Mánudagur, 23. september 2024
Óska eftir því að fólk tali á íslensku á Íslandi
Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, nemi við Háskóla Íslands, segir þó nokkuð bera á fordómum á Íslandi. Hún segist ítrekað hafa verið kölluð api og fólk jafnvel gelt eða urrað á hana úti á götu.
Þetta var leitt að lesa, en kemur ekki á óvart. Miðað við lítið viðtal við Hrafnhildi þá er þarna á ferð dugleg, metnaðarfull, drífandi og klár ung kona sem á skilið virðingu og hrós. Fólk sem kallar annað fólk apa ætti að líta í spegil, svo það sé sagt.
Eitt er það svo sem Hrafnhildur segir sem mér finnst athyglisvert:
Mér finnst ég ekki biðja um mikið þegar ég óska eftir því að fólk tali á íslensku á Íslandi,
... og er hún væntanlega að meina þá sem hyggjast búa og starfa á Íslandi í einhvern tíma, jafnvel varanlega, en ekki ferðamenn og ráðstefnugesti og slíkt.
Já, er það ekki? Var svona erfitt að segja þetta?
Kannski verður Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, nemi við Háskóla Íslands og ættleitt dóttir Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, bráðum kölluð hægriöfgamaður, og jafnvel fasisti og nasisti og rasisti. En ef ekki, frábært! Þá geta aðrir sagt það sama og Hrafnhildur án þess að hætta á að einhver smelli á þeim þessa algengu stimpla sem margir munda svo gjarnan.
Væri það ekki hressandi?
Gelt og urrað á Hrafnhildi: Ég hef verið kölluð api þrisvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 21. september 2024
(Dular)gervigreindin
Mikið er rætt og skrifað um hin svokölluðu orkuskipti sem þurfa að eiga sér stað til að forða heiminum frá því að stikna, eða frjósa, eða verða teppalagður af bæði úrhelli og skógareldum, jafnvel á sama tíma.
Þessi orkuskipti eru þegar á heildina litið samt ekki að eiga sér stað og það gerir ekkert til. Fyrir því eru margar ástæður en sú stærsta er kostnaður. Mikil áform um stór og græn orkuveru eru sett ofan í skúffu, og á fyrirlestrum er einfaldlega byrjað að spyrja: Hvar er allt vetnið?
Þetta er of dýrt og óáreiðanlegt og enginn er tilbúinn að hætta fé sínu í ævintýrið, nema auðvitað stjórnmálamenn sem hætta fé skattgreiðenda.
Það er því freistandi að velta fyrir sér hvernig er hægt að hagnast á fyrirsjáanlegu hruni í öllum þessum áætlunum um að koma mannkyninu út úr jarðefnaeldsneyti, og kannski að ráðfæra sig við gervigreindina.
Bíddu nú við, fékk ég þarna einhverja siðferðislega pillu? Ábendingu um að ég sé að stofna samfélaginu og umhverfinu í hættu? Já, heldur betur. Í kjölfarið koma loðin meðmæli um að auka fjölbreytni í eignasafninu með kaupum á hlutabréfum og ýmsu öðru.
En hvað ef ég vill henda fé mínu á eftir orkuskiptunum? Þá er tónninn annar!
Frábær hugmynd, segir gervigreindin, og afhjúpar þar með gervið sem hún er í: Greind í dulargervi pólitískra aðgerðasinna. Í kjölfarið birtist langur listi yfir fyrirtæki og sjóði sem sérhæfa sig í grænum fjárfestingum og framkvæmdum. Ekkert loðið á ferð þar.
Ég var spurður um daginn:
Og hverjum á þá að treysta? Engum? Hvar finnum [við] réttar upplýsingar? Hvernig er hægt að uppræta rangar upplýsingar?
Það er ekkert einfalt svar við þessu nema það að tileinka sér gagnrýnið hugarfar og vega og meta það sem sagt er, og þá sérstaklega ef það kemur úr svörum gervigreindar, hvort sem hún er stafræn eða klædd í líkama prófessors við Háskóla Íslands eða sjónvarpsfréttamanns hjá RÚV eða Stöð 2.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 21. september 2024
Um samkynhneigða og rússnesk olíuflutningaskip
Segjum sem svo að þú sért samkynhneigður einstaklingur í vestrænu ríki, t.d. Íslandi. Lögin mismuna þér ekki fyrir samkynhneigð þína. Þú mátt eiga og kaupa, gifta þig, stofna til skulda og ættleiða barn. Eini munurinn á þér og gagnkynhneigðum einstaklingi er sá að þú stofnar til sambands með einstaklingi af sama kyni og þú, en sá samkynhneigði ekki. Nú fyrir utan að þurfa aðstoð utan við samband þitt til að gerast foreldri, en það er minniháttar atriði.
En finnst þér engu að síður eins og það eigi að fleygja þér fram af húsþaki vegna samkynhneigðar þinnar? Grýta þig til dauða?
Nei auðvitað ekki. Þér finnst ekki eins og löggjöf Íran eða Palestínu eigi að ná til þín og finnst jafnvel að yfirvöld í Íran og Palestínu eigi að breyta eigin lögum svo þau feli ekki í sér að samkynhneigðum megi fleygja fram af húsþökum.
Þú hafnar jafnvel lögmæti slíkrar löggjafar þótt hún sé svo sannarlega löggjöf á sama hátt og vestræn löggjöf: Lög samin af löggjafarvaldi ríkis eða svæðis.
Auðvitað er til eitthvað sem menn kalla lög sem ná til alls heimsins. Allskyns sáttmálar og þess háttar og aðild að hinum og þessum samtökum sem ætlast til ákveðinna hluta af meðlimum sínum. En það breytir því ekki að fullvalda ríki geti sett eigin lög og sett þau ofar slíkum alþjóðlegum samningum. Ef Sameinuðu þjóðirnar hafna lögmæti þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum þá geta yfirvöld í Íran kært sig kollótt. Þau framfylgja eigin lögum, ekki annarra.
Þetta er auðvitað að sumu leyti skítt, eins og í tilviki þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum eins og menn hafa lengi stundað í ákveðnum heimshlutum. En líka gott. Tökum fóstureyðingar sem dæmi. Á Íslandi gilda um þau íslensk lög en ekki þýsk eða pólsk. Séu Íslendingar ósáttir við þau lög þá geta þeir breytt þeim án þess að fara á hnén fyrir framan franskan forseta eða bandarískan sendiherra.
En aðeins að öðru, en þó skyldu atriði: Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á rússnesk olíuviðskipti. Vesturlönd vilja reyna stöðva slíka viðskipti eða minnka umsvif þeirra en gengur lítið. Rússnesk skip sigla í hundruðatali með olíu til margra heimshorna.
En eru þau þá ekki að gerast brotleg við viðskiptaþvinganir Vesturlanda? Nei, af því þau eru ekki í viðskiptum við vestræn ríki og viðskiptaþvinganir þeirra ná því ekki yfir þau.
Svona rétt eins og samkynhneigðir á Íslandi hafna því að írönsk og palestínsk löggjöf nái til þeirra (nema þeir ferðist til Íran eða Palestínu á eigin ábyrgð, en það heyrist lítið um slík ferðalög).
Það mætti því segja að samkynhneigðir Íslendingar séu að beita sömu nálgun og rússneskt olíuskipafélag: Að neita að beygja sig undir lög eða fyrirmæli aðila sem koma þeim einfaldlega ekkert við.
Er það ekki skemmtileg samlíking?
Fimmtudagur, 19. september 2024
Tekjulind fyrir leikskóla: Veiruboð
Margir eru ennþá skemmdir eftir veirutíma. Ástæðan er ekki veiran sem allir óttuðust heldur aðgerðirnar sem áttu að forða fólki frá veirunni.
Grímur, spritt, fjarlægð, einangrun.
Engin faðmlög, handabönd, snertingar á skítugum flötum.
Fyrir utan sprauturnar hafa þessar aðgerðir allar haft stórkostlega skaðleg áhrif á ónæmiskerfi margra, jafnvel allt til dagsins í dag. Ég var að vinna með einum ungum og almennt hraustum manni sem fór í kjölfar veirutíma allt í einu að veikjast á nokkra mánaða millibili og játaði upphátt að hann skildi ekkert í þessu. Ekki löngu áður hafði hann verið að spyrjast fyrir um þriðju sprautuna. Hann er eflaust dæmigerður fyrir marga.
Hvað er því til ráða?
Jú, auðvitað það að fara í öfugar sóttvarnaraðgerðir: Að forðast ekki fleti en þess í stað sprittið. Að gleðjast við að heyra einhvern hósta eða hnerra nálægt sér frekar en að stökkva ofan í næsta skurð og halda fyrir munn og nef.
Og hverjir bjóða upp á allar nýjustu veirurnar í sem mestri samþjöppun?
Jú, leikskólar.
Og þar fæðist viðskiptahugmyndin.
Leikskólar gætu mögulega selt aðgang að rými sínu og leyft fólki að koma inn í þau og anda að sér öllum veirunum og snerta öll leikföngin og handföngin.
Fólk færi heim með nýjustu veirurnar og leyfir líkamanum að takast á við þær. Eftir mögulega smávegis veikindi er líkaminn tilbúinn í veturinn og framleiðir ekki hordropa svo mánuðum skiptir.
Var ekki talað um örvunarsprautur á veirutímum? Náttúrlega leiðin er að fá sér örvunarveirur og uppfæra ónæmiskerfið.
Nú er ekki víst að leikskólar megi hafa slíkar sértekjur, sem myndu þó óneitanlega hjálpa þeim að halda dyrunum opnum fyrir börnum. En oft hefur lögum verið breytt af minna tilefni.
Er eftir einhverjum að bíða?
Miðvikudagur, 18. september 2024
Myndin sem verður ekki hunsuð
Um helgina var opnað í nokkrum kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum á sýningar á myndinni Am I Racist? og lenti hún þar í 4. sæti á miðasölulistanum. Ég hef fylgst nokkuð með aðdragandanum að þessari frumsýningu og séð mörg sýnishorn úr myndinni og leyfi mér að segja að umfjöllunarefnið er vægast sagt eldfimt í pólitísku landslagi dagsins í dag, eins og titillinn gefur væntanlega til kynna. Þetta er einhvers konar heimildamynd, ádeila og rannsóknarblaðamennska, allt í einum graut (e. mockumentary).
Vitaskuld mun ég horfa á þessa mynd við fyrsta tækifæri rétt eins og fyrri mynd sama höfundar, Whats is a Woman?, sem var geggjuð. En ég vildi benda á nokkuð annað.
Rotten Tomatoes er vefsíða sem tekur saman viðbrögð fólks og gagnrýnenda við kvikmyndum og þáttum. Þeir flokka umfjallanir í jákvæðar og neikvæðar og birta svo hlutfall jákvæðra umfjallana. Það þykir gott að fá háa prósentu hjá Rotten Tomatoes, hvort heldur hjá gagnrýnendum og almennum áhorfendum þótt stundum skilji mikið á milli.
Það hefur verið bent á að ekki ein einasta gagnrýni gagnrýnenda hefur borist Rotten Tomatoes ennþá, en yfir 1000 sannreynd viðbrögð frá áhorfendum, og 99% þeirra ánægðir með myndina.
Þetta er óvenjulegt. Önnur mynd sem var líka frumsýnd um helgina hefur fengið yfir 170 umfjallanir gagnrýnenda. Það er dæmigert. Algjör þögn ekki.
Sem færir mig að því sem sumir munu eflaust kalla samsæriskenningu en ég kalla samsæri sem er engin kenning: Það á að reyna þagga niður í myndinni. Fjölmiðlar þora ekki að koma nálægt henni með löngu priki því þá neyðast þeir til að taka afstöðu og reyna að afneita allskyns hlutum sem eru augljóslega sannir.
