Fimmtudagur, 12. desember 2024
Ekki láta brjálað fólk flæma þig til dauða
Sólon Guðmundsson flugmaður var borinn til grafar fyrr í dag. Hann tók eigið líf í lok sumars. Sólon var 28 ára gamall og starfaði hjá Icelandair en var sagt upp störfum skömmu fyrir andlátið. Ástæðan: Ásakanir ónafngreindra einstaklinga innan vinnustaðar hans. Meira um málið hér.
Kannski hefði flugmaðurinn brugðist öðruvísi við í dag. Skæruliðarnir siðlausu sem hafa fengið að valsa um og ásaka mann og annan um hvaðeina, jafnvel nafnlaust og innistæðulaust, rekast núna á veggi. Menn svara í auknum mæli fyrir sig.
Svona var þetta ekki fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það var nóg að ásaka og liðlausar starfsmannadeildir æddu af stað til að skamma fólk - nei ég meina unga karlmenn - og að lokum vísa þeim úr starfi.
Sumir mætti tvíefldir til baka, og sem dæmi má nefna Frosta Logason hjá brotkast, en aðrir buguðust undan óréttlætinu, skiljanlega.
Innan samfélags okkar leynast nefnilega siðlausir stuðningsmenn dauðdaga og fátæktar. Þeir vilja láta ákveðna einstaklinga hverfa á einn eða annan hátt. Þeir vilja svipta menn lífsviðurværinu, þagga niður í þeim og koma þeim frá. Sé dauðsfall afleiðing slíkrar herferðar þá þegja þeir og brosa í laumi. Viðbjóður, vægast sagt.
En ekki lengur.
Brjálað fólk mun ekki lengur fá að hrinda fólki í dauðann. Við öll ættum að sjá það núna. Þess í stað á að hrópa á móti þegar dauðakirkjan hrópar á fólk.
Auðvitað eru til nauðgarar, ofbeldisfólk (af báðum kynjum) og tuddar. En það hafa lengi verið til ferli til að taka á hegðun slíks fólks. Réttarkerfi, jafnvel. Því má væntanlega stinga í samband aftur. Siðlausa liðið getur þá sakað hina og þessa um hvað sem er og þær ásakanir teknar fyrir, vegnar og metnar og að lokum úrskurðað. Saklaus uns sekt er sönnuð.
Vonandi er sá tími runninn upp. Núna.
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Blaðamenn bregðast enn og aftur
Af hverju í ósköpunum eru vestrænir blaðamenn að éta hráa mykjuna sem vellur úr munni yfirlýstra hryðjuverkamanna? Er það af því þeim tókst að steypa af stalli einhverjum sem okkur á Vesturlöndum er kennt að hata?
Núna enduróma vestrænir blaðamenn orðum hryðjuverkaleiðtogans sem kallar sig bráðabirgðaforsætisráðherra Sýrlands sem verður væntanlega jafnmikið til bráðabirgða og tímabundnir skattar á Íslandi.
Óvissa ríkir nú í landinu og vilja nýir ráðamenn því fullvissa trúarlega minnihlutahópa landsins að þeir skuli ekki kúgaðir. ...
Einmitt vegna þess að við erum íslömsk, munum við tryggja réttindi alls fólks og allra trúarhópa í Sýrlandi. segir Bashir sem uppreisnarmennirnir skipuðu sem bráðabirgðaleiðtoga ríkisstjórnarinnar. ...
Ákall mitt er til allra Sýrlendinga erlendis: Sýrland er nú frjálst land sem hefur áunnið sér stolt sitt og reisn. Komið til baka. sagði Bashir. Við verðum að endurreisa, endurfæðast og við þurfum hjálp allra.
Lygar í hverju orði. Það verður engum hlíft. Nú þegar stefnir í stórkostlegar manngerðar hamfarir.
Vissulega hafa átök í Sýrlandi undanfarin ár kostað mörg líf og stökkt milljónum á flótta en það sem stefnir í núna er eitthvað af allt annarri stærðargráðu, og myndböndin eru byrjuð að streyma á netið. Þar má sjá menn dregna af bílum á eftir götu á meðan þeir eru lamdir með svipum. Þar má sjá vopnaða menn labba í gegnum þorp og skjóta þar óbreytta borgara sem hafa sér það eitt til sakar unnið að vera af annarri trú. Og allt þetta á meðan bráðabirgðaforsætisráðherra hvetur Sýrlendinga á flótta til að snúa aftur.
Bjuggust með við einhverju öðru?
Síðan hvenær hafa hryðjuverkasveitir hagað sér öðruvísi en hryðjuverkasveitir?
Það þarf ekki að styðja Assad til að vera á móti ástandinu eins og það er að þróast núna. Og þaðan af síður þarf ekki að trúa orði úr munni þeirra sem flæmdu Assad frá völdum.
En að við veljum okkur alltaf svona hlið - á móti þessu eða þessum (sem fellur að utanríkisstefnu Bandaríkjanna) og þar með hlynnt öllu sem er andstæða þess - er barnaleg afstaða sem leiðir til mannlegra hörmunga.
Aftur og aftur.
Réttindi allra trúarhópa skulu tryggð í Sýrlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Dunkelflaute
Í dag er rafmagnsverð í hæstu hæðum í Danmörku - á slíkum hátindi að það jafnast á við rafmagnsverðið í upphafi 2022-2023 vetrarins vegna breytinga á gasframboði í álfunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
En af hverju núna?
Jú, það er skýjað og hægur vindur, eða það sem Þjóðverjar kalla dunkelflaute (myrkur-ládeyða).
Engin raforkuframleiðsla úr vind eða sól. það er hæð yfir hlutum Evrópu og áhrifanna gætir víða þar sem menn reiða sig á veðrið til að framleiða orku. Ekki náttúruna, sem hefur sinn gang yfirleitt, heldur veðrið, sem er síbreytilegt.
Fólki er sagt að fresta því að þvo föt, hlaða rafmagnsbílinn og jafnvel að reyna elda með bara einni hellu.
Til að bæta gráu ofan á svart er, í Danmörku, sérstakt aukagjald tekið á raforkudreifingu þegar fólk þarf mest á rafmagni að halda, frá kl. 17 til kl. 21. Þetta er til að draga úr raforkunotkun þegar börn þurfa kvöldmat, sjónvarpið og næturljós. Sannkallaður fjölskylduskattur.
En það er ljós í myrkrinu sem veðurorkan skilur eftir sig. Stóru olíufélögin ætla að halda áfram að gera það sem þau gera best, að finna og sækja olíu og gas, og setja þessi svokölluðu grænu verkefni ofan í skúffu, a.m.k. í bili. Fleiri og fleiri hafa opnað augum fyrir ágæti kjarnorku á meðan vindorkuáætlunum er blásið í burtu eða þær vekja engan áhuga.
Kannski það sé að fæðast eitthvað raunsæi - hver veit!
Auðvitað munu alltaf verða áframhaldandi orkuskipti. Þau gerast hægt og í takt við markaðslögmál (og stundum ríkisstyrki). Við þurfum meiri og meiri orku og leitum allra leiða til að finna hana.
En að ætla sér að fara í einhver róttæk orkuskipti á 20-30 árum, eða jafnvel 40-50 árum, er bara uppskrift að hamförum eins og reynslan sýnir núna oft á ári.
Það er bara hægt að hafna raunveruleikanum svo og svo lengi áður en hann bítur fast.
En því miður sjaldan mjög fast á þá sem boða óraunsæið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. desember 2024
Kristnir í hakkavélina, eða hvað?
Ég ætla að taka undir með Jóni Magnússyni um að það er of snemmt að fagna valdaráni róttækra, íslamskra hryðjuverkamanna í Sýrlandi. Það sem er mögulega framundan núna er undirbúningur á þjóðarhreinsunum til að losna við hina mörgu ekki-múslíma í Sýrlandi (margir nú þegar byrjaðir að flýja land) og í sama mund innleiðing á sharía-löggjöfinni sem talíbarnar og aðrir slíkir eru svo þekktir fyrir. Nema það taka við löng borgarstyrjöld stríðandi hreyfinga eins og í tilviki Líbíu.
Hver veit? Ekki ég.
En Assad var vondi kallinn, ekki satt? Hann naut jú stuðnings Rússa!
Við þurfum því auðvitað að hafa neikvæða afstöðu til Assad. Hann var jú einræðisherra!
Flótti hans er auðvitað hið besta mál. Hann var jú þyrnir í augum Bandarikjamanna!
Ég ætla að leyfa mér að mæla með og jafnvel hrósa fréttaskýringu DV í þessu samhengi.
Og um leið hvorki að klappa né kvíða, í bili.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 8. desember 2024
Bíllaus lífsstíll og rúntað með ruslið
Ég bý í Kaupmannahöfn. Hérna er fólki sagt að flokka sorpið sitt í óteljandi flokka: Pappír, pappi, plast, rafmagnstæki, málmar, gler, rafhlöður, matarafgangar, hættuleg rusl (eins og þrýstibrúsar), afgangsrusl og ég er sennilega að gleyma einhverju. Stundum þarf að losna við stærri hluti eins og húsgögn.
En ég fer aldrei í bíl og keyri með rusl. Það er lítill skúr í nágrenninu þar sem íbúar nokkura bygginga fara með hinar ýmsu tegundir sorps, þar á meðal húsgögnin. Fagmenn koma svo að sækja.
Í þessum skúr er líka hægt að sækja poka fyrir matarafgangana.
Umbúðir með skilagjaldi losa ég mig við í næstu matvöruverslun.
Þegar ég átti einbýlishús í nágrenni Kaupmannahafnar voru sérstakir dagar þar sem allskonar framandi sorp var sótt - húsgögn, ísskápar, málningarfötur og þess háttar, og garðúrgangur að auki.
Óháð því hvað mér finnst um alla þessa flokkunaráráttu þá ætla ég að gefa sveitarfélaginu það að óþægindin vegna hennar eru lágmörkuð. Aldrei þarf ég að fylla bíl af sorpi og keyra bæinn á enda til að losna við það. Aldrei þarf ég að fara lengra en í næstu matvöruverslun (2 mínútna göngutúr) til að endurheimta skilagjaldið.
Berum þetta saman við sorphirðu í Reykjavík.
Fólk er sent í langa og tímafreka bíltúra með illa lyktandi poka, enda grenndargámarnir fullir.
Það er varla hægt að tala um sorphirðu í Reykjavík. Hún er a.m.k. að verða sífellt takmarkaðri, en auðvitað að hækka í verði.
Maður veltir því fyrir sér hvort þessi óþægindi fyrir venjulegt fólk séu skipulögð. Hvort það sé vegna hönnunar frekar en mistaka að sorphirða er að verða sífellt meiri baggi á fólki - tímafrekur og sífellt dýrari.
Eða er þetta bara vanhæfni?
Mikil uppbygging í undirbúningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 4. desember 2024
Þetta með að útrýma fátækt
Í bók sinni A Conflict of Visions talar höfundur, Thomas Sowell, um tvær meginsýnir á samfélagið sem togast vissulega á en á grófan hátt er nothæft verkfæri til að skilja hvers vegna það eru oft sömu einstaklingar sem raðast sitthvoru megin við mismunandi og jafnvel gjörsamlega óskyld málefni.
Aðra sýnina kallar hann "the constrained vision", þar sem valið er aðallega á milli mismunandi "trade-offs" innan ákveðinna ramma hefða, réttinda, löggjafar og menningar, og hina sýnina kallar hann "unconstrained version", þar sem leitað er að "the solution" og ekkert getur staðið í vegi fyrir þeim, jafnvel ekki dómsfordæmi og stjórnarskrár. Til að leysa vandamálin þarf bara viljann til þess.
Þannig sjái þeir sem aðhyllast "unconstrained vision" ekkert því til fyrirstöðu að yfirvöld setji einfaldlega lög og reglur sem leysa vandamálið. Þessu fylgir gjarnan stuðningur við ýmis ríkisafskipti, svo sem lögbundin lágmarkslaun og ákveðna tekjudreifingu með valdi. Þeir í "constrained vision" sjá galla á þessu því með slíkum úrræðum verði einfaldlega til önnur vandamál, svo sem flótti frá verðmætasköpun og háum sköttum eða ýmis konar ófyrirséð eymd.
Mér verður oft hugsað til þessa einfaldaða verkfæris þegar ég sé stórar fyrirsagnir um stjórnmálamenn sem vilja eyða fátækt, efla menntakerfið og styrkja heilbrigðiskerfið. Það vantar bara að bæta við fjármagni og þessi vandamál eru leyst. Að þau hafi ekki verið leyst áður megi skrifa upp á nískupúka sem þora ekki að skattleggja auðmenn og lífeyrissjóði.
En auðvitað er svona tal alveg úr takt við raunveruleikann. Til að eyða fátækt þarf að auðvelda hagkerfinu að framleiða verðmæti sem ríkisvaldið sleppir því svo að ryksuga í hirslur sínar. Til að efla heilbrigðiskerfið þarf hvata og jafnvel markaðshagkerfi. Til að efla menntakerfið þarf að valdefla nemendur og foreldra, fleygja þykkum námsskrám í ruslatunnuna og taka út gæluverkefnin.
Með öðrum orðum: Það þarf að búa til réttu rammana og fólk finnur svo lausnirnar.
Að ætla sér að leysa öll heimsins vandamál með miðstýringu og sköttum er vond leið. Mikið af bótum býr til marga bótaþega sem verða síður launþegar. Háir skattar í nafni umhverfisverndar auka fátækt og draga úr svigrúmi í fjármálum fólks og fyrirtækja. Það verður ekkert leyst frá Alþingi eða ráðhúsunum - miklu frekar eiga slíkar stofnanir að koma sér úr veginum.
Viltu útrýma fátækt? Frábært! Það vil ég líka! En án þess að búa bara til önnur og jafnvel verri vandamál í leiðinni.
Vill útrýma fátækt fari Flokkur fólksins í stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 30. nóvember 2024
Ekki of seint
Ég vil gefa blaðamönnum eitt, og sérstaklega þeim hjá Morgunblaðinu: Frambjóðendur hafa neyðst til að segja frá raunverulegum skoðunum sínum í mörgum málum og ekki komist upp með að halda sig við slagorðin.
Þannig er búið að skola upp á yfirborðið raunverulegum viðhorfum þeirra til skattahækkana, Evrópusambandsins, rekstrarfyrirkomulags einyrkja og sjálfstætt starfandi og orkuframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.
Þetta hefur haft töluverð áhrif á skoðanakannanir í leitni sem skilar sér vonandi í kjörkassana. Það leit á tímabili út fyrir þung fjögur ár af blússandi skattahækkunum og flækjustigum, aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kröfum Evrópusambandsins og afsali fullveldis. Mögulega er sú sviðsmynd að breytast.
Nánast hvergi eru skattar hærri en á Íslandi. Þetta bitnar á öllu: Ráðstöfunartekjum heimila, fjárfestingahæfni atvinnulífsins, verðlagi.
Það vantar ekki meira í ríkissjóð eða hirslur sveitarfélaga ef því er að skipta.
Það vantar bara ábyrgð í fjármálin.
Það er ekki mörgum flokkum treystandi fyrir slíku. Nýlegt dæmi er fjármálaráðherratíð formanns Framsóknarflokksins. Þar var öllum áætlunum um hallalaus fjárlög ýtt lengra og lengra inn í framtíðina - þau yrðu ekki hallalaus undir slíkri stjórn þótt ráðherra fengi 50 ár til að lofa og svíkja.
Það er ekki hægt að treysta öllum flokkum fyrir landamærunum. Augljóslega eins og við höfum séð.
Og heldur ekki velferðarkerfinu sem á að þjóna, ekki drepa með biðlistum. Nokkuð sem kallar á aukinn einkarekstur, útboð og færri aðgangshindranir - landlæknisembætti sem lítur ekki á sig sem hagsmunasamtök útvaldra skjólstæðinga.
Það vantar þingmenn sem þora að tala gegn meginstefinu. Einhverja eins og Diljá Mist Einarsdóttur (Sjálfstæðisflokki) sem skrifaði greinar á hátindi veirutíma um að yfirvöld væru að seilast of langt til að forðast smit og búin að vera hamhleypa á þingi, eða Sigríði Andersen (Miðflokki) sem kaus ein þingheims gegn enn einum tilgangslausa sjóðnum, eða Jóhannes Loftsson (Ábyrg framtíð) sem barðist frá upphafi ákafar gegn veirutakmörkunum en nokkur maður og lætur svo sannarlega ekki traðka á sér, eða Arnar Þór Jónsson (Lýðræðisflokki) sem ætlar svo sannarlega ekki að sjá Íslendinga gefa frá sér fullveldið.
Slíkir þingmenn fást ekki ókeypis - einstaklingar eru á framboðslistum sem innihalda alltaf bland í poka og skoðanir allra þeirra geta líka verið bland í poka - en betra að fá þá inn en ekki. Og betra að fá slíkt bland í poka en poka sem inniheldur ekkert nema úldinn mat.
Þetta þarf varla að taka fram og skoðanakannanir benda til að margir hafi áttað sig og þá sérstaklega á endasprettinum. Ég er því bjartsýnn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 29. nóvember 2024
Skattahækkunarloforðið
Samtök skattgreiðenda höfðu samband við alla flokka í framboði til Alþingis og spurðu hvort þeir gætu lofað því að hækka ekki skatta. Auðvelt loforð fyrir 5. heimtufrekasta skattkerfi heims, ekki satt? Það er öðru nær.
Þetta er niðurstaðan:
Myndband samtakanna:
Þá vitum við það að minnsta kosti. Þeir sem halda að frekari tilfærslur frá launafólki, lífeyrisþegum, leigjendum og neytendum almennt ofan í ríkishítina séu lausn allra vandamála mega hugsa sig um. Það mega kjósendur líka.
Peningar kaupa ekki allt. Stundum þarf að koma á ábyrgð áður en unglingurinn fær kreditkort. Hið opinbera er enn að læra og mun mögulega aldrei læra. Það er því undir okkar fullorðna fólkinu að ráðstafa fé okkar að sem mestu leyti sjálft.
Fimmtudagur, 28. nóvember 2024
Þeir sem baka og þeir sem borða
Ljómandi samræmi er í sambúð fólks þar sem sumir baka og aðrir borða, eða allir baka og borða. Síður í sambúð þar sem allir vilja borða en enginn vill baka.
Þessi myndlíking kemur mér til hugar þegar ég hugleiði mögulegar samsetningar næstu ríkisstjórnar Íslands. Verður þar einhver til að baka eða vilja allir bara borða?
Verður þetta sambúð litlu gulu hænunnar og svínsins, eða svínsins og kattarins?
Verður samstarfið blanda af hægriflokkum sem passa bókhaldið og verðmætasköpunina og vinstriflokka sem þenja út velferðarkerfið fyrir afraksturinn, eða hrein stjórn vinstriflokka sem tæmír alla skápa og fyllir ekki á neitt og tekur yfirdráttalán fyrir næstu innkaupum?
Miðað við skoðanakannanir er óumflýjanlegt að næsta ríkisstjórn verði blanda af flokkum sem baka og öðrum sem borða. Ein slík samsetning leit að mínu jafnvel ágætlega út og er ljómandi vel lýst hér:
Í kosningasjónvarpi Eyjunnar í gær bentu stjórnmálafræðingarnir Eva H. Önnudóttir og Agnar Freyr Helgason á að það sé ein stærsa [sic] spurningin um úrslit kosninganna hvort þessir þrír flokkar [Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Flokkur fólksins]muni ná þingmeirihluta. Bentu þau bæði á að það væri ekki óbrúanleg gjá milli málflutnings Flokks Fólksins og hinna flokkanna tveggja sem eru yfirleitt skilgreindir sem hægri flokkar. Áherslur Flokks fólksins séu nokkuð til vinstri í velferðarmálum en flokkurinn vísi ekki markaðslausnum á bug í þeim málaflokki eins og vinstri flokkar geri gjarnan. Flokkur fólksins halli sér aftur á móti til hægri í sumum málum eins og t.d. þegar kemur að hælisleitendum.
Hvers vegna ekki? Hægrimennirnir fá að rétta af bókhaldið, lækka skatta, einkavæða og auka auðsköpun. Vinstrimennirnir fá að millifæra meira á sína kjósendur og hafa að öðru leyti ekki neinar athugasemdir við reksturinn.
En nei, mætir þá ekki formaður Fólks fólksins og hreinlega lokar á slíkt samstarf!
Átti flokkurinn ekki að snúast um fólkið fyrst og svo allt hitt? Var það bara lygi? Snýst flokkurinn bara um að vera venjulegur vinstriflokkur?
Ef svo er þá þarf ég að játa að sjaldan hef ég haft meira rangt fyrir mér um nokkuð stjórnmálaafl, og hið sama má segja um aðra. Flokkur fólksins hvað? Nei, bara enn einn vinstriflokkurinn.
Er nú hætt við að fylgið týnist af flokknum. Það er nóg af vinstriflokkum í boði. Að vísu ekki flokkum sem vilja fara hóflega í að dæla þúsundum erlendra ríkisborgara inn í landið og bjóða út opinbera þjónustu til að gera hana skilvirkari en nóg af flokkum sem vilja þenja út hið opinbera.
Flokkur fólksins var kannski með svolitla sérstöðu en hún er núna farin. Af hverju að kjósa Litlu-Samfylkinguna þegar er hægt að kjósa Stóru-Samfylkinguna?
En mátti reyna. Hugsunin var góð á meðan hún entist.
Miðvikudagur, 27. nóvember 2024
RIP DEI
DEI.
Diversity. Equity. Inclusion.
Eða það sem er stundum þýtt á íslensku sem:
Fjölbreytileiki. Jöfnuður. Inngilding.
Köllum það héðan í frá FJI.
Þetta var í tísku en er núna á leið út.
Af hverju? Jú af því FJI veldur togstreitu. Fólki er í sífellu sagt að það sé að gera eitthvað rangt - mismuna, útiloka, sýna fordóma gegn - jafnvel þótt það sé alls ekki raunin. Vandamálið er óleysanlegt og samviskubitið hleðst því upp og gerir fólk árásargjarnt, eða svo segir okkur nýleg rannsókn sem enginn fjallar um.
Í staðinn fyrir FJI er að skríða upp á yfirborðið ný skammstöfun: VFG.
Verðleiki. Framúrskarandi. Greind.
Eða á ensku:
Merit. Excellence. Intelligence.
MEI.
Eins og hér er bent á eru mörg stór fyrirtæki í Bandaríkjunum nú þegar byrjuð að senda FJI í ruslatunnuna og taka upp VFG í staðinn, eða eitthvað álíka. Að sögn deyjandi fjölmiðla vegna þrýstings frá öfgahægrimönnum, en í raunveruleikanum af því raunverulegt fólk - neytendur, heiðarlegir borgarar - er þreytt á þvælunni.
Þetta er gott. Skyndilega hættir starfsfólk að vera rasistar og fer að líta til verðleika, frammistöðu og verðmætasköpunar frekar en að einblína á húðlit og kynfæri.
Þessi þróun mun mögulega ekki ná til stranda Evrópu hér og nú, en að hún geri það á endanum er nánast óumflýjanlegt. Gefið, auðvitað, að Evrópa muni ennþá skipta máli eftir nokkur ár og vera flokkuð sem eitthvað annað en tjaldbúðir fyrir ríkasta fólk Afríku - fólkið sem hefur efni á að borga svimandi fjárhæðir til að koma sér til Evrópu og skilja fátæklingana eftir í vosbúðinni.
Velkomin til raunveruleikans, gott fólk. Megi hann fara betur með ykkur en sýndarveruleiki róttækra mannhatara sem hefur ráðið ríkjum alltof lengi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)