Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 6. janúar 2025
Persónur og kerfi
Vegagerðin hyggst ekki svara nánar fyrirspurn um hvort eitthvað hafi verið hæft í orðum starfsmanns sem sagði bruðlað með fé í deild sem hann starfaði í hjá stofnuninni árið 2021. Vegagerðin metur málið sem svo að þarna sé um að ræða svör sem gætu verið persónugreinanleg.
Gott og vel. Ekki á að skola nöfnum upp á yfirborðið byggt á ásökun einni. Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.
En hvað átti sá sem varð vitni að mögulegri spillingu eða misnotkun á opinberu fé að gera annað en að segja eitthvað upphátt? Er hið opinbera með einhverja farvegi til að taka á fólki sem mokar fé í eigin vasa án heimildar? Ekki hef ég orðið var við slíkt.
Hver er þá valkosturinn? Að taka ekki á neinu? Það virðist líklegt. Ríkisstarfsmenn að verja ríkisstarfsmenn.
Nú eru auðvitað til fín kerfi eins og Opnir reikningar og upplýsingalög þar sem fyrirspurnir má senda en þeim ekki svarað. En þetta eru krókaleiðir.
Hér er komin prófraun. Ríkisstjórnin segist vilja stoppa í götin á baðkarinu svo vatnið flæði ekki hraðar úr því en við er búist í gegnum eitt niðurfall. Þetta er orðin hálfgerð spennusaga í raun. Hvað gerist núna? Verður tekið á þessu eina litla máli sem er orðið opinbert? Mun renna upp fyrir einhverjum að þetta eina litla mál er bara dæmi um kerfisbundna og víðtæka misnotkun á skattfé? Verður einhver dreginn til ábyrgðar eða halda allir sínum ávísanaheftum og titlum?
Ríkisstjórnin hafði kannski bara ætlað sér að fá nokkrar hugmyndir um sparnað en fékk í fangið heilt bræðralag opinberra starfsmanna sem soga til sín fé og launað frí á kostnað almennings og þarf núna að eiga við það.
Er við hæfi að poppa og fylgjast með sýningunni eða vitum við að útsendingu verður hætt fljótlega?
![]() |
Vegagerðin svarar ekki ásökunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 5. janúar 2025
Óskrifuð regla brotin
Allir sem eru ekki fæddir í gær vita að innan hins opinbera viðgengst gengdarlaus sóun sem jaðrar stundum við spillingu. Menn skrifa á sig aksturs- og dagpeninga, kaupa út á kennitölur, fá aðra til að stimpla sig út (hef sjálfur gert slíkt fyrir samstarfsmann á mínum stutta tíma hjá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir meira en 20 árum síðan), og svo auðvitað þetta óbeina tap sem felst í að starfsmenn mæta ekki eða vinna ekki þegar þeir mæta. Setja bara jakkann á stólbakið og fara svo að sinna eigin erindum.
En það hefur verið óskrifuð regla að tala ekki upphátt um þetta. Svona er þetta bara! Nú fyrir utan að ég veit ekki til þess að menn geti komið ábendingum nafnlaust áfram og hvað þá þannig að menn viti að tekið er alvarlega á slíkum ábendingum. Er opinber starfsmaður virkilega að fara taka fyrir mál annars opinbers starfmanns af einhverri festu? Bræðralag opinberra starfsmanna er vafalaust vegið hærra en einhverjar milljónir hér og þar af fé annarra.
Ekki veit ég hvað varð til að bræðralagið var svikið. Kannski var einfaldlega gengið lengra en venjulega og þá fannst einhverjum nóg komið. En það mun koma mér mjög á óvart ef þessu verði fylgt eftir svo máli skiptir innan opinbers rekstur sem er ekki einu sinni fullvissa um hvað margir vinna við.
En gaman á meðan umræðan endist.
![]() |
Sakar yfirmann hjá Vegagerðinni um fjárdrátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. janúar 2025
Leiðir til að sökkva samfélagi, eða forðast það
Ég hlustaði nýlega á samtal Björns Jóns Bragasonar og Þórarins Hjartarsonar á hlaðvarpinu Ein pæling, og það var gott. Þarna eru tveir hugsandi menn að ræða djúpstæð vandamál við íslenskt samfélag sem þeim um leið þykir svo vænt um. Þeir fara dýpra en það sem fyllir huga okkar frá degi til dags, og ég leyfi mér að segja að ég sé sammála þeim báðum um allt sem þeir sögðu í þessu samtali. Sannarlega samtal sem ætti að taka víðar og lengra.
