Mánudagur, 18. nóvember 2024
Niðurskurðarvinsældir
Í Argentínu hefur nú setið í stól forseta í um ár maður sem lofaði að saxa á opinber útgjöld með vélsög og hefur staðið við það. Javier Milei tók við blússandi hallarekstri og verðlausum gjaldmiðli á líknahjálp og snéri ríkisfjármálunum við á tveimur mánuðum og haldið hallarekstrinum frá síðan. Já, á tveimur mánuðum gat hann stöðvað skuldasöfnun og hafið uppbyggingu á ríkisfjármálunum. Verðbólgan er sú lægsta í áraraðir.
Og það besta af öllu: Vinsældir hans halda áfram að vera miklar og stöðugar og með því mesta sem mælst hefur miðað við tíma í forsetastól.
Sjá nánar í frétt Reuters (sem ótrúlegt en satt forðast að reyna afbaka nokkuð).
Er einhvern lærdóm hægt að draga hérna?
Að það sé hreinlega hægt að lofa því að tímar muni versna áður en þeir byrja að batna og útskýra nákvæmlega hvernig og af hverju, og kjósendur skilja það?
Já, þann lærdóm má alveg draga.
Kjósendur eru stundum áhrifagjarnir og falla fyrir fagurgala stjórnmálamanna en stundum má líka reyna að höfða til skynsemi þeirra - að benda á að nammiskálin er tóm og kominn tími á aðhald sem er erfitt í upphafi en nauðsynlegt til lengdar.
Á Íslandi líkist ástandið að mörgu leyti því í Argentínu áður en nýi forsetinn tók við. Hallarekstur hins opinbera er stjórnlaus og heldur vaxtastigi uppi. Ríkisfjármálin eru á svipuðum stað og þau í Reykjavík og er þá mikið sagt - skuldasöfnun ofan á skuldasöfnun, meðal annars til að geta borgað vextina af lánunum.
En það þarf ekki meira en nokkra mánuði til að snúa af þessari braut og útskýra fyrir fólki að aðstæður þurfi að versna áður en þær batna - að áfengið er búið og timburmenn framundan því annað gengur ekki til lengdar.
Köllum vinsældir sem fylgja í kjölfar slíkrar hreinskilni niðurskurðarvinsældir - andstæða þess að kaupa sér vinsældir fyrir lánað fé.
Og vonum að einhverjir frambjóðenda hafi vit á að skera sig aðeins frá fjöldanum með því að lofa heilbrigðu heimilisbókhaldi sem valkost við fulla unglinginn með kreditkort foreldra sinna. Og segja hreint út að hlutir muni versna áður en þeir batna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 16. nóvember 2024
Veirutímum sópað undir teppið
Það er eitthvað skuggalegt ráðabrugg í gangi, eða röð tilviljana sem hefur sömu afleiðingar.
Eins og hér er bent á þá mun þingmennska Ölmu Möller gera það torveldara en ella að fá Alþingi til að hefja rannsókn á veirutímum svipaða þeirri og Danir hafa núna sett í gang, meðal annarra ríkja (og verður vonandi ekki bara hvítþvottur á aðgerðum yfirvalda). Sem ráðherra í ríkisstjórn gæti Alma enn frekar staðið í vegi fyrir slíkri rannsókn og sem heilbrigðisráðherra sennilega auðveldlega stöðvað slíka rannsókn í fæðingu.
Er eitthvað baktjaldaleikrit í gangi eða eru menn bara óvart að stilla upp fólki þannig að veirutímum verði sópað undir teppið?
Ég veit ekki svarið en það skiptir ekki máli í raun hvort það er. Menn geta hoppað úr flugvél án fallhlífar eða með fallhlíf sem er búið að eiga við. Niðurstaðan er sú sama þótt ásetningurinn sé ólíkur.
Kannski var heldur ekki klókt að gefa upp þessa áætlun. Flest fólk sem ég heyri tala um veirutíma gerir það með óbragð í munni og myndbönd sem minna okkur á vitleysuna eru talin vera grín. Fáránlegt grín. Fólk með plastpoka á höfðinu, grímu í sundlaug og sótthreinsi til að maka á alla fleti. Hlægilegt vissulega þótt það óefnislega hafi samt verið verst: Einangrun, einmanaleiki, þunglyndi og annað sem verður ekki svo auðveldlega gert að fyndnu myndbandi.
En sjáum hvað setur. Alma er vissulega þekkt andlit og það virðist oft vera nóg til að krækja í atkvæði. Innihaldið skiptir þá minna máli. Jafnvel þótt á umbúðunum standi að það sé eitrað.
Alma heilbrigðisráðherraefni Samfylkingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 15. nóvember 2024
Um blaðamenn og að læra sína lexíu
Trump var um daginn endurkjörinn forseti Bandaríkjanna og er núna að manna ýmsar stöður í stjórnkerfi þar sem tilnefningar forseta eru margar, óháð því hvort sá forseti er að skapi evrópskra viskubrunna eða ekki.
Nýlega tilkynnti Trump að heilbrigðismálaráðherra hans yrði Robert F. Kennedy, Jr., og margir supu hveljur.
Samsæriskenningasmiður!
Andstæðingur lýðheilsu!
Gagnrýnir sífjölgandi bólusetningar gegn öllu og engu!
Telur þær jafnvel hafa afleiðingar!
Blaðamenn nenna ennþá að taka upp hanskann fyrir lyfjaiðnaðinn og má nefna þessa frétt TV2 í Danmörku sem dæmi.
Þar á bæ tókst að draga upp úr hattinum einhvern mann með fínan titil og fína gráðu sem kallar dag tilnefningarinnar óhugnanlegan fyrir lýðheilsuna og að þetta sé mögulega bara vinagreiði. Núna muni vísindin eiga undir högg að sækja!
Vangaveltur um vensl sífjölgandi bólusetninga auk aukinnar lyfjanotkunar almennt og sprengingar í fjölda allskyns heilsufarsvandamála, sem læknar á launaskrá lyfjafyrirtækja hafa kallað samsæriskenningu, komast á dagskrá.
Skelfing!
Okkur gæti mögulega boðist færri sprautur frekar en fleiri í framtíðinni! Lýðheilsan að hruni komin!
En gott og vel. Blaðamenn lifðu einhvern veginn af veirutíma þrátt fyrir að hafa brugðist öllum sem treystu á þá fyrir upplýsta og hlutlausa fréttaöflun. Þeim er velkomið að halda áfram að grafa eigin gröf.
Það er ekki þar með sagt að verðandi heilbrigðismálaráðherra Bandaríkjanna hafi rétt fyrir sér í öllu. En að reyna gamla bragðið - afskrifa einhvern sem samsæriskenningasmið af því hann stígur á rangar tær - mun ekki virka í þetta skipti. Og ætti aldrei að virka aftur.
Og ég held, svei mér þá, að fleiri og fleiri séu að átta sig á því.
Föstudagur, 15. nóvember 2024
Könnun: Kjósendur vilja engu breyta
Á meðan Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Hollendingar, Argentínumenn, íbúar El Salvador og fleiri þjóðir eru komnar vel á veg að gera upp við vókið, vitleysuna, verðbólguna og fleira gott þá kjósa Íslendingar þau þægindi sem felast í óbreyttu ástandi, eða það benda skoðanakannanir til. Það er að sumu leyti skiljanlegt. Betra finnst börðum hundi að fá húsaskjól og mat þótt lélegt sé en að vera óbarinn úti, mögulega í kulda og vosbúð.
Það er nefnilega ekkert víst að breytingar séu alltaf til batnaðar.
Er þá ekki bara best að kjósa þá sem tala vel um báknið, stofnanirnar, kerfið, skatta til að breyta veðrinu og lækna fátækt, flækjustigin, ríkisútgjöldin, regluverkið og innflytjendurna úr fjarlægu heimshornunum?
