Laugardagur, 12. október 2024
Eyðibyggðastofnun og önnur opinber þjónusta
Rétt eins og í tilviki stjórnmálaflokkanna er hægt að færa rök fyrir því að nöfn opinberra stofnana tákni andstæðu yfirlýstra markmiða þeirra.
Nýlegt og áberandi dæmi er hernaður Byggðastofnunar gegn íbúum Grímseyjar sem gerir það líklega að verki að byggð leggst þar af. Sannkölluðu Eyðibyggjastofnun. Hvað ætli liggi margar eyðibyggðir eftir stofnunina? Eða byggðir sem eru algjörlega upp á styrki komnar?
Annað dæmi eru barnaverndarstofur landsins sem sjá um að styðja við hernað herskárra mæðra gegn feðrum þar sem börnin eru fallbyssufóðrið. Sannkallaðar barnaskemmdastofur.
Byggingafulltrúar sveitarfélaganna eru frægir fyrir duttlunga sína og afskiptasemi. Þeir virðast geta ákveðið upp á sitt einsdæmi hvað fær ýmis leyfi og hvað ekki og byggt slíkar ákvarðanir á eigin smekk og áhuga. Sannkallaðir byggingastöðvarar.
Sýslumenn eiga að afgreiða ýmsa mikilvægara pappíra og skera úr í ýmsum málum. Þetta gera þeir með stuttum opnunartíma og langri bið, samhliða því að þeir gera börn föðurlaus og feðurna að öreigum, um leið og þeir leyfa auðmönnum að eignast fasteignir ódýrt og henda íbúunum á götuna. Kannski sýslumenn eigi frekar að kalla sig sviptimenn - þeir sem svipta fólki ýmsu.
Svo má ekki gleyma dómurum sem telja það vera hlutverk sitt að búa til ný lög með úrskurðum sínum frekar en að dæma eftir lögum sem löggjafarvaldið setti. Þannig er tekið hart á ýmsu smávægilegu en vægt á ýmsu mikilsverðu. Þetta eru vissulega dómarar - menn sem dæma - en líka dyggðariddara - menn sem elta tískuna.
Kannski er þessi upptalning ósanngjörn og byggð á örfáum fréttum innan kerfis þar sem flest gengur hreinlega ágætlega, en ég held ekki. Fyrir nokkrum árum sagði maður sem oftast er kallaður Helgi í Góu eftirfarandi orð í viðtali:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Þetta eru róttækari skipti en marga grunar og í raun algjör viðsnúningur á frumkvæðinu í samfélaginu. Valdið er tekið af löghlýðnum borgurum sem vita vel að eftirlitið gæti komið og taka allt út og fært í hendur ókjörinna embættismanna sem þurfa núna að gefa út öll sín leyfi áður en menn geta svo mikið sem tekið fyrstu skóflustunguna.
Gott fyrir báknið, slæmt fyrir fólkið.
Ekki opinber þjónusta við almenning heldur þjónusta við opinbera starfsmenn, á kostnað almennings. Opinbert sjálfsdekur.
Kvaðir Byggðastofnunar þröngsýnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 11. október 2024
Borgaraleg óhlýðni þarfnast endurnýjun lífdaga
Íshellafyrirtæki er neitað um starfsleyfi en finnur leiðir til að halda áfram að starfa. Mikið var hressandi að lesa um það!
Við fáum póst 4-5 dögum fyrir ferðir að þeir ætli að gera okkur leyfislausa... Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur. Þeir verða þá bara að láta lögguna stoppa okkur...
Þeir enduðu að fá aðgang að einhverju leyfi eins og ég skil það og eru að sinna viðskiptavinum sínum, en viðhorfið er rétt. Hérna eru sjálfstæðir Íslendingar á ferð sem vita væntanlega af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár og taka ekki við þvælunni sem vellur úr íslenskri stjórnsýslu - stjórnsýsla sem hefur fært sig töluvert upp á skaftið síðan á veirutímum og bannar heilu atvinnugreinarnar með einu pennastriki, bótalaust.
Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem stofnuðu ólöglega útvarpsstöð og ruddu brautina fyrir frjálst útvarp á sínum tíma. Það voru sjálfstæðir Íslendingar sem fundu leiðir til að bjóða Íslendingum upp á áfengi utan við ríkisverslanirnar. Sjálfstæðir Íslendingar bjóða kerfinu birginn með frjálsum viðskiptum og sýna almenningi með beinum hætti hvernig stjórnsýslan er farin að snúast meira um sjálfa sig og minna um þarfir fólks og fyrirtækja.
Ríkið fyrir ríkið, ekki fyrir fólkið.
Nú er auðvitað varhugavert að mæla með því að framkvæma ýmislegt sem hið opinbera kallar lögbrot en eru bara frjáls viðskipti. Því fylgir oft áhætta - yfirvöld gætu ákveðið að sýna vöðvana og stinga friðsömu og í raun heiðarlegu fólki í steininn fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarin réttindi til að stunda atvinnu.
En er eitthvað annað í stöðunni fyrir fórnarlömb yfirvalda?
Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 9. október 2024
Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?
Ég veit, ég veit. Ég er erlendis. Ég er ekki á svæðinu. Ég þekki ekki öll smáatriðin.
Engu að síður leyfi ég mér að spyrja: Kunna Íslendingar ekki að reka innviði lengur?
Orkan, vatnið (heitt og kalt), rafmagnið, vegirnir - þetta virkaði einhvern tímann. Núna eru heilu svæði heitavatnslaus, rafmagnslaus og allt að því orkulaus í lengri tíma, oftar og oftar. Orkuskiptin á Íslandi eru á leið í öfuga átt: Úr endurnýjanlegri vatnsorku í innflutta olíu.
Bensínstöðvarnar virka reyndar alltaf, svo því sé haldið til haga. Ætli það sé vegna þess að þær eru einkareknar?
Það er ekkert grín að halda uppi sæmilegum lífsgæðum á eldfjallaeyju í Norður-Atlantshafi. Það krefst þess að orka sé sótt og henni komið áleiðis. En hvað hefur gerst eftir mörg ár af hrópum eftir nýjum háspennulínum? Ekkert. Orkuverum? Ekkert? Brúarsmíðum? Ekkert. Það gerist ekkert. Það er eins og einhver hafi ákveðið að íslenskir innviðir árið 2010 séu einfaldlega nógu góðir um alla framtíð.
Ég vona að upplifun mín af fréttunum sé röng. Ég kemst að því fljótlega í stuttri heimsókn til Íslands. Fyrstu leggirnir í því ferðalagi eru áhyggjulausir: Flug með einkafyrirtæki og eftir það rútuferð með einkafyrirtæki. Hvað tekur svo við er stærri óvissa. Sjáum hvað setur.
Öllum sundlaugum Reykjavíkur lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. október 2024
Nei, ekki klára málin (og ekki boða til kosninga)
Eitthvað er nú rætt um tímasetningu á næstu kosningum til Alþingis og sitt sýnist hverjum. Flokkar sem mælast háir í skoðanakönnunum núna vilja auðvitað fá kosningar á meðan uppsveiflan endist. Flokkar sem eru að hverfa vilja auðvitað ekki kosningar og vonast til að fylgið lagist eitthvað með tímanum. Svona er þetta alltaf.
Nú vill svo til að flokkar sem mælast lágir eða eru við það að hverfa eru í ríkisstjórn en flokkar sem mælast háir eru utan hennar. Það gefur því augaleið að ríkisstjórnarflokkarnir hafa af því mikla hagsmuni að sitja sem lengst í ríkisstjórn og vona að fylgið lagist. Nú er jú verðbólgan eitthvað að gefa eftir og vextir að mjakast örlítið niður. En í stað þess að segja hið augljósa - að ríkisstjórnarflokkarnir vilji sitja í ríkisstjórn til að forða sér frá útrýmingarhættu - þá ættu þeir að segja nokkuð annað og lofa því að klára ekki málin.
Sem sagt, klára ekki málin og boða ekki til kosninga.
Væri það ekki eitthvað?
Því maður fær það á tilfinninguna að í hvert skipti sem yfirvöld ætla sér stóra hluti - klára málin - þá breytist flest til hins verra. Skattar hækka. Ríkisútgjöld hækka. Hallarekstur er framlengdur. Starfshópar um flugvelli á gossprungum eru stofnaðir. Hallarbyggingum lofað.
Verðbólgan fór að lækka um leið og stjórnmálamenn tóku sér langt og verðskuldað sumarfrí. Skattar hækkuðu ekki á meðan. Er það ekki ákveðin vísbending um ágæti þess að ríkisstjórnin sitji á höndunum á sér út kjörtímabilið?
Hvers vegna að kjósa í vor? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 7. október 2024
Er þetta satt eða lastu það á RÚV.is?
Um daginn lét ég berast í eyru mín hljóðútgáfu af bókinni Is That True or Did You Hear It on the BBC?: Disinformation and the BBC og fannst hún mjög fróðleg. Þar er sagt frá því hvernig BBC notar áhrif sín og fjárráð til að boða ákveðna hugmyndafræði í ýmsum málum, þagga niður í skoðunum eða gera lítið úr þeim, aðstoða við heilaþvott á almenningi og smyrja í skít þá sem stofnunin á að beita sér gegn.
Svipaða sögu má eflaust segja um aðra stærri fjölmiðla - þessa virtu og trúverðugu fjölmiðla sem smöluðu fólki í sprautuhallir og héldu því skíthræddu heima hjá sér vegna kvefpestar.
Í dag er BBC mjög upptekin af því að berjast gegn kjöri Trump í embætti Bandaríkjaforseta, svo eitthvað sé nefnt, og gerir það á sinn venjulega hátt: Fjallar um mál að því er virðist af sæmilegri vandvirkni, nokkru hlutleysi og mikilli yfirvegun, en laumar svo inn litlum molum sem mjaka lesandanum í rétta átt. Þannig las ég í dag, í samhengi við nýlegar náttúruhamfarir í Bandaríkjunum vegna fellibyls:
Þegar hann [Donald Trump] heimsótti Georgíu hélt forsetinn fyrrverandi því fram að Bandaríkjamenn væru að missa neyðarsjóði vegna þess að þeim hefði verið varið í ólöglega innflytjendur. Reyndar hafa þessi tvö aðskildu verkefni aðskildar fjárhagsáætlanir og Biden-stjórnin sakaði repúblikana um að dreifa djörfum lygum um fjármögnun vegna hamfaraviðbragðsins.
**********
While visiting Georgia, the former president claimed that Americans were losing out on emergency relief money because it had been spent on migrants. In fact, the two distinct programmes have separate budgets, and the Biden administration accused Republicans of spreading "bold-faced lies" about funding for the disaster response.
En bíddu nú við, hvað hefur blaðamannafulltrúi núverandi Bandaríkjaforseta sjálfur sagt, oftar en einu sinni? Skoðum það:
Fyndið hvernig netið gleymir engu (þótt jútjúb hafi hérna auðvitað gleymt öllu).
Þetta er svipað víðar. Opinberir sjóðir þurrkast upp í heimatilbúin vandamál og því svo neitað að það bitni á annarri opinberri þjónustu. Þannig gripu menn í tómt þegar neyðarsjóðir til aðstoðar Grindvíkingum voru opnaðir. Þannig grípur allskyns opinber þjónusta í tómt í samkeppni við vopnakaup yfirvalda, gæluverkefnin og starfshópa um flugvelli á gossprungum og þjóðarhallir á tímum hallareksturs.
Það er einfaldlega við hæfi að halda því fram að það sé stanslaust verið að ljúga að okkur í mjög annarlegum tilgangi.
Svo ég spyr, eins og ég spyr í fyrirsögninni: Er þetta satt eða lastu það á RÚV.is?
Því það er mjög líklega annaðhvort eða.
Sunnudagur, 6. október 2024
Að tala undir rós er gagnslaust
Yfirvöld hafa ákveðið að troða 400 innflytjendum inn í þéttbýlt svæði í Reykjavík. Nágrannarnir fá ekkert að vita fyrr en fjölmiðlar fjalla um málið. Þeir bregðast vitaskuld við. En hvernig?
Jú, með því að tala um eldvarnir!
Og hvort húsnæðið sé nógu gott fyrir innflytjendurna!
Auðvitað hefur enginn í raun áhyggjur af slíku. Íbúarnir í nágrenninu vilja bara ekki að dætur þeirra séu eltar heim úr skólanum, að gasgrillunum sé stolið úr görðunum og að hnífastungunum fjölgi á svæðinu.
Skiljanlega, en af hverju ekki að segja það hreint út á mannamáli?
Jú, því þá ertu orðinn rasisti, og hver vill vera rasisti?
Þetta tal undir rós skilar samt engum árangri. Slökkviliðið er fengið til að samþykkja allt og borgin sendir út menn sem segja að húsnæðið sé hið prýðilegasta til búsetu, og þar með hafa nágrannarnir látið slá öll vopn úr hendi sér. Þeir geta því kvatt gasgrillin og dæturnar fá ekki lengur að fara einar heim úr skólanum.
Höfum svo í huga að mannúðin í að senda fólk inn í framandi umhverfi þar sem allt er nýtt og ókunnugt er kannski vafasöm. Svona svolítið eins og að taka þorsk og skella í ferskvatn - hálfgerður dauðadómur fyrir framtíð viðkomandi. En það virðist vera innflytjendastefna Evrópu, og fleiri og fleiri byrjaðir að spyrna við fótum.
Það er að segja, þar sem það er ekki nú þegar orðið of seint, sem er víða. Spurðu bara foreldra barna í Austurbæjarskóla.
Vilja grenndarkynningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 5. október 2024
Fordæmið í Reykjavík
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir í viðtali í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark að rekstur borgarinnar hafi verið verri en hann reiknaði með þegar hann tók við embætti formanns borgarráðs sumarið 2022.
Svona fer þegar menn eru barnalegir.
Honum segist hafa fallið [sic] dálítið hendur en í uppgjörinu hafi spilað inn í fjármagnsliðir og há verðbólga.
Svona fer þegar menn hafa skuldsett sig á yfirdráttarlánum upp í rjáfur. Minnsta hnik í vöxtum þýðir að allir sjóðir hverfa í vaxtagreiðslur.
Reykjavík hefur lengi verið slæmt fordæmi eins og ég benti á í grein árið 2007. Þar endaði ég á eftirfarandi orðum:
Vinstrihneigð borgarstjórn er í fáum meginatriðum frábrugðin vinstrihneigðri landsstjórn. Eigi dæmið úr Reykjavík R-listans ekki að endurtaka sig á Alþingi Íslendinga er brýnt að atkvæði til vinstri leikvangs íslenskra stjórnmála verði sem fæst. Íslenskt samfélag á mikið undir því.
Auðvitað urðu þessu varnarorð að engu. Ekki löngu síðar höfðu Íslendingar kosið yfir sig Jóhönnu og Steingrím J. og um leið afmáði hægrið sig með því að leita á miðjuna - þróun sem snýst mögulega ekki við fyrr en við næstu kosningar til Alþingis, ef þá það.
Ástandið í Reykjavík árið 2007 átti að vera víti til varnaðar en varð að uppskrift. Það er því ekki bara borgin sem þarf núna að tæma sjóði sína í vaxtagreiðslur heldur líka ríkissjóður. Það kostaði sitt að halda stórt partý í mörg ár og núna koma timburmennirnir - og reikningarnir.
Að Reykvíkingar sitji enn einu sinni uppi með borgarstjóra sem sér ekkert fyrir, misreiknar sig, afneitar raunveruleikanum og segir A en gerir B - það er kannski ekki alveg þeim að kenna (þeir kusu breytingar en fengu óbreytt ástand, og minnihlutinn í borginni er ekki endilega beittur eins og flökunarhnífur) - en munu þeir læra af reynslunni? Ég held ekki. En hvað með almenna kjósendur á Íslandi? Varla heldur.
Nema auðvitað að einhver krakkinn stilli sér við upp meðfram skrúðgöngunni og hrópi að allt fína fólkið sé nakið, og að almenningur þori loksins að öskra af hlátri. Þá er von.
Ég bjóst ekki við þessum mikla halla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 3. október 2024
Allskonar fyrir aðra
Það þarf ekki að fylgjast með fréttum lengi til að sjá að innviðir og opinber þjónusta á Íslandi er í molum. Ástæðurnar eru margar: Fjárskortur (jafnvel þótt það sé nóg af fé), mannekla, of stutt vinnuvika opinberra starfsmanna, vanræksla, ábyrgðarflótti, flækjustig og listinn heldur áfram.
En það er huggun í harmi! Það er til nóg af peningum til að:
- Fjármagna erlend stríð
- Halda stórar ráðstefnur fyrir útlendinga
- Innræta börn með skaðlegri hugmyndafræði
- Byggja flottar skrifstofur fyrir opinbera starfsmenn
- Senda opinbera starfsmenn til útlanda, og með dagpeninga í vasanum
- Banna atvinnugreinar og sætta sig við tekjutapið
- Flytja inn íblöndunarefni til eyðileggja hagkvæmasta eldsneytið
- Elta uppi fólk og atvinnurekendur fyrir smávægilegustu yfirsjón á óskiljanlegu regluverki
- Halda úti fjölmiðli sem sýgur lífið úr öðrum fjölmiðlum
- Borga fólki sem kallar sig listamenn til að það hafi tíma til að skrifa greinar til stuðnings vinstriflokkunum
- Kaupa rándýr tilraunalyf og reyna troða í sem flesta og helst alla
- Setja á fót ógrynni starfshópa og nefnda sem skoða fjarstæðukenndar hugmyndir
- Halda uppi óteljandi útlendingum og keyra þá í leigubílum í ókeypis tannlækningar
- Niðurgreiða lúxusbíla fyrir efnað fólk
Er ég að gleyma einhverju?
Ofantalið er engan veginn tæmandi upptalning, bara nokkuð sem kemur fljótt til hugar. Vandamálið er svo ekki hvert og eitt þessara atriða. Vandamálið er almenn forgangsröðun yfirvalda á þeim takmörkuðu auðlindum sem vasar skattgreiðenda eru. Hugarfarið eins og það leggur sig. Allskonar fyrir alla, nema þá sem treysta á þjónustu og stuðning kerfisins.
Og það sem verra er: Það er ekki hægt að kjósa sig frá þessu hugarfari. Almenn sátt ríkir um að loftslagið sé í hættu, og að engu megi til spara til að bjarga því frá litla Íslandi, en að sjúklingar geti beðið. Erlendu stríðin eru mikilvægari en innlendu vegirnir. Útlendir embættismenn eru mikilvægari en innlendir atvinnurekendur.
Eitt, gegnumgangandi og að mínu mati rotið hugarfar sem fáir tala gegn og hvað þá þeir sem bjóða kjósendum upp á starfskrafta sína enda eru kjósendur engu skárri og kjósa einfaldlega þá sem syngja með kórnum. Svona rétt eins og þeir létu smala sér í sprautuhallir og klappa núna fyrir utanríkisstefnu Bandaríkjanna, hvað sem það kostar.
Á Íslandi verður kosið til Alþingis í seinasta lagi á næsta ári. Nú þegar eru menn farnir að tjá sig um möguleg úrslit þeirra kosninga og flestir þeir spádómar benda á óbreytt ástand. Hvað finnst þér um það?
Ég er nakin með fólk allt í kringum mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 30. september 2024
Nöfn flokka
Er rangt að segja að nöfn stjórnmálaflokka í dag séu ágæt lýsing á andstæðu stefnu þeirra?
Tökum dæmi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa utanríkisráðherra með eitt þingmál á dagskrá fyrir komandi þingvetur: Að færa lagasetningarvald á Íslandi undir Evrópusambandið (í einfölduðu máli). Ósjálfstæðismaður.
Vinstri-grænir hamast eins og þeir geta gegn framleiðslu á grænni, þ.e. endurnýjanlegri, orku. Hvorki vinstri (almúginn þarf orku) né græn (olían hleypur í skarðið þegar græna orkan er ekki til).
Viðreisn hefur það helst á stefnuskránni að gera íslenska hagkerfið að Evrópusambandshagkerfi. Nú er ég ekki að segja að íslensk hagstjórn sé góð - hún er satt að segja alveg glötuð - en það er engin viðreisn í því að einfaldlega afhenta öðrum lyklana.
Framsóknarflokkurinn er vel þekkt stærð í íslenskum stjórnmálum. Hann boðar ekki framsókn heldur vörn. Er einhver annar en ríkið að selja áfengi? Vandamál. Er hægt að kaupa danskar kjúklingabringur á Íslandi? Vandamál. Allt sem stígur skrefi í átt að framsókn er vandamál.
Samfylkingin er ekki fylking sem sameinar neitt þótt vinsæll formaður sé núna að slá í gegn í skoðanakönnunum. Vinstrimenn eru sundraðri en nokkru sinni. Fylking? Kannski? En sameinar fátt.
Sósíalistaflokkurinn er hugarfóstur manns sem hefur knésett fleiri fjárfesta og fjármagnseigendur en dæmi eru um. Hann er hamingjusamlega tilbúinn að eyða fé annarra. Kannski er það rétt skilgreining á sósíalista en að vera sósíalisti sem þarf á ríkum kapítalistum að halda til að fjármagna bæði viðskipti sín og stjórnmálaskoðanir er enginn sósíalisti. Hann er afæta. Alvörusósíalistar eru hamingjusamlega fátækir á meðan allir aðrir eru það líka. Gervisósíalistinn vill hafa aðgang að vösum auðmanna til að týna úr, og til þess þarf hann kapítalisma og kapítalista.
Gott og vel, enginn er fullkominn, en við flokksstjórnir vil ég benda á að kjósendur þurfi kannski á heiðarleika halda í nöfnum stjórnmálaflokka.
Sjálfstæðisflokkurinn breytir nafni sínu í Evrópusambandsflokkinn.
Viðreisn endurskíri sig Vonlausn.
Vinstri-grænir kalli sig Olíuflokkinn.
Framsóknarflokkurinn verður að Fortíðarflokknum.
Samfylkingin gerist Vindhanaflokkurinn.
Sósíalistaflokkurinn kalli sig Skattheimtuflokkinn.
Verður þá ekki auðveldara fyrir kjósendur að ákveða sig? Það held ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 29. september 2024
Ríkið vanræki grundvallarverkefni
Núna á að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn og að þessu sinni er það gert af Arnari Þór Jónssyni lögmanni. Áherslurnar hljóma vel í mínum eyrum og því spennandi að sjá hvort þetta gangi upp. Vonandi þá þannig að hægrimenn stækki sneið sína af kökunni frekar en bara að skiptast á atkvæðum innbyrðis (og hérna er ég að ganga svo langt að kalla Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn hægriflokka, og áherslur Flokks fólksins einnig samrýmanlegar hægristefnu að mörgu leyti - fólkið fyrst, svo allt hitt).
Í Danmörku eru sumir hægrimenn líka að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Borgernes Parti, undir forystu Lars Boje Mathiesen, sem hefur verið áberandi sem þingmaður og sérstaklega vinsæll meðal ungs fólks á samfélagsmiðlum. Til að geta boðið fram krafta sína sem þingmaður í flokki Lars þarf að hafa a.m.k. 10 ára reynslu úr atvinnulífinu og hver þingmaður má bara sitja á þingi í 10 ár að hámarki.
Hvers vegna? Jú til að koma í veg fyrir að þingmenn flokksins verði of samdauna kerfinu, hætti að sjá brestina og standi í raun vaktina.
Kannski aðrir flokkar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar, eða eitthvað svipað.
Ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt að hægriflokkarnir séu margir og ekki endilega mjög stórir eins og gildir um bæði Ísland og Danmörku. Kannski er þetta afleiðing þess að þessir stærri og hefðbundnari flokkar hafi staðnað og farnir að snúast meira um að halda völdum en bjóða upp á sterka og skýra hugmyndafræði. Kannski er þetta afleiðing skoðanakannana-stjórnmála þar sem í sífellu er brugðist við lélegum mælingum frekar en að standa fastur á sýn sinni og sanna fyrir kjósendum að baráttan er raunveruleg, og megi atkvæðin þá koma í kjölfarið.
En spennan magnast, held ég.
Blanda af reyndu fólki og ungu fólki úr atvinnulífinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)