sjáum nú til hvort einhver hafi gripið viðskiptatækifærið sem blasir hérna við: Að koma í vinnu hinum gleymda og hæfa mannauði og slá samkeppnina af borðinu.
![]() |
Svipmynd: Langt í land í jafnrétti kynjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 12. desember 2024
Ekki láta brjálað fólk flæma þig til dauða
Sólon Guðmundsson flugmaður var borinn til grafar fyrr í dag. Hann tók eigið líf í lok sumars. Sólon var 28 ára gamall og starfaði hjá Icelandair en var sagt upp störfum skömmu fyrir andlátið. Ástæðan: Ásakanir ónafngreindra einstaklinga innan vinnustaðar hans. Meira um málið hér.
Kannski hefði flugmaðurinn brugðist öðruvísi við í dag. Skæruliðarnir siðlausu sem hafa fengið að valsa um og ásaka mann og annan um hvaðeina, jafnvel nafnlaust og innistæðulaust, rekast núna á veggi. Menn svara í auknum mæli fyrir sig.
Svona var þetta ekki fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það var nóg að ásaka og liðlausar starfsmannadeildir æddu af stað til að skamma fólk - nei ég meina unga karlmenn - og að lokum vísa þeim úr starfi.
Sumir mætti tvíefldir til baka, og sem dæmi má nefna Frosta Logason hjá brotkast, en aðrir buguðust undan óréttlætinu, skiljanlega.
Innan samfélags okkar leynast nefnilega siðlausir stuðningsmenn dauðdaga og fátæktar. Þeir vilja láta ákveðna einstaklinga hverfa á einn eða annan hátt. Þeir vilja svipta menn lífsviðurværinu, þagga niður í þeim og koma þeim frá. Sé dauðsfall afleiðing slíkrar herferðar þá þegja þeir og brosa í laumi. Viðbjóður, vægast sagt.
En ekki lengur.
Brjálað fólk mun ekki lengur fá að hrinda fólki í dauðann. Við öll ættum að sjá það núna. Þess í stað á að hrópa á móti þegar dauðakirkjan hrópar á fólk.
Auðvitað eru til nauðgarar, ofbeldisfólk (af báðum kynjum) og tuddar. En það hafa lengi verið til ferli til að taka á hegðun slíks fólks. Réttarkerfi, jafnvel. Því má væntanlega stinga í samband aftur. Siðlausa liðið getur þá sakað hina og þessa um hvað sem er og þær ásakanir teknar fyrir, vegnar og metnar og að lokum úrskurðað. Saklaus uns sekt er sönnuð.
Vonandi er sá tími runninn upp. Núna.
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Blaðamenn bregðast enn og aftur
Af hverju í ósköpunum eru vestrænir blaðamenn að éta hráa mykjuna sem vellur úr munni yfirlýstra hryðjuverkamanna? Er það af því þeim tókst að steypa af stalli einhverjum sem okkur á Vesturlöndum er kennt að hata?
Núna enduróma vestrænir blaðamenn orðum hryðjuverkaleiðtogans sem kallar sig bráðabirgðaforsætisráðherra Sýrlands sem verður væntanlega jafnmikið til bráðabirgða og tímabundnir skattar á Íslandi.
Óvissa ríkir nú í landinu og vilja nýir ráðamenn því fullvissa trúarlega minnihlutahópa landsins að þeir skuli ekki kúgaðir. ...
Einmitt vegna þess að við erum íslömsk, munum við tryggja réttindi alls fólks og allra trúarhópa í Sýrlandi. segir Bashir sem uppreisnarmennirnir skipuðu sem bráðabirgðaleiðtoga ríkisstjórnarinnar. ...
Ákall mitt er til allra Sýrlendinga erlendis: Sýrland er nú frjálst land sem hefur áunnið sér stolt sitt og reisn. Komið til baka. sagði Bashir. Við verðum að endurreisa, endurfæðast og við þurfum hjálp allra.
Lygar í hverju orði. Það verður engum hlíft. Nú þegar stefnir í stórkostlegar manngerðar hamfarir.
Vissulega hafa átök í Sýrlandi undanfarin ár kostað mörg líf og stökkt milljónum á flótta en það sem stefnir í núna er eitthvað af allt annarri stærðargráðu, og myndböndin eru byrjuð að streyma á netið. Þar má sjá menn dregna af bílum á eftir götu á meðan þeir eru lamdir með svipum. Þar má sjá vopnaða menn labba í gegnum þorp og skjóta þar óbreytta borgara sem hafa sér það eitt til sakar unnið að vera af annarri trú. Og allt þetta á meðan bráðabirgðaforsætisráðherra hvetur Sýrlendinga á flótta til að snúa aftur.