Það vilja þeir auðvitað ekki.
Auðvitað hefur víða verið fjallað um myndina [1|2|3], en ekki í þeirri sundlaug sem Rotten Tomatoes sækir gagnrýni sína úr. Er það kannski hið forvitnilega?
Þeir sem hafa náðasamlegast fjallað um myndina lenda í hótunum. Hver vill lenda í hótunum? Fáir hafa bein í slíkt.
Eitt er víst: Hérna er á ferðinni "must see", eða skylduáhorf, og bíð ég spenntur eftir tækifæri til að kaupa aðgang. Mun ég þá passa mig á að vera ekki að borða poppkorn á meðan á áhorfi stendur vegna köfnunarhættu í hlátursköstunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 17. september 2024
Samfélagsmiðlar án samfélags
Vissir þú að þú ert heilaþveginn af rússneskum fjölmiðlum? Og jafnvel orðinn að strengjabrúðu Pútíns án þess að gera þér grein fyrir því?
Sennilega ekki, og ekki ég heldur. En það er víst raunin. Vegna rússneskra fjölmiðla þá ertu að hugleiða að kjósa öðruvísi, snúast gegn stjórnvöldum þínum og styðja Pútín í öllum hans embættisverkum sem felast meðal annars í að láta fólk detta út úr gluggum. Þetta styður þú allt saman.
En hvernig stendur á þessum afskræmda hugsunarhætti þínum? Af hverju ertu svona mikil klappstýra rússneskra yfirvalda og þeirra hlið mála?
Jú, af því það er búið að metta þig með rússneskum áróðri í gegnum samfélagsmiðla.
En hafðu ekki áhyggjur! Lækning þín er handan við hornið!
Fjésbókin er búin að banna efni frá rússneskum fréttamiðlum! Senn mun flóðbylgja af efni frá RÚV, BBC og CNN koma þér aftur á beinu brautina. Þú tekur niður rússneska fánann í stofunni þinni og sendir peninga í stríðsvélar NATO - með glöðu geði.
Takk, samfélagsmiðlar, fyrir að sía út allskyns heilaþvott og áróður sem skemmir skoðanamyndun okkar.
Takk, yfirvöld, sem leyfa slíka skerðingu á málfrelsi.
Takk, blaðamenn, fyrir að styðja við skerðingu á aðgengi að vinnu blaðamanna.
Takk, fjölmiðlar, fyrir að gagnrýna ekki harðar aðgerðir gegn fjölmiðlum.
Og sérstakar þakkir til góða fólksins, sem boðar lýðræði og málfrelsi, fyrir að taka af fólki val og tal sem fellur ekki að hagsmunum bandarískrar utanríkisstefnu. Hún er jú það eina sem skiptir máli, ekki satt?
Þriðjudagur, 17. september 2024
Leyfum stjórnmálamönnum bara að undirrita
Í dag samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem er annað nafn fyrir áætlanir sem þýða minni samgöngur gegn hærri sköttum. Þetta olli klofningi í sveit Sjálfstæðismanna, en að öðru leyti kaus meirihlutinn með sjálfum sér og minnihlutinn gegn honum.
Mikið hefur verið rætt um þennan samgöngusáttmála en er það ekki óþarfi? Þetta er bara ein innistæðulausa ávísunin á eftir annarri og enginn setur svo mikið sem skóflu í jörðina, enda þyrfti þá að borga vinnandi fólki til að vinna raunverulega vinnu. Nóg er af skýrslum og glærum en hvernig eiga opinberir starfsmenn að láta tímann líða öðruvísi? Þetta er kannski allt saman hið besta mál.
Þetta, og þjóðarhallir sem munu aldrei rísa en framleiða hvern starfshópinn á fætur öðrum, og ný hverfi sem rísa ekki, og stofnæðir í stokka sem aldrei verða, og svona mætti lengi telja.
Því þegar allt kemur til alls þá er bankabókin innistæðulaus og lánadrottnarnir þurfa sínar vaxtagreiðslur.
Svo kæru stjórnmálamenn, skrifið undir! Samþykkið!
Því þegar allt kemur til alls er alltaf gaman að horfa á góð leikrit.
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í borgarstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 15. september 2024
Blaðamennska: Ekkert að sjá hér
Ég horfi stundum á The Rubin Report á Rumble. Stjórnandinn, David Ruben, rankaði við sér úr meginstraumsrotinu fyrir ekki mörgum árum síðan og hefur bara orðið beittari fyrir vikið, og þættir hans eru bæði skemmtilegir og upplýsandi.
Hann sagði svolítið í seinasta þætti sem sló mig og ég held að sé hárrétt greining á fjölmiðlalandslaginu:
Það að fjölmiðlar séu að segja þér að þarna sé nákvæmlega ekkert að sjá gefur í sjálfu sér til kynna að það sé eitthvað að sjá.
**********
The fact that the media is telling you that there is absolutely nothing to see there, that in and on itself implies that there is something to see.
Þetta má orða öðruvísi:
Þegar fjölmiðlar velja að fjalla ekki um eitthvað, eða leggjast allir á eitt að segja að það sé ekkert að frétta, þá er eitthvað mikið að frétta sem þarf að þagga niður í.
Þessi orð minna mig á önnur orð frá sagnfræðingnum og hlaðvarpsstjórnandanum Tom Woods, sem sagði fyrir mörgum árum:
Allir sem meginstraumsstefið hatar ætla ég að minnsta kosti að láta njóta vafans.
**********
Anyone the establishment hates, I´m at least going to give him the benefit of the doubt to.
Auðvitað þarf ekki að velkjast í vafa um að sumir eigi vissulega skilið andúð og andmæli og jafnvel fordæmingu, en þegar kemur að meðferð sögunnar á sumum einstaklingum þá er stundum við hæfi að efast um sanngirni þeirra sem skrifa sögubækurnar og þeirra sem borguðu fyrir þau skrif.
Hvað um það. Skilaboð mín eru einfaldlega þau að efast og gagnrýna. Það getur tekið tíma, en er verðlaunandi. Þeir sem gerðu slíkt á veirutímum geta verið stoltir af sér. Þeir sem efast í dag þegar okkur er sagt hvaða stríð við eigum að hafa afstöðu til (og eigum að fjármagna) og hvaða stríð eru bara skylmingar nágranna í fjarlægum heimshornum eiga að halda sínu striki. Og þegar ráðherrar eru að hefja kosningavetur er óhætt að vantreysta öllu til að byrja með og endurskoða svo þá afstöðu ef eitthvað breytist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 15. september 2024
Sýndarveruleikinn í kringum Biden
Það er orðið frekar broslegt að lesa um hvað Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætlar sér og vill. Staðreyndin er sú að maðurinn er gjörsamlega farinn andlega og á meðan það er auðvitað sorglegt, og einnig sú staðreynd að hann fær ekki hjúkrun og aðhlynningu við hæfi, þá er engin ástæða lengur til að afneita því.
Það var kannski lengi hægt að fela andlega hrörnun hans, en ekki lengur, og því ástæðulaust.
Eða telur einhver líklegt að hann hafi vitað hvað var að gerast þegar hann setti á sig derhúfu merkta Donald Trump? Auðvitað ekki.
En af hverju virkja Repúblikanir þá ekki ákvæði í 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem felur í sér að forseta megi víkja úr embætti sé hann ekki í ástandi til að rækja embættisskyldur?
Jú, af því að þeir geta það ekki. Það er hlutverk varaforsetans, og hún hefur sennilega fengið þau skilaboð að hún eigi ekki að gera neitt slíkt.
En kannski er lærdómur í því að fjölmiðlar fjalli ennþá um Biden eins og hann sé að ákveða eitthvað. Það sýnir kannski betur en margt annað hvað blaðamenn eru ginkeyptir fyrir því sem þeir kalla blaðamennsku en er miklu frekar gjallarhorn fyrir einhverja hagsmuni aðra en hagsmuni venjulegs fólks. Maður hefði haldið að þeir hafi lært eitthvað af veirutímum þegar hlutverk þeirra var að vinna launalaust fyrir lyfjafyrirtæki með aðgang að ýmsum yfirvöldum, en svo er ekki og þannig er það.
Notar síðustu mánuðina til að efla Úkraínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. september 2024
Köttur í kvöldmatinn
Um daginn tókust á Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, í kappræðum í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Skoðanir eru skiptar um hvort stóð sig betur, þótt flestir hallist að Harris, en sérstaklega því hvaða áhrif þessar kappræður muna hafa á viðhorf kjósenda. Óháð því, skotin sem flugu á milli voru stór og oft vafasöm í sannleiksgildi. Slík er umræðuhefðin, því miður.
Blaðamenn sátu vitaskuld sveittir við að leiðrétta rangfærslur. Þá aðallega þær úr munni Trump sem var oftar en ekki að rökræða við fundarstjóra frekar en andstæðing sinn. Ein svokölluð rangfærsla Trump var sú að í Ohio væru flóttamenn frá Haíti að éta gæludýr íbúanna. Rangt, ekki satt? Uppspuni, ekki satt? Slíkur var úrskurðurinn. Rangt, segir AP. Rangt, segir NBC. Rangt, segir Politifact. Rangt, segir CNN. Rangt, segir Forbes. Rangt, segir BBC. Listinn er endalaus.
Vandamálið er bara að það sem Trump sagði í þessu tilviki er ekki endilega rangt og hefur alls ekki verið afsannað. Íbúar Springfield, Ohio, svo dæmi sé tekið, hafa kvartað yfir þessu, bæði á samfélagsmiðlum og íbúafundum, og svo mörgu öðru líka eftir að 20 þúsund innflytjendum frá Haíti var troðið inn í bæjarfélag með 50-60 þúsund íbúum. Gæsirnar eru að hverfa úr almenningsgörðum, kettir og hundar eru eltir uppi og étnir eða hengdir upp fyrir trúarlegar athafnir eins og siðir margra innflytjendanna boða, og innflytjendurnir koma sér fyrir í görðum fólks og ógna eigendum þeirra.
Vandamálið, innflytjendastraumur úr gjörólíkum menningarheimi, er raunverulegt þótt það sé þaggað niður, og það er þöggunin sem er svo einkennileg. Af hverju á að þagga niður í augljósu vandamáli? Hvernig er það hægt? Og hvers vegna taka stærstu fjölmiðlasamsteypur heims þátt í því? Vissulega var það Donald Trump sem benti á hluta vandamálsins - dýraránin - fyrir framan milljónir manna, og vitaskuld er allt rangt sem hann segir jafnvel þótt hann bendi upp í loftið, á bláan himinn, og segi að himininn sé blár. En er mikilvægara að sannreyna orð Trump en að hlusta á venjulegt fólk lýsa yfir hörmungarástandi í samfélagi sínu?
Málefni innflytjenda, hælisleitenda og flóttamanna eru vitaskuld viðkvæm og skammt á milli fordóma og föðurlandsástar. En það er stundum bara til eitthvað sem heitir heimskuleg ákvörðun sem hefur hræðilegar afleiðingar. Hvort sem Trump bendir á það eða einhver annar á ekki að breyta neinu í slíkri greiningu. Sameinaður her fjölmiðla á ekki að gera það að forgangsverkefni sínu að þagga niður í þjáningu heils bæjarfélags til að koma höggi á andstæðing sinn. Að gera staðreyndir að staðreyndum í þeim eina tilgangi er einfaldlega rangt.
En við lærum vonandi af þessu. Þegar sama fyrirsögn birtist á öllum helstu fjölmiðlum á sama tíma af sama tilefni með svipuðu orðalagi, og allar ósannar en til vara hálfsannleikur, þá eru teikn á lofti. Það er eitthvað sem við eigum ekki að vita. Eitthvað sem er mögulega satt og rétt, en kom úr röngum kjafti. Málfrelsið á betra skilið.