Miðvikudagur, 27. nóvember 2024
Fór nýr vegur ekki í umhverfismat?
Kapphlaup Íslendinga við að halda Grindavík í gangi er sannarlega þrekvirki. Að leggja veg í gegnum glóandi hraun - hjálpi mér! Þarna dugir ekki bara að hafa réttu græjurnar heldur þarf rétta fólkið líka.
En kapphlaupið er um leið ærandi andstaða við framkvæmdir almennt sem þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum. Sé það talið mikið þarf að fara í umhverfismat. Það þarf leyfi til að framkvæma. Það þarf að liggja fyrir áhættumat. Listinn er endalaus. Þegar hann hefur verið fylltur út er hægt að stinga skóflu í jörðina.
Nú er ekki endilega sanngjart að bera saman uppistöðulón sem gleypir nokkur gæsahreiður og það að leggja veg á auðu hrauni. En einhvern veginn er ég viss um að ef laganna bókstafur væri lesinn bókstaflega að þá væri vegagerð á eldsumbrotasvæði ólögleg á marga vegu. Ekki nægt samráð. Ekki farið eftir útboðsreglum. Ekki nægilega hugað að salernisaðstöðu fyrir starfsmenn. Of langar vaktir. Of mikil áhætta. Ekki nóg af skýrslum.
Kannski það sé lærdóm að draga?
Sem skýrir kannski af hverju góðar framkvæmdir stranda ítrekað í kerfinu sem hefur nú leitt til orkuskorts, vanræktra vega, sprungins rafmagnsflutningakerfis og svimandi húsnæðisverð.
Ég spyr mig.
Leggja nýjan veg í gegnum glóandi hraunið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. nóvember 2024
Að ná meirihluta er eins og að smala köttum
Jóhanna Sigurðardóttir sagði það ágætlega árið 2010 að það að ná meirihluta á þingi væri eins og að smala köttum. Svona var og er þetta ekki alltaf en hefur verið það sleitulaust síðan hún var forsætisráðherra. Kettir láta ekki auðveldlega smala sér - til þess þarf víst verðlaun eða blekkingar - og hið sama má segja um smölun á ráðherrum sem eiga nánast ekkert sameiginlegt.
Kosningar og aðrar vísbendingar benda til þess að slík smölun haldi áfram að verða raunin - að þrír stærstu flokkarnir á þingi verði Viðreisn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurin, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Framsókn sem uppfyllingarefni ef þörf gerist - kannski Píratar líka, gefið að þessir flokkar nái mönnum á þing.
Eins og matið á fjölda þingsæta lítur núna út eru eftirfarandi möguleikar á þriggja flokka stjórn á borðinu:
- Viðreisn (13), Samfylkingin (13), Sjálfstæðisflokkurinn (12)
- Viðreisn (13), Samfylkingin (13), Flokkur fólksins (9)
- Viðreisn (13), Samfylkingin (13), Miðflokkurinn (9)
- Viðreisn (13), Sjálfstæðisflokkurinn (12), Flokkur fólksins (9)
- Viðreisn (13), Sjálfstæðisflokkurinn (12), Miðflokkurinn (9)
- Samfylkingin (13), Sjálfstæðisflokkurinn (12), Flokkur fólksins (9)
- Samfylkingin (13), Sjálfstæðisflokkurinn (12), Miðflokkurinn (9)
Það er spurning hvað Flokkur fólksins gerir ef ESB-flokkarnir bjóða honum inn í svefnherbergið. Hvað myndi Viðreisn gera ef Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur þyrftu á flokknum að halda til að mynda meirihluta? Geta Miðflokkur og Samfylking verið í sama herbergi?
Er einhver leið að sleppa við kattasmölun?
Persónulega er ég að vona að Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins geti náð meirihluta. Bjartsýni vissulega, en yrði svo sannarlega heillaskref. Flokkur fólksins er með uppáhaldsslagorðið mitt - fólkið fyrst, svo allt hitt - og hinir eru með nokkra sterka einstaklinga á frelsislínunni.
Nú þegar bandarísk fyrirtæki eru mörg hver að skola pólitíska rétttrúnaðinum í klósettið er kominn tími til að Íslendingar fari í sömu tiltekt.
En sjáum við. Kannski kjósendur vilji frekar R-lista ringulreiðina á landsvísu. Lýðræðið þýðir jú valdið til að kafsigla sjálfum sér eins og maður með hatt minnti okkur á á sínum tíma.
Yfir 37% segja að Kristrún væri best | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 25. nóvember 2024
Leiðarvísir Landverndar fyrir kosningar
Um daginn héldu samtökin Landvernd fund þar sem frambjóðendum allra flokka bauðst til að útskýra af hverju félagsskapurinn Landvernd ætti að kjósa þeirra flokka. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum mættu fulltrúar allra flokka til að láta skíta á sig, með örfáum undantekningum, en látum það liggja á milli hluta.
Undir lokin fengu samtökin Sólin að eiga sviðið og birta álit sitt á stefnu allra flokka eins og þau samtök með sína rörsýn sjá heiminn og þetta er niðurstaðan:
Þarna tróna á toppi Sólar-fólks Píratar, Viðreisn og Vinstri-grænir. Á botninum sitja Flokkur fólksins, Lýðræðisflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Ábyrg framtíð.
Þetta eru ágætar leiðbeiningar fyrir kjósendur. Með því að snúa við mælikvarða Sólarinnar koma í ljós þeir flokkar sem hægt er að kjósa án þess að hætta á að lífskjör Íslendinga fari rakleitt ofan í ræsið.
Og er ekki hressandi að hafa slíkan mælikvarða?
Blóðið er heitt í þeim sem hata bensínbílinn þinn og hleðslutækin fyrir raftækin og orkuþörf almennt, sem er jú undirstaða lífskjara almennings.
Valið er að verða einfaldara og einfaldara að mínu mati. Geri reiður múgur Landverndar aðsúg að sitjandi ráðherra, sem er að brjóta upp stöðnun í íslenskri orkuvinnslu, þá er jafnvel hægt að hugleiða að kjósa flokk sem giftist Vinstri-grænum um tíma. Séu tvær mínútur af ræðu nóg til að æsa upp Landverndarfólkið þá þarf kannski að efla þá rödd.
Ég er vissulega hugsi, en Sólin hefur einfaldað heiminn örlítið. Þeirra álit er andstæða raunsæis og mannúðar, og jafnvel umhverfisverndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 25. nóvember 2024
Orkuver á eldfjalli virkar, önnur komast ekki á koppinn
Það hefur satt að segja verið alveg aðdáunarvert að sjá hvernig tekist hefur að aðlaga lífið á Reykjanesi að virku eldsumbrotasvæði. Rör og vegir rofna en lagað jafnóðum. Orkuver aftengist en tengt aftur jafnharðan. Sprunga klífur bæ í tvennt en hann límdur saman aftur við fyrsta tækifæri.
Þetta geta Íslendingar. Þeir kunna að framleiða og dreifa orku, viðhalda vegum og rörum og halda úti innviðum.
Það er að segja þegar þeir mega það.
Mér fannst því svolítið skondið að sjá bland af fyrirsögnum og auglýsingum á mbl.is sem segir eiginlega alla söguna, sjá hér:
Til vinstri sjást stjórnmálamenn sem vilja framkvæma og ég trúi því að þeir vilji það í raun. Til hægri sést að vinna við nýjar rafmagnslínur í staðinn fyrir þær sem slitnuðu í eldsumbrotum er hafin. Og neðst til hægri er viðvörun frá Pírata um að nýtt hrun sé framundan.