Þetta minnti mig um leið á að við fáum ekki endilega nauðsynlegt hráefni til að hugsa út frá með neyslu á hefðbundnum fjölmiðlum. Fjarri því. Ég tek lítið dæmi: Hugleiðingar Russel Brand, (yfirlýstir vinstrimaður svo því sé haldið til haga) um ástandið í Úkraínu. Á 10 mínútum sprautar hann inn í huga manns allskonar hliðum málsins sem við fáum varla að sjá.
Lærdómur minn? Að það sé nauðsynlegt að afla sér skoðana og upplýsinga frá mörgum uppsprettum til að geta myndað sér eigin, upplýstu, skoðun. Skoðanir sem eru eingöngu byggðar á þessum hefðbundnu fréttamiðlum er hægt að koma auga á mjög fljótt. Þar er heimurinn svart-hvítur og fellur vel að utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það getur vel verið að þú sért sammála því að skattar, utanríkisstefna Íslands og öll áhersla í skoðanamyndun eigi að falla fullkomlega að utanríkisstefnu Bandaríkjanna, en kannski ekki. Og hvernig veistu það? Þú stígur út fyrir rammann, ef þú nennir.
Það er auðvitað engin kvöð á þér að mynda þér upplýsta skoðun, eða eigin skoðun hvort sem hún er upplýst eða ekki. Þú kýst jú fulltrúa og treystir á blaðamenn, ekki satt?
Þú veist þá væntanlega að þú ert að tortíma loftslagi Jarðar með tilvist þinni og lífsháttum, og að eina vandamál heimsins eru nokkrir vondir kallar í Asíu, Miðausturlöndum og Asíu sem dansa ekki í takt, ekki satt?
En hafir þú áhuga á hlið sem er önnur og vissulega til þá vona ég að við getum átt samtal. Og nei, það þýðir ekki að þú gerist Pútín-sleikja eða kynþáttahatari og afneitar vísindum. Þvert á móti. Þú byrjar kannski að hata minna og elska meira. Væri það ekki eitthvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 2. janúar 2025
Sýndarmennska en skemmtileg samt
Ríkisstjórnin biður nú almenningi að senda inn tillögur um hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana inn á samráðsgátt.
Þetta er mögulega bara sýndarmennska. Til að hagræða í raun er ekki nóg að sameina stofnanir og færa fólk á milli. Nei, það þarf hreinlega að taka verkefni af hinu opinbera og annaðhvort einkavæða framkvæmd þeirra eða hætta með öllu að sinna þeim. Afnema eyðublöð og leyfi fyrir hinu og þessu, hætta með öllu að sinna einhverju sem er sinnt í dag.
Snúa aftur til fyrri tíma sem var einu sinni lýst svo vel í viðtali:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Skipta út tíu manns sem fara yfir umsóknir og gefa út leyfi og leysa af með einum eftirlitsmanni, og bíl. Þannig tókst Reykvíkingum að byggja upp Grafarvoginn á mettíma, og hann stendur enn.
Og telur einhver að hið opinbera muni í raun og veru segja upp hundruðum opinberra starfsmanna til að hagræða? Auðvitað ekki.
En auðvitað má ganga lengra. Hætta að gefa út aðalnámskrá fyrir skólastigin og leyfa skólastjórum og kennurum að velja námsefni fyrir börnin. Er þetta ekki sprenglært fagfólk í skólunum sem ríkið er búið að kenna allt sem kunna þarf og gefa út gráður í kjölfarið? Það ætti að vita betur en einhver möppudýr innan ráðuneytis.
Hið opinbera gæti líka dregið í auknum mæli úr beinum framlögum til skóla og spítala og eyrnamerkja í staðinn fé til hvers nemenda eða sjúklings og leyfa skólum, heilsugæslustöðvum og slíku að keppa, í samkeppnisumhverfi, um peningana. Eitt símtal til Svíþjóðar til að fá tilbúna framkvæmdaáætlun fyrir slíkt.
Hérna er íslensk reynsla af liðskiptiaðgerðum líka verðmæt. Slíkar aðgerðir kosta minna en þær framkvæmdar á ríkisspítölunum þótt skurðstofurnar séu svipaðar og bæklunarskurðlæknarnir jafnvel þeir sömu í báðum tilvikum.