Og um leið um nauðsyn hallareksturs í umhverfi svimandi skatta til að halda allri útgerðinni í gangi, sem gætu svo sem hækkað aðeins, en bara á ríkt fólk.
Þeir flokkar eru að vísu til sem tala um að eyða hallarekstrinum og lækka skatta án þess að draga úr ríkisumsvifum að neinu ráði, en látum slíkt tal eiga sig.
Auðvitað er hægt að lækka bæði skatta og skuldir á sama tíma og útrýma verðbólgu í leiðinni - með því að leggja niður, einkavæða, selja og hreinlega lýsa yfir að hérna ætli ríkisvaldið að draga sig til baka og ef einhver sér þörf á viðkomandi þjónustu þá geti viðkomandi bara stofnað til hennar.
En þannig tal hef ég tæpast rekist á.
Spennandi kosningar? Kannski - það er enn tími til stefnu til að draga skítugar brækur einhvers úr skúffunni eða framkalla minnisleysi hjá frambjóðendum - en sjáum hvað setur.
Viðreisn í mikilli sókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 12. nóvember 2024
Of stór, víðfeðm og valdamikil sveitarfélög
Sameining sveitarfélaga átti að ná svo mörgum markmiðum.
Stærri sveitarfélög með meira á milli handanna áttu að geta veitt góða þjónustu og farið í nauðsynlegar framkvæmdir.
Samlegðaráhrif áttu að losa um mikla fjármuni.
Lögbundnum skylduverkum átti að sinna betur.
Allt þetta án þess að tengslin milli sveitastjórnarmanna og kjósenda rofni vegna fjölmennis og víðfeðmi.
Raunin er almennt séð önnur.
Sveitarfélög sem hafa haldið sjálfstæði sínu standa sig almennt betur en hin. Þrýstingurinn á að moka öllu höfuðborgarsvæðinu í ráðhús Reykjavíkur hefur sem betur fer ekki borið árangur. Skattgreiðendur utan Reykjavíkur sjá það á veskinu og þjónustunni.
Sveitarfélög með marga útvarsgreiðendur eiga auðveldar með að sökkva sér í skuldir - slá lán út á skatttekjur framtíðar.
Innan stærri sveitarfélaga eru svæði sem finnst þau vera afskipt og fá enga rödd í ákvarðanatöku.
En það er ekki bara við sveitarfélögin að sakast að þau eru mörg hver í blússandi skuldasúpu eftir fjölmörg hagstæð ár og þurfi núna að taka lán til að borga yfirdráttinn. Ríkisvaldið hefur séð tækifæri í sístækkandi sveitarfélögum og mokar á þau allskyns nútímalegum kröfum og skyldum. Sum sveitarfélög hafa svo bætt í með eigin gæluverkefnum.
Skattgreiðandinn týndist í leiðinni, og víða einnig grunnskólanemendur, ökumenn og ungt fólk í leit að hagstæðu húsnæði.
Það er góð hugmynd að Samband íslenskra sveitarfélaga standi núna að ráðstefnu um samstarf ríkis og sveitarfélaga. Þar er allt í molum og mögulega ástæða til að endurhugsa þá vegferð sem var farið í með sameiningu sveitarfélaga og notkun ríkisins á þeim sem einskonar ruslatunnu fyrir gæluverkefni.
Beint: Samstarf ríkis og sveitarfélaga rætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 11. nóvember 2024
Fasistar fyrr og nú
Fasistum fer núna töluvert fjölgandi er marka má tungutak pólitískra rétttrúnaðarpresta sem hafa fyrst og fremst þá skoðun að vera á öndverðri skoðun við Trump. Ef Trump vill A þá vilja þeir B. Ef hann segir að himininn sé blár þá er hann í raun grænn. Ef hann segir að veira hafi átt uppruna sinn á rannsóknarstofu þá varð hún til náttúrulega í leðurblökum.
En eitthvað hefur skilgreiningin á fasisma breyst. Einu sinni boðuðu fasistar sterkt ríkisvald undir stjórn öflugs leiðtoga sem hélt því fram að að fólk sé ekkert án ríkisins og ríkið æðra fólkinu, og að þagga megi niður í öðrum skoðunum. Sem sagt, nútímalegur vinstrimaður að einhverju leyti, herskár einræðisherra að öðru. Ekki sami hlutur og að vera nútímalegur vinstrimaður, en margir skyldleikar.
Í dag eru fasistar þeir sem vilja hafa hömlur á þessu ríkisvaldi, hægja á útþenslu þess, skattheimtu og yfirráðum yfir lífum einstaklinga, og eru sæmilega opnir fyrir mál- og tjáningarfrelsi.
Gott og vel, það fer að styttast í að maður fari hreinlega að kalla sig fasista í nýju skilgreiningu þess orðs. Væri það ekki eitthvað?
Auðvitað hefur orðræða rétttrúnaðarprestanna fyrirsjáanlega ýtt þeim út í horn sem öllum er sama um. Svimandi fjárhæðir hafa farið í að borga Hollywood-stjörnum og frægum þáttastjórnendum til að kalla alla sem eru ekki á ystra jaðri vinstrisins fasista, nasista og rasista. Fjölmiðlar rétttrúnaðarprestanna laða að sér töluvert færra fólk en vinsælir hlaðvarpsstjórnendur. Almenningur er farinn að ranka aðeins við sér og tjá sig í gegnum atkvæðagreiðslur gegn firringunni, gefið að yfirvöld banni ekki stjórnmálaflokka á uppleið í svokölluðum lýðræðisríkjum.
Fasistarnir svokölluðu eru miklu minni fasistar en þeir sem kalla þá fasista þegar miðað er við upprunalega skilgreiningu hugtaksins og það er farið að blasa við fleirum.
En kannski það að heyra að einhver sé kallaður fasisti sé vísbending um að þar sé rödd þess virði að hlusta á?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 10. nóvember 2024
Hætta nýskráningu bensín- og dísilbíla á næsta ári, í alvöru?
Viðreisn vill hætta nýskráningu bensín- og dísilbíla á næsta ári segir flokkur sem hingað til hefur verið á uppleið í skoðanakönnunum. Vonandi lóðfellur hann í sæti við hlið Vinstri-grænna í kjölfar slíkrar yfirlýsingar. Samfylkingin á skilið sömu örlög.
Bensín- og dísilbílar eru ekki að fara neitt í mörg ár svo það sé á hreinu. Fólk sleppir því frekar að borða en fylla á slíka bíla. Þeir eru hestar nútímans. Rafmagnsbílar hafa marga kosti en líka galla, og þann galla stærstan að vera óaðgengilegir venjulegu launafólki sem þarf að komast á milli staða. Ef það breytist þá endurskoða ég auðvitað þá afstöðu, en í daglegu lífi eru spádómar oft lítils virði.
Svona yfirlýsingar koma samt ekki á óvart. Það er á mörgum vígstöðvum unnið að því að taka bílinn af venjulegu launafólki. Þetta er gert með boðum og bönnum, sköttum og öðru. Ferðafrelsi venjulegs fólks fer hreinlega í taugarnar á mörgum með nefið upp í loftið.
Þetta kemur loftslagsbreytingum ekkert við. Launafólk í bílum fyllir göturnar, býr til umferð og hávaða og kallar á viðhald og uppbyggingu vega. Veirutímar voru mun þægilegri fyrir þá sem líta niður á aðra - engin umferð, ekkert vesen.
En það er örlítil von og hún heitir kosningar. Kjósendur geta valið hvort þeir vilji fá að halda sínu eða sjá á eftir lífsgæðum sínum. Því miður virðast margir velja að láta svipta sig frelsi og eigum en nánast aldrei er of seint að skipta um skoðun.
Ég vissi ekki að öll vitleysan frá meginlandi Evrópu hefði náð á strendur Íslands en er hér með leiðréttur. Enn og aftur ætla Íslendingar að verða kaþólskari en páfinn - innleiða þvæluna hraðar og ákafar en aðrir.
En sem sagt, það eru kosningar framundan. Sjáum hvað setur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 10. nóvember 2024
Stjórnarskrárvörðum rétti kvenna til þungunarrofs?
Umfjöllun evrópskra fjölmiðla um stjórnmálalandslagið í Bandaríkjunum er oft sérstök, svo ekki sé meira sagt, og fellur ágætlega að lýsingunum í þessum pistli, þar sem meðal annars er skrifað:
Íslenskir fjölmiðlar skilgreina hugtakið sérfræðingur af frjálslyndi og jákvæðni. Hafi menn fengið sér Big Mac í Disney World, spilað golf í Orlando og villst í Central Park eru þeir orðnir sérfræðingar í bandarískum stjórnmálum.
Gott dæmi er nýleg umfjöllun um konur sem fjarlægja sig núna af stefnumótamarkaðinum vegna ósættis við karlkynið eins og það leggur sig (nokkuð sem kemur væntanlega karlmönnum til góða og minnkar líkurnar á að lenda í baneitruðu sambandi). Þar segir meðal annars:
Er mörgum konum ofboðið að karlmenn hafi kosið frambjóðanda sem hefur ekki aðeins verið sakaður um kynferðisofbeldi af tugum kvenna heldur stóð einnig á bak við tilnefningar þriggja hæstaréttardómara sem greiddu atkvæði með því að hnekkja stjórnarskrárvörðum rétti kvenna til þungunarrofs.
Þarna er öllu blandað saman. Það er gefið til kynna hér að dómari sem hefur hlotið útnefndingu úrskurði í málum að skapi þess sem tilnefndi, og verður það að teljast meðal langsóttari samsæriskenninga. Því er haldið fram að í stjórnarskrá Bandaríkjanna standi eitthvað sem heimili alríkinu að setja lög í öllum ríkjum Bandaríkjanna um fóstureyðingar og er hér með lýst eftir því hvaða ákvæði það nákvæmlega er.
Nú er auðvitað ekkert nýtt við að hið opinbera seilist mun lengra í valdabrölti sínu en stjórnarskrár heimila, og fær maður jafnvel á tilfinninguna að það sé engin stjórnarskrá í gildi sem verji almenning gegn ásókn hins opinbera í frelsi og eigur. En það má með veikri von vona að dómstólar stöðvi slíka sjálftöku á völdum, og það er það sem Hæstiréttur Bandaríkjanna gerði í tilviki fóstureyðinga. Löggjöf um þær á heima í ríkjunum, ekki í Washington DC, rétt eins og íslensk löggjöf um fóstureyðingar er ákveðin af Alþingi en ekki Evrópusambandinu, Sameinuðu þjóðunum eða þýska þinginu.
Menn geta svo verið sammála eða ósammála - fundist að löggjöfin í Texas eða Þýskalandi eða hvar sem er ætti að vera öðruvísi - en það er bara allt önnur umræða.
Hvað sem því líður þá er við hæfi að vitna aftur í pistilinn sem vísað var í hér að ofan:
Menn horfðu á Bandaríkin með skandinavísk frjálslyndisgleraugu á nefinu og höfðu litlar forsendur til að skilja hvað var að gerast. Þegar upp var staðið féllu þessir sérfræðingar allir á prófinu. Þeir unnu útfrá þröngum forsendum og óskhyggju sem giltu ekki þegar talið var upp úr kjörkössunum.
Það er nefnilega það, og fjölgar þar með ástæðunum til að taka lítið mark á evrópskum fréttaskýringum um bandarísk stjórnmál og jafnvel stjórnmálin eins og þau leggja sig, með veigamiklum undantekningum.
Konur sniðganga karlmenn út af Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 10. nóvember 2024
Hvað er í boði í Brussel
Stundum getur allskonar tal í kringum Evrópusambandsaðild verið furðulegt, svo sem að það blasi ekki við hvað felist í slíkri aðild og að einhvers konar aðildarviðræður þurfi að fara fram til að komast að því. Hvað er í pakkanum? Hvað er í boði? Við bara höfum ekki hugmynd! Förum í viðræður til að komast að því!
Af því að - sjáið til - Ísland er með svo mikla sérstöðu. Fámenn eyja í Norður-Atlantshafi sem reynir að stunda landbúnað í samkeppni við sólríkari svæði og halda úti dreifðri byggð.
Er ekki hægt að búast við allskyns styrkjum og undanþágum? Jafnvel að fá meira í kassann en aðildin kostar?
Fá fé úr vösum þýskra skattgreiðenda, eins og Austur-Evrópa og önnur svæði sem Íslendingar virðast vilja bera sig saman við?
Fær ekki Malta slíka meðferð? Fámenn eyja sem reiðir sig á meginlandið?
En svona hugsa þeir ekki í Brussel. Þar eru menn ekki að fara breyta reglunum fyrir Ísland. Jú, mögulega eru einhverjir styrkir í boði þar til þeir eru það svo ekki lengur. Kannski er ákveðin sérstaða í legu Íslands sem veitir smávegis afslátt. En aðildarviðræðurnar eru í raun aðlögunarviðræður: Hversu hratt og vel getur Ísland aðlagað sig að kröfum Evrópusambandsins - ekki öfugt.
Svo geta menn hugleitt það vel og vandlega hvort Evrópusambandið sé eitthvað sem er að dafna og batna eða eitthvað sem er að grotna niður. Eru fyrirtækin innan þess að vaxa og eflast eða hreinlega að loka verksmiðjum og flýja? Eru orkureikningarnir að hækka eða lækka? Er glæpum að fjölga eða fækka? Er verið að aðlaga innflytjendur að evrópskum gildum eða víkja fyrir framandi gildum úr fjarlægri fornöld?
Þetta með gjaldmiðilinn er svo önnur saga sem þarf ekki að blanda saman við aðild að Evrópusambandinu. Best væri auðvitað að loka Seðlabanka Íslands og koma á algjöru frelsi en þá þurfa opinberir starfsmenn að missa störfin svo sú umræða nær ekki lengra.
Hvað er svo í boði í Brussel? Það blasir við. Þar á bæ fara menn ekki í aðildarviðræður heldur innlimunarviðræður, og kröfurnar blasa við.
Innganga í ESB ekki töfralausn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 7. nóvember 2024
Hvað gerir Trump núna?
Það er alveg magnað að heyra fólk tala um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
Hvað gerir hann núna?
Núna stoppar hann ekkert með þingmeirihluta í farteskinu!
Hann mun núna banna fóstureyðingar!
Núna verður Project 25 hrint í framkvæmd!
Ég tek eftir því að enginn talar um að Trump muni gera eitthvað hræðilegt aftur eða eins og seinast. Það man hreinlega enginn eftir neinu sem hann gerði annað en að á hans forsetatíð valdi Hæstiréttur Bandaríkjanna að endurskoða eigin úrskurð um heimildir alríkisins til að setja lög um fóstureyðingar innan ríkja Bandaríkjanna. Sem sagt: Ekki einu sinni verk Trump.
Hefur fólk gleymt því að hann var forseti í 4 ár og því algjörlega fyrirsjáanlegur? Auðvitað hjálpa þingmeirihlutar en þeir eru jú samt bara það - þingmenn sem kjósa um mál, hver og einn, og stundum úr takt við þarfir og óskir forsetans.
Auðvitað er þetta viðbúið tal og eins hótanir fólks um að flytja frá Bandaríkjunum og hvaðeina og að ætla núna að stofna til mótmæla og rústa eigum venjulegs fólks. Eftir nokkrar vikur af ósköp venjulegri forsetatíð sem hefst á því að undirrita margar tilskipanir mun fólk ekki taka mikið eftir því hver er forseti Bandaríkjanna, a.m.k. ekki í Evrópu. Trump mun birtast á sjónvarpsskjá þar sem hann fer í opinberar ráðstefnur og þess háttar og yppa öxlum.
Eins og seinast.