Nöfn flokka

Er rangt að segja að nöfn stjórnmálaflokka í dag séu ágæt lýsing á andstæðu stefnu þeirra?

Tökum dæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa utanríkisráðherra með eitt þingmál á dagskrá fyrir komandi þingvetur: Að færa lagasetningarvald á Íslandi undir Evrópusambandið (í einfölduðu máli). Ósjálfstæðismaður.

Vinstri-grænir hamast eins og þeir geta gegn framleiðslu á grænni, þ.e. endurnýjanlegri, orku. Hvorki vinstri (almúginn þarf orku) né græn (olían hleypur í skarðið þegar græna orkan er ekki til).

Viðreisn hefur það helst á stefnuskránni að gera íslenska hagkerfið að Evrópusambandshagkerfi. Nú er ég ekki að segja að íslensk hagstjórn sé góð - hún er satt að segja alveg glötuð - en það er engin viðreisn í því að einfaldlega afhenta öðrum lyklana. 

Framsóknarflokkurinn er vel þekkt stærð í íslenskum stjórnmálum. Hann boðar ekki framsókn heldur vörn. Er einhver annar en ríkið að selja áfengi? Vandamál. Er hægt að kaupa danskar kjúklingabringur á Íslandi? Vandamál. Allt sem stígur skrefi í átt að framsókn er vandamál.

Samfylkingin er ekki fylking sem sameinar neitt þótt vinsæll formaður sé núna að slá í gegn í skoðanakönnunum. Vinstrimenn eru sundraðri en nokkru sinni. Fylking? Kannski? En sameinar fátt.

Sósíalistaflokkurinn er hugarfóstur manns sem hefur knésett fleiri fjárfesta og fjármagnseigendur en dæmi eru um. Hann er hamingjusamlega tilbúinn að eyða fé annarra. Kannski er það rétt skilgreining á sósíalista en að vera sósíalisti sem þarf á ríkum kapítalistum að halda til að fjármagna bæði viðskipti sín og stjórnmálaskoðanir er enginn sósíalisti. Hann er afæta. Alvörusósíalistar eru hamingjusamlega fátækir á meðan allir aðrir eru það líka. Gervisósíalistinn vill hafa aðgang að vösum auðmanna til að týna úr, og til þess þarf hann kapítalisma og kapítalista.

Gott og vel, enginn er fullkominn, en við flokksstjórnir vil ég benda á að kjósendur þurfi kannski á heiðarleika halda í nöfnum stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn breytir nafni sínu í Evrópusambandsflokkinn.

Viðreisn endurskíri sig Vonlausn.

Vinstri-grænir kalli sig Olíuflokkinn.

Framsóknarflokkurinn verður að Fortíðarflokknum.

Samfylkingin gerist Vindhanaflokkurinn.

Sósíalistaflokkurinn kalli sig Skattheimtuflokkinn.

Verður þá ekki auðveldara fyrir kjósendur að ákveða sig? Það held ég.


Ríkið van­ræki grund­vall­ar­verk­efni

Núna á að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn og að þessu sinni er það gert af Arnari Þór Jónssyni lögmanni. Áherslurnar hljóma vel í mínum eyrum og því spennandi að sjá hvort þetta gangi upp. Vonandi þá þannig að hægrimenn stækki sneið sína af kökunni frekar en bara að skiptast á atkvæðum innbyrðis (og hérna er ég að ganga svo langt að kalla Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn hægriflokka, og áherslur Flokks fólksins einnig samrýmanlegar hægristefnu að mörgu leyti - fólkið fyrst, svo allt hitt). 

Í Danmörku eru sumir hægrimenn líka að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Borgernes Parti, undir forystu Lars Boje Mathiesen, sem hefur verið áberandi sem þingmaður og sérstaklega vinsæll meðal ungs fólks á samfélagsmiðlum. Til að geta boðið fram krafta sína sem þingmaður í flokki Lars þarf að hafa a.m.k. 10 ára reynslu úr atvinnulífinu og hver þingmaður má bara sitja á þingi í 10 ár að hámarki.