Hið opinbera gæti svo hringt til Sviss og spurt hvernig einu ríkasta hagkerfi heims tekst að fjármagna sig á töluvert lægri sköttum en Norðurlöndin. Stjórnmál eru svo fyrirferðalítil í Sviss að ég skora á hvern sem er að finna frétt um þau. Mér tókst það ekki um daginn. Ekkert nema viðskiptafréttir og slíkt.
Með nægjanlegri hagræðingu gæti ríkisvaldið mögulega komist af án allra grænu skattanna sem eins og allir vita renna bara í gæluverkefni og vitleysu en ekki á neinn hátt í raunveruleg umhverfismál. Skattarnir eru grænir af því það er liturinn á fimmþúsundkallinum, ekki af því þeir þjóna náttúrunni.
Kannski er um sýndarmennsku að ræða en hún sýnir þá eitt mjög vel og það er að hið opinbera hefur ekki hugmynd um það hvar peningar fossa ofan í holræsakerfið. Hressandi hreinskilni það, sama hvað.
![]() |
Biðja almenning um tillögur um hagræðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 2. janúar 2025
Er þá ekki hægt að lækka skatta?
Árið 2024 var það kaldasta á þessari öld á Íslandi að sögn veðurfræðinga og rímar eflaust ágætlega við upplifun fólks þegar það keyrir í gegnum snjóskafla og horfir á borgarísjaka út um stofugluggann hjá sér.
Okkur er að auki sagt að þetta sé þveröfugt við stöðuna á jörðinni allri þar sem leiddar hafa verið að því líkur að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar.
Hlýjasta ár sögunnar, hvorki meira né minna! Hlýrra en þegar afkomendur norrænna manna héldu úti sauðfjárbúskap á Grænlandi. Hlýrra en þegar Rómverjar ræktuðu vínber í Englandi. Hlýjasta ár sögunnar!
En óháð því hvort hitastigið breytist upp eða niður þá færð þú að borga brúsann. Það ef nefnilega eitthvað sem þú - já þú! - getur gert til að hreinlega breyta veðrinu. Já, breyta veðrinu!
Þú getur látið taka af þér bílinn, kjötið, ferðalögin, umbúðirnar, plaströrin og innflutning frá Kína og stuðlar þannig að því að veðrið breytist. Já, að hugsa sér! Veðrið breytist! Er það ekki alveg magnað?
Þú getur látið meira og meira af launatekjum þínum renna í hina og þessa sjóði, í að byggja vindmyllur og moka ofan í skurði, og veðrið breytist. Já, þú last rétt! Veðrið breytist!
Það mun hlýna minna, eða kólna hraðar, eða öfugt, eða hvað það nú er sem þarf að breytast eða breytast hægar eða breytast ekki.
Er þetta ekki alveg ótrúlegt?
Ekki spá í því að Kínverjar byggja eins og eitt og jafnvel tvö kolaorkuver á viku, í hverri viku, og Indverjar eitthvað svipað. Það hefur engin áhrif á veðrið. En að þú hafir bíl til umráða er vandamálið og þú getur leyst það með því að láta taka af þér bílinn, eða eldsneytið. Þannig breytir þú veðrinu og plánetan þakkar fyrir sig.
Og auðvitað stjórnmálamennirnir.
Takk fyrir að stuðla að breyttu veðri. Eða heldur þú að það finnist verðugri markmið?
![]() |
Árið 2024 kaldasta ár aldarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 31. desember 2024
Ónei, ekki meira af þessum þungu áhyggjum
Georgía er lítið land, klemmt á milli Rússlands í norðri og Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklands í suðri. Þetta er sögufrægt land og þar er að finna margar menningarsögulegar gersemar. Vegna legu sinnar sem eins konar hlið á milli norðurs og suðurs við austanvert Svartahafið er sennilega ómögulegt að vita hvað erlendar hersveitir hafa farið oft um landið, og vitanlega eru stjórnmál í ríkinu lituð af valdabrölti nágrannanna á svæðinu.
En þegar utanríkisráðherra Íslands er farinn að lýsa yfir þungum áhyggjum af niðurstöðum kosninga í Georgíu þá er erfitt að komast hjá því að brosa. Það er nákvæmlega ekkert við niðurstöður slíkra kosninga sem hefur nokkur áhrif á hagsmuni Íslendinga, ekki frekar en þegar yfirvöld í Aserbaídsjan ákváðu að senda hersveitir sínar inn í hérað byggt Armenum og stökkva þar yfir hundrað þúsund íbúum á flótta, að því er virðist án sömu þungu áhyggna íslenskra yfirvalda. Annað sem virðist ekki valda íslenskum yfirvöldum áhyggjum er afnám lýðræðis í Úkraínu, en forsetinn þar telur víst ekki heppilegt að endurnýja umboð sitt frá kjósendum á meðan milljarðarnir streyma inn í hirslur hans.
Það er eitt að alþjóðlegar stofnanir myndi sér skoðun á kosningafyrirkomulagi og leggi til leiðir til úrbóta. En að utanríkisráðherra Íslands sé með þungar - já þungar! - áhyggjur af einhverju einu en ekki öðru eftir því hvað fellur að utanríkisstefnu Bandaríkjanna er svolítið innantómt og óeinlægt.
Íslendingar ættu að líta sér nær með sínar þungu áhyggjur. Kannski áherslum íslenskrar utanríkisþjónustu sé betur varið í að efla tengslin við ríkin við Norður-Atlantshaf, svo sem Færeyjar, Grænland og Noreg. Setja svolítið púður í að læra af þessum nágrönnum okkar. Læra að standa í lappirnar gegn Evrópusambandinu eins og Færeyingar, og kannski að læra af þeim hvernig er hægt að bæta samgönguinnviði án þess að setja allar framkvæmdir á áratugalanga biðlista. Læra af Grænlendingum hvernig er hægt að breyta sorpi í orku. Læra af Norðmönnum hvernig má breyta auðlindum undir hafsbotni í peninga.
Áhyggjur og áherslur utanríkisráðherra ættu kannski frekar heima við það sem er í raun utan við Ísland en ekki í litlu og fjarlægu ríki sem er og mun alltaf verða klemmt á milli ríkja í valdabaráttu.
Jafnvel þótt bandarísk yfirvöld hafi aðrar áhyggjur og hafi skilgreint önnur forgangsatriði en nákvæmlega þau sem íslensk þjóð ætti í raun að hafa.
Bara hugmynd.
![]() |
Lýsa þungum áhyggjum af ástandinu í Georgíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 30. desember 2024
Seinfeld-prófið
Eins og komið hefur fram í óteljandi skipti á þessum vettvangi þá ólst ég upp við að horfa á Seinfeld-þættina (1989-1998) og hef raunar horft á þá allar götur síðan (og fagnaði ákaft þegar þeir urðu aðgengilegir á Netflix). Mér fannst og finnst þetta vera besta skemmtiefni sem sjónvarp hefur nokkurn tímann framleitt. Þar er ekki vottur af pólitík en allt troðfullt af viðfangsefnum sem margir líta á sem pólitísk. Þar er ekki boðuð nein sérstök hugmyndafræði heldur er gert grín að flestu mannlegu.
En það er vandamál. Mörgum finnst þættirnar ekki hafa elst vel. Þar sé ekki nógu mikil fjölbreytni. Þar séu óviðeigandi brandarar.
Og gott og vel. Tímarnir breytast og það sem þótti einu sinni í lagi þykir það kannski ekki í dag. Fólk hafi tilfinningar og þær verða sífellt næmari og er þá ekki sjálfsagt að að aðlaga sig að því?
Það má vel vera en um leið getur verið að slíkt hugarfar sé leiðin til glötunar. Lof mér að leggja fyrir ykkur kæru lesendur það sem ég vil kalla Seinfeld-prófið. Það felst í því að horfa á lítið atriði úr Seinfeld (hér að neðan) þar sem ég bið þig um að fylgjast með viðbrögðum þínum.
Ég er þá ekki að meina hvort þér finnst atriðið fyndið eða ófyndið heldur hvort þú fyllist hneykslun og blöskri við atriðinu. Teljir að það eigi alls ekki heima í nútímasamfélagi. Eigi jafnvel að banna!
Gjörið svo vel:
Þú þarft ekki að skrásetja viðbrögð þín sérstaklega í athugasemd. Ég bið þig bara um að skrásetja þau í þínu eigin höfði. Ef þetta var of mikið fyrir þig þá veistu að þú tilheyrir hópi viðkvæmra blóma sem geta sem betur fer fundið sér aðra afþreyingu en Seinfeld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 29. desember 2024
Þegar Múhammeð verður vinsælasta nafnið á Íslandi
Í áhugaverðum pistli spyr höfundur beittrar spurningar og bætir við umhugsunarverðri athugasemd:
Með núverandi innflytjendahlutfall á Íslandi stendur þjóðin frammi fyrir þeirri hættu að verða minnihluti í eigin landi innan fárra áratuga.
Hvers vegna er þetta ekki opinská og siðleg umræða? Hvers vegna er öllum umræðum um þetta tilvistarlega mál bæld?
Nýafstaðnar kosningar skutu þessu algjörlega undan og fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.
Síðar bætir hann við:
Hugleiðið Bretland, þar sem nafnið Muhammad er nú vinsælasta drengjanafnið.
Ef fer sem horfir er ekki spurning um það hvort vinsælasta drengjanafnið á Íslandi verði nafn sem við köllum í dag erlent, heldur hvenær. Eins og höfundur rekur í grein sinni þá þarf fjölgun útlendinga bara að vera 2-3 prósentustigum meiri en fjölgun Íslendinga til að Íslendingar verði orðnir að minnihluta íbúa á Íslandi innan mannsaldurs.
Það þarf ekkert að eyða púðri í staðreyndirnar - þær eru eins og þær eru og segja okkur að verið er að skipta um þjóð á Íslandi. Það sem ber að eyða púðri í er að ræða hvort þetta sé viljandi verk eða óviljandi - gert af ásetningi eða óvart af einhvers konar manngæsku.
Víða í Evrópu eru innfæddir að vakna upp við vondan draum. Heilu hverfin orðin að framandi samfélögum með eigin löggjöf og eigin dómstóla. Í Danmörku, þar sem ég bý, er byrjað að spyrna hressilega við fótum (jafnaðarmanna). Nýlegar kosningar víða benda til þess að almenningur sé búinn að fá nóg af útþynningu eigin menningar og tungumáls. Stjórnmálamenn hafa ekki hlustað og fjölmiðlar eru ennþá frekar rænulausir. En raunverulegar breytingar byrja aldrei hjá yfirvöldum. Þær byrja í huga okkar borgaranna.
Hvað finnst þér um að verið sé að skipta um þjóð á Íslandi? Hlynntur eða andsnúinn? Þetta er fyrsta spurningin sem allir þurfa að spyrja sig að. Síðan má hefja umræðuna um kosti og galla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 29. desember 2024
Það besta er að fresta
Á árinu sem senn er liðið tilkynnti lýðræðissinninn, forsvarsmaður mannréttinda, skoðana- trúfrelsis og Evrópusinninn í forsetastól Úkraínu því yfir að engar kosningar yrðu haldnar um hans dvöl í embætti á meðan honum fyndist það ekki við hæfi.
Á sama ári lagði kanslari Þýskalands fram vantrauststillögu á sjálfan sig fyrir þýska þingið.
Þetta lýðræði getur verið allskonar. Sumir nýta það til að fá umboð, aðrir nota það eins og verkfæri til að ná fram eigin markmiðum eða verja eigin stól.
Stundum snýst það um að verja völd þeirra kjörnu gegn atkvæðum þeirra ókjörnu. Stundum er fólkinu leyft að ráða aðeins. En bara aðeins.
Hér verður því ekki haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé ólýðræðisleg stofnun. Raunar er hann hið gagnstæða. Hann hefur yfirleitt haldið fast í prófkjörin svo dæmi sé tekið, þar sem flokksmönnum gefst tækifæri til að hreinsa út alla með sterka hugmyndafræði (miðað við reynsluna seinustu ár), og þar með grafið undan vinsældum flokksins hægt og bítandi og á síðari tímum hratt og örugglega.
En lýðræðið snýst jú um að leyfa þeim óbreyttu að ráða, og það er gott og vel.
Ég furða mig samt á tali Sjálfstæðismanna um að fresta landsfundi. Ein af ástæðunum sem er nefnd er sú að landsfundur eigi að liggja nálægt kosningum því þá kemur nafn flokksins svo oft fram í fyrirsögnum og laðar að sér kjósendur. Ég hef aldrei keypt slík áhrif landsfunda. Eins og greining Metils gefur til kynna þá hafa fyrirsagnir frá degi til dags kannski minni áhrif en menn telja - úrslitin eru mögulega miklu frekar háð því hvað forystumenn flokkanna boða í raun og hvernig þeir hafa staðið sig mánuðina á undan.
