Laugardagur, 7. september 2024
Landsbyggðin niðurgreiðir höfuðborgina
Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins og var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð í fyrsta sinn í fimm ár. Þetta kom mörgum á óvart enda hefur allt verið eins og rjúkandi brunarúst í fjármálum borgarinnar í mörg ár, og jafnvel áratugi, og enginn að búast við öðru. Meira að segja kjósendur í Reykjavík, sem enda á að hlaupa undir vaxtagreiðslurnar á meðan þjónustan skreppur saman, láta eins og ekkert sé.
En margir velta því fyrir sér hvernig borgin er allt í einu að skila rekstrarafgangi í svokölluðu A-hluta þegar það er ljóst að aðhaldið er ekkert, skattar hafi verið í lögbundnu hámarki í mörg ár og verða ekki hækkaðir mikið meira, starfsmannafjöldinn sá sami og óráðsían óbreytt. Það er ekki eins og áætlanir hafi staðist svo vitnað sé í árshlutaskýrslu borgarinnar fyrir tímabilið janúar-júní 2024:
Rekstrarniðurstaða A-hluta var 1,1 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2023. Áætlun gerði ráð fyrir 1,9 ma.kr. rekstrarafgangi.
Það þarf ekki að fletta lengi til að sjá hvað breyttist. Á tímabilinu janúar-júní 2023 fékk borgin um 5,8 milljarða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á tímabilinu janúar-júní 2024 fékk borgin 7,4 milljarða, sem er aukning um 1,6 milljarða. Þarna er ástæðan. Þetta skýrir hvers vegna áætlun gat skeikað um 800 milljónir en rekstrarafgangi samt náð með 1,1 milljarða viðsnúningi á milli ára miðað við sama tímabil.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur mörgum skyldum að gegna og ein er sú að hjálpa sveitarfélögum í vandræðum:
Framlögum er úthlutað til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga í samræmi við tillögur frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að sjálf höfuðborgin er komin á spena landsbyggðarinnar og þiggur styrki eins og lítið sjávarpláss sem var að missa seinasta togarann?
Auðvitað má samgleðjast útsvarsgreiðendum í Reykjavík. Það hefur hægst aðeins á stækkun vaxtabyrðarinnar sem kjörnir fulltrúar borgarbúa hafa byggt ofan á herðar þeirra. En það blasir við að landsbyggðin stendur undir þeim örlitla létti. Hvort hún sætti sig við það að eilífu eða ekki á eftir að koma í ljós. Á meðan getur borgarstjórnin látið eins og ekkert sé. Sjáið bara - rekstrarafgangur!
Fyrsta jákvæða niðurstaða borgarinnar í fimm ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 6. september 2024
Stjórnvöld vörðu milljörðum í að eyðileggja samfélagið
Formaður Geðhjálpar bendir í nýlegu viðtali á að stjórnvöld hafi varið 300 milljónum til málaflokks geðheilsu þegar liðið var á faraldurinn, en að það hafi verið of lítið. Setur hann aðgerðir þessar í samhengi við að ráðgjöfum voru greiddir 3 milljarðar króna vegna söluferlis Íslandsbanka.
En hvað á að verja miklu í að verja geðheilsu þegar yfirvöld eru að taka af fólki félagslífið, setja krakka í stofufangelsi og hræða alla eins mikið og hægt er, stanslaust og oft á dag?
Er einhver upphæð nógu stór til að lækna fólk af því að samfélagið snýst um að forðast dauðann frekar en lifa lífinu?
Auðvitað ekki.
Geðhjálp eru fín samtök en voru með veik hné eins og flest samtök þegar yfirvöld voru að leggja samfélagið í rúst og gjaldmiðilinn í leiðinni, eins og síðar koma í ljós (en blasti við frá upphafi).
Margir hafa kallað á að veirutímar verði gerðir upp með rannsóknarnefndum og -skýrslum, þar sem saga ákvarðana er rakin og kortlögð. Slík rannsókn mun auðvitað ekki fara fram - stjórnmálamenn, sem margir eru þeir sömu í dag og á veirutímum, þola ekki slíka viðrun á óhreinum undirfötum.
En það er fínt að einhver viðtöl séu tekin og að molarnir séu lagðir á borðið. Kannski er einhver sagnfræðingurinn að vinna við kertaljós fram á kvöld að setja saman einhverja sviðsmynd. Ef svo er mun ég kaup bók hans.
Yfirvöld munu áfram vona að allt gleymist með tíð og tíma, líka þeir sem drápust vegna aðgerða eða sprautu, eða vegna blöndu af þessum tveimur eitrunum.
Stjórnvöld brugðust börnunum með aðgerðunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. september 2024
Ekki rangt
Á það hefur verið bent að til að geta staðið í lappirnar í stjórnmálum sé líklega til bóta að hafa að baki sér einhverja lífsreynslu. Það er ekki rangt.
Að það þurfi líka endurnýjan - unglegan ferskleika - er heldur ekki rangt.
Að það sé hægt að orða hlutina óvarlega er svo auðvitað augljóst og jafnvel hægt að gera það aukaatriði að aðalatriði. Við erum jú tilfinningaverur.
Það má færa rök fyrir því að reynsluleysi hafi þjáð íslenska ráðherra. Lokun sendiráða á viðkvæmum tímum, ófyrirsjáanlegar lokanir á heilu atvinnugreinarnar, allskyns innistæðulausar viljayfirlýsingar, veik hné þegar embættismannakerfið hrópar og algjör uppgjöf í kjarasamningum eru nokkur dæmi. En aldur er kannski ekki þemað hérna. Reynsluleysi almennt, óháð aldri, mögulega frekar. Reynslu í að berjast og sigrast á áskorunum, taka áhættu, eiga við fólk. Ekki öll störf veita slíka reynslu.
Einu sinni var ég staddur á fyrirlestri sem sýndi þróun ríkisútgjalda sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Kakan var að stækka en ríkið hélt áfram að stækka í takt - láta ríkisútgjöld einfaldlega belgjast út með auknum efnahagslegum umsvifum í hagkerfinu. Með einni undantekningu: Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar. Hann var á lokametrunum í stjórnmálum og þorði að taka umdeildar og oft óvinsælar ákvarðanir. Nafni minn Haarde tók við stólnum og blaðran fór að þenjast út á ný.
Ég hugsa oft um þessa frásögn þegar ég sé ráðherra á öllum aldri lofa miklu fyrir fé annarra til að fjármagna eigin kosningabaráttu. Kannski hallar hér á yngri ráðherra umfram eldri en það ætla ég ekki að fullyrða. Kannski reynsla almennt - úr atvinnulífinu, úr markaðshagkerfinu - skipti hér meira máli og sé nokkuð sem þarf að auka áherslu á í vali á fólki í ábyrgðarstöður.
Og það má kannski ræða án þess að láta tilfinningarnar æða á ritvöllinn.
Friðjón hjólar í Bolla í 17 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 3. september 2024
Smáatriðin
Við fáum mikið af fréttum um ástandið í Úkraínu og Rússlandi. Sú mynd er gjarnan svarthvít, en varla við öðru að búast. Hver einasta brú sem annar aðilinn sprengir er nefnd í fréttum, á meðan heilu héröðin sem hinn aðilinn gleypir eru varla nefnd.
Til að taka sér hlé frá fyrirsagnafréttunum er því stundum gott að lesa lengri og ítarlegri grieningar, og það gerði ég í dag. Hjá Institute for the Study of War birtast reglulega ítarlegar greiningar af þeim átökum sem við á Vesturlöndum höfum mestan áhuga á: Rússland-Úkraína, Ísrasel-Hamas, Íran. Þessar skýrslur eru troðfullar af smáatriðum og verða seint kallaðar skemmtiefni en með þolinmæði er hægt að læra ýmislegt.
Í skýrslu gærdagsins um Rússland-Úkraínu er til dæmis hægt að finna margt athyglisvert. Það er auðvitað þetta hernaðarlega: Úkraínu hrint aftur í Kursk og Rússar æða áfram í Doneskt, en líka meira. Til dæmis vissi ég ekki að þeir sem neita að taka við rússnesku vegabréfi í Austur-Úkraínu eru settir í gæsluvarðhald þótt það komi ekki á óvart. Annað sem ég vissi ekki, en kemur ekki á óvart, er að grunnskólastarf á svæðum Austur-Úkraínu undir stjórn Rússa verður rækilega nýtt til að metta huga barnanna af áróðri stjórnenda sinna.