Hvers vegna? Jú til að koma í veg fyrir að þingmenn flokksins verði of samdauna kerfinu, hætti að sjá brestina og standi í raun vaktina.

Kannski aðrir flokkar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar, eða eitthvað svipað. 

Ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt að hægriflokkarnir séu margir og ekki endilega mjög stórir eins og gildir um bæði Ísland og Danmörku. Kannski er þetta afleiðing þess að þessir stærri og hefðbundnari flokkar hafi staðnað og farnir að snúast meira um að halda völdum en bjóða upp á sterka og skýra hugmyndafræði. Kannski er þetta afleiðing skoðanakannana-stjórnmála þar sem í sífellu er brugðist við lélegum mælingum frekar en að standa fastur á sýn sinni og sanna fyrir kjósendum að baráttan er raunveruleg, og megi atkvæðin þá koma í kjölfarið. 

En spennan magnast, held ég.


mbl.is Blanda af reyndu fólki og ungu fólki úr atvinnulífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið í samkeppni við borgara sína

Íslenskir ráðherrar halda áfram að eyða peningum sem þeir eiga ekki og hafa ekki. Þá peninga þarf að lána í samkeppni við fyrirtæki og fasteignakaupendur og þannig er vöxtum - kostnaðurinn við að lána fé - haldið uppi. 

Þetta er alveg afskaplega vel útskýrt í þessum pistli á Viðskiptablaðinu.

Nú er kosningavetur hafinn og stjórnarliðum mikið í mun að geta eytt eins og fullir unglingar með kreditkort foreldra sinna á djamminu en án þess að fá sökina fyrir háu vaxtastigi og háum sköttum. Það er yfirvöldum mikilvægt að blórabögglarnir séu aðrir en þau sjálf, svo sem stór fyrirtæki, seðlabankinn, viðskiptabankarnir og útlendingar sem hækka verð á innflutum varningi. 

Við látum hamingjusamlega blekkja okkur eins og venjulega. Ríkið þarf jú að sinna innviðum og þjónustu, reka skóla og spítala og halda úti menningarlífi, ekki satt? Er því ekki sjálfsagt að það sogi í sig allt tiltækt lánsfé og haldi verðlagi á því uppi í leiðinni?

Það er orðið ansi hart í ári þegar ríkisvaldið er komið í svona stífa samkeppni við borgarana sem tæma vasa sína í sjóði þess, en ekkert óvenjulegt. Íslendingar geta kosið eins og þeim sýnist - niðurstaðan verður sú sama. Svona svolítið eins og í Reykjavík. 

Á Íslandi var veirutímum haldið til streitu þar til almenningur fékk sig fullsaddan og fór að sjá að yfirvöld voru skaðlegri en veiran. Sömu opinberun þurfa Íslendingar núna til að sjá raunverulega ástæðuna fyrir háum sköttum, vöxtum og verðbólgu. 


mbl.is Skuldir ríkissjóðs aftur á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjumaðurinn Jón Gnarr

Þegar Jón Gnarr segist vera frjálshyggjumaður og anarkisti þá ætla ég ekki að hrópa „lygari“ eða neitt slíkt. Hann hefur sagt þetta áður, líka áður en hann gerðist borgarstjóri í Reykjavík og aðstoðaði vinstrimenn við að knésetja borgina. Orðið „frjálshyggja“ rúmar margt, sem er bæði kostur og ókostur, og menn geta því kallað sig frjálshyggjumenn af mörgum ástæðum og trúað því í mikilli einlægni.

Nei, í stað þess að hrópa „lygari“ ætla ég einfaldlega að fagna því að Jón Gnarr kalli sig frjálshyggjumann. Hann trúir svo sannarlega á málfrelsið, eða ég man t.d. ekki eftir að hann á veirutímum hafi fallið í gildrur þeirra sem vildu ritskoðun og skoðanakúgun. Hann hefur búið til persónu með fimm háskólagráður sem er um leið andstyggileg manneskja sem veit í raun ekkert betur en aðrir, og má kannski sjá þar gert grín að aðdáun okkar á doktorsgráðum og prófessoratitlum - sérfræðingaveldinu sem á að vita allt betur en aðrir. Frjálshyggjutaugin er kannski sterk í honum þótt stjórnmálin, sem geta verið ruglandi, en hafa togað í hann í fjöldamörg ár, setji hann á bekk með vinstrimönnum og Evrópusambandsaðdáendum. 

Megi fleiri sem hafa svolitlar taugar ennþá til frjálsra samskipta og viðskipta, málfrelsis og efasemda til sérfræðingavaldsins gefa sig fram sem frjálshyggjumenn! Það er svo hægt að taka samtalið um hvað frjálst samfélag er í raun, en byrjunin er að vilja tilheyra þeim hópi fólks sem styðja slíkt samfélag. 


mbl.is Jón: 70% Viðreisnarmaður samkvæmt kosningaprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Par­ís­ar­sam­komu­lag­ið svo­kallaða

Par­ís­ar­sam­komu­lag­ið svo­kallaða er oft nefnt í dægurmálaumræðunni. Ríki hafa skrifað undir það og skuldbundið sig. Ríkin þurfa núna að standa við samkomulagið. „Markmiðum“ þess þarf að ná. Við þurfum að gera eitt og annað til að „virða“ samkomulagið.

En vita menn hvað stendur í þessum sáttmála? Eitthvað um hlýnun Jarðar um 1,5 gráðu eða hvað? 

Sennilega ekki.

Staðreyndin er sú að Par­ís­ar­sam­komu­lag­ið svo­kallaða er bara viljayfirlýsing á pari við þær í kringum Borgarlínu, þjóðarhallir og flugvöll í Hvassahrauni. Merkingarlaust þvaður sem er svo óraunhæft að það þarf að skrifa heila bók til að lýsa því sæmilega. Í því eru engar skuldbindingar, kvaðir, afleiðingar eða eftirfylgni. Bandaríkin löbbuðu út (Trump) og inn (Biden) í þetta samkomulag eins og hendi væri veifað og án þess að spyrja kóng né prest. 

Nú fyrir utan að hvert og eitt ríki ræður því í raun hvaða texta þau skilja eftir sig í samkomulaginu. Kínverjar og Indverjar lofuðu að auka útblástur sinn þar til þeir hætta að auka hann, svo dæmi sé tekið. Íslendingar lofuðu að minnka hann. Sumir lofa því að útblástur standi í stað. Þetta er á alla vegu, eftir hvers höfði, og þess vegna tókst að fá alla til að skrifa undir. Hver skrifar ekki undir eigin áætlanir? 

Svo nei, Íslendingar þurfa ekki að efna neitt, standa við neitt, virða neitt og telja sig skuldbundna þegar kemur að Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu svo­kallaða. Þeir geta haldið áfram að virkja, keyra, sigla, fljúga og brenna - með öðrum orðum: Losa það sem losa þarf til að halda uppi lífskjörum og þægindum. Enginn getur stöðvað það og afleiðingarnar eru engar þótt orðin í Parísarsamkomulaginu sem Íslendingar skrifuðu og skrifuðu svo undir passi ekki við það sem Íslendingar þurfa að gera til að verja hag almennings og atvinnulífs.

En best væri auðvitað bara að draga undirskriftina til baka, fleygja þessu plaggi í ruslatunnuna og snúa sér að raunverulegum vandamálum.


mbl.is Segir Björn vera eins manns „skrímsladeild“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óska eft­ir því að fólk tali á ís­lensku á Íslandi

Hrafn­hild­ur Ming Þór­unn­ar­dótt­ir, nemi við Há­skóla Íslands, seg­ir þó nokkuð bera á for­dóm­um á Íslandi. Hún seg­ist ít­rekað hafa verið kölluð api og fólk jafn­vel gelt eða urrað á hana úti á götu.

Þetta var leitt að lesa, en kemur ekki á óvart. Miðað við lítið viðtal við Hrafnhildi þá er þarna á ferð dugleg, metnaðarfull, drífandi og klár ung kona sem á skilið virðingu og hrós. Fólk sem kallar annað fólk apa ætti að líta í spegil, svo það sé sagt. 

Eitt er það svo sem Hrafnhildur segir sem mér finnst athyglisvert:

„Mér finnst ég ekki biðja um mikið þegar ég óska eft­ir því að fólk tali á ís­lensku á Íslandi,“

... og er hún væntanlega að meina þá sem hyggjast búa og starfa á Íslandi í einhvern tíma, jafnvel varanlega, en ekki ferðamenn og ráðstefnugesti og slíkt.

Já, er það ekki? Var svona erfitt að segja þetta?

Kannski verður Hrafn­hild­ur Ming Þór­unn­ar­dótt­ir, nemi við Há­skóla Íslands og ættleitt dótt­ir Þór­unn­ar Svein­bjarn­ar­dótt­ur, þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, bráðum kölluð hægriöfgamaður, og jafnvel fasisti og nasisti og rasisti. En ef ekki, frábært! Þá geta aðrir sagt það sama og Hrafnhildur án þess að hætta á að einhver smelli á þeim þessa algengu stimpla sem margir munda svo gjarnan.

Væri það ekki hressandi?


mbl.is Gelt og urrað á Hrafnhildi: „Ég hef verið kölluð api þrisvar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Dular)gervigreindin

Mikið er rætt og skrifað um hin svokölluðu orkuskipti sem þurfa að eiga sér stað til að forða heiminum frá því að stikna, eða frjósa, eða verða teppalagður af bæði úrhelli og skógareldum, jafnvel á sama tíma. 

Þessi orkuskipti eru þegar á heildina litið samt ekki að eiga sér stað og það gerir ekkert til. Fyrir því eru margar ástæður en sú stærsta er kostnaður. Mikil áform um stór og græn orkuveru eru sett ofan í skúffu, og á fyrirlestrum er einfaldlega byrjað að spyrja: Hvar er allt vetnið?

Þetta er of dýrt og óáreiðanlegt og enginn er tilbúinn að hætta fé sínu í ævintýrið, nema auðvitað stjórnmálamenn sem hætta fé skattgreiðenda. 

Það er því freistandi að velta fyrir sér hvernig er hægt að hagnast á fyrirsjáanlegu hruni í öllum þessum áætlunum um að koma mannkyninu út úr jarðefnaeldsneyti, og kannski að ráðfæra sig við gervigreindina. 

et1

Bíddu nú við, fékk ég þarna einhverja siðferðislega pillu? Ábendingu um að ég sé að stofna samfélaginu og umhverfinu í hættu? Já, heldur betur. Í kjölfarið koma loðin meðmæli um að auka fjölbreytni í eignasafninu með kaupum á hlutabréfum og ýmsu öðru. 

En hvað ef ég vill henda fé mínu á eftir orkuskiptunum? Þá er tónninn annar!

et2

Frábær hugmynd, segir gervigreindin, og afhjúpar þar með gervið sem hún er í: Greind í dulargervi pólitískra aðgerðasinna. Í kjölfarið birtist langur listi yfir fyrirtæki og sjóði sem sérhæfa sig í grænum fjárfestingum og framkvæmdum. Ekkert loðið á ferð þar.

Ég var spurður um daginn:

Og hverjum á þá að treysta? Engum? Hvar finnum [við] „réttar“ upplýsingar? Hvernig er hægt að uppræta „rangar upplýsingar“?

Það er ekkert einfalt svar við þessu nema það að tileinka sér gagnrýnið hugarfar og vega og meta það sem sagt er, og þá sérstaklega ef það kemur úr svörum gervigreindar, hvort sem hún er stafræn eða klædd í líkama prófessors við Háskóla Íslands eða sjónvarpsfréttamanns hjá RÚV eða Stöð 2.


Um samkynhneigða og rússnesk olíuflutningaskip

Segjum sem svo að þú sért samkynhneigður einstaklingur í vestrænu ríki, t.d. Íslandi. Lögin mismuna þér ekki fyrir samkynhneigð þína. Þú mátt eiga og kaupa, gifta þig, stofna til skulda og ættleiða barn. Eini munurinn á þér og gagnkynhneigðum einstaklingi er sá að þú stofnar til sambands með einstaklingi af sama kyni og þú, en sá samkynhneigði ekki. Nú fyrir utan að þurfa aðstoð utan við samband þitt til að gerast foreldri, en það er minniháttar atriði.

En finnst þér engu að síður eins og það eigi að fleygja þér fram af húsþaki vegna samkynhneigðar þinnar? Grýta þig til dauða? 

Nei auðvitað ekki. Þér finnst ekki eins og löggjöf Íran eða Palestínu eigi að ná til þín og finnst jafnvel að yfirvöld í Íran og Palestínu eigi að breyta eigin lögum svo þau feli ekki í sér að samkynhneigðum megi fleygja fram af húsþökum.

Þú hafnar jafnvel lögmæti slíkrar löggjafar þótt hún sé svo sannarlega löggjöf á sama hátt og vestræn löggjöf: Lög samin af löggjafarvaldi ríkis eða svæðis. 

Auðvitað er til eitthvað sem menn kalla lög sem ná til alls heimsins. Allskyns sáttmálar og þess háttar og aðild að hinum og þessum samtökum sem ætlast til ákveðinna hluta af meðlimum sínum. En það breytir því ekki að fullvalda ríki geti sett eigin lög og sett þau ofar slíkum alþjóðlegum samningum. Ef Sameinuðu þjóðirnar hafna lögmæti þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum þá geta yfirvöld í Íran kært sig kollótt. Þau framfylgja eigin lögum, ekki annarra.

Þetta er auðvitað að sumu leyti skítt, eins og í tilviki þess að fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum eins og menn hafa lengi stundað í ákveðnum heimshlutum. En líka gott. Tökum fóstureyðingar sem dæmi. Á Íslandi gilda um þau íslensk lög en ekki þýsk eða pólsk. Séu Íslendingar ósáttir við þau lög þá geta þeir breytt þeim án þess að fara á hnén fyrir framan franskan forseta eða bandarískan sendiherra.

En aðeins að öðru, en þó skyldu atriði: Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á rússnesk olíuviðskipti. Vesturlönd vilja reyna stöðva slíka viðskipti eða minnka umsvif þeirra en gengur lítið. Rússnesk skip sigla í hundruðatali með olíu til margra heimshorna.

En eru þau þá ekki að gerast brotleg við viðskiptaþvinganir Vesturlanda? Nei, af því þau eru ekki í viðskiptum við vestræn ríki og viðskiptaþvinganir þeirra ná því ekki yfir þau.

Svona rétt eins og samkynhneigðir á Íslandi hafna því að írönsk og palestínsk löggjöf nái til þeirra (nema þeir ferðist til Íran eða Palestínu á eigin ábyrgð, en það heyrist lítið um slík ferðalög).

Það mætti því segja að samkynhneigðir Íslendingar séu að beita sömu nálgun og rússneskt olíuskipafélag: Að neita að beygja sig undir lög eða fyrirmæli aðila sem koma þeim einfaldlega ekkert við.

Er það ekki skemmtileg samlíking?


Tekjulind fyrir leikskóla: Veiruboð

Margir eru ennþá skemmdir eftir veirutíma. Ástæðan er ekki veiran sem allir óttuðust heldur aðgerðirnar sem áttu að forða fólki frá veirunni. 

Grímur, spritt, fjarlægð, einangrun.

Engin faðmlög, handabönd, snertingar á skítugum flötum.

Fyrir utan sprauturnar hafa þessar aðgerðir allar haft stórkostlega skaðleg áhrif á ónæmiskerfi margra, jafnvel allt til dagsins í dag. Ég var að vinna með einum ungum og almennt hraustum manni sem fór í kjölfar veirutíma allt í einu að veikjast á nokkra mánaða millibili og játaði upphátt að hann skildi ekkert í þessu. Ekki löngu áður hafði hann verið að spyrjast fyrir um þriðju sprautuna. Hann er eflaust dæmigerður fyrir marga. 

Hvað er því til ráða?