Um leið blasir við að forystu Sjálfstæðisflokksins þarf annað hvort að endurnýja eða að hún þurfi að endurnýja umboð sitt. Það er ennþá nóg af hæfileikafólki innan flokksins sem vill mögulega gefa kost á sér og leyfa flokksmönnum að taka afstöðu. Persónulega sé ég ekki hvaða erindi núverandi ritari og núverandi varaformaður eiga í forystu flokksins - ritarinn er svo gott sem ósýnilegur í umræðunni og varaformaðurinn með það afrek helst á bakinu að hafa lokað sendiráði, að því er virðist án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann.
Í ljómandi góðri grein Björns Jóns Bragasonar er rifjað upp fyrra þurrkartímabil flokksins:
Nú þegar stefnir í að sjálfstæðismenn verði utan stjórnar er fróðlegt að rifja upp að aðeins hefur það tvisvar áður hent að flokkurinn hafi hvort tveggja í senn verið utan ríkisstjórnar og meirihluta borgarstjórnar, en það var árin 19781982 og 20102013. Í kjölfar ófara flokksins 1978 voru skipaðar nokkrar nefndir og ráðist í umfangsmikla sjálfsskoðun. Eftir á að hyggja má telja að flokkurinn hafi hugmyndafræðilega gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfarið og víst er að hann náði vopnum sínum. Sannast þar hið fornkveðna að hinn spaki minnkar ekki / þótt hann verði var við sína villu líkt og Sófókles lætur Hemon komast að orði í Antígónu. Hið sama þarf að gerast nú og gert var 1978: Sjálfstæðismenn verða að hverfa til upprunans, hyggja að grunnstefnu flokksins og hlýða á rödd hins almenna flokksmanns.
En fyrst þarf að biðja flokksmenn um afstöðu sína til forystunnar hefði ég haldið.
![]() |
Skiptir mestu að koma málefnalega sterk af landsfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. desember 2024
vísindi og Vísindin - tvennt ólíkt
Enn og aftur sést orðið grímuskylda skjóta upp kollinum í samhengi við sóttvarnir. Sem sagt, ekki sem aðferð til að stöðva stóra munndropa heldur sem aðferð til að stöðva veirur sem hanga í loftinu.
Þvert á vísindin, en að fullu samræmi við Vísindin.
Þetta segja vísindin:
Samanborið við að vera ekki með grímu getur það að vera með grímu haft lítil eða engin áhrif á hversu margir fengu flensulíka sjúkdóma (9 rannsóknir; 3507 manns); og líklega hefur það engin áhrif á hversu margir hafa fengið staðfesta flensu með prófunum á rannsóknarstofu (6 rannsóknir; 3005 manns). Óæskileg áhrif voru sjaldan tilkynnt, en þar á meðal voru óþægindi.
**********
Compared with wearing no mask, wearing a mask may make little to no difference in how many people caught a flu-like illness (9 studies; 3507 people); and probably makes no difference in how many people have flu confirmed by a laboratory test (6 studies; 3005 people). Unwanted effects were rarely reported, but included discomfort.
Hvað segja Vísindin? Þessi sem græða stórfé á að selja okkur gagnslaus og jafnvel lífshættuleg lyf og þrífast á því að við óttumst sem mest? Þau segja eitthvað annað.
Grímuskylda á spítala er kannski ekki stórt atriði í sjálfu sér en er um leið einkenni á stóru vandamáli - því að heilbrigðisyfirvöld halda áfram að gefa út gagnslaus ráð sem eiga kannski fyrst og fremst að senda skilaboð frekar en gera eitthvað uppbyggilegt eða fyrirbyggjandi.
Og þá er freistandi að spyrja sig: Hvaða fleiri blekkingar lifa ennþá góðu lífi innan heilbrigðiskerfisins? Frá ráðleggingum um mataræði til fyrirbyggjandi aðgerða gegn lífsstílssjúkdómum? Þegar traustið er farið, hvað er þá eftir?
Held því til haga að ég hef tröllatrú á læknum þegar þeir þurfa að skera upp, laga eitthvað brotið og fjarlægja eitthvað rotið, rétt eins og ég treysti vélvirkjum á bílaverkstæði alveg ljómandi vel. En í lýðheilsu, fyrirbyggjandi aðgerðum og sóttvörnum er traustið farið.
![]() |
Taka upp grímuskyldu á Landspítalanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |