Samfylkingin reynir að fela brunarústir sínar

Ekki vantar stjórnmálaskýrendur í íslenskri umræðu og eru sumir betri en aðrir. Ég gæti nefnt nokkra mjög góða en ætla þess í stað að ræða einn vondan: Pistlahöfund pistla sem birtast nafnlaust undir heitinu Orðið á götunni, á DV. 

Þar heldur á penna stækur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og á meðan það er í sjálfu sér allt í lagi þá er verra hvernig viðkomandi reynir að skrifa eins og hann sé að fjalla um raunverulegt spjall manna á milli, sem er í raun bara hugrenningar eins manns. 

Tökum dæmi þessa tilvitnun úr pistli sem fjallar um endalok meirihlutasamstarfs R-listaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur (í bili):

Orðið á götunni er að í raun sé verið að veiða Sjálfstæðisflokkinn í gildru og ef um hannaða atburðarás sé að ræða sé allsendis óvíst að sú hönnun komi úr ranni Framsóknar. Í Samfylkingunni brosi fólk yfir þeirri tilhugsun að Sjálfstæðismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir stjórnartíð Samfylkingarinnar í kosningunum að ári.

Það kæmi mér mjög á óvart ef einhver innan Samfylkingarinnar hugsaði með sér að Samfylkingin hefði staðið sig svo illa í borgarstjórn að það væri gott að Sjálfstæðisflokkurinn tæki á sig allar sakir fyrir stjórnarglöp í borginni - flokkur sem hefur verið við stjórnvölinn í borginni í 2-3 ár af seinustu 30 árum.

Kannski er það rétt. Kannski skammast Samfylkingarfólk sín fyrir 30 ára hnignun borgarinnar, óendanlegar skuldirnar, yfirdráttinn sem vex í sífellu, skatta í hámarki, innviði í molum og borgarfyrirtæki sem hafa ekki efni á fjárfestingum vegna kostnaðar við öll gæluverkefnin. 

Kannski Samfylkingarfólk andi í raun léttar.

En er ekki ólíklegt að nokkur Samfylkingarmaður myndi viðurkenna það fyrir öðrum eða jafnvel bara sjálfum sér? Og hvað þá við pistlahöfund sem finnur upp á orðrómum!

Ég útiloka nú samt ekki að menn viðurkenni það opinskátt innan Samfylkingarinnar að það er mikill léttir að þurfa ekki að svara fyrir neitt í næstu kosningum í Reykjavík - að geta bent á borgarstjórn sem hefur starfað í eitt ár af þrjátíu ára óstjórn og hreinsað ónýtt mannorðið með því.

Kjósendur í Reykjavík gætu jafnvel fallið fyrir slíku.

Ef svo fer þá er ekki annað hægt að segja við Samfylkinguna: Vel spilað!


Meirihluti um nákvæmlega hvað?

Meirihlutinn í Reykjavík hefur liðast í sundur og þótt fyrr hefði verið. Þeir sem telja 7 ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna í Stjórnarráðinu hafa varað of lengi og ekki verið um ekki neitt nema halda völdum hafa væntanlega mikla samúð með þeim sem finnst R-listaáratugirnir hafa verið orðnir alltof margir, og þá sérstaklega Dagsárin þar sem borgin keyrði sig viljandi ofan í skurð (þótt sú vegferð hafi hafist mun fyrr).

Endalok R-listans vara vonandi lengur í þetta sinn en þau stuttu hlé sem R-listinn fékk árin 2006-2007 og 2008-2010. Ekkert er samt öruggt í þeim efnum. Kjósendur borgarinnar láta ítrekað lokka sig með gylliboðum og telja sig vera að kjósa breytingar en það er sama hvernig innihaldslýsingunni er breytt, bragðið breytist ekkert. R-listaflokkarnir tala sig saman í valdastöður óháð því hvort þeir eru sammála um grunnatriðin eða ekki, eða eins og borgarstjóri lýsir því:

Ein­ar seg­ir í sam­tali við blaðið að á ýmsu hafi strandað í gamla meiri­hlut­an­um og nefn­ir til dæm­is skipu­lags­mál, Reykja­vík­ur­flug­völl, leik­skóla- og dag­gæslu­mál og ákv­arðanir varðandi rekst­ur. 

Um hvað voru flokkarnir eiginlega sammála? Mér sýnist ekki vera neitt eftir. Samt sátu þessir flokkar saman (með einhverjum nafnabreytingum en óbreyttu innræti), fund eftir fund, ár eftir ár, áratug eftir áratug, og þóttust vera að stjórna á meðan skólpið flæddi í sjóinn, bílar sprengdu dekk í holum á götunum og myglan breiddi úr sér eins og farsótt.

Farið hefur fé betra en R-listinn, en vissara að stilla bjartsýninni í algjört hóf. Vonandi myndast ný borgarstjórn sem getur unnið saman að skipulags- og rekstrarmálum, er sammála um nauðsyn Reykjavíkurflugvallar og þorir að líta yfir grindverkið, til nágrannasveitarfélaga, eftir innblæstri í dagggæslu- og leikskólamálum.


mbl.is Lofaði kjósendum að knýja fram breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á þróunaraðstoð að þróa?

Þróunaraðstoð: Framlag ríks lands til vanþróaðs ríkis t.d. með fjárhagsaðstoð eða sérfræðiþjónustu, þróunarhjálp, samkvæmt íslenskri orðabók. Einfalt, ekki satt? 

Í hvað rennur þróunaraðstoð? Í lyf, flóttamannabúðir, bólusetningar, flugnanet, vegagerð, orkuver, klæðnað og mataraðstoð, meðal annars. Upphæðirnar eru ekkert grín. 224 milljarðar Bandaríkjadollara árið 2023, hvorki meira né minna. Það er hægt að kaupa margar vítamínpillur og kennslubækur og annað slíkt fyrir slíkar fjárhæðir!

En það er því miður ekki svo að öllu þessi þróunaraðstoð renni í aðstoð fyrir stríðsþjáða, flóttamenn, sjúka og ólæsa. Þetta er að koma sífellt betur í ljós núna eftir að bandarísk yfirvöld bremsuðu allar greiðslur til slíkrar aðstoðar í 90 daga. Jú, vissulega stöðvuðust við það einhverjar lyfjasendingar en nokkuð annað gerðist í miklu meiri mæli. Bankareikningar „óháðra“ fjölmiðla í Bandaríkjunum, manneskjusmyglara í Mexíkó og rannsóknarstofa að stunda ólöglegar rannsóknir tæmdust eins og á einni nóttu. Tilviljun? Kannski. En líklegra er að stórar fjárhæðir eyrnamerktar þróunaraðstoð hafi verið að renna í gæluverkefni ráðandi afla - til samtaka sem sögðu og gerðu það sem var yfirvöldum að skapi en yfirvöld gátu ekki sagt eða framkvæmt beint.

Ég ætla ekki að leiða lesendur hérna ofan í kanínuholuna enda óþarfi. Svindlið og sukkið er að afhjúpa sig dag frá degi og verður að lokum gert upp. Eftir það verður þróunaraðstoð áfram veitt samkvæmt laganna bókstaf í Bandaríkjunum, en ekki lengur til smyglara og áróðursfjölmiðla eða í eflingu á hættulegum veirum.

Eitthvað svipað mætti kannski gera víðar, svo sem í tilviki evrópskrar eða íslenskar þróunaraðstoðar. Hvað ætli mörg svokölluð „óháð“ grasrótar- eða hagsmunasamtök yrðu að segja upp starfsfólki sínu? Hvað yrði um mútugreiðslur íslenskra aktívista til hryðjuverkamanna á landamærum Palestínu og Egyptalands? Maður spyr sig þegar vafi leikur á um gegnsæið.

En er Trump ekki bara genginn af göflunum? Eða hægri hönd hans, Elon Musk? Menn gætu alveg haldið því fram en mega um leið hafa í huga að fyrirtæki endurskoða reglulega hverja krónu og hvert hún fer, og væntanlega þú líka þegar þú skoðar heimilisbókhaldið þitt. Er einhver áskrift stanslaust í gangi sem þú færð ekkert út úr? Lokum henni! Lekur stanslaust úr heitavatnskrananum? Lokum á það! Ertu að borga fyrir líkamsrækt sem þú stundar ekki? Byrjaðu að mæta, eða segðu upp áskriftinni!

Það er kominn tími til að taka heimilisbókhaldið á ríkiskassann.


Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir ...

Ennþá nenna blaðamenn að birta fréttir sem innihalda orðaröðina Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir ...“, og lengi skal þann spámann prófa á meðan spádómarnir rætast ekki.

Beljur prumpa og breyta loftslagi Jarðar, og ber að aflífa.

Kjúklingar sjúga í sig allar heimsins veirur og bera í menn og drepa, og ber að aflífa.

Við drepum samt ekki villt dýr sem prumpa jafnvel svipað mikið og beljur og fá sömu veirur og kjúklingar. Loftslagið skynjar kannski muninn, og bóluefnin svokölluðu.

En óháð því þá finnst mér eitt blasa við: Þessir spekingar sem eiga að vera fylgjast með raunveruleikanum, og vísindum sem reyna í raun að rannsaka raunveruleikann, eru sofandi í tíma. Þeir tala í fyrirsögnum. Það er óaðgreinanlegt að lesa svokölluðu sérfræðingaálit embættismannanna og fyrirsagnir æsifréttamiðla eins og DV, CNN, RÚV og BBC. 

Það er því nothæft að fylgja svolítilli þumalputtareglu. Hún er sú að ef Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir“ eitthvað, að þá er jafnvel hægt að reikna með að andstæðan sé gott viðmið til að athafna sig í heiminum.

Því miður, en góð regla.


mbl.is Smit í spendýrum eykur líkur á að fólk smitist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tollar hafa hækkað?

Spekingar í hagfræði tjá sig nú mikið um slæm áhrif tolla. Já, tollar eru slæmir, hækka vöruverð, skekkja samkeppni og draga úr henni, leiða til hærra verðlags (verðbólga - verðhækkanir sem afleiðing á auknu peningamagni í umferð - er nokkuð annað), auka á togstreitu og fita ríkissjóði sem þurfa frekar á megrun að halda en hitt.

En skattar hafa sömu áhrif. Virðisaukaskattur er skattur sem eykur verð, eins og nafnið gefur til kynna. Skattar á fyrirtæki leiða til hærra verðlags. Skattar á laun draga úr kaupmætti. Skattar á fjármagnstekjur hækka húsaleigu. Geta spekingarnir ekki tjáð sig um það líka?

Annars er allt þetta tal um slæm áhrif tolla auðveldlega rakið til þess að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, veifar tollum eins og hamri til að berja ríki til hlýðni, og ef Kína er undan skilin hefur hann fengið sínu fram. Landamæraverðir eru mættir og ólöglegir innflytjendur fá nýja áfangastaði. Menn geta deilt um markmiðin, en Trump er að fá sínu framgengt. 

Niðurstaðan er sú að tollar hafa mjög lítið og í fáum tilvikum hækkað.

Áhyggjur spekinganna eru skiljanlegar og góðra gjalda verðar, en þeir eru að tala um eitthvað sem er ekki að eiga sér stað. 

Það sem er hinsvegar að eiga sér stað er að skattheimta er of mikil og að valda nánast öllum sömu neikvæðu afleiðingunum og tollar. Kannski vilja spekingarnir skatta, því þeir borga launin þeirra, en ekki tolla, því þeir hækka verðlagið á jakkafötum og rafmagnsbílum.

Maður spyr sig.


mbl.is Lífskjör munu versna ef tollar verða lagðir á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða gata?

Ég ætti kannski að breyta nafninu á þessari síðu. Hún kallast í dag Sjálfkrýndi samfélagssérfræðingurinn, sem er svolítið skot á sjálfan mig fyrir að telja mig vita allt mögulegt um samfélagið. Ég veit sumt, en ekki allt. Ég get ekki kallast sérfræðingur, en kalla sjálfan mig það, og það er líka til gamans gert.

En hvað ef ég kallaði þessa síðu: Það sem fólk segir? Eða: Orðrómar við kaffivél valdsins? Væri það ekki mjög sannfærandi? Lesendur fengju það á tilfinninguna að ég væri ekki að rembast við að sinna launavinnu, börnum og öllu sem tengist því heldur væri viðstaddur kaffivélar yfirboðara okkar, eða á stanslausu flakki á milli kaffihúsa að hlusta á fólk af ýmsu tagi segja mér trúnaðarmál.

Kynnum þá til leiks pistlaflokk DV: Orðið á götunni!

Væntanlega pistlaflokkur þar sem orð fólks á götunni er skolað upp á yfirborðið! Orðin sem fólkið vill raunverulega segja en þorir ekki! Orðanna sem skilja á milli þess sem okkur er sagt frá og þeirra sem eru raunverulega sögð!

Eða bara fín fyrirsögn fyrir skoðanapistla manns með ákveðinn pólitískan boðskap sem hann mótaði heima hjá sér, eftir lestur á samfélagsmiðlum, án þess að fara nokkurn tímann á götuna.

Kannski. Hver veit. Það eru engin augljós merki um að mín túlkun sé röng, en kannski er hún það.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að breyta ekki heiti þessarar síðu í „Sannar sögur úr Stjórnarráðinu“ eða „Væflast á Kaffi Vest“ eða „Úr bóli Brussel“ eða neitt slíkt. Ég krýndi mig sjálfur, þú þarft ekki að beygja þig fyrir því.

Eftir stendur að því er ekki svarað frá hvaða götu „Orðið á götunni“ kemur frá. En sennilega frá heimaskrifstofu manns sem fer lítið út á götu, a.m.k. ekki til að labba. 


Skattar og fleiri skattar

Á Íslandi er rekið mikið opinbert bákn sem heimtar mikla skatta.

Eða í nútímalegra orðalagi: Á Íslandi er veitt mikil opinber þjónusta sem er fjármögnuð með ýmsum gjöldum og framkvæmd af stofum og embættum.

Skattar eru nefnilega ekki alltaf skattar. Þeir geta líka kallast gjöld og fá þá á sig blæ frjálsra viðskipta þar sem gjald er greitt og í staðinn veittur aðgangur, svona eins og í leikhúsi.

Opinberar stofnanir geta líka kallast stofur og fá þá á sig blæ biðstofunnar þar sem fólk sest þægilega niður og fær afgreiðslu á erindi sínu. Stofa þar sem fólk ekki bara númer í kerfinu eða skjal í skúffunni heldur verðmætir skjólstæðingar.

Þessi leikur að orðum er auðvitað til þess gerður að slá vopnin úr höndum hins frjálsa framtaks. Hver neitar að borga gjöldin sín? Það er eitt að reyna forðast skattheimtuna með ýmsum aðferðum - íþrótt sem menn hafa stundað í árþúsundir - en að vilja ekki borga gjaldið? Það er bara dónaskapur!

Íslensk yfirvöld vilja núna leggja á „auðlindagjöld“ en á meðan þau eru útfærð að leggja á „komugjöld“. Allt eru þetta bara skattar. Skattar ofan á alla hina skattana - gistináttaskattinn, virðisaukaskatt af öllum vörukaupum og þjónustu, tekju- og launaskattar þeirra sem selja þá vörur og þjónustu, allskyns skattar á landeigendur, fjármagnstekjuskattur á þá sem tekst að nurla út smávegis hagnaði og svona mætti lengi telja. Auðlindagjöldin munu renna ofan í hítina eða fara í að fjármagna starfsemi þjóðgarða sem telja það vera hlutverk sitt að halda fólki frá þeim.

Það verður bráðum upplifun þeirra sem heimsækja Ísland að landið sé orðið að jarðsprengjusvæði þar sem hvert skref getur leyst úr læðingi einhverja gjaldtöku eða skattheimtu. Er þá hætt við að þeir sem vilja sjá fjöll og eyðifirði velji einhvern annan áfangastað. Eða er það markmiðið?


mbl.is Fáránlegt að setja fyrst á komugjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danska innflytjendastefnan er öfga-hægri utan Danmerkur

Hvað er öfga-hægri?

Svörin við þeirri spurningu eru mörg, en eitt svar er: Stefna danskra jafnaðarmanna í málefnum innflytjenda hjá flokkum utan Danmerkur.

Í mörgum ríkjum Evrópu eru þeir flokkar kallaðir öfga-hægriflokkar sem benda á Danmörku sem viðmið í innflytjendamálum.

Danir brosa aðeins að þessu. Þeir spyrja sig: Erum við öfga-hægrimenn? Auðvitað ekki. Af hverju er þá franskur stjórnmálamaður, sem bendir á Danmörku sem fyrirmynd, kallaður öfga-hægrimaður? Daninn hefur hérna engin svör, og er í raun alveg sama. 

Blaðamenn ættu að vita betur, auðvitað, en vita ekki betur. Þeir elska litlu stimplana sína. Við hin gætum kannski vitað betur í staðinn, ef við nennum, en við nennum ekki.

Eftir stendur að til nasistaríkisins Danmerkur streyma Íslendingar í mörgum flugvélum á dag í leit að hakakrossum, eiturgasi og myndastyttum af Hitler. Góða skemmtun!


mbl.is Mótmæltu rofi CDU á „eldveggnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-áhrifin

Ég ætla að gera nokkuð sem ég geri mjög sjaldan og það er að taka undir orð íslensks prófessors. Hressandi undantekning, ef eitthvað.