Bjuggust með við einhverju öðru?
Síðan hvenær hafa hryðjuverkasveitir hagað sér öðruvísi en hryðjuverkasveitir?
Það þarf ekki að styðja Assad til að vera á móti ástandinu eins og það er að þróast núna. Og þaðan af síður þarf ekki að trúa orði úr munni þeirra sem flæmdu Assad frá völdum.
En að við veljum okkur alltaf svona hlið - á móti þessu eða þessum (sem fellur að utanríkisstefnu Bandaríkjanna) og þar með hlynnt öllu sem er andstæða þess - er barnaleg afstaða sem leiðir til mannlegra hörmunga.
Aftur og aftur.
![]() |
Réttindi allra trúarhópa skulu tryggð í Sýrlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Dunkelflaute
Í dag er rafmagnsverð í hæstu hæðum í Danmörku - á slíkum hátindi að það jafnast á við rafmagnsverðið í upphafi 2022-2023 vetrarins vegna breytinga á gasframboði í álfunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
En af hverju núna?
Jú, það er skýjað og hægur vindur, eða það sem Þjóðverjar kalla dunkelflaute (myrkur-ládeyða).
Engin raforkuframleiðsla úr vind eða sól. það er hæð yfir hlutum Evrópu og áhrifanna gætir víða þar sem menn reiða sig á veðrið til að framleiða orku. Ekki náttúruna, sem hefur sinn gang yfirleitt, heldur veðrið, sem er síbreytilegt.
Fólki er sagt að fresta því að þvo föt, hlaða rafmagnsbílinn og jafnvel að reyna elda með bara einni hellu.
Til að bæta gráu ofan á svart er, í Danmörku, sérstakt aukagjald tekið á raforkudreifingu þegar fólk þarf mest á rafmagni að halda, frá kl. 17 til kl. 21. Þetta er til að draga úr raforkunotkun þegar börn þurfa kvöldmat, sjónvarpið og næturljós. Sannkallaður fjölskylduskattur.
En það er ljós í myrkrinu sem veðurorkan skilur eftir sig. Stóru olíufélögin ætla að halda áfram að gera það sem þau gera best, að finna og sækja olíu og gas, og setja þessi svokölluðu grænu verkefni ofan í skúffu, a.m.k. í bili. Fleiri og fleiri hafa opnað augum fyrir ágæti kjarnorku á meðan vindorkuáætlunum er blásið í burtu eða þær vekja engan áhuga.
Kannski það sé að fæðast eitthvað raunsæi - hver veit!
Auðvitað munu alltaf verða áframhaldandi orkuskipti. Þau gerast hægt og í takt við markaðslögmál (og stundum ríkisstyrki). Við þurfum meiri og meiri orku og leitum allra leiða til að finna hana.
En að ætla sér að fara í einhver róttæk orkuskipti á 20-30 árum, eða jafnvel 40-50 árum, er bara uppskrift að hamförum eins og reynslan sýnir núna oft á ári.
Það er bara hægt að hafna raunveruleikanum svo og svo lengi áður en hann bítur fast.
En því miður sjaldan mjög fast á þá sem boða óraunsæið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Kristnir í hakkavélina, eða hvað?
Ég ætla að taka undir með Jóni Magnússyni um að það er of snemmt að fagna valdaráni róttækra, íslamskra hryðjuverkamanna í Sýrlandi. Það sem er mögulega framundan núna er undirbúningur á þjóðarhreinsunum til að losna við hina mörgu ekki-múslíma í Sýrlandi (margir nú þegar byrjaðir að flýja land) og í sama mund innleiðing á sharía-löggjöfinni sem talíbarnar og aðrir slíkir eru svo þekktir fyrir. Nema það taka við löng borgarstyrjöld stríðandi hreyfinga eins og í tilviki Líbíu.
Hver veit? Ekki ég.
En Assad var vondi kallinn, ekki satt? Hann naut jú stuðnings Rússa!
Við þurfum því auðvitað að hafa neikvæða afstöðu til Assad. Hann var jú einræðisherra!
Flótti hans er auðvitað hið besta mál. Hann var jú þyrnir í augum Bandarikjamanna!
Ég ætla að leyfa mér að mæla með og jafnvel hrósa fréttaskýringu DV í þessu samhengi.
Og um leið hvorki að klappa né kvíða, í bili.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 8. desember 2024
Bíllaus lífsstíll og rúntað með ruslið
Ég bý í Kaupmannahöfn. Hérna er fólki sagt að flokka sorpið sitt í óteljandi flokka: Pappír, pappi, plast, rafmagnstæki, málmar, gler, rafhlöður, matarafgangar, hættuleg rusl (eins og þrýstibrúsar), afgangsrusl og ég er sennilega að gleyma einhverju. Stundum þarf að losna við stærri hluti eins og húsgögn.
En ég fer aldrei í bíl og keyri með rusl. Það er lítill skúr í nágrenninu þar sem íbúar nokkura bygginga fara með hinar ýmsu tegundir sorps, þar á meðal húsgögnin. Fagmenn koma svo að sækja.
Í þessum skúr er líka hægt að sækja poka fyrir matarafgangana.
Umbúðir með skilagjaldi losa ég mig við í næstu matvöruverslun.
Þegar ég átti einbýlishús í nágrenni Kaupmannahafnar voru sérstakir dagar þar sem allskonar framandi sorp var sótt - húsgögn, ísskápar, málningarfötur og þess háttar, og garðúrgangur að auki.
Óháð því hvað mér finnst um alla þessa flokkunaráráttu þá ætla ég að gefa sveitarfélaginu það að óþægindin vegna hennar eru lágmörkuð. Aldrei þarf ég að fylla bíl af sorpi og keyra bæinn á enda til að losna við það. Aldrei þarf ég að fara lengra en í næstu matvöruverslun (2 mínútna göngutúr) til að endurheimta skilagjaldið.
Berum þetta saman við sorphirðu í Reykjavík.
Fólk er sent í langa og tímafreka bíltúra með illa lyktandi poka, enda grenndargámarnir fullir.
Það er varla hægt að tala um sorphirðu í Reykjavík. Hún er a.m.k. að verða sífellt takmarkaðri, en auðvitað að hækka í verði.
Maður veltir því fyrir sér hvort þessi óþægindi fyrir venjulegt fólk séu skipulögð. Hvort það sé vegna hönnunar frekar en mistaka að sorphirða er að verða sífellt meiri baggi á fólki - tímafrekur og sífellt dýrari.
Eða er þetta bara vanhæfni?
![]() |
Mikil uppbygging í undirbúningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 4. desember 2024
Þetta með að útrýma fátækt
Í bók sinni A Conflict of Visions talar höfundur, Thomas Sowell, um tvær meginsýnir á samfélagið sem togast vissulega á en á grófan hátt er nothæft verkfæri til að skilja hvers vegna það eru oft sömu einstaklingar sem raðast sitthvoru megin við mismunandi og jafnvel gjörsamlega óskyld málefni.
Aðra sýnina kallar hann "the constrained vision", þar sem valið er aðallega á milli mismunandi "trade-offs" innan ákveðinna ramma hefða, réttinda, löggjafar og menningar, og hina sýnina kallar hann "unconstrained version", þar sem leitað er að "the solution" og ekkert getur staðið í vegi fyrir þeim, jafnvel ekki dómsfordæmi og stjórnarskrár. Til að leysa vandamálin þarf bara viljann til þess.
Þannig sjái þeir sem aðhyllast "unconstrained vision" ekkert því til fyrirstöðu að yfirvöld setji einfaldlega lög og reglur sem leysa vandamálið. Þessu fylgir gjarnan stuðningur við ýmis ríkisafskipti, svo sem lögbundin lágmarkslaun og ákveðna tekjudreifingu með valdi. Þeir í "constrained vision" sjá galla á þessu því með slíkum úrræðum verði einfaldlega til önnur vandamál, svo sem flótti frá verðmætasköpun og háum sköttum eða ýmis konar ófyrirséð eymd.
Mér verður oft hugsað til þessa einfaldaða verkfæris þegar ég sé stórar fyrirsagnir um stjórnmálamenn sem vilja eyða fátækt, efla menntakerfið og styrkja heilbrigðiskerfið. Það vantar bara að bæta við fjármagni og þessi vandamál eru leyst. Að þau hafi ekki verið leyst áður megi skrifa upp á nískupúka sem þora ekki að skattleggja auðmenn og lífeyrissjóði.
En auðvitað er svona tal alveg úr takt við raunveruleikann. Til að eyða fátækt þarf að auðvelda hagkerfinu að framleiða verðmæti sem ríkisvaldið sleppir því svo að ryksuga í hirslur sínar. Til að efla heilbrigðiskerfið þarf hvata og jafnvel markaðshagkerfi. Til að efla menntakerfið þarf að valdefla nemendur og foreldra, fleygja þykkum námsskrám í ruslatunnuna og taka út gæluverkefnin.
Með öðrum orðum: Það þarf að búa til réttu rammana og fólk finnur svo lausnirnar.
Að ætla sér að leysa öll heimsins vandamál með miðstýringu og sköttum er vond leið. Mikið af bótum býr til marga bótaþega sem verða síður launþegar. Háir skattar í nafni umhverfisverndar auka fátækt og draga úr svigrúmi í fjármálum fólks og fyrirtækja. Það verður ekkert leyst frá Alþingi eða ráðhúsunum - miklu frekar eiga slíkar stofnanir að koma sér úr veginum.
Viltu útrýma fátækt? Frábært! Það vil ég líka! En án þess að búa bara til önnur og jafnvel verri vandamál í leiðinni.
![]() |
Vill útrýma fátækt fari Flokkur fólksins í stjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 30. nóvember 2024
Ekki of seint
Ég vil gefa blaðamönnum eitt, og sérstaklega þeim hjá Morgunblaðinu: Frambjóðendur hafa neyðst til að segja frá raunverulegum skoðunum sínum í mörgum málum og ekki komist upp með að halda sig við slagorðin.
Þannig er búið að skola upp á yfirborðið raunverulegum viðhorfum þeirra til skattahækkana, Evrópusambandsins, rekstrarfyrirkomulags einyrkja og sjálfstætt starfandi og orkuframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.
Þetta hefur haft töluverð áhrif á skoðanakannanir í leitni sem skilar sér vonandi í kjörkassana. Það leit á tímabili út fyrir þung fjögur ár af blússandi skattahækkunum og flækjustigum, aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kröfum Evrópusambandsins og afsali fullveldis. Mögulega er sú sviðsmynd að breytast.
Nánast hvergi eru skattar hærri en á Íslandi. Þetta bitnar á öllu: Ráðstöfunartekjum heimila, fjárfestingahæfni atvinnulífsins, verðlagi.
Það vantar ekki meira í ríkissjóð eða hirslur sveitarfélaga ef því er að skipta.
Það vantar bara ábyrgð í fjármálin.
Það er ekki mörgum flokkum treystandi fyrir slíku. Nýlegt dæmi er fjármálaráðherratíð formanns Framsóknarflokksins. Þar var öllum áætlunum um hallalaus fjárlög ýtt lengra og lengra inn í framtíðina - þau yrðu ekki hallalaus undir slíkri stjórn þótt ráðherra fengi 50 ár til að lofa og svíkja.
Það er ekki hægt að treysta öllum flokkum fyrir landamærunum. Augljóslega eins og við höfum séð.
Og heldur ekki velferðarkerfinu sem á að þjóna, ekki drepa með biðlistum. Nokkuð sem kallar á aukinn einkarekstur, útboð og færri aðgangshindranir - landlæknisembætti sem lítur ekki á sig sem hagsmunasamtök útvaldra skjólstæðinga.
Það vantar þingmenn sem þora að tala gegn meginstefinu. Einhverja eins og Diljá Mist Einarsdóttur (Sjálfstæðisflokki) sem skrifaði greinar á hátindi veirutíma um að yfirvöld væru að seilast of langt til að forðast smit og búin að vera hamhleypa á þingi, eða Sigríði Andersen (Miðflokki) sem kaus ein þingheims gegn enn einum tilgangslausa sjóðnum, eða Jóhannes Loftsson (Ábyrg framtíð) sem barðist frá upphafi ákafar gegn veirutakmörkunum en nokkur maður og lætur svo sannarlega ekki traðka á sér, eða Arnar Þór Jónsson (Lýðræðisflokki) sem ætlar svo sannarlega ekki að sjá Íslendinga gefa frá sér fullveldið.
Slíkir þingmenn fást ekki ókeypis - einstaklingar eru á framboðslistum sem innihalda alltaf bland í poka og skoðanir allra þeirra geta líka verið bland í poka - en betra að fá þá inn en ekki. Og betra að fá slíkt bland í poka en poka sem inniheldur ekkert nema úldinn mat.
Þetta þarf varla að taka fram og skoðanakannanir benda til að margir hafi áttað sig og þá sérstaklega á endasprettinum. Ég er því bjartsýnn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)