Það getur kannski verið sárt fyrir marga að lesa um ósigra Úkraínu á vígvellinum, en um leið upplýsandi að vita hvað Rússar eru að gera á svæðum undir þeirra stjórn. Mögulega nokkuð verra en blaðamenn á Vesturlöndum segja okkur frá enda lesa þeir ekki langar skýrslur - bara fyrirsagnir hvers annars. Og það þótt verðlaunin séu enn fleiri frásagnir um vafasöm verk Rússa.
Ég er auðvitað bara venjulegur launþegi í dagvinnu og faðir með börn á framfæri og get ekki lesið langar skýrslur hvenær sem er. En þeir sem eru að framleiða fyrirsagnir geta kannski komist yfir meira lesefni, enda á launum við að kynna sér staðreyndir.
Að það gerist tel ég hins vegar ólíklegt. Smáatriðin tapast. Áhersla verður á það sem fellur sem best að einhliða nálgun á flókin mál. Og hverjum er ekki sama þótt grunnskólabörn í opinberum skólum séu heilaþvegin af yfirvöldum sínum?
Mánudagur, 2. september 2024
Viljayfirlýsingar
Ég er mikill aðdáandi viljayfirlýsinga. Þær lýsa yfir vilja, eins og orðabókin útskýrir fyrir okkur:
formleg, opinber tilkynning um fyrirætlanir í tilteknu máli
Þannig rituðu ráðherrar undir viljayfirlýsingu árið 2021 um að draga úr losun koltvísýrings. Skattar á hvers kyns orku og eldsneyti hafa farið stighækkandi síðan. Koltvísýringurinn heldur sínu striki.
Árið 2022 var undirrituð viljayfirlýsing um svokallaða þjóðarhöll. Sennilega hafa einhverjar milljónir fokið út í vindinn síðan, en fyrsta skóflustungan er enn ekki komin í dagatalið.
Árið 2018 gaf Landhelgisgæsla Íslands út viljayfirlýsingu um að starfsmenn hætti að klappa hverjum öðrum á rassinn án leyfis. Lítið hefur spurst til árangurs síðan, en vonandi er klappið hætt.
Í aðdraganda kosninga til Alþingis er hætt við verðbólgu í fjölda viljayfirlýsinga frá ráðherrum og jafnvel þingmönnum. Þeir vilja þetta og vilja hitt.
Eftir stendur samt að ríkissjóður er tómur. Hann rekur sig á yfirdrætti. Það er hægt að vilja ýmislegt en þegar buddan er tóm þá nær það ekki lengra.
En látum það ekki halda aftur af neinum. Það er gott að vilja allskonar gott. Viljayfirlýsingar lýsa því ágætlega. En þar er líka hægt að láta staðar numið.
Smám saman að nútímavæða alla aðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 1. september 2024
Neyðarréttargrundvöllur svo árum skipti
Eftir því sem tíminn líður þá breytist staðan og við gerum meiri kröfur til þess að löggjafinn grípi inn í og málin fari í eðlilegt ferli. Við viljum ekki að landinu sé stjórnað á neyðarréttargrundvelli svo árum skipti. Á þetta er bent í barnabannsmálinu, að þetta getur verið í skamman tíma en ef þetta á að vera viðvarandi ástand þá eiga mál að fara í eðlilegan stjórnskipulegan farveg. Og það er Alþingi sem á að fjalla um viðvarandi skerðingar eða íþyngjandi reglur gagnvart borgurunum.
Svona mælir fráfarandi umboðsmaður Alþingis og hefur lög að mæla, bókstaflega.
En því miður fara orð hans inn um eitt og út um hitt. Að stjórna á neyðarréttargrundvelli er hinn æðsti draumur yfirvalda.
Við lifum til dæmis á tímum hamfarahlýnunar. Þetta er viðvarandi neyðarástand sem verður notað og nýtt í mörg ár til að taka af fólki bílinn, aðgengi að vegum, flugmiðana, kjötið og innfluttan varning. Ferlið er komið vel á veg og mun ekki stöðvast ef almenningur spyrnir ekki við fótum.
Það er víst í gangi einhver svakaleg bylgja fordóma og haturs gegn fullorðnu fólki sem kýs að skilgreina sig á annan hátt en líffræðin. Það þarf að bregðast við því neyðarástandi með því að taka af konum búningsklefana, salernin, íþróttirnar og jafnvel sjálfan móðurtitilinn.
Eins og alltaf eru einhver átök í gangi í heiminum sem leysa úr læðingi flóttamenn. Þeir fá hvergi athvarf í nágrannaríkjunum og þurfa að koma í milljónatali til Evrópu og renna þar inn í velferðakerfið. Þetta er endalaust neyðarástand sem ríkið þarf að grípa inn í með því að yfirbjóða leiguverð til að koma nýja fólkinu að, og auðvitað beina velferðarkerfinu að því fólki frekar en skattgreiðendunum sem borga fyrir það.
Fólki fjölgar og bílunum með, en vegirnir haldast óbreyttir. Lausnin er auðvitað sú að bæta sköttum ofan á skatta til að koma efnaminna fólki út úr bílunum og í strætisvagna. Þetta neyðarástand mun vara að eilífu.
Vissulega eru í gangi allskyns neyðarsjóðir, varasjóðir, tryggingar og álíka. En þar með er ekki sagt að það séu í raun til úrræði þegar áin flæðir yfir bakka sína, sprungan leysir hraun í læðingi eða skriða fer af stað. Allt þetta, og fleira til, sem skellur reglulega á íbúum eldfjallaeyju. Nei, allir sjóðir eru tómir og eina ráðið að sækja enn einn yfirdráttinn og lýsa yfir neyðarástandi.
Neyðarréttargrundvöllur svo árum skipti. Áratugum. Að eilífu.
Því annað er svo mikið vesen, fyrir yfirvöld.
Sunnudagur, 1. september 2024
Þegar betur er að gáð
Meðferð evrópskra fjölmiðla á stjórnmálum í Bandaríkjunum er, og hefur lengi verið - eins og allir vita - alveg grímulaust einhliða. Alltaf er það góða sálin frá Demókrötum að takast á við illfyglið úr röðum Repúblikana. Ef marka mætti evrópska miðla þá ættu Bandaríkin helst ekki að bjóða upp á Repúblikana, eins hræðilegir og þeir eru í öllum málum.
Til að tryggja að umfjöllunin sé ekki bara einhliða heldur líka ósanngjörn er svo farið í að segja sögur - oft lygasögur - og endurtaka þær á öllum rásum í sem flestum fréttum svo neytendur frétti fái það á tilfinninguna að verið sé að segja sannleikann.
Tökum lítið dæmi, úr frétt RÚV:
Mörg ríki {Bandaríkjanna] hafa hert lög um þungunarrof í kjölfar þess að hæstiréttur Bandaríkjanna felldi tímamótaúrskurð í máli Roe gegn Wade úr gildi árið 2022. Hann hafði tryggt stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs frá 1973. Þrír af fimm hæstaréttardómurum sem studdu ógildinguna voru skipaðir af Trump.
Fyrsta setningin er svo sem í lagi. Ákveðinn dómsúrskurður hafði verið kveðinn upp sem fól í sér fyrirmæli til ríkja Bandaríkjanna í málefnum fóstureyðinga (sem kallast iðulega þungunarrof í dag, kannski til að forða okkur frá því að sjá fyrir okkur fósturvísi á leið í klósettskálina).
En svo tekur spuninn við.
Hann hafði tryggt stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs frá 1973.
Dómsúrskurðinn hafði ekki tryggt neinn stjórnarskrárvarinn rétt. Dómurinn sjálfur var ígildi lagafyrirmæla sem var byggður á vafasömum stjórnarskrárlegum forsendum. Ríki Bandaríkjanna eru aðilar að stjórnarskránni en stjórnarskráin fjallar ekki um fóstureyðingar og alríkið getur því ekki kveðið á um fyrirkomulag fóstureyðinga í ríkjunum. Meira að segja stuðningsmenn dómsúrskurðarins höfðu margir hverjir vitað af þessum vafasömu forsendum dómsúrskurðar Hæstaréttar Bandaríkjanna. Endurskoðun á þeim dómsúrskurði leiddi einfaldlega til þeirrar niðurstöðu dómaranna að hann stæðist ekki stjórnarskrá.
Menn geta svo deilt um það hvort alríkið geti með einhverjum öðrum hætti skipt sér af málefnum fóstureyðinga í ríkjunum enda orðnir mjög liprir í að túlka stjórnarskránna, teygja hana og toga.
Áfram heldur spuninn:
Þrír af fimm hæstaréttardómurum sem studdu ógildinguna voru skipaðir af Trump.
Þarna vantar að nefna að einn dómaranna sem var skipaður af George W. Bush studdi ekki viðsnúninginn, en látum það eiga sig.
Hér er látið í það skína að Trump hafi viljað þessa tilteknu niðurstöðu Hæstaréttarins og skipað dómara sem hann vissi að myndu kjósa á ákveðinn hátt. Trump er kannski lúmskur stjórnmálamaður en ég held að svona leikflétta sé með öllu ómöguleg. Afstaða Trump er einföld og fellur að skoðun margra löglærðra: Stjórnarskráin heimilar ekki alríkinu að ákveða fyrirkomulag fóstureyðinga í einstaka ríkjum. Þessu ráða ríkin sjálf, rétt eins og Ísland ræður sínum málum og Þjóðverjar - með sínar töluvert meiri takmarkanir - ráða sínum. Mér finnst ólíklegt að Íslendingar vilji að Þjóðverjar eða Evrópusambandið ráði fyrirkomulagi fóstureyðinga á Íslandi.
Hvað um það. Það er vissara að fara varlega þegar fjölmiðlar hafa ákveðið fyrirfram að taka grímulaust mjög einhliða afstöðu, kerfisbundið og ár eftir ár, óháð því hvað hver segir eða gerir. Þetta á sérstaklega við um evrópskar fréttir úr bandarískum stjórnmálum. Þar fá allar fréttir evrópskra miðla á sig blæ skoðanapistla án staðreynda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. ágúst 2024
Léttur laugardagur
Pólitískur rétttrúnaður er eitur, mein á samfélaginu og dragbítur á opinberri umræðu.
Sem svolítið móteitur við honum birti ég því hér tæplega 10 mínútur af uppistandaranum Bill Burr að segja brandara sem falla ekki að pólitískum rétttrúnaði (sem síðan er fylgt eftir með svolitlu lagi um ritskoðun). Njótið vel!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. ágúst 2024
Enginn sérstakur áhugamaður um ritskoðun
Ég skal vera alveg hreinskilinn.
Ég er enginn sérstakur áhugamaður um ritskoðun. Hún er mér alls ekki ofarlega í huga. Sé henni beitt þá er ég ekkert endilega að fara klappa fyrir því eða leggja á mig að réttlæta hana.
Ef innflytjendur og afkomendur þeirra eru búnir að brytja niður litlar stúlkur og nauðga þeim svo árum skiptir án afskipta yfirvalda, og fólk æðir brjálað út á göturnar með skilti og hellir sér yfir samfélagsmiðla, þá finnst mér ekkert endilega að það eigi að fleygja því fólki í fangelsi og þagga niður í því með handtökum og sektum.
Nema auðvitað að yfirvöld séu í mjög erfiðri stöðu. Þá þarf að handtaka venjulegt fólk sem er orðið þreytt á hnífastungum í börn þess.
Það er einhvern veginn svona sem formaður Samfylkingarinnar tjáir sig þótt spyrill reyni af mikilli varfærni að reyna fá eitthvað annað en meginstraumsþvæluna og -æluna út úr honum.
Formaðurinn er enginn sérstakur áhugamaður um að reyna halda aftur af hvernig fólk tjáir sig. Er til snyrtilegri leið til að segja að ritskoðun sé sjálfsagt vopn í vopnabúri yfirvalda, án þess að segja það? Varla.
Ég held að kjósendur eigi vandasamt verk fyrir höndum. Þeir þurfa að skilja á milli þess sem er sagt og þess sem er í raun sagt. Þeir þurfa að finna stjórnmálamenn sem hata ekki venjulegt fólk með venjulegan lífsstíl. Þeir þurfa að velja stjórnmálamenn sem hlusta á kjósendur frekar en útlenska embættismenn. Þegar prófkjör og uppstillinganefndir stjórnmálaflokkanna hafa síað út alla frambærilegustu frambjóðendurna þarf að skoða þá sem eftir eru og athuga hvort einhver þar sé að bjóða fram krafta sína í þágu almennings eða bara að leita að þægilegri innivinnu.
Líklega gildir það um flesta stjórnmálamenn að þeir séu engir sérstakir áhugamenn um að halda aftur af hvernig fólk tjáir sig. En það er vandamál. Best væri að áhuginn lægi sérstaklega í að varðveita málfrelsið - réttinn til að segja eitthvað óvinsælt, umdeilt, ástríðufullt og einlægt. En hvar er sá stjórnmálamaður?
(Vil bæta því við í lokin að viðtalið við formann Samfylkingar í Spjallinu með Frosta var gott og upplýsandi og jafnvel gefandi og uppbyggilegt. Kíkið á það!)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2024
Styttist í 50%
Það er auðvitað athyglisvert að á Íslandi mælist stærstur sá stjórnmálaflokkur sem mun í raun viðhalda núverandi stjórnarháttum: Hallarekstri, verðbólgu og innflutningi fólks sem kostar vinnandi Íslendinga lífsviðurværið, og jafnvel öryggið á götunum. Ég fer nánar út í það hér á eftir.
En það sem er athyglisverðara, mögulega, er að flokkar sem gætu mögulega haft hagsmuni hins venjulega Íslendings að leiðarljósi eru að nálgast meirihluta, lagðir saman í fylgi.
Sjálfstæðisflokkur + Miðflokkur + Flokkur fólksins + Framsókn = 45%
Undir forystu Miðflokksins, eða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar nánar tiltekið, er kannski möguleiki á að mynda stjórn flokka sem eru ekki með það efst á stefnuskrá sinni að eltast við nýjasta handrit erlendra og andlitslausra alþjóðastofnana.
En nú eru þetta auðvitað bara vangaveltur.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa mörgu frambærilegu fólki, en velur stjórnarsamstarf sem gerir þá hæfileika að engu.
Framsókn er bara það, fái hún sína ráðherrastóla þá fylgir hún línunni.
Flokkur fólksins er með besta slagorð í heimi - fólkið fyrst, svo allt hitt - og það lofar góðu.
Miðflokkurinn er í dag lítill á þingi og þarf að manna sig upp, og eins og Íslendingar eru skrúfaðir saman þá þora þeir ekki alveg að tengja sig við hann opinberlega þótt þeir svari í símann þegar skoðanakannanir eru framkvæmdar. Það hlýtur að lagast.
Svo kannski það sé ljós í myrkrinu.
Eitt er víst að eitthvað þarf að breytast og gerast. Ætla landsmenn allir að láta toga sig í svartholið eins og kjósendur Reykjavíkur?
Þá það. Það er jú lýðræði. Kjósendur geta alveg borað gat á skipið ef þeir vilja.
Eða vilja þeir eitthvað annað?
Sjáum hvað setur.
En aðeins í lokin: Það er alveg útilokað að almennir flokksmenn Samfylkingarinnar séu sammála formanni sínum í ýmsum málum, svo sem innflytjendamálum. Þeir þegja á meðan formaðurinn laðar að sér atkvæði en þegar atkvæðin eru talin þá stökkva þeir úr holum sínum og keyra á hefðbundna vinstripólitík. Formaðurinn veit það jafnvel. En pólitík snýst um völd, ekki stefnu, og því fer sem er.
Þar þarf ekkert að spá í spilin og sjá hvað setur. Þetta blasir við.
Miðflokkurinn tekur fram úr Sjálfstæðisflokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)