Svolítið viðtal við Gylfa Zoëga hagfræðiprófessor er um margt skynsamlegt. Það má draga úr því þann lærdóm að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er enginn hagfræðingur en telur sig geta notað verkfæri hagfræðinnar sem einhvers konar samningatól til að ná fram öðrum markmiðum. Gylfi talar um einvald sem er ekki skrýtið en embætti Bandaríkjaforseta er mjög valdamikið, óháð því hver mannar það, og má teljast furðulegt í ríkinu sem var búið til svo völd hins opinbera yrðu sem takmörkuðust, ekki mest. 

Trump ætlaði að enda eitt af mörgum stríðum heimsins á sólarhring en núna á það að taka 100 daga og ég er ekki að sjá hvað er í raun að gerast til að ná því markmiði.

Það er gott að hann setti bremsu á stjórnlaust flæðið úr bandaríska alríkiskassanum og strokaði út allskyns áherslu á kynhneigð og húðlit þegar á að manna stöður. En það er slæmt að vera hjakkast í nánustu bandamönnum og raunverulegum vinum Bandaríkjanna með látum.

Hvað sem því líður þá var kjör Trump ekki eitthvað einsdæmi á vestrænan mælikvarða þótt það hafi nánast verið fordæmalaust í bandarískum stjórnmálum. Í mörgum ríkjum eru kjósendur að hafna þeirri hugmyndafræði sem hefur verið keyrð af miklu offorsi á okkur seinustu ár. Þjóðverjar munu gera það sama á næstu dögum, rétt eins og Danir, Hollendingar, Svíar, Norðmenn og Ítalir á undan, svo eitthvað sé nefnt.

Trump-áhrifin eru þannig bland í poka - bland af frekjuköstum og skynsemi, árásargirni og friðarviðræðum, klappi á rass og atlögu að nauðgurum, aðhaldi og eyðslu. Yfir það heila samt skárri blanda en það sem áður var við lýði og ég held að við munum sjá það fyrr en síðar ef þá ekki hreinlega nú þegar, óháð magni heilaþvottar.


mbl.is Trump-áhrifin: Minni alþjóðaviðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar blaðamenn hætta að vera fjölmiðlafulltrúar

Það þarf ekki mikið til að minna mig á veirutímana þar sem fulltrúar yfirvalda mættu dag eftir dag á blaðamannafundi og fengu ekkert nema sárasaklausar spurningar á meðan samfélaginu var haldið í spennitreyju og lögreglan kíkti í gegnum glugga hjá fólki til að athuga hvort einhver ólögleg samkoma væri að fara fram.

Blaðamenn mega allir sem einn skammast sín frá toppi til táar fyrir algjört getuleysi sitt á þessum tímum, með örfáum undantekningum. Þeir brugðust. Þeir veittu ekkert aðhald, fóru aldrei út fyrir handritið og þeim datt jafnvel í hug að leggja til harðari atlögu að frjálsu samfélagi en var á dagskrá yfirvalda á hverjum tíma.

Þetta ástand virðist að því er virðist, og sem betur fer, vera að baki, og áskrifendur farnir að verðlauna raunverulega blaðamennsku þar sem stjórnmálamönnum er veitt fyrirsát.

Ef fjölmiðlar ættu bara að endurvarpa skoðunum yfirvalda þá væru þeir óþarfi. Oflaunaðir blaðamannafulltrúar ættu þá sviðið og þyrftu ekki milliliði til að bergmála tilkynningar sínar.

Þegar fólk tengt stjórnmálum kvartar yfir blaðamönnum þá ættum við að klappa. Blaðamenn hafa ekki alltaf rétt fyrir sér frekar en aðrir en einmitt þess vegna eiga þeir að fá að starfa og jafnvel rífast og við hin að fylgjast með og jafnvel að mynda okkur skoðun í leiðinni.

Takk, blaðamenn sem eru ásakaniðir um að veita einhverjum fyrirsát, jafnvel þótt hún sé byggð á misskilningi á skattalöggjöf, orðrómum athyglissjúkra eða gallhörðum staðreyndum.

Við hin reynum svo að gera okkar besta til að melta ykkar vinnu, sé hún næringarrík. 


mbl.is Óbirtur þáttur veldur taugatitringi í stjórnarliði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband