Mánudagur, 19. ágúst 2024
Lækkum yfirdrátt Katrínar Jakobsdóttur
Framboðsteymi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, óskar eftir styrkjum til að klára að fjármagna kostnaðinn við framboð Katrínar. Framboð sem fjaraði út í sandinn fyrir rúmlega tveimur mánuðum síðan.
Er Katrín komin í samkeppni við neyðarstarf? Já, vissulega.
En hún þarf ekki að örvænta. Væntanlega bíða hennar milljónir í biðlaunum og hvað það nú er sem stjórnmálastéttin skammtar sér.
Ég legg nú samt til að allir sem eigi krónu aflögu millifæri hana á Katrínu Jakobsdóttur. Ég meina þetta bókstaflega: Leggi á hana eina krónu. Það væri táknrænt fyrir forsætisráðherratíð hennar. Ein króna, það er það sem er eftir þegar skattar hennar og verðbólga er búin að hirða sitt.
Eigum við að sameinast um það? Ef allir taka þátt, og ungabörn meðtalin, þá gæti yfirdráttur Katrínar við einkarekna lánastofnun lækkað um 400 þúsund krónur, tæplega.
Hún gæti mögulega skilið skilaboðið, ólíkt þeim skilaboðum sem skoðanakannanir senda henni og hennar líkum.
Katrín óskar eftir styrkjum til að loka gatinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 18. ágúst 2024
Regnbogafáninn snýr aftur
Á þessum árstíma fara gleðigöngurnar fram í borgum og bæjum. Þar fögnum við fjölbreytileikanum - því að við erum öll mismunandi, hneigjumst að mismunandi kynjum, veljum okkur mismunandi bólfélaga og lífsförunauta, klæðumst mismunandi og svona mætti lengi telja, en erum svo í raun bara fólk. Mismunandi fólk.
Lengi vel var regnbogafáninn tákn þessa fjölbreytileika. Hann er auðvelt að skilja. Litir regnbogans eru hvítt ljós sólar brotið upp í alla frumlitina. Regnbogafáninn táknar þannig mannkynið í öllum sínum fjölbreytileika.
En skyndilega var þetta ekki nóg. Allt í einu fóru einstaka litir fánans að tákna einhvern ákveðinn hóp kynhneigðar eða smekks á klæðaburði og þá runnu litirnir hratt út enda er fjölbreytileikinn nánast óendanlegur - í raun nær hann alveg niður í hvern og einn einstakling (við erum öll einstök, ekki satt?). Þá þurfti að flækja málin og búa til nýja fána með þríhyrningum og einhverjum táknum krotuðum á hann. Úr varð eitthvað afskræmi sem enginn skilur. Ekki nóg með það - þeir sem flögguðu einhverju öðru en nýjustu útgáfunni af fánanum fengu skammir í hattinn. Myndin við þessa færslu er vitnisburður um það (tekin í fyrra).
En núna er eins og regnbogafáninn sé tekinn við aftur sem megintáknmynd fyrir fjölbreytileika mannsins. Er það ímyndun í mér? Furðulegi fáninn með þríhyrningunum er undantekningin frekar en reglan þar sem ég hef séð til. Gafst einhver upp á því að útskýra ekki-regnbogafánanna? Völdum við að snúa aftur til regnbogans því hann segir í raun allt sem segja þarf, og gerir það með einföldum hætti?
Ef svo er þá fagna ég því. Regnboginn rúmar alla, líka miðaldra gagnkynhneigða hvíta karlmenn eins og mig. Hann inniheldur allt litrófið, líka liti sem sjást varla með berum augum. Hann hefði aldrei átt að víkja fyrir fánum sem eiga að þýða eitthvað en þýða í raun ekkert.
Velkominn aftur, regnbogafáni!
Föstudagur, 16. ágúst 2024
Fjölmiðlar, óþarfi?
Það var ánægjulegt að horfa og hlusta á nýlegan þátt Dagmála Morgunblaðsins undir fyrirsögninni Fjörbrot fjölmiðla. Þar ræddu þrír blaðamenn sem ég ber ákveðna virðingu fyrir, jafnvel mikla, um breytt landslag fjölmiðla og fjölmiðlunar og um greinilega naflaskoðun var að ræða, sem er sérhverri starfsgrein bráðholl.
Í grófum dráttum voru tvö sjónarmið til umræðu:
- Upplýsingar eru á hverju strái, nánast ókeypis, og óþarfi að bíða eftir fjölmiðlum til að bera þær á borð
- Upplýsingar þarf að setja í samhengi, og kalla á upplýsingar sem renna ekki út af sjálfsdáðum, og til þess þarf fjölmiðla
Ég er sammála báðum sjónarmiðum.
En ef það er eitthvað sem plagar fjölmiðla umfram allt þá er það eltingaleikur þeirra við það sem þeir telja vera vinsæl sjónarmið. Þeir brugðust allir á veirutímum þegar yfirvöld léku á þá eins og hljóðfæri - mögulega banabiti fjölmiðla um alla framtíð. Þeir taka allir sömu einhliða línuna í öllum utanríkismálum Bandaríkjanna sem Evrópa er látin taka þátt í. Þeir taka yfirleitt stöðu gegn almenningi þegar hann er búinn að fá upp í kok af eyðileggingu velferðarkerfisins og annarra stofnana sem venjulegt fólk reiðir sig á, gegn svimandi skattheimtu.
Fjölmiðlar segjast veita samhengi, krefjast svara og draga saman sjónarmið. Það gera þeir samt ekki. Bara alls ekki. Það er hvergi nærri því línan í þeirra vinnubrögðum.
Ef hefðbundnir fjölmiðlar eru að deyja þá er það af því þeir eru að fremja sjálfsmorð en ekki af því upplýsingar - skoðanir allra á samfélagsmiðlum - eru á hverju strái.
Mér finnst fjölmiðlar vera bráðnauðsynlegir, en bara ef þeir gera það sem þeir segjast vera að gera, ekki ef þeir eru bara gjallarhorn stjórnvalda.
Séu þeir að fremja sjálfsmorð þá þeir um það. Við hin finnum út úr lífi án þeirra.
Föstudagur, 16. ágúst 2024
Blaðamenn, er þetta eitthvað flókið?
Ég þarf sennilega að taka mér langt hlé frá fjölmiðlum áður en ég missi vitið. Þeir skrifa oft af svo mikilli vanþekkingu og jafnvel leti að ég gæti fjallað um það í mörgum ritgerðum. Það ætla ég ekki að gera en taka tvö nýleg dæmi.
Hérna fjallar DV um mann sem kallar sig Tommy Robinson. Hann er ekki í góða liðinu að mati blaðamanns og má því kalla nýnasista þótt hann standi fyrir fjöldahreyfingum fólks af öllum litum, stærðum og gerðum. Á einhvern undraverðan hátt á þessi maður að vera forsprakki götuóeirða og mótmæla á götum Bretlands þótt hann sé ekki einu sinni í Bretlandi - hann fjarstýrir einfaldlega tugþúsundum manna í gegnum samfélagsmiðla. En jæja, látum samsæriskenningar blaðamanns eiga sig. Það eru staðreyndavillurnar sem angra mig meira.
Eftir morð á þremur stúlkum í Southport í sumar dreifði Robinson falsfréttum um að gerandinn væri múslimi og hælisleitandi. English Defence League og fleiri nýnasistasamtök hvöttu og skipulögðu óeirðir í kjölfarið. Var meðal annars kveikt í heimilum hælisleitenda og ráðist á lögregluþjóna.
Sá sem skrifar svona þjáist annaðhvort af leti eða vanþekkingu, eða bæði. Þessi samtök sem eru nefnd þarna hafa ekki verið til í raun í yfir 10 ár og Tommy þessi ekki verið meðlimur síðan árið 2013 - hætti af ótta við ofbeldisöfl innan samtakanna. Það tekur 15 sekúndur að finna og 45 sekúndur að lesa ágæta umfjöllun Sky News um þessi samtök og hvort þau séu yfirleitt til í dag.
Blaðamaður DV bjó einfaldlega til einhverja þvælu til að réttlæta uppnefni sitt. Það er líka rétt að halda því til haga að á götum Bretlands eru það yfirgnæfandi venjulegir breskir skattgreiðendur að mótmæla.
Annað en saklausara dæmi um latan blaðamann er höfundur þessarar fréttar á vef Morgunblaðsins sem fjallar um möguleikann á kjarnorkuknúnum flutningaskipum. Blaðamaður skrifar:
Kjarnaknúin flutningaskip hafa þó hingað til ekki verið talinn fýsilegur kostur, en fyrsta slíka skipið var hannað í Bandaríkjunum árið 1962 og hét NS Savannah. Rekstur skipsins þótti ekki hagkvæmur og var notkun þess því fljótlega hætt.
Aftur þarf ekki meira en 15+45 sekúndur til að komast að því að þetta er úrelt viðhorf. Hérna er ágæt grein um sögu kjarnorkuknúinna skipa og það útskýrt hvernig nýleg þróun á litlum kjarnakljúfum er að fara gera kjarnorkuna mun nothæfari en áður. Hér er svo frétt frá 2023 um áætlanir Kínverja um að byggja risavaxin kjarnorkuknúin skip - frétt sem fór raunar víða í augum þeirra sem fylgjast með svona löguðu. Það gerir blaðamaður Morgunblaðsins greinilega ekki.
Er til of mikils mælst að blaðamenn vandi sig? Ég veit að þeir eru oftar en ekki í því að breiða út eitthvað fagnaðarerindi, eða ófrægingarerindi, frekar en að segja satt og rétt frá, og gott og blessað - þessir fjölmiðlar hafa herrum að þjóna sem eru ekki almenningur, en augljósar staðreyndarvillur? Nei takk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2024 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 15. ágúst 2024
Hvernig stendur á þessu ruggi á bátnum?
Mikil og hávær mótmæli, og í sumum tilvikum óeirðir, hafa nýlega gengið yfir Bretland. Allt auðvitað vegna rangupplýsinga og í boði nýnasista, en svona er það.
Það stefnir í að Bandaríkjamenn ætli að kjósa Trump aftur í embætti forseta. Allt auðvitað þrátt fyrir endalausar lygar hans og stórhættulegar fasistaskoðanir, en svona er það.
Nýlega sópuðust inn á Evrópuþingið fulltrúar úr öfgahægriflokkum hvaðanæva að úr álfunni. Allt einhverjir lýðskrumarar sem vilja henda öllu lituðu fólki úr álfunni, en svona er það.
Á Íslandi sópa nú að sér fylgi þeir flokkar sem vilja hægja á stjórnlausum innflutningi útlendinga inn í íslenska velferðarkerfið. Stórhættulegur uppgangur útlendingafælni og rasisma, en svona er það.
Fyrir þá sem fylgjast með fréttum, en fáu öðru, hlýtur heimurinn að líta sífellt drungalegri út. Fasistar á hverju götuhorni að sópa að sér fylgi og stuðningsmönnum. Nýnasistar að leiða fjöldahreyfingar í vestrænum lýðræðisríkjum. Trúðar að hafa sigur á þeim sem fjölmiðlarnir elska.
En lof mér að róa niður allar áhyggjur. Það er ástæða fyrir því að forfeður okkar ákváðu að kosningar væru góð hugmynd og að mótmæli almennra borgara ættu að fá að eiga sér stað. Málfrelsið átti að vera ósnertanlegt til að forðast ritskoðanir kónga og einræðisherra. Það hefur tekið langan tíma fyrir almenning að átta sig á þeirri vegferð - þeirri helferð - sem yfirvöld hafa í langan tíma leitt okkur á og núna er einfaldlega verið að bregðast við - spyrna við fótum.
Það tók 2-3 ár fyrir almenning að sjá í gegnum ásetning yfirvalda á veirutímum, sem var þó augljós nánast frá upphafi, og 20-30 ár að sjá í gegnum innflytjendastefnuna, loftslagsrausið og eyðileggingu gjaldmiðlanna, en fleiri og fleiri eru að komast þangað. Hömlulausar lygar veirutíma hröðuðu ferlinu hjá mörgum, og eyðilegging velferðarkerfa og gjaldmiðla eru að vekja aðra.
Mótmælin í Bretlandi eru skiljanleg afleiðing margra ára glórulausrar stefnu í innflytjendamálum þar á bæ. Yfirvofandi endurkjör Trump í embætti forseta Bandaríkjanna eru viðbragð almennings gegn hatri yfirvalda á lífsstíl og skoðunum venjulegs fólks. Kosningaúrslit til Evrópuþings eru táknræn skilaboð frá vaxandi hluta almennings um að Evrópusambandið sé að seilast of langt í völdum. Skoðanakannanir á Íslandi gefa til kynna að jafnvel íslenskur almenningur, sem lætur gjarnan allt yfir sig ganga, sé orðinn langþreyttur á rotnandi velferðarkerfi nema fyrir þá sem borga ekkert í það.
Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af almenningi. Miklu meiri áhyggjur þarf að hafa af yfirvöldum sem stjórna ennþá umræðunni í gegnum verktaka sína hjá fjölmiðlunum. Gott ráð er að leita annars staðar að fréttum um stöðu mála. Það er sem betur fer hægt, ef þú nennir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. ágúst 2024
Vantar upp á gervigreind hjá hinu opinbera?
Enginn vafi er á því að gervigreindarlausnir geta nýst vel á vettvangi Stjórnarráðsins sjálfs og flýtt fyrir og bætt vinnslu ýmissa mála, t.d. við greiningar og skýrslugerð, eða svo er okkur sagt af ráðherra.
Mér dettur hins vegar strax í hug að ákveðin tegund gervigreindar sé nú þegar og hafi lengið verið útbreidd innan hins opinbera, og engin ástæða til að skipta um hana.
Því hvað er gervigreind eins og sú sem við þekkjum í dag? Þessi utan hins opinbera. Jú, tölvur að tyggja á miklu gagnamagni og giska, með notkun einhverra algríma, á nýja samsetningu á litlum púslum sem gefa okkur sannfærandi svar. Gervigreindin getur síað út mikið textamagn til að komast að kjarna málsins. Hún getur togað saman ýmsa mola úr stóru gagnasafni. Hún getur rökstutt ágæti málfrelsis með fyrirvara, og ágæti ritskoðunar án fyrirvara, nákvæmlega eins og hún var hönnuð til að gera.
Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver þörf á frekari gervigreind innan hins opinbera.
Hið opinbera hefur þrenns konar hlutverki að gegna:
- Að koma fyrir fólki sem þyrfti annars að finna sér alvöruvinnu
- Að knýja á innleiðingu á ákveðinni hugmyndafræði
- Að auka flækjustigið í lífi skattgreiðandans
Hvaða gagn er í gervigreind til að ná þessum markmiðum? Gervigreindin gæti minnkað mannaflaþörfina innan hins opinbera og það dugar ekki. Hún gæti fundið skilvirkar lausnir og það dugir ekki. Hún gæti greitt fyrir opinberri þjónustu og það dugir ekki. Henni gæti misheppnast að starfa samkvæmt ákveðinni hugmyndafræði og haldið sig við verkferla og gegnsæi, og það dugir alls ekki.
Nei, þessar hugmyndir um innleiðingu á gervigreind á vettvangi Stjórnarráðsins eru fjarstæðukennd þvæla. Þær stríða gegn grundvallarmarkmiðum opinbers reksturs.
Í staðinn legg ég til að áfram verði haldið að ýta út eyðublöðum á pappír sem fólk þarf að fylla út í höndunum og finna tvo votta til að staðfesta undirskriftir. Það veldur hinum passlegu óþægindum sem opinber rekstur er svo ánægður með.
Mikil tækifæri í gervigreind og ríkið verður að þora | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. ágúst 2024
Raunsæisvottun
Það vantar ekki vottanirnar sem fyrirtæki geta eða þurfa að hafa. Sumar eru valkvæðar og aðrar ekki. Heilbrigðisvottorð er til dæmis víða krafa, og jafnlaunavottun ef vinnustaður er svo óheppinn að hafa farið yfir eitthvað ákveðið hámark starfsmanna. Gæðavottanir hafa lengi verið vinsælar og valkvæðar (gjarnan markaðskrafa frekar en lögbundin krafa). Svo má sækja sér allskyns vottanir upp á umhverfisvitund og annað slíkt.
Gleymum svo ekki hinsegin-vottuninni.
Ég ætla að reyna flokka allar þessar vottanir í tvo flokka:
- Þær sem koma til móts við löggjöf eða kröfur viðskiptavina
- Þær sem eiga að láta fyrirtæki líta vel út þótt vottunin bæti í engu vörur eða þjónustu þess
Kynnum til leiks nýja vottun sem er ekki lögskyld en gæti samt bætt aðstæður starfsmanna og þjónustu við viðskiptavini: Raunsæisvottun.
Til að hljóta slíka vottun þurfa fyrirtæki að fara í gegnum sem flest af eftirfarandi skrefum:
- Kaupa gámaþjónustu fyrir fyrirtæki svo starfsfólk geti hent öllu rusli í eina ruslafötu og fagmenn og færibönd sjá um að flokka rétt (starfsfólki boðið velkomið að koma með heimilissorpið í vinnuna)
- Kvarta reglulega og opinberlega yfir opinberum álögum og kjánalegum reglugerðum sem íþyngja rekstrinum án þess að skila sér í neinu til viðskiptavina, samfélags eða umhverfis
- Segja sig úr allskyns hagsmunasamtökum sem þiggja mikið fé til að skrifa langar skýrslur og halda ráðstefnur fyrir eigin stjórnarmenn og stjórnmálamenn og styrkja þess í stað grasrótarsamtök sem veita yfirvöldum málefnalegt aðhald
- Leggja ekki önnur námskeið á starfsmenn sína en þau sem auka afköst og gæði verðmætaskapandi vinnu
- Segja nei þegar lífsskoðunarfélög fullorðinna betla pening og já - oftar en nei - þegar ungmenni og félög þeim tengd óska eftir styrkjum
Þennan lista má mögulega lengja töluvert en boðskapurinn er þessi: Fyrirtæki sem eltast við tískusveiflur og smelli eru að sóa fé hluthafa sinna og launþega, vanrækja starfsfólk sitt og missa sjónar af viðskiptavinum sínum.
Fyrirtæki sem standa gegn slíku eiga skilið raunsæisvottun.
Mánudagur, 12. ágúst 2024
Bókin sem þú last ekki en dæmdir
Ég hef ákveðna samúð með því að vilja mynda sér skoðun á bók, bíómynd, heimildamynd eða lítilli blaðagrein án þess að hafa horft á eða lesið frá upphafi til enda. Flæði texta og myndefnis er slíkt að við þurfum að sía út. Dæma jafnvel bara út frá fyrirframgefinni skoðun á höfundi, leikstjóra eða framleiðenda.
Ég skil það og hef jafnvel gerst sekur um nákvæmlega þetta: Að dæma út frá kápunni, en ekki innihaldinu.
En í einstaka tilvikum eiga menn að hægja á sér áður en ætt er á ritvöllinn, og skal ég fyrstur manna játa sök á að hafa ekki gert það - að hafa þurft að skipta um skoðun eftir að hafa farið úr því að dæma án þekkingar og í að breyta þeim dóm eftir að hafa aflað mér þekkingar. Þó sjaldnar og sjaldnar, að eigin mati.
Þessa hugleiðingu skrifa ég eftir að hafa lesið aðsenda grein Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi þingmanns, í Morgunblaðinu í dag. Manns sem var þekktur fyrir að hafa lesið yfir öll lagafrumvörp þegar hann var þingmaður frekar en að láta undirlægjur sínar gera það fyrir hann, eða bara sleppa því alveg að kynna sér efni slíkra frumvarpa (sem mig grunar að sé reglan frekar en undantekningin).
Í þessari grein setur hann mikið út á skrif manns sem tekur undir allar áhyggjur hans sjálfs af hlýnun Jarðar af mannavöldum en er ósammála forgangsröðun á því meinta vandamáli umfram önnur.
En þetta er dæmigert fyrir umræðuna.
Ef þú ert á þeirri skoðun að það séu til stærri vandamál en einhverjar breytingar á loftslagi Jarðar af mannavöldum þá ertu hreinlega að hafna því að loftslag Jarðar sé að breytast af mannavöldum. Ef þú telur betra að taka milljarð frá vestrænum skattgreiðendum til að kaupa ódýr lyf til að forða hundruðum milljóna frá malaríu frekar en að setja hundrað milljarða af fé vestrænna skattgreiðenda í að koma í veg fyrir hálfa gráðu af hitastigshækkun þá hafnar þú vísindum, eins og þau leggja sig, og átt skilið níðgrein frá Hjörleifi Guttormssyni.
Sértu sammála því að loftslag Jarðar sé að breytast en mögulega af öðrum ástæðum en mannavöldum þá ertu virkilega kominn í skammarkrókinn, en Hjörleifur er ekki einu sinni að gagnrýna slíkar raddir.
Kannski er þetta bara komið gott af loftslagshræðslu. Loftslagið er frekar stöðugt þótt fréttamenn séu að verða óstöðugri. Níðgreinar um mann sem vitnar í vísindamenn frekar en blaðamannafulltrúana sem afbaka niðurstöður vísindamanna eru góð vísbending um það.
Það er freistandi að dæma bók af kápunni. Það þekki ég. En ég er að læra, og vonandi fleiri líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 11. ágúst 2024
1984 sem leiðbeiningabæklingur
Fyrir ekki löngu síðan hlustaði ég á útvarpsleikrit byggt á frægri skáldsögu George Orwell, 1984, og horfði síðan á kvikmynd byggða á sömu bók (útvarpsleikritið er betra). Sagan gerist í ímynduðum heimi þar sem yfirvöld stjórna öllum upplýsingum, ljúga stanslaust að fólki til að halda völdum og fjarlægja úr samfélaginu þá sem ógna frásögninni.
Ég fór að kynna mér þessa sögu betur eftir að hafa heyrt einhvern lýsa henni þannig að það mætti halda að yfirvöld hefðu gert hana að leiðbeiningabæklingi frekar en varnaðarorðum. Sérstaklega á veirutímum, en líka enn þann dag í dag. Ég hafði ætlað mér að lesa bókina fyrir mörgum árum, en nú varð því ekki frestað lengur að kynna sér hana.
Og mikil ósköp, ég tek undir þá greiningu að bókin sé komin með stöðu leiðbeiningabæklings!
Fræg eru til dæmis þau orð úr 1984 að stríð sé friður. Hljómar það ekki aðeins of kunnuglega í opinberri umræðu í dag?
Þegar kemur að áróðri og lygum vantar ekki dæmin. Í Bretlandi hafa til dæmis verið óteljandi fjöldamótmæli seinustu daga og vikur sem hófust upphaflega vegna morða sonar innflytjenda á þremur ungum stúlkum en hafa þróast yfir í mótmæli gegn innflytjendastefnu Bretlands. Hvað segja fjölmiðlar okkar, allir sem einn? Jú, að þetta séu óeirðir öfgahægrimanna, að hluta fjarstýrt af manni sem kallar sig Tommy Robinson. Ekkert í þeirri frásögn á sér nokkra stoð í raunveruleikanum eins og Tommy fer hérna yfir á eina samfélagsmiðlinum sem er ekki búinn að þurrka nafnið hans út svo fjölmiðlar hafi einir möguleika á að tjá sig um hann og þá friðsælu fjöldahreyfingu sem hann tilheyrir.
En auðvitað er auðveldara fyrir okkur að trúa því einfaldlega að í Bretlandi sé fasistahreyfing sem telur tugþúsundir verkamanna og að þar með sé réttlætanlegt fyrir yfirvöld að hraða öllum dómstigum til að koma ungum, breskum mönnum í fangelsi eins hratt og hægt er. Ég vil auðvitað ekki skemma partýið fyrir þeim sem vilja trúa á slíkar einfeldislegar útskýringar. Afsakið ef ég gerði það.
Eftir situr samt í mér sú hugsun að 1984 sé bók á sérhverju náttborði stjórnmálamanna og lesin eins og leiðbeiningabæklingur frekar en hrollvekjandi skáldsaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Laugardagur, 10. ágúst 2024
Samsæriskenningar sem eru engar kenningar
Í lítilli frétt á DV er fjallað um seinasta þátt hlaðvarps þar sem samsæriskenningar eru teknar fyrir. Í þessum þætti er fjallað um rákirnar sem streyma aftan úr flugvélum. Hvað í þeim? Hvaða áhrif hafa þær? Er verið að ráðskast með lofthjúpinn?
Nú eru rákir úr venjulegum flugvélum ekki annað en útblástur sem blandast við loftið. Í þeim útblæstri eru agnir sem mælast í loftgæðamælum, oft vel yfir allskyns mörkum nálægt flugvöllum. Þetta er ekkert nýtt, er auðvitað ákveðið vandamál fyrir nágranna flugvalla en í raun bara hlut af því að búa í þróuðu samfélagi þar sem ákveðin mengun er einfaldlega merki um lífsgæði (þar með ekki sagt að hana eigi ekki að reyna minnka án þess að drepa hagkerfið).
Þessar rákir úr flugvélum eru vissulega taldar valda gróðurhúsaáhrifum - hvað gerir það ekki? En þessar venjulegu rákir aftan við venjulegar flugvélar eru bara það - útblástur á miklum hraða.
En þar með er ekki sagt að slíkar rákir hafi ekki vakið áhuga milljarðamæringa sem vilja ráðskast með allt og alla. Tilraunir til að breyta veðrinu með losun á ögnum í háloftin hafa verið gerðar og taldar hafa heppnast til að valda úrkomu. En suma dreymir um meira en það. Einn milljarðamæringurinn vill reyna að loka á sólarljósið til að kæla Jörðina og hefur veitt fjármagni í slíkar rannsóknir. Þessi gróðurhúsaáhrif sjáðu til! Þessi hlýnun Jarðar! Þarf ekki að stöðva hana?
Og hver veit - kannski eru nú þegar í gangi ýmsar tilraunir til að hafa áhrif á lofthjúpinn með því að losa í hann allskyns agnir. Það er nú ekki alveg óþekkt að yfirvöld stundi leynilegar rannsóknir sem valda óafturkræfum skaða á samfélaginu - seinasti heimsfaraldur er gott dæmi um slíkt. Það væri raunar upplagt að framkvæma slíkar tilraunir því þær væru ekki aðgreinanlegar frá hinum venjulegu rákum og allar ásakanir um tilraunastarfsemi má afskrifa sem samsæriskenningar.
En það er þetta með að afskrifa sem samsæriskenningar sem er ekki jafnauðvelt í dag og áður. Núna má alveg trúa hverju sem er upp á yfirvöld og skjólstæðinga þeirra í milljarðamæringaklúbbnum. Þau bjuggu til heimsfaraldur - hvað ætli sé næst á dagskrá? Skipulagðar hungursneyðir? Þvingaðar lyfjagjafir? Að gera vinnandi fólk að öreigum? Að uppræta vestræn, kristin samfélög?
Vonandi leiðir tíminn það ekki í ljós af því við hættum að samþykkja að vera meðhöndluð eins og tilraunarottur. En það er ástæða til að óttast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)