Jú, auðvitað það að fara í öfugar sóttvarnaraðgerðir: Að forðast ekki fleti en þess í stað sprittið. Að gleðjast við að heyra einhvern hósta eða hnerra nálægt sér frekar en að stökkva ofan í næsta skurð og halda fyrir munn og nef.

Og hverjir bjóða upp á allar nýjustu veirurnar í sem mestri samþjöppun?

Jú, leikskólar.

Og þar fæðist viðskiptahugmyndin.

Leikskólar gætu mögulega selt aðgang að rými sínu og leyft fólki að koma inn í þau og anda að sér öllum veirunum og snerta öll leikföngin og handföngin.

Fólk færi heim með nýjustu veirurnar og leyfir líkamanum að takast á við þær. Eftir mögulega smávegis veikindi er líkaminn tilbúinn í veturinn og framleiðir ekki hordropa svo mánuðum skiptir.

Var ekki talað um örvunarsprautur á veirutímum? Náttúrlega leiðin er að fá sér örvunarveirur og uppfæra ónæmiskerfið. 

Nú er ekki víst að leikskólar megi hafa slíkar sértekjur, sem myndu þó óneitanlega hjálpa þeim að halda dyrunum opnum fyrir börnum. En oft hefur lögum verið breytt af minna tilefni.

Er eftir einhverjum að bíða?


Myndin sem verður ekki hunsuð

iaarUm helgina var opnað í nokkrum kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum á sýningar á myndinni Am I Racist? og lenti hún þar í 4. sæti á miðasölulistanum. Ég hef fylgst nokkuð með aðdragandanum að þessari frumsýningu og séð mörg sýnishorn úr myndinni og leyfi mér að segja að umfjöllunarefnið er vægast sagt eldfimt í pólitísku landslagi dagsins í dag, eins og titillinn gefur væntanlega til kynna. Þetta er einhvers konar heimildamynd, ádeila og rannsóknarblaðamennska, allt í einum graut (e. mockumentary). 

Vitaskuld mun ég horfa á þessa mynd við fyrsta tækifæri rétt eins og fyrri mynd sama höfundar, Whats is a Woman?, sem var geggjuð. En ég vildi benda á nokkuð annað.

Rotten Tomatoes er vefsíða sem tekur saman viðbrögð fólks og gagnrýnenda við kvikmyndum og þáttum. Þeir flokka umfjallanir í jákvæðar og neikvæðar og birta svo hlutfall jákvæðra umfjallana. Það þykir gott að fá háa prósentu hjá Rotten Tomatoes, hvort heldur hjá gagnrýnendum og almennum áhorfendum þótt stundum skilji mikið á milli

Það hefur verið bent á að ekki ein einasta gagnrýni gagnrýnenda hefur borist Rotten Tomatoes ennþá, en yfir 1000 sannreynd viðbrögð frá áhorfendum, og 99% þeirra ánægðir með myndina. 

Þetta er óvenjulegt. Önnur mynd sem var líka frumsýnd um helgina hefur fengið yfir 170 umfjallanir gagnrýnenda. Það er dæmigert. Algjör þögn ekki.

Sem færir mig að því sem sumir munu eflaust kalla samsæriskenningu en ég kalla samsæri sem er engin kenning: Það á að reyna þagga niður í myndinni. Fjölmiðlar þora ekki að koma nálægt henni með löngu priki því þá neyðast þeir til að taka afstöðu og reyna að afneita allskyns hlutum sem eru augljóslega sannir. 

Það vilja þeir auðvitað ekki.

Auðvitað hefur víða verið fjallað um myndina [1|2|3], en ekki í þeirri sundlaug sem Rotten Tomatoes sækir gagnrýni sína úr. Er það kannski hið forvitnilega?

Þeir sem hafa náðasamlegast fjallað um myndina lenda í hótunum. Hver vill lenda í hótunum? Fáir hafa bein í slíkt.

Eitt er víst: Hérna er á ferðinni "must see", eða skylduáhorf, og bíð ég spenntur eftir tækifæri til að kaupa aðgang. Mun ég þá passa mig á að vera ekki að borða poppkorn á meðan á áhorfi stendur vegna köfnunarhættu í hlátursköstunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband