Miðvikudagur, 26. júní 2024
Orð sem miðill, orð sem blekking
Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum með sömu fyrirsögn og þessi færsla: Orð sem miðill, orð sem blekking.
Mér finnst boðskapurinn þar mikilvægur. Við búum ekki í harðstjórnarríki sem myrðir fólk og dæmir í fangelsi án dóms og laga (hins opinbera), enda myndi það (vonandi) vekja upp neikvæðar tilfinningar í hugum okkar og sumum gæti jafnvel dottið í hug að andmæla.
Nei, þess í stað er okkur stjórnað með orðum og nýjum skilgreiningum á þeim. Það er til dæmis erfitt að henda tölu á orðsmíðar sem þýða í raun að ritskoðun sé alveg frábær, án þess að segja það beint.
Ég vil hvetja alla til að passa sig á þessum leik yfirvalda og strengjabrúða þeirra meðal háskóla, fyrirtækja og blaðamanna. Allir þessir fjölmiðlafulltrúar hins opinbera eru um leið á launaskrá þess í síauknum mæli.
Í dag er okkur til dæmis sagt að stríð sé friður, og að sprautur séu heilbrigði.
Veirutímar voru hræðilegir fyrir samfélag og hagkerfi manna en afhjúpuðu um leið vopnabúr yfirvalda til að ná á þér fullum tökum.
Vaknaðir þú við það?
Þriðjudagur, 25. júní 2024
Blórabögglarnir
Ímyndum okkur veitingastað hvers eigandi ákveður af hjartagæsku sinni að bjóði upp á niðurgreiddar barnamáltíðir. Þetta gæti eigandinn gert af mannúðarástæðum - börn þurfa að borða - en einnig viðskiptaástæðum - foreldrar koma með börn sín og borga fullt verð fyrir sjálfa sig sem borgar upp niðurgreiddu barnamáltíðirnar.
Á þessum afslætti fyrir barnamáltíðir eru engin sérstök takmörk og skyndilega fer fullorðið fólk að panta þær. Fullorðinn maður pantar jafnvel tvær barnamáltíðir til að verða mettur. Starfsmenn staðarins benda eigandanum á hvað er að gerast en hann heldur fast í afsláttinn og innleiðir engin sérstök takmörk. Hann var jú búinn að lofa einhverju! Hann er skuldbundinn!
Fyrr en varir sjást engin börn á staðnum, allir panta barnamáltíðir og veitingastaðurinn fer að tapa stórfé og fer á endanum í gjaldþrot.
Nú gæti einhver sagt að þessi eigandi hafi ekki verið starfi sínu vaxinn. Hann hefði átt að takmarka aðgengi að barnamáltíðunum við eitthvað sjálfbært: Bjóða börnum upp á lægra verð en loka á misnotkun fullorðinna.
Einhver annar segir hins vegar sagt að þetta fullorðna fólk ætti að vita betur og vera ekki að misnota sér svona gott boð.
Persónulega finnst mér bæði vera rétt: Eigandinn bjó til ómótstæðilega freistingu og fólk freistaðist.
Er ekki vandamál hælisleitenda á Íslandi og mun víðar af nákvæmlega sama tagi?
Þriðjudagur, 25. júní 2024
Bandarískir hagsmunir ofar öðrum
Senn líður (vonandi!) að því að Julian Assange sleppi loksins úr frelsissviptingu.
Senn líður (því miður!) að því að hermenn NATO-ríkja labbi yfir landamæri Úkraínu til að hefja beint þar stríð við Rússa. Hver veit, kannski tortímist í kjölfarið heimurinn.
Það er alveg hreint magnað hvað hagsmunir bandarískra yfirvalda (ekki almennings!) ráða oft mikið för í Evrópu og víðar. Ef bandarísk yfirvöld vilja tortíma bændum og hirðingjum einhvers staðar í heiminum þá hlaupum við á eftir slíkum markmiðum. Ef þau vilja stöðva vinnu einhvers blaðamanns eða grafa í djúpan kjallara uppljóstrara sem deilir ólöglegum njósnaverkefnum þá hjálpar heimurinn þeim að elta uppi fólk og loka inni. Tefur það kannski aðeins að framselja, en samt.
Nú má vel vera að okkur líði vel undir pilsfaldi Bandaríkjanna. Þau hafa jú vissulega verið skárri herra en margir aðrir. En er það að breytast, eða er löngu breytt? Eftir stanslaus stríð í áratugi er Bandaríkjunum að takast óþarflega vel að kljúfa einn heim upp í tvo og horfa svo upp á hinn helminginn þétta raðirnar. Markmið bandarískra yfirvalda eru kannski ekki lengur okkar markmið.
Kannski mun frelsun Assange breyta einhverju. Efla kjark einhverra. Það á eftir að koma í ljós. En honum tókst að sleppa úr klóm bandarískra yfirvalda. Á meðan stefnir í að ungir karlmenn í Evrópu endi sem lík á sléttum Úkraínu. Getur Evrópa gert það sama og Assange?
![]() |
14 ára frelsissviptingu ljúki á næstu 24 klst. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 23. júní 2024
Nýmarkaðsríki, hvað?
Sjóðstjóri sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýmarkaðsríkjum segir að finna megi marga spennandi fjárfestingakosti í þeim löndum. Nefnir hann í því samhengi Kína, Indland, Brasilíu og Suður-Afríku. Hagvöxtur sé mikill í þessum ríkjum og gjarnan vel yfir hagvexti í þróaðri hagkerfum.
Þá höfum við það.
En það er mögulega svolítill vandi á ferðinni hér fyrir fjárfesta á Vesturlöndum. Nú vill svo til að Kína, Indland, Brasilía og Suður-Afríka eru aðilar að samstarfi með engum öðrum en Rússum, og kallast það í bili BRICS (Brazil, Russia, India, China, South-Africa), en nýir meðlimir hafa streymt að á seinustu misserum og margir umsækjendur bíða eftir inngöngu.
Aðilar BRICS vilja minnka vægi dollarans í alþjóðaviðskiptum og lágmarka skaðann af stjórn Vesturlanda á fjármálakerfi heimsins sem hefur núna verið vopnavætt til að styðja við herskáa utanríkisstefnu Bandaríkjanna, svo sem með því að stela eignum, frysta peninga og hindra flutninga á fjármagni. Það þarf engan sérfræðing með doktorsgráðu til að sjá að slíkar aðgerðir hafi afleiðingar og ekki endilega á þann hátt sem menn sáu fyrir.
Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru hagkerfin sem í fyrirsjáanlegri framtíð munu standa undir megninu af verðmætasköpun heimsins. Í þeim er ekki verið að stöðva orkuöflun heldur hraða á henni. Í stað viðskiptahindrana eru viðskipti að aukast. Í stað fólksfækkunar er fólksfjölgun.
Auðvitað er staða mannréttindamála oft slæm og lýðræði vart að finna í sumum ríkjanna sem við köllum nýmarkaðsríki. En þetta er víða á réttri leið. Með auðsköpun verður til millistétt og með millistétt myndast krafa á yfirvöld að dreifa völdunum, hreinsa umhverfið, byggja innviði og bæta mannréttindi, og á meðan þetta getur tekið lengri tíma en við kærum okkur um þá er enginn valkostur við auðsköpun til að auka völd borgaranna.
Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru ríki sem eru að hefja flugið á meðan Vesturlönd þurfa að undirbúa brotlendingu.
Það er alls ekki víst að þau hreinlega kæri sig um peninga okkar og hvað þá stjórn okkar. Sjóðsstjórar á Vesturlöndum þurfa mögulega að smakka sama meðal og Vesturlönd hafa reynt að gefa nýmarkaðsríkjunum.
Það má bara vona að Vesturlönd hætti fljótlega að reyna koma á heimsstyrjöld sem tortímir okkur öllum og fari í staðinn að taka þátt í samstarfi við aðra heimshluta. En bjartsýni mín er hófsöm.
![]() |
Tækifæri liggi í nýmarkaðsríkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. júní 2024
Frá þér til þín
Núna stendur yfir dreifing á bók sem ríkisvaldið hefur látið útbúa fyrir peningana þína í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands og hægt er að fá endurgjaldslaust. Gjöf til landsmanna. Frá landsmönnum. Efni bókarinnar er svo lýst:
Í þessari bók er rakin saga af ímynd fjallkonunnar, sagt frá því hvenær hún verður til í orði, hvenær og hvernig hún tekur á sig mynd, hvenær hún tekur til máls og hvað hún hefur haft að segja okkur á liðnum áratugum og allt til samtímans.
Mikilvægara lesefni er erfitt að ímynda sér. Fyrir allar milljónirnar sem fóru í að framleiða lesefni fyrir landsmenn er varla hægt að fá meira fyrir peninginn.
Með tíð og tíma munu þessar bækur enda á bóka- og nytjamörkuðum og vera þar í stórum stæðum við hliðina á gömlum Andrésblöðum og þýddum ástarsögum. Þessar bækur gætu líka endað í sumarbústöðum sem eldsmatur í arininn. Þær má nota til að þurrka laufblöð. Svo má auðvitað nota þær til að drepa flugur sem sleppa inn um gluggann.
Gjöf, frá þér til þín, nothæf til margra hluta en sennilega síst til að afla sér nothæfrar þekkingar.
Takk fyrir, ríkisvald!
![]() |
Fjallkonunni dreift í 28.500 eintökum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 20. júní 2024
Evrópska lýðræðið
Um daginn kusu íbúar Evrópusambandsins til Evrópuþingsins. Það má miklu frekar kalla þær kosningar eina stóra skoðanakönnun enda breyta niðurstöðurnar í engu því hverjir ráða í raun þar á bæ. Óformlegir kvöldverðir forsætisráðherra Evrópusambandsins eru í staðinn sá vettvangur þar sem völdunum er skipt, eða eins og segir í frétt DW:
Scholz, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu og endurnýjaður frambjóðandi von der Leyen, hittust á hliðarlínunni á G7 leiðtogafundinum í Apúlíu á Ítalíu í síðustu viku til bráðabirgðaviðræðna um æðstu störf ESB.
Nú á mánudaginn lögðu allir 27 leiðtogarnir spilin sín á borðið við óformlegan kvöldverð í byggingu Evrópuráðsins í Brussel, að sögn diplómata ESB. Fljótlega bárust fréttir af því að búist væri við að Antonio Costa, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals, yrði næsti leiðtogi leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Costa, sem er mið-vinstri sósíalisti, er fulltrúi suðurríkja sambandsins.
Kaja Kallas, frjálslyndi forsætisráðherra Eistlands, gæti á sama tíma orðið nýr utanríkismálastjóri ESB, sem fulltrúi austurhluta aðildarríkja sambandsins. Kristilegi demókratinn Roberta Metsola, sem gegnir nú embætti forseta Evrópuþingsins, gæti setið áfram í tvö og hálft ár í viðbót, fulltrúi smærri suðurríkja ESB.
**********
Scholz, French President Emmanuel Macron, Italian Prime Minister Giorgia Meloni and renewed candidate von der Leyen met on the sidelines of the G7 summit in Apulia, Italy, last week for preliminary talks to discuss EU top jobs.
This Monday, all 27 leaders "put their cards on the table" at an informal dinner at the European Council building in Brussels, according to EU diplomats. News soon emerged that Portugal's former prime minister Antonio Costa was expected to become the next head of the European Council. Costa, a center-left Socialist, represents the bloc's southern countries.
Estonia's liberal Prime Minister Kaja Kallas, meanwhile, could become the new EU foreign policy chief, representing the bloc's eastern member states. Christian Democratic Roberta Metsola, who currently serves as President of the European Parliament, could remain in office for another two-and-a-half years, representing smaller southern states in the EU.
Þá vitum við það. Völdunum er skipt yfir steik og rauðsvínsglasi í góðra vina hópi þar sem allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, enda nóg af embættum til skiptanna.
Nema auðvitað þessir öfgahægrimenn sem röskuðu nætursvefni margra í smástund eða þar til menn áttuðu sig á því að kosningar til þings voru í raun skoðanakönnun án áhrifa. Nema auðvitað að það takist að rugga bátnum, en sjáum hvað setur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. júní 2024
Gestgjafarnir
Ímyndaðu þér að þú búir í fjölbýlishúsi og að húsfélagið hafi ákveðið að innrétta nokkur herbergi í kjallaranum til að hýsa heimilislaust fólk eða fólk í tímabundnum vandræðum og jafnvel sjá því fyrir mat, hita og vatni, tannlæknaþjónustu og heyrnatækjum. Ímyndaðu þér svo að þessi herbergi fyllist hratt og að í þau flytji jafnvel fleira og fleira fólk þar til þau eru orðin of lítil. Einhverjar íbúa hússins tala um að fara loka á komu fleiri en stjórn húsfélagsins stendur fast á sínu og áfram er bætt við fólki og herbergjum fjölgar.
Loks kemur sá dagur að kjallarinn er einfaldlega fullur og húsfélagið velur þá að kaupa upp íbúðir í húsinu og gera að herbergjum fyrir fólk í neyð. Áfram streymir fólk inn og kostnaðurinn við að halda því uppi eykst stjarnfræðilega.
Núna stendur mörgum íbúum ekki á sama lengur og mótmæla en tapa alltaf þegar kosið er í nýja stjórn húsfélagins. Fólkið á efstu hæðunum, sem er hjartahreint og efnað, er alsælt ennþá og finnur ekki fyrir miklum óþægindum, nema auðvitað hærri og hærri reikningi.
Með tíð og tíma minnka þó vinsældir stjórnar húsfélagsins nægilega vel til að henni megi koma frá í kosningum. En þá myndast önnur klípa: Hið opinbera er fegið að þurfa ekki að eiga við alla þessa aðkomumenn og skikkar húsfélagið til að halda áfram að bæta við aðfluttu fólki. Sé gerð einhver tilraun til að stöðva flæðið þá verða afleiðingar fyrir íbúa hússins. Þeir opnuðu á flóðgáttirnar og fá ekki að loka þeim.
Frekar súrt, ef þú spyrð mig, en nú var þetta auðvitað bara ímyndað dæmi.
Að öðru:
Víða í Evrópu eru ríki við Miðjarðarhafið að reyna hægja á flóðbylgju flóttafólks og hælisleitenda, enda allt að springa. Þetta er ekki vel séð af öðrum ríkjum sem óttast að flóðbylgjan lendi á þeirra landamærum í staðinn. Evrópusambandið sættir ekki við svona tilraunir einstaka ríkja til að verja eigin landamæri og velferðarkerfi.
Það þarf að skipta um stjórn í húsfélaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 16. júní 2024
Orka sem kallar á orku
Virkjun vindorku á sér langa sögu og á seinustu árum er búið að svo gott sem fullkomna tæknina, þ.e. þá nýtni sem hægt er að ná út úr virkjun vindorkunnar. Sjálfsagt er að reyna afla eins mikillar orku og hægt er því orka er uppspretta góðra lífskjara. Yfirvöld sem átta sig ekki á því eru mannfjandsamleg.
Þar til menn hafa áttað sig á því að kjarnorka er í raun besta leiðin til að afla orku þá hamast þeir í allskyns valkostum við hana, svo sem að virkja vind og vatnsföll, brenna kolefnisrík (eða -snauð) hráefni og bora holur í jörðina til að fá aðgang að hita og þrýstingi. Sumar tegundir orkuöflunar taka lítið pláss, en þær leiðir sem kallast endurnýjanlegar, eða sjálfbærar, taka mikið pláss. Uppistöðulón hafa lengi verið bitbein í íslenskri umræðu eða þar til þau myndast og mynda vinir í eyðirmörkum. Háspennulínurnar eru óvinsælar þótt skortur á þeim þýðir mikið af tapaðri orku - orku sem þó náðist að framleiða en kemst ekki á leiðarenda.
Inn í þessa umræðu er núna skyndilega talað um að virkja vind í stórum stíl á Íslandi. Vindorka er orka sem krefst orku - hún er ekki alltaf til staðar og þeir sem treysta á hana þurfa að njóta varaafls þegar vindurinn blæs ekki. Kannski slíkt fyrirkomulag geti þýtt að hægar gangi á uppistöðulónin, en um leið þýðir það að hvert megavatt af vindorku þarf að eiga sér hliðstæðu í stöðugri orkuuppsprettum. Þetta vita Danir sem kaupa vatnsafl af Noregi þegar er logn í Danmörku, en geta svo sent vindorku til Noregs þegar vel blæs - orku sem Norðmenn nota til að dæla vatni upp í uppistöðulónin. Norðmenn selja þannig dýrt rafmagn til Danmerkur og kaupa það svo ódýrt aftur.
Andstæðingar háspennulína hljóta að vera missa svefn þessi misserin yfir tilhugsuninni um 200-300 metra háa háværa turna sem þarf að tengja með öflugum vegum með mikið burðarþol og sem saxa sig í gegnum óbyggðirnar. Rafmagnskapla þarf svo auðvitað að grafa í jörðina til að tengja hvern einasta turn við spennuvirki.
Það eru næg tækifæri til að virkja meira vatnsafl á Íslandi með litlu raski og minniháttar mannvirkjum. Sjálfsagt er að moka frá þeim hindrunum sem yfirvöld hafa reist til að koma slíkum virkjunum á koppinn. Hið sama gildir um jarðvarma þótt menn staldri að vísu aðeins við núna þegar virk eldgosakerfi eru gerð að mikilvægum innviðum.
Mögulega er olía undir hafsbotni í landhelgi Íslands. Hana ætti að sækja.
Allt er þetta - vatnsaflið, jarðvarminn, olían - orka sem stendur undir raforkukerfi og kallar ekki á varaafl til að leysa sig af. Að ætla sér að byggja upp orkuöflun sem kallar á orkuöflun er mögulega sniðugt þegar aðstæður eru réttar og mönnum er sama um ásýnd landslagsins, en annars ekki.
![]() |
3.300 MW í vinnslu fyrir vindorkuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 14. júní 2024
Ráðherra leyfir löglega atvinnugrein
Um daginn spurði ég mig að því á þessari síðu hvort atvinnufrelsi væri varið í stjórnarskrá eða hvort þetta frelsi sé í bara raun sérstök heimild frá ráðherra til að fá að stunda atvinnu, svona eins og þær heimildir sem konungar miðalda veittu til að mega stunda ýmsa starfsemi. Ég hallaðist frekar að því síðarnefnda en var auðvitað bara með vangaveltur.
Ráðherrann sem varð uppspretta þeirrar hugleiðingar hefur nú staðfest vangaveltu mína þegar hann segir við blaðamann:
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir miðflokksmenn steyta hnefann með því að íhuga vantrausttillögu í hennar garð. Hún segir það koma sér spánskt fyrir sjónir að flokkur sem styðji hvalveiðar ætli að leggja fram vantraust á ráðherra sem leyfi þær.
Hún sem sagt leyfði hvalveiðar, sem er lögleg atvinnugrein.
Ætli allir ráðherrar hugsi með þessum hætti? Að þeir velji og hafni með notkun reglugerða sinna hvaða löglegu atvinnugreinar sleppa við heimsókn lögreglu og hverjar ekki?
Nú fyrir utan að ráðherra leyfði hvalveiðar korteri í upphaf veiðitíma og tókst því þannig í raun að drepa atvinnugreinina. Sem var sennilega markmiðið til að sleppa þannig við örlög forvera síns og um leið geta sagst hafa farið að lögum.
Þessir ráðherrar eru orðnir að stjórnlausum smáríkjum í ríkinu rétt eins og margar opinberar stofnanir og auðvitað sveitarfélögin. Menn eru látnir bíða bótalaust svo mánuðum skiptir eftir einföldum leyfum til að mega hefja rekstur. Áður fyrr mátti hefja rekstur og sæta í kjölfarið eftirliti, en núna eru breyttir tímar.
Svo breyttir að ráðherrar tala opinskátt um að leyfa eða banna ákveðnar atvinnugreinar, með reglugerð!
Auðvitað verður ekkert gert í þessu og skaðinn heldur áfram að hlaðast upp. Menn þurfa að vera milljónamæringar til að geta komist í gegnum reglugerðafrumskóginn, hugmyndir eru drepnar í fæðingu og neytendur fá á endanum að borga reikninginn.
En kannski einhverjir opinberir starfsmenn fái í staðinn klapp á bakið frá Evrópusambandinu.
Er það ekki helsta markmið hins opinbera á Íslandi?
![]() |
Pólitískt klámhögg hjá miðflokksmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 13. júní 2024
Gullgrafarahórur
Einn af mínum uppáhaldsgrínistum er Bill Burr. Hann er svo fyndinn að fólk sem er hjartanlega ósammála honum í öllu stenst ekki að hlægja (ég get vitnað um það sjálfur). Hann er af gamla skólanum en svo orkumikill og beittur að það er erfitt að standast hann. Hann er klár og rökfastur og þegar hann kveikir í nýjasta rétttrúnaðinum er erfitt að sjá holur í málflutningi hans.
Í frægu atriði hans talar hann um hjónabönd og af hverju hann óttast að giftast (giftist vissulega seinna, en önnur saga).
Hann talar um gullgrafarahórur (gold digging whores) í því samhengi: Konur sem sækja í menn sem kunna að vinna fyrir sér (eru helst ríkir) og skilja svo við þá og labba í burtu með fjársjóð.
Nú þykir mér persónulega tungutak hans aðeins of gróft til að ég taki mér það sjálfur í munn, en ég skil skilaboðin. Þau mætti jafnvel heimfæra á íslenskan veruleika þegar íslensk hjón skilja. Konan hirðir fullt forræði barnanna, sýgur til sín meðlög og fær að auki opinbera styrki. Maðurinn situr eftir sem barnlaus fátæklingur og fóðrar tölfræði sjálfsvíga, afleiðingalaust, enda gildir engin meðalhófsregla á Íslandi um meðlagsgreiðendur (feður).
Gullgrafarahórur? Ég veit það nú ekki, en skemmtilegt orð í ákveðnu samhengi.
![]() |
Ertu viss um að þú hafir valið réttan lífsförunaut? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |