Löghlýðnir borgarar spyrja sig nokkurra spurninga

Í aðsendri grein á visir.is eru færð rök fyrir því að ríkisvaldið eiga að standa í vegi fyrir söluaðilum löglegs neysluvarnings og kaupendum hans. Höfundur kemst svo að orði:

Löghlýðnir borgarar, fyrirtæki, og áhugamenn um íslenskt atvinnulíf hljóta því að spyrja sig nokkurra spurninga ...

Þessi áskorun er mögulega við hæfi, en öllum spurningum er fyrir löngu búið að svara. Þrátt fyrir allt tal um ólöglega smásölu á áfengi þá svara borgarar spurningum á sama hátt: Við viljum frjáls viðskipti með löglegan neysluvarning.

Kannski ekki allir, en nógu margir til að sparka rækilega í báknið og fjósið sem það heldur úti fyrir þæga opinbera starfsmenn sem geta sólundað miklu fé og fjármagnað sóunina með illa reknum verslunum.

Löghlýðnir borgarar spyrja sig nokkurra spurninga oft á dag. Í tilviki viðskipta með áfengi í síauknum mæli þannig að þeir vilji hafa þau ábyrg, dreifð, aðgengileg og bjóði upp á mikið úrval.

Auðvitað sofa margir ekki vel á nóttunni vitandi að sumir hjóla án hjálms, drekki á annan hátt en þeir sjálfir og kjósi öfgahægriflokka, svokallaða. En svona er lífið í frjálsum ríkjum, svona nokkurn veginn. Mæli ég með því að menn finni leiðir til að sofa rólega á nóttunni þótt annað fólk fari stjórnlaust í taugarnar á þeim. 


Er atvinnufrelsi skilgreint í reglugerð eða stjórnarskrá?

Í stjórnarskránni stendur eitthvað um atvinnufrelsi. Slíkt er við lýði, en samt ekki.

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Það sem menn skrifa svo í lögin er að nánari útfærslu eigi að skilgreina í reglugerð. Um leið breytist orðið „almannahagsmunir“ í raun í „pólitískir hagsmunir ráðherra“.

Atvinnufrelsi er þar með bundið við og fundið í reglugerð sem fellur undir valdsvið einhvers ráðherrans, sem um leið er þingmaður.

Kannski er þetta viðeigandi í einhverjum sjaldgæfum málaflokkum, svo sem í þeim er varða almannahagsmuni“ (til dæmis að banna hárgreiðslumanni að klippa mann en leyfa sama manni að standa í röð inni í áfengisverslun).

En það er ljóst að tengslin milli stjórnarskrár og atvinnufrelsis eru í dag fullkomlega skorin. Atvinnufrelsið er ekki frelsi sem má skerða undir alveg sérstökum aðstæðum, heldur sérstök réttindi sem hið opinbera veitir ef það vill.

Þetta hentar hinu opinbera mjög vel rétt eins og konungum miðalda sem seldu atvinnuréttindi dýrum dómi. En þú, kæri borgari, færð að borga og líða fyrir þetta fyrirkomulag. Gefið, auðvitað, að þú sért ekki opinber starfsmaður.


mbl.is Jón orðlaus yfir ósvífni ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju reiddust goðin þá?

Mikið held ég að mér myndi finnast skemmtilegt að fá borgað fyrir að vera blaðamaður og að fá borgað fyrir að henda í nokkur orð um eitthvað sem ég les á erlendum síðum, þá aðallega BBC, CNN og álíka.

Ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að vera leiðréttur, og væri ég leiðréttur ekki þrýst á mig að birta leiðréttingu og hvað þá biðjast afsökunar. Nei, ég gæti einfaldlega haldið áfram að skrifa á sama hátt og fá textann birtan.

Ég gæti til dæmis skrifað fyrirsögnina Markaðir nötra vegna uppsveiflu hægriflokka og bent á 2% lækkun á hlutabréfavísitölu í Frakklandi. Þá lækkun þyrfti ég ekki að setja í neitt samhengi, svo sem að auðvitað taki markaðir svolitla kippi á einn eða annan veg þegar stærri fréttir úr stjórnmálunum birtast. En að þeir nötri? Erfitt að segja.

Skoðum þessa hlutabréfavísitölu, CAC-40 hlutabréfavísitöluna frönsku:

notra

Hverju reiddust goðin þegar sama hlutabréfavísitala tók miklu stærri dýfur á undanförnum 12 mánuðum?

Blaðamaður nefnir líka skarpa lækkun á hlutabréfum tveggja banka án þess að minnast á svipað stórar eða mun stærri breytingar í hlutabréfaverði sömu banka á innan við ári.

Hverju reiddust goðin þá? Eða hvað gladdi þau?

Ég veit að margir óttast afleiðingar þess að gagnrýnendur óhefts innflutnings á fólki og stjórnlausrar eyðslu í orkuskort labba núna inn í valdalaust þing í Evrópu sem skiptir engu máli. Selji jafnvel einhver hlutabréf. 

En vil ég þá frekar biðja menn um að róa sig og lesa hugleiðingar blaðamanns hjá BBC sem er farinn að efast um að við fáum eitthvað út úr því að stimpla fólk með æsandi titlum sem selja fyrirsagnir:

Lokahugsun: Þegar reynt er að gera harðar spár um hvers konar vald þjóðernissinnaðir hægriflokkar munu eða munu ekki beita í ESB í framtíðinni eru merkingar oft ekki svo gagnlegar.
Sumir þjóðernissinnar sem eru langt til hægri eru að færast nær meginstefinu til að ná til fleiri kjósenda og sífellt fleiri stjórnmálamenn frá miðju-hægrinu hafa verið að apa eftir tungutaki ytra hægrisins í heitum málum eins og fólksflutningum og umhverfismálum til að reyna að halda í stuðningsmenn.
Á heildina litið fengu mið-hægrimenn flest sæti og náðu mestum árangri á Evrópuþinginu.
Þú gætir samt ekki séð þessa fyrirsögn svo oft. Hún er minna áberandi en umræða um hag öfgahægrisins.

**********

A final thought: When trying to make firm predictions about the kind of power the nationalist right will, or will not, exert in the EU going forward, labels are often not that helpful.
Some hard-right nationalists are becoming more mainstream to woo more voters and increasing numbers of centre-right politicians have been aping the language of the far right on hot button issues like migration and the environment, in an attempt to hold on to supporters.
Overall, the centre-right won the largest number of seats and made the biggest number of gains in the European Parliament.
You might not see that headline all that often though. It’s less eye-catching than a debate about far-right gains.

Var þetta ekki hressandi yfirveguð greining hjá fjölmiðli sem er meðal stærstu boðbera rangupplýsinga og áróðurs sem um getur?

Franskir hlutabréfaeigendur munu jafna sig hratt. Það mun Evrópa líka gera. Í raun fór bara fram stór skoðanakönnun þar sem niðurstöðurnar komu mörgum á óvart, en völdin verða eftir sem áður í höndum ókjörinna embættismanna.

Alveg eins og lýðræðiselskendurnir vilja hafa það.


mbl.is Markaðir nötra vegna uppsveiflu hægriflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laumufrumvörp

Flest lagafrumvörp fá litla athygli, er ekki veitt neitt brautargengi og verða ekki uppspretta neinnar umræðu, sem betur fer. Flest þeirra eru varla pappírsins virði. Þau virðist þjóna þeim tilgangi að koma viðkomandi þingmanni á ræðuskrá og geta sagt frá því seinna hvað viðkomandi lagði mörg frumvörp fram. 

En sum eru hættuleg. Þau fá kannski enga athygli utan þingsins en eru þess eðlis að þau gætu hitt á rétta strengi innan þingsins, er veitt brautargengi og verða að lögum. Og þá situr samfélagið eftir í súpunni.

Sem dæmi um slíkt frumvarp er þingskjal 177 á 154. löggjafarþingi 2023–2024. Úr greinargerð:

Þegar hættuástand eykst getur það haft veruleg áhrif á verðlag tiltekinna vara. Eðli hættunnar eða viðbrögð stjórnvalda við hættunni geta leitt til þess að eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst verulega eða þá að verulega dregur úr framboði á vörum. Í slíkum tilfellum skapast freistnivandi hjá þeim söluaðilum sem framleiða eða eiga birgðir af slíkum vörum. Þeir geta þá selt vörur sínar á okurverði. Það getur aukið áhættu á samfélagslegu tjóni af völdum hættuástands og auk þess veldur það óneitanlega fjártjóni hjá almenningi til skamms tíma litið.
    Í heimsfaraldri kórónuveiru bárust fregnir af verðhækkunum bæði innan og utan lands á sóttvarnavörum, grímum, sótthreinsispritti og fleiru. Verð hækkaði verulega á skömmum tíma og dæmi voru um óprúttna aðila sem hömstruðu til sín slíkar vörur á fyrri stigum faraldursins í gróðavon. Almennt má gera ráð fyrir því að flestir markaðsaðilar séu samfélagslega meðvitaðir og selji vörur á sanngjörnu verði á hættutímum en þegar freistnivandi sem þessi skapast þarf löggjöf að veita stjórnvöldum færi á að grípa í taumana. Það yrði með öllu ótækt ef, svo dæmi sé tekið, efnaminna fólk gæti ekki fylgt fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnaaðgerðir vegna þess að sóttvarnabúnaður hefði hækkað verulega í verði á skömmum tíma.

Okur! Fjártjón! Freistnivandi! Grípa í taumana! Fyrirmæli stjórnvalda um ákveðin innkaup!

Og hvað eiga lögin þá að segja, samkvæmt frumvarpi?

 Þegar eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst til muna vegna hættuástands eða verulega dregur úr framboði á tilteknum vörum vegna hættuástands getur ríkislögreglustjóri kveðið á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð tiltekinna vara eða vörutegunda.

Hámarkssöluverð! Og málið er leyst, væntanlega. Þökk sé ríkislögreglustjóra, hvorki meira né minna.

Þetta frumvarp er mögulega eitursprengja. Það vita allir sem hafa komist í gegnum fyrstu blaðsíðuna í hagfræðibókinni að lögbundið hámarksverð býr til skort, tefur aukið framboð og leiðir til rangrar forgangsröðunar á takmörkuðu upplagi. En þingmenn gætu haldið annað og samþykkt sköpun á svona vopni fyrir yfirvöld. 

En hvað er til ráða til að stöðva svona aðfarir að markaðshagkerfinu? Auðvitað eiga þingmenn að geta lagt fram hvaða frumvarp sem er, en þurfa vökulir borgarar að grípa svona eiturpillur í fæðingu og gera eitthvað í því? Ekki er hægt að treysta á blaðamenn auðvitað, og hvað þá þingmennina sem samþykkja sín á milli að hagfræði er ekki raunveruleg vísindi og að lög geti breytt heiminum.

Hvað sem því líður þá óska ég þingskjali 177 skjótum dauða og að einhver segi eitthvað við einhvern til að koma í veg fyrir að álíka þvæla nái að líta dagsins ljós aftur, á þinginu hvorki meira né minna.


Hættulegu hægriöfgaflokkarnir

Það hefur verið mikil veisla hjá blaðamönnum seinustu vikur. Þegnar Evrópusambandsins eru þessa dagana að kjósa til Evrópuþingsins og velgengni öfgahægriflokka mikil. Stundum kallaðir fjarhægriflokkar. Stundum popúlískir þjóðernisflokkar. En neikvætt telst þetta.

En fyrir utan að vilja hægja aðeins á stjórnlausu flæði innflytjenda inn í álfuna, og tilheyrandi útþynningu á öllu sem mætti kalla evrópskt (menning, gildi, kristni, hefðir, réttarríki, stuðningsnet fyrir þá sem standa höllum fæti), hvað vilja þessir flokkar annað?

Hvað er svona öfgafullt við stefnu þessara flokka? 

Er þar verið að boða vopnaðar götuóeirðir? Fjöldamorð á aðfluttu fólki? Gasklefa? Lög sem mismuna einstaklingum eftir kynþætti? Afnám velferðarkerfisins? Afnám lýðræðis og upptöku flokkseinræðis? 

Hvað er svona öfga við þessa flokka, og hvað er svona hægri við þessa flokka?

Grípum niður í setningu úr evrópskum stjórnmálum:

Ríkisstjórnin mun taka upp nýja vinnuskyldu sem kemur í stað óvirks stuðnings með skyldu til að leggja fram 37 klukkustundir á viku fyrir borgara með aðlögunarþörf. Við verðum að mæta nýjum innflytjendum og þeim sem fyrir eru með kröfum og væntingum um standa á eigin fótum. Markmiðið með nýju vinnuskyldunni er að fleiri komist á ... vinnumarkað og fái vinnu.

Einnig, frá öðrum stað í evrópskum stjórnmálum:

Velferðarsamfélag okkar verður aðeins varðveitt ef tilskilin fjárhagsleg samstaða er veitt innan skýrt afmarkaðs og takmarkaðs samfélags.

Já, þetta evrópska öfgahægri! Vinnuskylda! Takmörk á velferðarkerfinu! 

Að vísu er fyrri tilvitnunin úr stefnuyfirlýsingu dönsku ríkisstjórnar þriggja miðjuflokka, þar á meðal dönsku Sósíaldemókratanna, sem blaðamenn hafa hingað til ekki kallað öfgahægristjórn. Hin síðari eru úr stefnuskrá þýska flokksins Alternative für Deutschland, en sá flokkur er skipulega kallaður einhvers konar öfgajaðarflokkur þótt hann sé meðal þeirra stærstu í Þýskalandi.

Með öðrum orðum: Það er oft lítið samhengi á milli stefnu flokka og stimpla blaðamanna á þeim. Miklu frekar mætti segja að með orðanotkun sinni séu blaðamenn að sýna og sanna að þeir eru algjörlega úr tengslum við raunheim sífellt fleira venjulegs launa- og fjölskyldufólks sem þykir vænt um samfélag sitt.

Sem er bara fín þumalputtaregla til að hafa í huga þegar fréttir eru lesnar.

Kosningar til Evrópuþingsins breyta engu. Völdin verða áfram í höndum ókjörinna fulltrúa. En kjósendur eru að reyna tjá sig og lýsa yfir ósætti. Mun einhver hlusta og hvað þá bregðast við?


mbl.is „Hvar er þessi evrópska menning?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarsjóðir og kampavín

Mikil óvissa ríkir um byggð í Grindavík og sú óvissa er ekki á leiðinni neitt. Viðbúið er að svæðið þar og í kring verði að jarðumbrotasvæði í mörg ár og jafnvel áratugi.

En menn vona það besta.

Á eldfjallaeyju er þetta ekki endilega ófyrirsjáanlegt ástand. Sem betur fer er Ísland frekar stór eyja miðað við fjölda íbúa. Fólk getur fært sig. Orkuver má reisa á öðrum svæðum. Ferðamenn geta baðað sig annars staðar.

Enda gilda lög á Íslandi til að búa sig undir svona hamfarir. Neyðarsjóðir og annað slíkt. Þá má opna til að leysa úr vandræðum fólks og fyrirtækja hratt og vel.

Til að halda slíkum sjóðum fullum þarf að halda uppi hárri skattheimtu og draga mikið fé í ríkisreksturinn. Það er allt í lagi, enda oft hyggilegt að spara við sig neyslu og auka við sig sparnað til að eiga varasjóði ef áföll skella á.

Nema fyrir eitt vandamál.

Neyðasjóðirnir eru tómir! Þeir fóru í að halda ráðstefnur og hækka laun opinberra starfsmanna. Þeir urðu að skúffufé ráðherra og nýttir til að kaupa handa þeim atkvæði. 

Ekki verða skattar hækkaðir mikið meira og þá er bara eitt í stöðunni: Að taka lán. 

Eftir meira en áratug af góðæri.

Einu sinni var hægt að nota rekstur á Reykjavíkurborg sem andstæðu við rekstur ríkisvaldsins. Borgin hélt sköttum í hámarki samhliða hallarekstri, ríkið greiddi niður skuldir og fór sér hægar í skattahækkanir.

Núna er erfitt að greina á milli, því miður. 

En þetta völdu kjósendur og gera sýnilega enn. Lýðræði hefur þann stóra kost að ef meirihlutinn ákveður að bora göt í skipsskrokkinn þá sökkva allir á sömu forsendum, og skála í skuldsettu kampavíni á leið á hafsbotninn.

En það er ekki of seint fyrir kjósendur að skipta um skoðun. Gera þeir það?


mbl.is Taka lán í varúðarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarthvíti ráðherrann og það sem er rétt

Utanríkisráðherra skrifaði grein sem birtist í dag þar sem segir meðal annars:

Í flókn­um heimi eru fá mál­efni al­gjör­lega svart­hvít; en land­vinn­inga­stríð Rúss­lands í Úkraínu er eitt af þeim. Rúss­land hef­ur al­gjör­lega á röngu að standa með inn­rás sinni. 

Af þessu leiðir að íslenskir skattgreiðendur þurfa að moka hergögnum í átök Rússa og Úkraínu.

En varla er þetta eina stríðið í heiminum þar sem málið er alveg svarthvítt, er það? Utanríkisráðherra hlýtur að upplýsa okkar hvaða önnur átök eru svarthvít og hvaða átök hafa að baki sér flókinn aðdraganda yfir mörg ár.

Hver er til dæmis skúrkurinn í skylmingum Asera og Armena? Er það kannski eitthvað flóknara mál? Svo flókið að Íslendingar eru ekki látnir taka sér svarthvíta afstöðu og opna veskið í kjölfarið?

Telur forsætisráðherra að aðfarir Ísraela í Gasa þessa mánuðina vera aðra hlið í svarthvítu máli, sem verðskuldar fjárútlát úr vösum íslenskra skattgreiðenda, eða flókið mál þar sem báðir aðilar hafa ýtt við hinum í ár og áratugi og núna gengu hlutir bara of langt? Og þar með ekki hæft til að njóta stuðnings íslenskra launamanna?

En hvað með yfirgang Sádi-Arabíu á Jemen og slátrun á afrískum flóttamönnum? Er það flókið mál sem má alveg færa rök fyrir að sé svolítið báðum aðilum að kenna og því ekki tekið í mál að senda peninga Íslendinga til annars hvors þeirra? Það hlýtur að vera því ekki hefur utanríkisráðherra lýst yfir svarthvítum átökum þar sem þurfi að fóðra með byssukúlum.

Úkraína er ekki í NATO og ætti ekki að vera það og Íslendingar eiga ekki að fjármagna átök þeirra og Rússa - gefa ungum mönnum byssukúlur svo þeir geti látið stráfella sig á vígvellinum (enda eru Rússar með fimm stórskotabyssur á móti hverri einni í höndum Úkraínumanna, að sögn úkraínskra hermanna).

Innganga Úkraínu í NATO er að öllu leyti sambærileg við að Kanada eða Mexíkó gengi í rússneska sambandsríkið og hæfi að setja upp rússnesk flugskeyti við landamæri Bandaríkjanna. Er erfitt að ímynda sér að slíkt geti valdið togstreitu? Auðvitað ekki. Nú fyrir utan aðgerðir til skautunar í samfélaginu, stolnum kosningum og sviknum friðarsamningum

Svarthvíta stríð utanríkisráðherra er það ekki. Íslendingar eru einfaldlega að framfylgja utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem er síður en svo fagur ferill, sama hvað þeir telja sér í trú um annað.


Úthlutanir eru eftirlætið

Ég fæ það á tilfinninguna að fátt veiti stjórnmálamönnum meiri ánægju og jafnvel nautn en að „úthluta“ fé skattgreiðenda í hin og þessi mál, og fá í staðinn mikla fjölmiðlaumfjöllun. Um leið fá þeir tækifæri til að hnykkja á algjörlega glórulausum „markmiðum“ sínum í stjórnmálum, eða svo ég vitni í orð matvælaráðherra Vinstri-grænna:

Hún seg­ir það gleðiefni að út­hlut­an­ir dreif­ist nokkuð jafnt á milli kynja og að skipt­ing milli höfuðborg­ar­svæðis og lands­byggðar sé í jafn­vægi.

Það skiptir sem sagt máli að góð hugmynd komi úr legi en ekki typpi, og frá fámennri sveit frekar en þéttbýli.

Af hverju er ríkið að veita styrki?

Jú, af því það kæfir allar góðar hugmyndir í fæðingu með skattlagningu og skrifræði. Styrkir eru hreinlega forsenda þess að komast í gegnum kerfið. Kerfið þarf því að veita styrki.

Skattgreiðendur: Takk fyrir að fjármagna kosningabaráttu einhvers ráðherra.

Styrkumsækjendur sem fengu ekkert: Megið þið éta það sem úti frýs.

Styrkumsækjendur sem fengu eitthvað: Gangi ykkur vel að eyða tíma ykkar í skýrslur til hins opinbera frekar en lausnir á vandamálum.


mbl.is Úthlutar 491 milljón úr Matvælasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægris­innaður po­púl­ista­flokk­ur

Þegar ég sé blaðamenn kalla einhverja hægrisinnaða popúlista þá staldra ég aðeins við. Þetta er einhvers konar skammaryrði sem á að búa til hugrenningatengsl hjá fólki. Mögulega að mynda einhvers konar neikvæða tengingu við Donald Trump í Bandaríkjunum eða Geert Wilders í Hollandi. Einhvers konar fýlusprengja. 

Hægris­innaður po­púl­ista­flokk­ur, oj bara!

En þessi aðferðafræði - að reyna mynda neikvæð hugrenningatengsl við meinta popúlista - virkar ekki lengur. Geert Wilders er sennilega valdamesti þingmaður Hollands. Donald Trump er sigurstranglegastur í forsetakosningum Bandaríkjanna í nóvember. Kjósendur eru að breyta um stefnu. Þeir eru að hafna óheftu flæði innflytjenda, glórulausri sóun á fé til að breyta veðrinu og orkuskorti. Evrópusambandið á ekki framtíðina fyrir sér, NATO hefur verið afhjúpað sem árásarbandalag, Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eru tæki í höndum stjórnlyndra milljarðamæringa, og við ætlum ekki að borða pöddurnar.

Kallaðu þetta hægri popúlisma eða hvað sem er. Að mínu mati er þetta viðspyrna. Kannski hittir hún ekki í mark að öllu leyti, og getur auðvitað sveiflast of langt til baka, en merki um að stjórnmálastéttin hefur aftengst venjulegu fólki, og í lýðræði þýðir það að valkostir myndist við meginstefið.

Tungutak blaðamanna er ekki saklaust val á vel skilgreindum orðum. Nei, því er ætlað að hafa áhrif á okkur, og vera skoðanamyndandi. Þetta gekk vel lengi vel, en ekki lengur.


mbl.is Nigel Farage gefur kost á sér og leiðir flokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Guðni góður forseti?

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er frekar óumdeildur. Hann fær að yfirgefa embætti forseta án gagnrýni og taka alla skrýtnu sokkana með frá Bessastöðum án athugasemda.

En hann var lélegur forseti. Mögulega eins lélegur og þeir gerast.

Hann tók fullan þátt í aðförum yfirvalda að réttindum fólks á veirutímum. Ekki stakt varnaðarorð, að því er ég veit, til framkvæmdavaldsins um að fara varlega með valdheimildir - löglegar og aðrar - og ekki stakt orð til varnar ungum börnum sem voru meðhöndluð eins og holdsveikissjúklingar. Auðvitað voru fjarlægðarmörk lítill vandi fyrir Bessastaði, vel utan við tveggja metra fjarlægðina frá mannlegu samfélagi, en forseti hefði átt að sjá stærri mynd en það.

Hann sagði ekki orð þegar íslenskir skattgreiðendur fengu það verkefni að fjármagna stríð Bandaríkjamanna við Rússa í gegnum strengjabrúðustríðið í Úkraínu. Hann hefur raunar ekki haft neina skoðun á neinum stórum málum.

Hann er sennilega frægustur fyrir sokkaval sitt. Á legsteininn mætti skrifa: Guðni sokkaforseti. Allir myndu skilja það. Það var ekkert annað.

Ég skil vel að hlédrægur fræðimaður hafi átt erfitt með sviðsljósið sem hann bauð sig þó fram í, af einhverjum ástæðum. En þótt enginn hafi búist við miklu þá fengu þeir enn minna en það.

Vonandi er nýr forseti af allt öðru tagi: Opinskár, drífandi og með áhuga á að töluð orð hans fái meiri athygli en val á sokkum.

Það er gott að Guðni ákvað að láta sig hverfa. Það er gott að í staðinn hafi valist andstæða hans.


mbl.is „Þú verður góður forseti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband