Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Á að giska á tækniþróun næstu 15-20 ára?

Stjórnmálamenn víða um heim reyna nú að mála sig með grænum lit í von um að uppskera atkvæði. Yfirleitt gera þeir það með því að lofa einhverju eftir 20-30 ár þegar þeir eru ýmist dauðir eða komnir á eftirlaun. Enginn getur skammað aldraðan stjórnmálamann sem lofaði einhverju fyrir mörgum áratugum sem stóðst svo ekki.

Það er ævintýraleg bjartsýni að ætla sér að skrifa löggjöf sem veðjar á ákveðna tækniþróun á næstu árum. Menn vita ekki einu sinni hvert tæknin leiðir okkur á næstu 18 mánuðum, hvað þá meira. 

Stjórnmálamenn ættu bara að halda að sér höndum og einbeita sér að því að afnema hindranir í formi skatta og reglugerða sem kæfa frumkvöðlastarfsemi og tækninýjungar. 


mbl.is Langtímaáætlun er frumskilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið og rekstur

Innan hins opinbera fljúga nú pappírar og álitsgerðir fram og til baka til að skera úr um það hvort ákveðið skip geti siglt á milli tveggja áfangastaða á ákveðnu tímabili.

Ferjurekstur er ekki beinlínis flóknasta tegund reksturs sem til er. Menn þurfa hafnir, skip, varahluti og eldsneyti, auk mannafla. Það þarf að taka tillit til veðurs og vita hvað eru margir metrar niður á hafsbotn. 

Engu að síður vefst þetta mjög fyrir hinu opinbera. 

Við hljótum öll að vera fegin því að ríkisvaldið rekur ekki flugfélög eða símafyrirtæki lengur. Kæmist þá nokkur úr landi eða hefði efni á að hringja í vini sína? Hvað þyrfti marga fundi innan stjórnsýslunnar til að ákveða hvort fljúga eigi á Gatwick eða Heathrow? Til London eða Lissabon? Með breiðþotu eða skrúfuvél? 

Kæra ríkisvald, haltu þig við það sem þú gerir best: Að framleiða prentaðan pappír sem enginn les. Allt annað á heima á hinum frjálsa markaði. 


mbl.is Fjallað um ferjumálið á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar embættismenn ráða því sem þeir vilja

Skipulagsvaldið er fyrir löngu orðið að vandamáli. Með einu pennastriki má stöðva framkvæmdir við veitingahús eða gistiheimili án þess að nokkuð komi í staðinn. 

Leyfisveitingavaldið er á svipaðri vegferð. Embættismenn virðast geta gert kröfur um leyfisskyldu á óteljandi hlutum og um leið stungið umsóknum um slík leyfi ofan í skúffu. 

Réttarríkið snýst um að lög og reglur séu fyrirfram þekktar stærðir, gegnsæjar og skiljanlegar, og að borgararnir geti gert áætlanir innan ramma laganna en ella sæta refsingu sem er einnig fyrirfram þekkt. 

Ætlar enginn á Alþingi að taka þessi miklu völd embættismanna til endurskoðunar?


mbl.is Segir menn óttast hefndaraðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varfærna stjórnin

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist lítill. Það á ekki að koma á óvart. Ríkisstjórnin er varfærin svo vægt sé til orða tekið. Almenningur hefur ekki fundið fyrir neinum skattalækkunum að ráði. Það er líka búið að telja almenningi í trú um að gott efnahagsástand á Íslandi sé eins og rigning sem hafi fallið af himnum ofan og komi því ekkert við að það ríki pólitískur stöðugleiki þar sem ríkið einbeitir sér að því að láta tekjur duga fyrir útgjöldum. Svo virðist vera mjög auðvelt fyrir stjórnarandstöðuna að komast að hljóðnema fjölmiðlanna og segja frá sinni sýn á hlutina.

Hvað á ríkisstjórnin að gera í þessu? Hún gæti gert margt. Það er t.d. hægt að stefna að því að lækka alla skatta verulega og um leið halda áfram að greiða niður skuldir ríkisins. Það sem þarf bara að gerast á móti er að einkavæða stóra hluta ríkisrekstursins, afnema aðgangshindranir að íslenskum markaði og lækka rekstrarkostnað stjórnsýslunnar. Í stað þess að ríkið sé atvinnurekandi þúsunda einstaklinga gæti ríkið gert þjónustusamninga við fyrirtæki sem sjá sjálf um starfsmannamálin og lífeyrissjóðsgreiðslurnar. 

Ríkisstjórnin gæti líka verið duglegri að segja frá stefnumálum sínum og rökstyðja þau. Það má ekki leyfa vinstrimönnum innan Alþingis og fjölmiðlanna að stjórna umræðunni.

Björt framtíð og Viðreisn eru nýliðar í íslenskum stjórnmálum. Reynsluleysið er að hamla þessum flokkum. Þeir telja sér best borgið með því að halda sér til hlés, nema reyndar fjármálaráðherra sem fær ekki nóg af athyglinni, hvort sem sú athygli er neikvæð eða jákvæð.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að ríkisvaldið einfaldi ríkisreksturinn, greiði niður opinberar skuldir og lækki skatta, og reyni almennt að búa í haginn fyrir verri tíð í hagkerfinu. Hvenær á að koma til móts við þá?


mbl.is „Súpa seyðið“ af stjórnarsamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti að vera varanleg aðgerð en ...

Gjaldtaka er nú hafin við Seljalandsfoss, meðal annars til að stilla af framboð og eftirspurn eftir bílastæðunum en einnig til að fjármagna uppbyggingu á svæðinu.

Þetta er sjálfsögð leið til að fjármagna rekstur og tryggja að aðstaðan nýtist sem best. Flugfélög stilla verðlag af til að fylla vélar sínar og tryggja nægt fé í reksturinn. Hið sama gera kvikmyndahús, leikhús, tónleikahaldarar og í raun flestir sem bjóða upp á einhverja þjónustu eða aðstöðu.

Ferðamannastaðir þurfa að gera það sama til að geta boðið upp á aðstöðu og þjónustu.

Fyrirkomulag gjaldtöku þarf að vera varanlegt.

Um leið þarf að leysa skattgreiðendur undan þeirri skyldu að fjármagna rekstur ferðaþjónustu.

Þeir borga þá sem vilja og aðrir sleppa við það.


mbl.is Gjaldheimtan „tímabundin aðgerð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristjórnin sem aldrei varð (grein)

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu 22. júlí (aðgengileg áskrifendum hér).

*****************

Þegar í ljós kom að Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð höfðu náð saman um stjórnarsáttmála fögnuðu margir hægrimenn og jafnvel frjálshyggjumenn. Nú væri loksins komin stjórn sem tækist á við kerfið, einkavæddi í ríkisrekstrinum, gæfi einkaaðilum aukið svigrúm, drægi saman reglugerðabókasafnið og eftirlitsbáknið, lækkaði skatta, drægi ríkisvaldið út úr framleiðslu landbúnaðarvarnings, borgaði upp skuldir hins opinbera, setti hömlur á peningaframleiðslu bankanna og reisti varnir gegn því að komandi vinstristjórn gæti skuldsett allt upp í rjáfur aftur.

Í stuttu máli má segja að mjög lítið af þessu hafi gengið eftir og að biðin eftir hægristjórninni standi enn yfir.

Blasir hættan af risavöxnu ríkisvaldi ekki við? Framundan er stór fjármálakreppa á heimsvísu þar sem ekki bara bankar fara á hausinn heldur heilu ríkissjóðirnir. Það er ekki hægt að skattleggja meira eða prenta peninga hraðar, skuldirnar eru gríðarlegar og teikn á lofti um að þær fari smátt og smátt að lenda á gjalddaga sem enginn ræður við. 

Íslendingar geta mögulega komið sér í skjól en þeir þurfa að bregðast við núna. Ríkið má helst ekki skulda neitt að ráði þegar kreppan skellur á, og atvinnulífið og einstaklingar þurfa að fá að halda sem mestu eftir af tekjum sínum til að setja í varasjóði eða eignir sem fara ekkert, sama hvað gengur á í fjármálaheiminum, og auðvitað greiða niður skuldir. Ríkið þarf að hætta að gefa út gjaldmiðil svo fólk geti dreift áhættunni af pappírspeningum sínum sem mest. Fólk á líka að fá að taka út eignir sínar í lífeyrissjóðunum í auknum mæli og þar með hlutabréfum í fyrirtækjum í áhætturekstri sem munu mörg fara illa út úr stórum áföllum í fjármálaheiminum. Svo þarf líka að fækka reglum og leyfisskyldum til að auka aðlögunarhæfni hagkerfisins í breyttu árferði og breyttum ytri aðstæðum.

Einnig er mikilvægt að minnka ríkisreksturinn mikið. Lítill ríkisrekstur í hallarekstri og skuldsetningu er ódýrari fyrir skattgreiðendur en stór ríkisrekstur í hallarekstri og skuldsetningu. Þegar næsta fjármálakreppa ríður yfir er hætt við að Íslendingar kjósi aftur yfir sig hreina vinstristjórn og hún má ekki geta gengið að útþöndum ríkisrekstri til að sökkva í skuldir eins og gerðist seinast. Nei, ríkið þarf að koma frá sér úr rekstri – þar á meðal rekstri spítala og skóla – og ýmist einkavæða alveg með tilheyrandi skattalækkunum eða bjóða út þjónustuna og leyfa einkaaðilum að sjá um reksturinn. Það þarf að vera sem minnst eftir sem stjórnmálamenn geta veðsett til að fjármagna hallarekstur. 

Ekkert af þessu er að fara gerast með hina svokölluðu hægristjórn við völd. Sú hægristjórn er á fullu að sleikja rjómann af núverandi uppsveiflu og eyða jafnóðum í fjármögnun á óbreyttu fyrirkomulagi ríkisrekstursins, alveg eins og gerðist fyrir kreppuna 2008. Og við völdum tekur svo hrein vinstristjórn, safnar hundruðum milljörðum í skuldir og skilur eftir sig brunarústir. Ekki er hægt að treysta á að Eyjafjallajökull gjósi aftur til að blása lífi í hagkerfið og hvað er þá til ráða til að rísa úr rústunum?

Hægristjórnin var til í um eitt augnablik en hefur síðan aldrei staðið undir nafni. Hún er hægristjórnin sem aldrei varð.


Konur níðast á konum í nafni kvennabaráttu

Kvenfólk skiptist í tvo hópa:

Konur sem umbera og jafnvel samgleðjast velgengni annarra kvenna, og konur sem gera það ekki.

Kvenfólk sem nýtur velgengni gerir stundum þau mistök að tjá sig um ástæður velgengninnar. 

Sumar segja að það sé ákveðin kúnst að starfa í starfsumhverfi þar sem karlmenn eru í meirihluta. Það þurfi að fara reglulega í bað og jafnvel greiða á sér hárið en um leið að vinna jafnlengi og karlarnir og fara ekki í fýlu þegar einhver segir brandara.

Sem sagt, þurfi að gera nákvæmlega sömu hluti og karlmenn sem vinna með karlmönnum.

Þetta fer rosalega fyrir brjóstið á sumu kvenfólki. Hér sé greinilega verið að níðast á kvenkyninu og þvinga kvenfólk til að haga sér eins og karlmenn, ella sé því haldið niðri! Kvenfólk sem segir frá því hvernig er best að vinna í vinnuumhverfi þar sem eru margir karlmenn fær því á baukinn. 

Ekki man ég eftir því að neinn karlmaður sem vinnur mikið með kvenfólki og hefur notið velgengni hafi verið spurður um meðferð kvennanna á sér. Þessi karlmaður myndi kvarta yfir því að hafa engan til að tala við um pungsvita og nefhár. Hann sé þvingaður til að ganga snyrtilega um og lykta ekki eins og sveitt tuska. Óþolandi kúgun karla!

Femínistar sparka í kvenfólk sem gengur vel. 

Er skrýtið að umræðan sé svo herská að heill strætó verður nú notaður til að senda einhverjum ónafngreindum aðilum fokkjú-puttann á almannafæri?


mbl.is Femínistastrætó bar sigur úr býtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattur fyrir að vera til

Icelandair hefur verið mjólkað um milljarð fyrir svokallaða kolefniskvóta eða losunarheimildir síðan árið 2012. Með öðrum orðum: Viðskiptavinir Icelandair hafa borgað milljarð fyrir nákvæmlega enga þjónustu, engin hlunnindi og engin þægindi. Þeir hafa borgað skatta fyrir að vera til, draga andann, fara í frí eða sinna viðskiptaerindum, rétt eins og Icelandair.

Því já, losunarheimildir eru dulin skattheimta og þvingaður flutningur á fé frá þeim sem afla þess og til einhverra annarra.

Það getur kannski einhver frætt mig um það hverjir fengu þennan milljarð í vasann og hvers vegna? Voru það kannski svefnbæir í skógarlendi? Endar svo þetta kolefni í pokum sem eru seldir til þeirra sem rækta plöntur? Hver er þá ávinningurinn af allri hringavitleysunni?

Loftið í Evrópu er greinilega nógu gott til að hafa verðmæti fyrir Asíubúa, svo mikið er víst. En það sama gildir víst um mulin nashyrningahorn og önnur skottulyf. 

Icelandair ætti e.t.v. að byrja sundurliða flugmiðaverðið svo neytendur sjái að hluti þess renni í enga þjónustu, engin hlunnindi og engin þægindi.


mbl.is Icelandair kaupir kvóta á milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið og samkeppniseftirlit

Samkeppniseftirlitið svokallaða hafnaði því að Hagar gætu keypt Lyfju. Fyrir vikið lækka nú hlutabréf í Högum því markaðsaðilar sjá að samkeppnisstaða Haga er ekki að fara styrkjast.

Þeir hjá Costco hljóta að hlægja sig máttlausa núna. Þar kaupa menn inn í gámum inn í alþjóðlega verslunarkeðju og geta fyrir vikið boðið betra verð en flestir. Í þeirra augum eru Hagar bara lítið bílskúrsfyrirtæki sem fékk ekki að sameinast öðru bílskúrsfyrirtæki. Af hverju ekki? Af því eftirlitið segir það!

Það er eins og hið opinbera sé fast í fornöld þegar það komu ekki nema örfá skip til landsins á ári. Núna getur fólk keypt allar helstu nauðsynjar frá öllum heimshornum án þess að yfirgefa svefnherbergið. Hagar og Lyfja eru ekki bara í samkeppni við Costco og aðrar verslanir með byggingar á landinu. Nei, Hagar og Lyfja eru í alþjóðlegri samkeppni um íslenska neytendur.

Samkeppniseftirlitið stuðlar ekki að aukinni samkeppni. Þvert á móti stendur eftirlitið í vegi fyrir að samkeppni geti tekið almennilega af stað. 

Leggjum Samkeppniseftirlitið niður. Ef almenningur er nógu klár til að mega kjósa ráðamenn yfir sig er hann líka nógu klár til að kaupa tannkremstúbu á góðum kjörum. 

(Ef almenningur er ekki nógu klár að mati einhvers þá hlýtur sá hinn sami að leggja til að þessi sauðheimski lýður verði líka sviptur kosningaréttinum.)


mbl.is Hagar hafa lækkað um 3,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegurinn er fórnarlamb eigin velgengni

Á Íslandi er sjávarútvegur skattlagður og hann er að jafnaði rekinn með hagnaði. Það er ekkert sjálfgefið. Í flestum öðrum ríkjum er sjávarútvegurinn hið íslenska landbúnaðarkerfi: Vandræðarekstur vafinn í viðskiptahöft sem þarf ríkisstyrki og er haldið úti til að einhver nenni að búa út á landi.

Sjávarútvegurinn hefur samt aldrei fengið að starfa í friði og langtímaáætlanir þar eru í sífelldu uppnámi. Stjórnmálamenn geta einfaldlega ekki stillt sig í eilífri afskiptasemi sinni. Alltaf er einhver nefndin að störfum sem á að endurskoða hitt og þetta tengt sjávarútvegi.

Ég geri mér grein fyrir að það verður aldrei nein svokölluðu sátt um íslenska sjávarútveginn. Á meðan hann skilar hagnaði eru þeir til sem vilja þjóðnýta þann hagnað. Ef hann tapar eru þeir til sem vilja þjóðnýta greinina eins og hún leggur sig á sama hátt og landbúnaðarkerfinu er haldið í gíslingu ríkisvaldsins.

Það er búið að heilaþvo ákveðinn, háværan hóp fólks með því að hagnaður af rekstri útgerðar sé eitthvað náttúrulögmál - að það sé til einhver "renta" sem fellur af himnum ofan og þarf að plokka ofan í ríkissjóð. Á meðan sá heilaþvottur stendur verður aldrei nokkuð til sem heitir sátt.

Um leið hefur orðasambandið "sameign þjóðarinnar" ruglað einhverja í ríminu. Kaffihúsaklíkan í 101 telur sig eiga tilkall til vinnu sjó- og útgerðarmanna þótt hún kynni e.t.v. líka vel að meta að fiskurinn synti bara sjálfur á land. 

Ég hefði vonað að á meðan svokölluð hægristjórn væri við völd væri kannski hægt að gefa atvinnulífi smávegis frið frá stjórnmálunum. Svo virðist því miður ekki vera. 


mbl.is Vill breytt fyrirkomulag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband