Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Laugardagur, 11. ágúst 2018
Þorskur í búri
Sjókvíaeldi á þorski hefur heillað marga enda er þorskurinn eftirsótt vara sem oft fæst gott verð fyrir en er um leið takmörkuð auðlind.
Það kemur mér hins vegar á óvart að menn hafi haldið því til streitu að rækta þorsk í yfirborðssjókvíum.
Fyrir einum 14 árum vann ég lokaverkefni mitt í vélaverkfræði um sjókvíaeldi á þorski (verkefnið er aðgengilegt hér). Hugmyndin var sú að færa eldið út á opið haf í kvíar sem í sumum tilvikum er hægt að sökkva undir yfirborðið til að forðast versta álagið. Mín niðurstaða þá var að tæknin væri ekki tilbúin ennþá, en slíkt getur auðvitað breyst hratt. Ástæðan fyrir áhuganum á sjókvíaeldi á opnu hafi var sú að þorskurinn þyrfti ferskan og mátulegan kaldan sjó til að þrífast - nokkuð sem fæst ekki í fjörðum. Einnig var umhverfissjónarmið í því að úrgangur dreifðist jafnóðum um hafið í stað þess að safnast á botninn.
Það kemur mér á óvart að menn hafi haldið því til streitu að rækta þorsk í lokuðum fjörðum miðað við allt sem var vitað fyrir 14-15 árum síðan og jafnvel lengur.
Kannski er ástæðan sú að nýjar rannsóknir voru sífellt að gefa tilefni til bjartsýni.
Kannski er ástæðan sú að opinber styrktarsjóður neitaði að sleppa tökunum á dauðadæmdu áhugamáli.
Kannski fleygði tækninni svo hratt fram að menn vildu halda áfram að prófa.
Kannski var einhverjum úti í heimi að takast vel upp og veita þannig hvatningu fyrir aðra.
Hvað sem því líður þá finnst mér þetta vera áhugavert efni. Það fer að koma að því að bændur, landeigendur og sjómenn hætta að umbera mengandi iðnað í fjörðum sínum og þá þarf sjókvíaeldið að fara út á opið haf. Hafið er sennilega ein stærsta ónýtta auðlind jarðar þótt ótrúlegt megi virðast - hér stunda menn ennþá söfnun á mat eins og steinaldarmenn gerðu á landi. Ef menn vilja fyrir alvöru nýta hafið til að framleiða mat þarf að fara fram landbúnaðarbylting eins og sú sem fór fram á landi. Gerist það á okkar líftíma?
Hætta að styrkja þorskeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |