Þriðjudagur, 24. júní 2025
Sinubrunastjórnin
Nýtt gælunafn er að fæðast fyrir sitjandi ríkisstjórn Íslands: Sinubrunastjórnin.
Það er ekki nóg með að það eigi að eyða seinustu sjávarplássunum á landinu með ofurskattlagningu sem stenst jafnvel ekki lög heldur á að sjálfvirknivæða ríkisútgjöld til velferðarmála. Milljörðum hefur verið lofað í stríðsrekstur og búið að leggja til hærri skatta á nánast allt sem kalla mætti auðlind, svo sem heitt vatn.
Gleymum svo ekki vandræðum einstaka ráðherra sem vilja bæði halda og sleppa: Dómsmálaráðherra í máli aðstoðarríkissaksóknara sem situr heima hjá sér á fullum launum eins lengi og hann nennir, ráðherranum sem fékk hús nánast upp í hendurnar frá bankanum sínum (og átti í einhverju ástarsambandi sem öllum er sama um en blaðamönnum fannst mjög athyglisvert) og svo menntamálaráðherranum sem les ensku eins og 8 ára barn. Listinn yfir vandræðamál lengist með hverjum degi.
Í stjórnarandstöðu er að vísu bara einn flokkur, Miðflokkurinn, en það er kannski óþarfi að hamast of mikið í stjórnarandstöðu með þingmeirihluta sem hefur meiri áhyggjur af reglum um klæðaburð en stóru málin.t
Valkyrjurnar í verkstjórninni miklu eru svo sannarlega að taka viðurnefni sitt inn að hjartastað og velja þá sem eiga að falla á vígvellinum, fólk og fyrirtæki.
Miðvikudagur, 18. júní 2025
Hvað er löggjöf? Ekki réttlæti
Við heyrum stundum að sá sem brjóti lögin þurfi að fara í steininn til að réttlætinu sé fullnægt. Að lögbrot séu þar með óréttlæti gagnvart öðrum, og að löghlýðni sé réttlætið holdi klætt.
Þetta er auðvitað ekki rétt. Að gera það sem er löglegt er ekki það sama í öllum tilvikum og að gera það sem er réttlátt. Þetta er auðvitað augljóst þegar við lesum um löggjöf sem kveður á um að útrýma samkynhneigðum eða fangelsa þá fyrir það eitt að hafa sína kynhneigð. Sá sem varpar samkynhneigðum manni í fangelsi fyrir að vera samkynhneigður er ekki að framfylgja réttlætinu. Hann er að fylgja lögunum.
En eru lögin okkar ekki réttlætið uppmálað? Við, þetta upplýsta og umburðarlynda fólk?
Nei, auðvitað ekki. Ég skal útskýra með dæmi.
Í Danmörku má ekki hafa tóbaks- og nikótínvörur til sýnis í verslunum. Þær eru á bak við tjöld eða í skúffum. Á móti kemur að allir kælar eru troðfullir af köldum bjór sem ungmenni frá 16 ára aldri mega kaupa. Sá sem felur tóbakið frá 16 ára ungmenninu en selur því um leið kaldan bjór er löghlýðinn. Réttlætið skiptir engu máli.
Í Svíþjóð eru tóbaks- og nikótínvörur rækilega til sýnis en bjórinn hvergi að finna nema í ríkisverslununum og bara til sölu fyrir 20 ára og eldri. Sá sem selur mikið af tóbaki í Svíþjóð og léttöl undir 3,5% styrkleika er löghlýðinn í Svíþjóð. Réttlætið skiptir engu máli.
Á milli tveggja landa er svo hægt að senda vörur án athugasemda. Ég get keypt nikótínvörur frá Svíþjóð og Svíi getur fyllt skottið sitt af bjór í Danmörku um leið og hann fær bílpróf 18 ára gamall.
Lögin og réttlætið eru oft sammála. Ekki drepa, stela (nema þú sért skatturinn), nauðga og svindla. En allt hitt - takmarkanir á friðsæla og fórnarlambalausa iðju, starfsleyfin, feluleikurinn með áfengið, sýnileiki varnings - eru bara tilraunir. Tilraunir til að sveigja fullorðnu fólki frá einu til annars - frá áfengi til verkjalyfja, frá nikótínpúðum til sígarettna, frá því að hefja eigin rekstur til að sleppa því, frá því að þéna mikið til að þéna minna, frá því að taka verðmætaskapandi nám til að taka verðlaust nám. Yfirvöld að leika sér í Excel-skjölunum - auka eitthvað og minnka annað - og dæla út löggjöf og sköttum í von um að þú fylgir uppskriftinni.
Ekki til að réttlætið sigri eða til að fjármagna nauðsynleg verkefni.
Nei, til að stjórna þér.
Lögin eru ekki réttlætið nema í stóru málunum. Afgangurinn er bara ónæði og kemur réttlæti ekkert við, ekki frekar en önnur fyrirmæli sem þreyttir og jafnvel ölvaðir hópar einstaklinga ákveða að setja saman í hraðsuðupotti til að komast í sumarfrí.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 18. júní 2025
Utanríkismálanefnd þingsins muni funda ört næstu daga
Okkur er nú sagt frá því að utanríkismálanefnd þingsins muni funda ört næstu daga, meðal annars til að ræða átök Ísraela (og Bandaríkjamanna, að því er virðist) við Íran.
Til hvers?
Hvað ætlar utanríkismálanefnd þingsins að leggja til?
Að Íran megi útrýma seinasta Gyðingnum? Að Ísrael megi stúta klerkastjórn sem kúgar konur? Að það væri kannski bara fínt að losna við bæði ríki? Eða að bæði ríki eigi tilvistarrétt? Ísrael þá í herferð sinni gegn Hamas, og Íran í sinni kúgun kvenna og samkynhneigðra?
Ætlar utanríkismálanefnd þingsins að mynda einhvers konar afstöðu?
Ég legg til að utanríkismálanefnd þingsins fundi ekki ört næstu daga. Hún gæti í staðinn kannski bara lýst yfir hlutleysi Íslands og tekið sér frí. Ég held að það hefði engar sérstakar neikvæðar afleiðingar og mögulega einhverjar jákvæðar.
Sunnudagur, 15. júní 2025
Bílskúrsútilegan
Manstu eftir fjöldasöng fræga fólksins í sjónvarpinu þar sem verið var að sannfæra fólk um að ferðast innanhúss og hittast í að hámarki 19 manna hópum en ekki 21, 11, 29 eða einhver önnur handahófskennd tala? Myndir til upprifjunar.
Nú mátti kannski afsaka yfirvöld aðeins með því að veiran var tiltölulega nýtilkomin og páskafríið að skella á með tilheyrandi mannamótum, og kannski alveg í lagi að koma sakleysislegum viðvörunum á framfæri með notkun fræga fólksins. En þetta var annað og meira. Þetta var áminning um að reglugerð væri í gildi sem gæti réttlætt lögregluheimsóknir í fjölskylduboð. Þetta var hamar málaður eins og rós. Fræga fólkið, alltaf tilbúið að sjást sem mest á skjánum, hoppaði auðvitað á vagninn. Nytsamir sakleysingjar eins og svo oft áður.
Með því að loka fólk heima hjá sér með hótunum og hræðsluáróðri náðist nákvæmlega enginn árangur. Því var seinkað að veiran næði til hraustra og heilbrigðra einstaklinga sem gætu byggt upp öflugt hjarðónæmi til varnar veikbyggðari og heilsuveilari einstaklingum. Krakkar misstu af skóla og fólk af vinnu og félagslífi. Margir leituðu í áfengi. Krakkar flosnuðu úr námi. Fyrirtæki fóru á hausinn eða sukku í skuldir, gjarnan hvoru tveggja.
Síðan komu sprauturnar sem tóku marga af lífi og örkumluðu aðra, án mælanlegra áhrifa á smit og dauðsföll, og fyrir marga lækning mun verri en sjúkdómurinn.
Hvernig var það, á ekki að fara gera úttekt á þessu og koma í veg fyrir að önnur eins mistök verði gerð? Eða þurfum við að bíða eftir því að kjósendur losi sig við fyrrverandi landlækni af þingi?
Sunnudagur, 15. júní 2025
Tekjuskattur af engum tekjum
Í umfjöllun DV kemur fram að á Íslandi sé hægt að innheimta tekjuskatt af einstaklingi með engar tekjur. Sönnunarbyrðin liggur hjá skattgreiðenda, að sanna fyrir yfirvöldum hvernig viðkomandi framfleytti sér. Undirliggjandi sú ósannaða ásökun að viðkomandi sé að skjóta undan skatti. Sekur, uns sakleysi er sannað.
Svona lagað kemur mér ekki á óvart. Yfirvöld geta gert það sem þeim sýnist. Setið á umsóknum, áætlað, svipt, leiðrétt, haldið eftir, lokað á. Borgararnir algjörlega valdalausir þegar ríkið úrskurðar í málum ríkis gegn einstaklingum.
Veirutímar kenndu okkur að með svolitlum fjöldasöng fræga fólksins í sjónvarpi er hægt að sannfæra almenning um hvað sem er og því engin ástæða fyrir hið opinbera að breyta einhverju. Aðhaldið er ekki til staðar með örfáum undantekningum eins og Samtökum skattgreiðenda og sjálfstæðra blaðamanna eins og Frosta Logasonar.
Og þess vegna er hægt að innheimta tekjuskatt í fjarveru tekna.
Laugardagur, 14. júní 2025
Stórt mál en lítill áhugi
Að setja í lög að tilskipanir Evrópusambandsins njóti forgangs umfram íslenska löggjöf er stórt mál, fullveldisafsal þvert á heimildir stjórnarskrár. Málið nýtur samt frekar lítillar og takmakaðrar athygli. Hvers vegna?
Að hluta má skrifa það á áhuga margra þingmanna á að Ísland fari undir stjórn Evrópusambandsins. Slíkir þingmenn vilja sem minnst rugga bátnum með einhverjum umræðum. Slíka þingmenn dreymir um vel launuð og skattfrjáls störf í skrifstofum Evrópusambandsins, fjarri hávaða hversdagsins.
Að hluta má skrifa það á að margir þingmenn skilja ekki alveg löggjöf, halda að hún snúist um að líta vel út í fjölmiðlum. Lesa sennilega ekki lagafrumvörp og kjósa bara samkvæmt fyrirmælum formannsins.
Að hluta má skrifa það á að ef Arnar Þór Jónsson og Jón Steinar Gunnlaugsson segja eitthvað, og ef eitthvað er baráttumál Miðflokksins, þá hlýtur andstæðan að vera rétt afstaða. Þetta vel þekkta hnjáviðbragð sem mótar afstöðu svo margra í mörgum málum.
Allar þessar skýringar eiga líka við um fjölmiðlafólk. Höldum því til haga að þeir eru mun lengra til vinstri en almenningur almennt.
Þetta skýrir hvers vegna bókun 35 fer sennilega í gegnum þingið og svo tekur við að láta dómstóla dæma þá löggjöf stjórnarskrárbrot, en það tekur tíma og kostar peninga.
![]() |
Miðflokksmenn sitja um ræðustólinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. júní 2025
Viðurnefnastjórnin
Sú ríkisstjórn sem núna situr virðist laða að sér viðurnefni, fyrir utan að vera kennd við konurnar sem réðu því hverjir féllu á vígvellinum. Vandræðastjórnin er eitt slíkra viðurnefna en mörg önnur koma til greina að mínu mati.
Til dæmis mætti kalla hana höfuðborgarstjórnina því hún virðist helst falla í kramið hjá borgabúunum. Skítt með fiskiþorpin sem núna sjá fram á snöggan dauðdaga.
Það mætti kalla hana baktjaldastjórnina enda sífellt að koma upp á yfirborðið einhver leyndarmál þar sem brallað var á bak við tjöldin, um allt frá eigin ráðherrum ríkisstjórnarinnar til stjórnsýslubrota í meðhöndlum hælisleitenda.
Þetta er líka stjórn ófyrirsjáanleika. Menn sem töldu sig hafa skrifleg loforð um eitthvað, og voru að hefja undirbúning að framkvæmd þeirra loforða, lenda skyndilega aftast í röðinni.
Skríðsbröltstjórnin er líka ákaflega viðeigandi enda virðast vera til nóg af milljörðum til að moka í stríð en ekki króna í kassanum til að byggja skóla.
Háskólamannastjórnin (betra nafn óskast) gæti lýst því viðhorfi ríkisstjórnarinnar að eina námið sem virði er í sé háskólanám.
Nú veit ég að innan ríkisstjórnarinnar eru eldklárir einstaklingar sem kunna að taka ábyrgð og láta hendur standa fram úr ermum, og þekki einn ráðherranna persónulega af slíku, en innan sömu stjórnar eru líka ólæsir og ótalandi ráðherrar, og hefur mannval því sjaldan spannað slíka breidd á hæfileikarófinu. Kannski mætti því fyrst og fremst kalla ríkisstjórnina bland í poka, sumt er súrt og annað sætt, og sumt er óætt.
![]() |
Það er alveg sérstaklega furðulegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 7. júní 2025
Starfsleyfin
Það er enginn skortur á fréttum um þá eyðileggingu sem yfirvöld leggja á hagkerfið og atvinnulífið með endalausum kröfum um leyfi fyrir hinu og þessu, og þá sérstaklega í Reykjavík. Þú mátt baka köku fyrir vinnufélagana þína en ef þú setur hana á lítið borð við gangstétt og vilt selja hana þá þarftu slíkan hafsjó af leyfum að engum dettur í hug að reyna.
Það ætti nú að vera frekar auðvelt að fjarlægja þetta kverkartak af atvinnulífinu þrátt fyrir allskyns innflutt regluverk. Sumt er skrifað í lög, sem tekur tíma að breyta, en sumt í reglugerðir, sem veirutímar kenndu okkur að má breyta nánast frá degi til dags.
Það er rætt í Evrópu að hið svokallaða græna hagkerfi sé fast í leyfisveitingum. Skiljanlega. Evrópa er leiðandi í einu og bara einu: Reglugerðum.
Kannski er ráð að hætta að grýta eigin höfn.
![]() |
200 daga bið eftir því að opna bakarí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 30. maí 2025
Fjölmiðlar og raunveruleikinn
Hér fyrir neðan er mynd. Á henni er samanburður: Hvað telur meirihluti þátttakenda í könnun (í bandarísku samhengi) vera ákveðið hlutfall, og hvert er hið rétta hlutfall. Þessi mynd segir sögu, sem er sú að við vitum í raun mjög lítið um okkar raunveruleika. Og hvernig stendur á því?
Kannski er hægt að benda á fjölmiðla hérna. Eru þeir að bera á borð heimsmynd sem er allt önnur en raunveruleikinn? Auðvitað. Fréttir snúast um að ýkja vandamál, ekki lýsa þeim. Frétt um að fátækt í heiminum hafi minnkað er léleg söluvara. Frétt um að læsi kvenna sé á uppleið í heiminum er varla lesin.
En þetta eru bara vitlausir Bandaríkjamenn að svara könnun! Við í Evrópu erum upplýstari en þetta! Við vitum hversu stórt hlutfall samfélagsins er samkynhneigt, og hvaða hlutfall kvenna í heiminum kann að lesa sér til gagns!
Gott og vel, upplýsti Evrópubúi, skelltu þér þá í eitt af mörgum prófum Gapminder og sjáðu hversu illa þú fellur. Þar er hægt að prófa sig í þekkingu á fátækt, sjálfbærnimarkmiðum, umhverfisvernd og hvaðeina.
Upphafsmaður þess konar prófunar á almennri vanþekkingu almennings á mikilvægum staðreyndum, Hans Rosling heitinn, stríddi oft háskólanemendum sínum á því að þeir vissu minna en sá sem giskaði af handahófi á svörin, nefnilega simpansinn. Ekki til að letja nemendur sínar, heldur hvetja.
Ég held að það sé hollt og gott að endurskoða raunverulegt vitneskjustig sitt á heiminum. Neysla á fréttum er mögulega leið til að minnka slíkt vitneskjustig, þótt neysla á fréttum sé um leið mikilvæg af ýmsum ástæðum.
En ekki láta plata þig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Fimmtudagur, 29. maí 2025
Skattarnir
Einu sinni var starfrækt á Íslandi flugfélag sem seldi ódýra flugmiða en lagði á himinhá bókunargjöld. Þau gjöld komu ekki fram í leitarvélunum og það var því hægt að lokka fólk inn til að hefja bókunarferlið og jafnvel þótt því fylgdi gremja að sjá allt í einu bókunargjöldin birtast þá héldu margir eflaust áfram með bókunina, enda ferlið hafið.
Yfir þessu kvartaði fólk auðvitað og flugfélagið hvarf á spjöld sögunnar af ýmsum ástæðum. Íslendingar geta verið alveg sæmilega sólgnir í gegnsæi og samkeppni.
Eða þar til kemur að því að veita yfirvöldum aðhald.
Um daginn sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnin væri að leita að aðhaldi á tekjuhlið ríkissjóðs sem er orðalag sem þýðir skattahækkanir. Ekki datt blaðamönnum í hug að biðja um skilgreiningu á þessu aðhaldi á tekjuhlið. Forsætisráðherra kann að boða skattahækkanir á hundrað mismunandi vegu án þess að kalla það skattahækkanir.
Ofan á allskyns skatta - tekjuskatt, virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt og svona mætti lengi telja - bætast oft við ýmis gjöld: Úrvinnslugjöld, vörugjöld, aðflutningsgjöld, umbúðagjöld, umsýslugjöld.
Setji þjóðgarðsvörður lítið skilti við vinsælan foss getur hann innheimt bílastæðagjöld án þess að veita nokkuð í staðinn.
Það mætti halda að skattgreiðandinn sé meðhöndlaður eins og laukur: Í stað þess að skera 75% af honum strax þá eru lögin á honum tekin eitt í einu eftir því sem skattgreiðandinn fer í gegnum daginn. Skattlögð laun borga skattlagðan varning og skattlagða þjónustu. Gjöldin hlaðast ofan á sérhvern hlut sem skiptir um hendur. Alls staðar og allt í kring.
Ekki kemur til greina að einfalda þetta flókna kerfi tekjuöflunar fyrir hið opinbera því þá missa stórir hópar opinberra starfsmanna sína bita.
Nú fyrir utan að ef hið opinbera léti eingöngu tekjuskatta duga og gerði allt annað skattfrjálst þá sæi fólk með berum augum að hið opinbera hirðir, þegar allt kemur til alls, þrjá fjórðu af launum okkar og blekkingin væri afhjúpuð. Betra að stilla tekjusköttum í hóf en mjólka svo sérhver viðskipti um skatta og gjöld sem fólk nennir ekki að spá í.
Og því fer sem fer. Forsætisráðherra kemst upp með að tala um aðhald á tekjuhlið, blaðamenn segja ekkert og fólk situr heima og vonar að aðhaldinu verði beint að einhverjum öðrum: Landsbyggðinni, fyrirtækjum, reiðhjólafólki eða reykingamönnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)