Kannski hefur Píratinn rétt fyrir sér en væri þá um leið samsekur. Píratar leggja áherslu á lýðræði, gagnsæi, mannréttindi og réttarríki en ekki hagvöxt, öfluga innviði og ódýra orku. Píratar fengu hæstu einkunn í umhverfismálum síðustu alþingiskosningar frá Sólinni og stefna á að endurtaka það svo það mætti segja að kjörorð þeirra séu andstæða þeirra hjá Flokki fólksins (fyrst fólkið, svo allt hitt).
Hugrenningatengslin sem urðu til hjá mér eru þau að stjórnmálamenn og stofnanir sem þeir eiga að hafa stjórn á standa í vegi fyrir góðum verkefnum. Þeir gera það erfitt að byggja og virkja og halda aftur af frumkvæði og drifkrafti. Nema þegar þeir gera það ekki. Og þá gerist allt frekar hratt.
Virkjum!
Byggjum!
Já, auðvitað. Það vantar bæði orku og húsnæði og nægur markaður fyrir hvoru tveggja. En fyrst þarf að koma pírötum af öllu tagi úr veginum, bæði innan stjórnmála og stofnana. Í kjölfarið verður Ísland allt orðið að framkvæmdagleði eldsumbrotasvæðisins, nema kannski í Reykjavík þar sem borgarstjórn er annar Þrándur í götu og spádómar píratans rætast sennilega fyrst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. nóvember 2024
Sjálfseyðing Evrópu
Um daginn lauk ég við áhugaverða en á köflum langdregna bók, The Strange Death of Europe: Immigration, Identity, Islam. Titillinn segir sennilega allt sem segja þarf um innihaldið en þó þarf að skilja á milli Vestur- og Austur-Evrópu - Austur-Evrópa er ekki á sömu vegferð sjálfstortímingar og við í vestari hluta álfunnar. En sjálfstortíming er það vissulega - í mörgum ríkjum Vestur-Evrópu verður íslam orðin að trú meirihluta íbúa innan ekki marga ára, jafnvel á okkar líftíma. Evrópa eins og við þekkjum hana hverfur og í staðinn kemur eitthvað annað - eitthvað sem var aldrei rætt opinskátt við okkur kjósendur og borgara álfunnar heldur troðið upp á okkur með hriplekum landamærum og skilaboðum til umheimsins um að íbúar utan Evrópu skipti evrópska stjórnmálamenn meira máli en innfæddir Evrópubúar.
Í sumum ríkjum hefur kjósendum loksins tekist að koma skoðunum sínum á sjálfstortímingu menningar sinnar áleiðis í gegnum kosningar, en það er kannski of seint í rassinn gripið. Því miður.
Á Íslandi er stór hópur ólöglegra innflytjenda horfinn. Blaðamaður veltir fyrir sér hvernig það fólk framfleytir sér, hvar börnin eru og hvort einhverjum stafi ógn af þessu fólki, sem er yfirgnæfandi karlmenn.
Kannski svolítið kjánalega spurt í landi sem nú þegar er samansett af fjölda hliðarsamfélaga þar sem menn tala önnur tungumál en íslensku, fylgja eigin lögum (og ólögum) og kæra sig ekki um að láta börnin sín í skóla með innfæddum börnum og kennurum sem tala um kristin gildi, að því marki að einhver geri það lengur.
Kannski er það einlægur vilji meirihluta almennings að kristin og vestræn samfélög með sínum stjórnarskrám og mannréttindum séu óþverri. Betra sé að taka upp íslam og þær venjur og hefðir sem slík menning og trú boðar, svo sem í málefnum kvenna og samkynhneigðra.
Kannski, en ég efast.
Og er þá væntanlega orðinn rasisti. Þá það.
Flestir sem hvergi finnast koma frá Sómalíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 23. nóvember 2024
Hvað myndi ég kjósa?
Ég hef í nokkur skipti verið spurður að því hvað myndi kjósa ef ég væri kjörgengur á Íslandi í dag (missti því miður af nýrri löggjöf sem hefði heimilað mér að skrá mig á kjörskrá í tæka tíð). Ég held að svar mitt væri: Það fer eftir því í hvaða kjördæmi ég fengi að kjósa í.
Af því að innan sumra þeirra leynast eiturpillur sem ég myndi ekki snerta með priki jafnvel þótt formaður viðkomandi flokks kæmi vel fyrir.
Tökum dæmi - Reykjavík norður.
Þar er efst á lista eftirfarandi fólk (og sleppi ég hér að nefna Sósíalistaflokkinn, Vinstri-græna, Pírata, Viðreisn, Framsóknarflokkinn, Flokk fólksins og Samfylkinguna, sem hafa allir lofað svimandi aukningu á ríkisafskiptum og sköttum, eða afsali fullveldis, eða allt þetta og meira til):
Sjálfstæðisflokkurinn:
- Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra
- Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður
- Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður
- Hulda Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur
- Tryggvi Másson, atferlishagfræðingur og fyrrv. framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins
Lýðræðisflokkurinn:
- Baldur Borgþórsson, ráðgjafi og fv. varaborgarfulltrúi
- Hildur Þórðardóttir, rithöfundur
- Þráinn Guðbjörnsson, áhættustjóri
- Sólveig Dagmar Þórisdóttir, grafískur hönnuður
- Guðbjörn Herbert Gunnarsson, einkaþjálfari
Miðflokkurinn:
- Sigríður Á. Andersen, lögmaður
- Jakob Frímann Magnússon, alþingismaður
- Bessí Þóra Jónsdóttir, doktorsnemi í atferlishagfræði
- Einar Jóhannes Guðnason, viðskiptastjóri
- Jón Ívar Einarsson, læknir
Ábyrg framtíð:
- Jóhannes Loftsson
- Guðmundur Karl Snæbjörnsson
- Martha Ernstdóttir
- Helgi Örn Viggósson
- Rebekka Ósk Sváfnisdóttir
Hérna myndi ég segja að frjálshyggjusinnaðir kjósendur hefðu úr mjög mörgu að velja. Guðlaugur Þór og Diljá Mist hjá Sjálfstæðisflokki hafa unnið bæði fyrir framan og bak við tjöldin að ljómandi framfaramálum. Það væri æðislegt að fá Sigríði Andersen aftur á þing en í kjölfarið kemur Jakob Frímann, sem á ekki skilið frekari framhaldslíf í stjórnmálum. Jóhannes og Ábyrg framtíð vilja knýja áfram þungt réttlætismál sem ég styð en aðrir flokkar hafa ekki sýnt mikinn áhuga á: Uppgjör við veirutíma. Baldur hjá Lýðræðisflokknum þekki ég ekki en stefnumál þess flokks eru heilt á litið mjög góð.
Svo hvað er til ráða? Ég vík að því seinna.
Annað dæmi er Reykjavík suður:
Sjálfstæðisflokkurinn:
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra
- Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður
- Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla
- Sigurður Örn Hilmarsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrum formaður Lögmannafélagsins
- Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður
Lýðræðisflokkurinn:
- Kári Allansson, lögfræðingur og tónlistarmaður
- Ívar Orri Ómarsson, verslunareigandi
- Elinóra Inga Sigurðardóttir, frumkvöðull og hjúkrunarfræðingur
- Hreinn Pétursson, vélstjóri - viðhald og rekstur
- Kjartan Eggertsson, tónlistarkennari
Miðflokkurinn:
- Snorri Másson, blaðamaður og rithöfundur
- Þorsteinn Sæmundsson, fv. alþingismaður
- Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks
- Hilmar Garðars Þorsteinsson, lögmaður
- Danith Chan, lögfræðingur
Ábyrg framtíð: Býður ekki fram í kjördæminu.
Aftur, erfitt val! Snorri hjá Miðflokknum er án efa að fara auka bæði innihald og skemmtanagildi ræðustólsins á þingi. Áslaug Arna er lúsiðin sama hvar hún er, og með hjartað á réttum stað. Frambjóðanda Lýðræðisflokksins þekki ég ekki en aftur - flokkur með mörg góð stefnumál.
Kíkjum svo aðeins á einn flokk sem ég tel ókjósanlegan - Samfylkinguna.
Reykjavík norður:
- Kristrún Frostadóttir, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar
- Dagur Bergþóruson Eggertsson, læknir og fyrrv. borgarstjóri
- Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður
- Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður
- Sigmundur Ernir Rúnarsson, rithöfundur og sjónvarpsmaður
Kristrún ber sig vel og orðar hluti vel en atkvæði greitt henni í þessu kjördæmi dregur um leið á land fyrrverandi borgarstjóra sem skilur eftir sig sviðna jörð í borginni og blaðamann svokallaðan sem flestir hafa nú áttað sig á hvaða mann hefur að geyma, og segist ekki ætla að taka þingsæti en hver veit, og ekki fjarri honum er ritstjóri sem vildi aðgreina fólk og réttindi þess eftir vali á lyfjagjöf. Viltu fá oddvitann inn? Gott og vel, en vittu til - slíkt val dregur á eftir sér halarófu af algjöru eitri.
Reykjavík suður:
- Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður
- Ragna Sigurðardóttir, læknir
- Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins
- Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Bergsins
- Vilborg Kristín Oddsdóttir, félagsráðgjafi
Úff, Jóhann Páll efstur. Þau fyrir neðan kannski í lagi. En sá sem heillast af boðskap Samfylkingarinnar og býr í Reykjavík suður þarf að vita að atkvæði greitt flokknum er ekki bara til formanns flokksins, heldur til sósíalista sem hreykir sér af því að hafa svipt konur kvennaklósettinu.
Norðausturkjördæmi:
- Logi Einarsson, alþingismaður
- Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA
- Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð HA
- Sindri Kristjánsson, lögfræðingur
- Stefán Þór Eysteinsson, fagstjóri hjá Matís í Neskaupstað
Logi þarna efstur - reyndur stjórnmálamaður sem kann að vinna með öðrum og það er fínt - og þau fyrir neðan ekki með neitt sérstakt orðspor fyrir að vera andstyggilegar manneskjur.
Það er sem sagt ekki endilega hægt að tala um að vilja kjósa einn flokk umfram annan. Frambjóðendalistar flokkanna innihalda oft mjög mikið bland í poka af fólki sem mun eflaust standa sig vel á þingi og öðru sem er meira til skrauts í besta falli, en mun reynast landi og þjóð hættulegt í versta falli. Svo sem landlæknir sem mun stöðva allar tilraunir til að grafa upp skít veirutíma í bakgarði hennar.
Lúxusvandamálið er svo í Reykjavík norður, sem væri mjög líklega búsvæði mitt ef ég byggi á Íslandi (af ýmsum ástæðum). Þar mættu sem flest atkvæði safnast á þá flokka sem ég tel kjósanlega svo sem flestir í efstu sætum allra þeirra komist á þing. Mun ég við seinna tækifæri ræða það aðeins frekar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 22. nóvember 2024
Nýju fjölmiðlarnir
Kjör Trump fer í taugarnar á mörgum blaða- og fjölmiðlamönnum. Þeir lásu upp gallaðar skoðanakannanir. Álitsgjafar þeirra höfðu ekki rétt fyrir sér í neinu. Hinn ósnertanlegi Trump verður bráðum forseti Bandaríkjanna og þeir þola ekki tilhugsunina og þá tilhugsun að lýðræðið leiddi kjósendur að rangri niðurstöðu.
En blaðamenn jafna sig, eru jafnvel að reyna bakka aðeins með Hitler-samlíkingar til að fá a.m.k. boð á blaðamannafundi framtíðarinnar. Gott og vel.
En kjör Trump er ekki það eina sem þessir hefðbundnu fjölmiðlar allt í senn lásu og greindu rangt og afhjúpaði vinnubrögð þeirra sem boðbera falsfrétta og áróðurs frekar en frétta og upplýsinga.
Nei, það afhjúpaði um leið að þeir vita hreinlega ekki hvernig á að segja fréttir og skola upp á yfirborðið ólíkar skoðanir í umræðunni, að því marki auðvitað að þeir hafi áhuga á ólikum skoðunum.
Við því hlutverki hafa aðrir tekið.
Ég tek sem dæmi hér vinsælan þáttastjórnanda sem birtir á jútjúb, X, Spotify og öðrum miðlum, Lex Fridman (sem Wikipedia velur að kasta skugga á en engu ljósi, sem er gæðastimpill í sjálfu sér).
Hann tók nýlega 2 klst viðtal við forseta Argentínu, Javier Milei, sjá á jútjúb hér. Í inngangi sínum sagði stjórnandi að hann vildi taka álíka viðtöl við fleiri leiðtoga, frá þeim sem við á Vesturlöndum klöppum fyrir og hinum sem við fyrirlítum. Gamli góði blaðamaðurinn mættur sem ræðir við alla og birtir afraksturinn fyrir okkur að melta - ekki þessi nútímalegi sem telur að þöggun sé góð fréttamennska.
Það hefur auðvitað sýnt sig að slík blaðamennska er bæði nauðsynleg og holl, og það sem er best: Eftirsótt. Þöggunin, ritskoðunin og ásakanir um að hinir og þessir séu samsæriskenningasmiður bítur einfaldlega ekki lengur. Þegar okkur var sagt á veirutímum að það væri bara ein rétt skoðun þá gekk það nokkuð vel, en mun ekki ganga upp aftur. Sá tími er liðinn. Þegar okkur er sagt hvaða stríð eigi skilið alla okkar ástríðu og allt okkar launafé, og hvaða stríð skipta okkur engu máli, þá lokast einfaldlega fleiri og fleiri eyru.
Það er ekki af því að við getum ekki haft skoðun á hinu og þessu heldur að sú skoðun eigi ekki endilega að rigna á okkur að ofan og vera hin eina rétta. Fleiri mega finnast og við eigum jafnvel að geta myndað hana sjálf.
Framundan eru stórar uppsagnalotur hjá mörgum stórum fjölmiðlum. Blaðamenn sem þorðu ekki að mynda sér skoðun, og völdu frekar að endurvarpa skoðunum annarra, verða atvinnulausir og reyna að koma sér að í hlaðvörpum eða sem fjölmiðlafulltrúar hins opinbera. Aðrir, sem þora að vera blaðamenn, og hafa geta verið það innan fjölmiðlafyrirtækja, blómstra vonandi.
En eitt er víst: Allt er breytt, og vonandi ertu með á nótunum, og þorir jafnvel að fara mynda þér þínar eigin skoðanir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. nóvember 2024
Geti ekki brotið verkfallslög
Núna eiga sér stað hefðbundnar viðræður á íslenskum vinnumarkaði sem fyrir mig, sem hef verið búsettur í Danmörku í nálægt því 20 ár, virka í raun framandi: Að það sé hreinlega hægt að kæfa sjúklinga með því að setja púða á hausinn á þeim ef það gagnast launabaráttunni.
Eftirfarandi texti greip mig:
Leikskólastjóri sótti um undanþágu svo starfsfólk í verkfalli fengi að sinna honum og tveimur öðrum börnum í svipaðri stöðu [á einhverfurófi og með þroskaskerðingu], en þeirri undanþágubeiðni var hafnað. Um er að ræða fagmenntað starfsfólk sem hefur sinnt honum og þekkir hann. ... Hann er með fötlunarskilgreiningu og mér skilst að hann eigi rétt á þessari þjónustu, en nú stangast á skyldur sveitarfélagsins til að sinna því og að sveitarfélagið geti ekki brotið verkfallslög, segir ... móðir drengsins
Til hugar kemur þetta atriði, meðal annarra, úr breskum grínþætti:
Ég held að það megi alveg byrja að spyrja sig að þeirri spurningu hvort þetta með að setja heilu starfsstéttirnar, með bæði góða og lélega starfsmenn og stjórnendur (og flesta einhvers staðar þess á milli), undur einn hatt, og leyfa herskáum samtökum að keyra fötluð börn í þrot gegn vilja umönnunaraðila þeirra, foreldra og annarra.
En kannski er þetta röng spurning. Leiðréttist gjarnan.
Fatlaður drengur fær ekki þjónustu í verkfalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
Leggja niður þá starfsemi sem hefur ekki brýn verkefni með höndum
Á dauða mínum átti ég von en svo virðist sem að tvennt hafi átt sér stað á sama tíma: Hagfræðingur með sterkar vinstrihneigðir sýndi skilning á því hvernig skera megi niður báknið, og blaðamaður sýndi því athygli. Ótrúlegt!
Er ég þá að meina þennan pistil og þessa frétt.
Í pistlinum stendur meðal annars (áhersla mín):
Mikilvægt er að ríkisstofnunum verði fækkað með sameiningum, hagræðingu og með því að leggja niður þá starfsemi sem hefur ekki brýn verkefni með höndum.
Já, er það ekki bara?
Ég hef lengi talað fyrir þessu. Í stað þess að hagræða - skera niður um 5% hér og 10% þar - þá þarf einfaldlega að aflima. Loka heilu stofnununum. Leggja niður heilu skrifstofurnar. Hætta ákveðnum verkefnum án þess að nokkuð komi í staðinn.
Þetta gera bæði heimili og fyrirtæki á hverjum degi. Segja upp áskrif, afpanta þjónustu, loka deildum. Meira að segja þar sem heimilisbókhaldið lítur sæmilega út eða fjárhagsstaða fyrirtækis er í góðum málum er oft við hæfi að sýna aðhald, endurskoða útgjöldin og hringja í tryggingafélagið og biðja um endurmat á iðgjöldum.
Þegar vinstrisinnaðir hagfræðingar eru farnir að sjá kjarna málsins er vonandi kominn tími til að allir aðrir geri það líka. Það er ekki þörf á svolitlum niðurskurði hér eða þar. Nei, þarf þarf einfaldlega að byrja stroka út heilu ríkisstofnanirnar, með húð og hári, án þess að nokkuð komi í staðinn.
Og byrja á fjölmiðlanefnd, sem um leið fæli í sér styrkingu á málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Og svo er það bara áfram gakk.
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Skattar og nýsköpun
Íslenska ríkið veitir skattaafslætti til fyrirtækja sem það kallar nýsköpunarfyrirtæki. Er það gert til að örva nýsköpun.
Íslenska ríkið veitir ekki öllum fyrirtækjum slíka afslætti jafnvel þótt öll fyrirtæki stundi á einn eða annan hátt nýsköpun (nema kannski tóbaksverslunin Björk, en velgengni hennar gengur út á að breyta sér ekki).
Það hlýtur þá að vera gert til að draga úr nýsköpun. Ef afslátturinn eykur nýsköpun þá mun skatturinn án afsláttar draga úr nýsköpun.
Og hvers vegna vill ríkið draga úr ákveðinni nýsköpun en örva aðra? Ekki þekki ég svarið við því. Kannski er talið mikilvægara að þróa tölvuleiki en að þróa nýjar tegundir af jógúrti eða annarri matvöru. Kannski eru svefnrannsóknir mikilvægari en rannsóknir á veiðarfærum eða bættri nýtingu og afköstum á fiskveiðiflota.
En við blasir óháð því að hið opinbera viðurkennir að skattheimta dregur úr nýsköpun og að sumir eigi að fá afslætti frá slíku en ekki aðrir.
Í stað þess gera hið augljósa til að auka nýsköpun: Lækka skatta á öll fyrirtæki, og fá þau öll til að auka við nýsköpun.
En þá fær enginn embættismaður vinnu við að fara yfir umsóknir, og er það ekki mikilvægast þegar á hólminn er komið?
65 fyrirtæki með 11,1 milljarð í skattafrádrátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)