Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Nægt framboð þrátt fyrir allt

Mikill hugur var á baráttufundi grunnskólakennara sem fór fram í Iðnó. Þar eru um 500 manns samankomnir og þurfa margir að standa utan dyra. Ljóst er að kennarar eru mjög óánægðir með sín launakjör. Þeir segja launin vera tímaskekkju sem verði að leiðrétta.
 
Látum orðskrípi eins og "launaleiðréttingu" eiga sig í bili og spyrjum okkur að því hvort lögmál hagfræðinnar gildi ekki um grunnskólakennara eins og allt annað. Geri þau það má benda á að til er nokkuð sem heitir framboð annars vegar og eftirspurn hins vegar, og tenging milli þessa sem heitir verð. Aukist framboð í umhverfi óbreyttrar eftirspurnar þá lækkar verð. Minnki framboðið þá hækkar verðið.
 
Enginn skortur er á framboði grunnskólakennara. Sjálf fögin í grunnskóla eru flestum fullorðnum vel kunnug. Sjálfur kenndi ég stærðfræði í menntaskóla á meðan ég var í háskólanámi og fannst ég ekki standa mig miklu verr en samkennarar mínir með allar uppeldisgráðurnar. Ég þori næstum því að fullyrða að nánast allir Íslendingar með stúdentspróf og flestir með grunnskólapróf gætu kennt öll fögin í grunnskólum. (Hvort sú kennsla færi vel fram og á yfirvegaðan og skipulagðan hátt er önnur saga; þekking á innihaldi námsins væri til staðar hvort sem viðkomandi gæti kennt eða ekki.)
 
Verkalýðsfélag kennara hefur reynt að stemma stigu við þessu mikla framboði með því að hvetja ríkisvaldið til að setja allskyns skilyrði fyrir því að fá að kenna í grunn- og menntaskóla. Núna þarf tilvonandi kennara að hoppa í gegnum allskonar gjarðir til að eiga von um að hljóta fastráðningu. Námskeið, 5 ára háskólanám og fleira slíkt eru allt tilraunir verkalýðsfélags kennara til að minnka framboð á tilvonandi grunnskólakennurum og þannig auka eftirspurnina eftir þeim sem eftir eru, og þannig hækka verð á þeim (laun).
 
Hvað um það. Menntakerfið á Íslandi á auðvitað að einkavæða eins og það leggur sig, og ríkið á að koma sér alveg af þeim markaði, sem og afnema allar lögbundnar kröfur sínar til menntunar (og lækka um leið alla skatta sem svarar til kostnaði við rekstur menntakerfis og eftirfylgni við regluverkið). Vilji einhver fjármagna menntun annarra, t.d. með skattfé (slæmt) eða framlögum úr eigin vasa (gott), þá er hægt að gera slíkt án þess að ríkið standi í rekstri.
 
Sjáum svo til hvort kennarar verði ekki sáttari með svigrúmið sem skapast með því og hætti að hóta foreldrum með lokun á geymslustöðum barna þeirra.  

mbl.is Mikil stemning á baráttufundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölurnar blekkja

Þeir sem eru of djúpt sokknir niður í tölurnar til að sjá hvað er að gerast í heiminum í kringum sig láta oft tölurnar blekkja sig.

Ein tegund talna, "hagvöxtur", blekkir kannski meira en margar aðrar.

Um hagvaxtartölur (vöxtur á landsframleiðslu, mældur í peningastærðum) má segja þetta (héðan):

Remember that changes in GDP are a reflection of changes in monetary pumping: the more is pumped the greater the rate of growth of GDP.

Einnig:

If printing money could somehow generate wealth then world wide poverty would have been eliminated by now.

Hvað hefur verið gert á Spáni til að leyfa hagkerfinu að anda? Skattar hafa hækkað, skuldir hins opinbera hafa aukist, og ég efast um að stórkostleg afreglun hafi átt sér stað af hálfu hins opinbera.  Eftir stendur bara að peningamagn í umferð hefur aukist, og það hefur þrýst vöxtum niður og blekkt fjárfesta til að halda að langtímafjárfestingar geti nú borið ávöxt. 

Spánn er ekkert minna gjaldþrota í raun núna en fyrir ári síðan eða tveimur eða tíu. Hið sama má segja um fjölmörg önnur "rík" og vestræn ríki. Gjaldþrotahrina bankanna var sársaukafull. Næsta hrina er sú af gjaldþrotum ríkissjóða. Hún verður enn sársaukafyllri. 


mbl.is Samdráttarskeiði að ljúka á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt! En meira þarf til

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir ríkið verða að nýta þá fjármuni sem losna við sölu á eignarhlutum þess í íslensku viðskiptabönkunum til þess að draga úr skuldum og greiða upp íþyngjandi lán. 

Rétt það! 

Þá leggur hann áherslu á að á næstu árum verði fundnar leiðir til þess að afnema ábyrgðaryfirlýsingu ríkisins vegna innistæðna í íslenskum bönkum.

Frábærar fréttir! Þessu bjóst ég ekki við! "Innistæðutryggingar" eru engar tryggingar, heldur leið ríkisvaldsins til að lokka almenning til að leggja fé inn í bankana, og hjálpa þannig bönkunum að starfa sem tæknilega gjaldþrota fyrirtæki þar sem hver hundrakall sem er lagður inn í þá fer að 90% leyti út aftur í formi allskyns fjármálakúnsta. 

Næsta rökrétta skref á eftir sölu bankanna og afnámi innistæðutrygginga er svo að leggja Seðlabanka Íslands niður og hætta ríkisframleiðslu á peningum með öllu; aðskilja ríkisvaldið og hagkerfið með öllu. Samhliða því þarf að fara í viðræður við lánadrottna ríkisins um afskriftir, og stefna að algjörri uppgreiðslu opinberra lána innan 5 ára, afnámi allra ríkisábyrgða sem stofnað hefur verið til (þ.á.m. á lífeyrisgreiðslum til opinberra starfsmanna) og stórfelldri einkavæðingu ríkisrekstursins auk stórkostlegrar rýmkunar á öllum lögum sem takmarka svigrúm einstaklinga til að fara út í rekstur sem ríkisvaldið hefur svo gott sem einokun á í dag, beina og óbeina.

Einfalt og meira að segja pólitískt raunhæft með pólitískum fyrirmyndum. Það eina sem þarf er þor. 


mbl.is Alvarleg skuldastaða kallar á sölu ríkiseigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásetningur falinn í pappírsvinnu

Við lestur þessarar miklu sorgarsögu dettur mér bara eitt í hug: Hérna er ásetningur falinn á bak við pappírsvinnu. Einhverjir opinberir starfsmenn hafa þá duldu dagsskipan að meina ungri konu um "dvalarleyf" (leyfi til að vera á Íslandi án þess að vera handtekin) en gera allt nema segja það hreint út. 

Hvernig stendur á þessu? Af hverju að gera fólki erfitt fyrir að flytjast til Íslands?

Ein ástæðan er auðvitað velferðarkerfið. Kerfið gerir ráð fyrir að fólk að meðaltali borgi meira í skatta en það fær til baka í formi "þjónustu" frá hinu opinbera, nema innflytjendur auðvitað. Þeir eru bara byrði. Þeir leggjast á kerfið og sjúga úr því fé og þrótt. Fleiri útlendingar eru því meiri byrði. Þetta er innbyggður hugsunarháttur. Þess vegna er erfitt að fá dvalarleyfi á Íslandi.

Hyrfi velferðarkerfið þá hyrfi afsökun ríkisvaldsins til að skipta sér af því hver er handtekinn og hver ekki fyrir það eitt að vera á Íslandi. 

Pappírsvinnan er ljót leið til að fleygja fólki úr landi. 


mbl.is „Hún bara gafst upp og fór“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemum lög nr. 22/1968

Á Íslandi finnst löggjöf nr. 22/1968 sem mætti gjarnan leggja niður eins og hún leggur sig, og allar þær stofnanir sem byggja tilvist sína á henni í leiðinni.

Alveg sérstaklega slæmar lagagreinar í þessari löggjöf eru þessar tvær:

 2. gr. Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til að láta gera og gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út peninga úr málmi.

 3. gr. Peningaseðlar þeir, sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefur út, og peningar þeir, sem hann lætur slá og gefur út, skulu vera lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði. 

Fjarlægjum þær úr íslenskri löggjöf, og við færumst skrefi nær því að láta alla gjaldeyrisdrauma allra Íslendinga rætast, hverjir svo sem þeir eru. 


mbl.is Fyrirtæki velja aðra mynt en krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið umbunar sumum

Þau 10% Bandaríkjamanna sem eru með hæstu tekjurnar þéna yfir helming þeirra tekna sem landsmenn unnu sér inn á síðasta ári. Misskiptingin hefur aldrei áður verið jafn mikil í Bandaríkjunum og nú, samkvæmt nýrri rannsókn tveggja hagfræðinga. 

Þegar svona fréttir berast er næstum því hægt að gera ráð fyrir því að flestir dragi af þeim rangar ályktanir og geri sér ekki grein fyrir orsökum og afleiðingum.

Hér kemur tilvitnun í lengri kantinum sem vonandi varpar ljósi á hvað er raunverulega að gerast í Bandaríkjunum (og víðar) og hvers vegna þeir ríku og vel tengdu sleppa við skellinn þegar bólurnar springa, á meðan aðrir þurfa að éta skuldirnar og verðbólguna (feitletranir mínar):

Fundamentally, the financial crisis was a product of the Fed’s repeated blowing up of bubbles, and not of deregulation. Moreover, any suffering inflicted on the 99 Percent by our system doesn’t come from the free market, it comes from the crony capitalism that is now our economic system. The Blackberry Panic of September 2008, in which Washington policy makers led by former Goldman Sachs CEO Hank Paulson, panicked as they saw Wall Street stock prices plummet on their mobile devices, had very little to do with the Main Street economy in the United States. The panic and bailouts that followed were really about protecting the bonuses and incomes of very wealthy and politically well-connected managers at banks and other heavily leveraged businesses that were eventually deemed too big to fail. What followed was a massive transfer of wealth from the taxpayers and middle-class savers, in the form of bailouts and zero interest rates on bank deposits imposed by the Fed, to the so-called One Percent. (#)

En bíddu nú við, eru þeir ríku að verða ríkari vegna afskipta seðlabanka og ríkisvalds? Já.

Seðlabanka Íslands á að leggja niður hið snarasta, og peningaútgáfa ríkisvaldsins á að hætta, og afskiptasemi ríkisvaldsins af því hvaða peninga hver nota á að stöðva.


mbl.is 10% þéna yfir helming teknanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsið kerfið í stað þess að 'verja' það

Stjórnmálamenn vilja helst hafa meira að gera á morgun en í dag. Þeir vilja skipta sér af sem flestu. Ef þeir uppgötva "vandamál" vilja þeir ólmir kasta ríkisvaldinu yfir það

Hin hliðin á þessari áráttu er ótrúleg tregða stjórnmálamanna til að sleppa einhverju úr klóm hins opinbera. Það sem eitt sinn hefur verið ríkisvætt, það skal ekki einkavætt aftur. Það sem ríkið hefur hirt úr umhverfi frjálsra samskipta og viðskipta, það skal ekki snúa þangað aftur. Það sem hið opinbera hefur hengt snöru sína á, það skal ekki skorið úr henni aftur.

Ótrúleg orka fer í að sannfæra stjórnmálamenn um að losa um tak hins opinbera á samfélaginu. Mun minni orku þarf til að sannfæra hið opinbera um að ríkisvæða eitthvað, annaðhvort óbeint með fleiri reglum og sköttum, eða beint með þjóðnýtingu.

Um þessar mundir eru fjárlög næsta árs rædd. Stjórnmálamenn koma bara á tvær leiðir til að toga ríkisreksturinn úr þeirri holu sem hann er í í dag: Skattahækkanir eða niðurskurður í ríkisrekstrinum.

Hvernig væri að prófa þriðju leiðina - þá að koma rekstri út úr höndum hins opinbera? Þá þarf hvorki að skera hann niður og gera vont verra, né hækka skatta til að fleyta honum áfram.

Mér sýnist "sérstakur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar" bara ætla að leggja til tilflutning á skattfé innan ríkisvaldsins. Mér lýst hreinlega ekkert mjög vel á það, eða sé a.m.k. ekki hvaða langtímaávinningur á að vera af því.  


mbl.is Einstakir málaflokkar ekki undanskildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núverandi kerfi er glatað

Ríkasta kona Ástralíu, Gina Rinehart, hefur lagt til að fangar sem ekki eru ofbeldishneigðir geti borgað sig út úr fangelsi og þannið orðið að skattgreiðendum sem hafi jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins. 

Þetta er athyglisverð hugmynd. Fyrirsjáanlegt er auðvitað að mótbárur skjóti upp kollinum, svo sem að "þeir ríku sleppa við refsingu" og "sumir geta borgað sig til náðunar en aðrir ekki" og fleira slíkt, en það væri að líta framhjá aðalatriðinu að mér finnst, sem er það að núverandi kerfi er alveg glatað.

Tökum ofbeldisglæpi út fyrir sviga (eins og lagt er upp með í hugmyndinni sem nefnd er í fréttinni) og einblínum á þjófnaði, fjársvik og eignaspjöll. Hvað gerist þegar einhver stelur eignum eða skemmir í dag? Viðkomandi er handtekinn, hann ákærður og honum stungið í steininn, allt á kostnað þess sem varð fyrir þjófnaðinum eða skemmdarverkunum. Það er ekki nóg með að einhver hafi orðið fyrir eignatjóni eða þjófnaði heldur þarf viðkomandi núna að greiða fyrir málsmeðferð og fangelsisvist þess sem skemmdi eða stal.

Er þetta ekki að bæta gráu ofan á svart?

Allt kerfið snýst um að "refsa", "afplána" og "sitja af sér" glæpina. Nákvæmlega engin áhersla er á að bæta upp fyrir það tjón sem viðkomandi olli.

Miklu rökréttara væri því eftirfarandi kerfi:

Sá sem skemmir eða stelur greiðir allan kostnað við handtöku sína og málsmeðferð. Hann bætir eigandanum sem varð fyrir tjóninu upp tjónið, krónu fyrir krónu, en að auki skaðabætur sem nema tjónsandvirðinu. Hann þarf m.ö.o. að greiða jafnmikið í tjónabætur og hann olli, fyrir utan að bæta upp sjálft tjónið. Það er algjörlega hlutfallslega réttlát refsing.

Sá sem olli tjóninu þarf hins vegar ekki að sitja í fangelsi á kostnað tjónþola. Skuldabréf er gefið út á þann sem tjóninu olli, og það þarf að greiða. Sé það hins vegar ekki gert samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er komin upp önnur staða. Þá tekur við skuldafangelsi (hvers kostnaður er annaðhvort greiddur með vinnuskyldu innan fangelsins, eða bætt við upphæð skuldabréfsins) eða hálfgerð nauðungarvinna, þar sem hlutfall af launum viðkomandi rennur sjálfkrafa til tjónþola.  

Ekkert vit er í núverandi kerfi. Kerfið virkar heldur ekki jafnt. Hvítflibbaglæpir svokallaðir, þar sem milljörðum er stolið eða þeir narraðir af fólki, enda á vægri fangavist í "opnu" fangelsi, enda viðkomandi ekki álitinn hættulegur neinum. Sá sem stelur sjónvarpi úr einbýlishúsi er hins vegar meðhöndlaður sem stórhættulegur ofbeldismaður sem þarf að loka inni í fleiri mánuði eða jafnvel ár, á kostnað tjónþola! Þetta er mismunun. Réttlátara væri að framfylgja þeirri stefnu að allur þjófnaður falli undir sama hatt. 

Ég vona að einhver umræða um refsistefnuna sem við búum við í dag sé smátt og smátt að fæðast.  


mbl.is Leggur til að glæpamenn geti borgað sig út úr fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíma lögreglu sóað

Eltingaleikur lögreglu við fíkniefnaframleiðendur, -seljendur, -dreifendur og -neytendur er sóun á tíma hennar. Hennar orku á að beina að stöðvun ofbeldisglæpa og rannsóknarvinnu vegna innbrota og þjófnaðar. Lögregla á að verja líf og limi og eigur, en ekki elta uppi þá sem komast í snertingu við einhver ákveðin efni frekar en önnur.

Lögreglan er í þeirri stöðu að þurfa framfylgja íslenskum lögum. Ekki er létt fyrir lögregluþjóna að líta í hina áttina ef þeir komast á snoðir um eitthvað sem er lögbrot, sama hvað það er. Ég vil samt hvetja lögreglumenn til að reyna að líta í hina áttina þegar fíkniefna"brot" eiga sér stað. Ég vil hvetja yfirmenn lögreglumanna til að þrýsta ekki á framfylgni fíkniefnalöggjafarinnar. Ég vil hvetja stjórnmálamenn til að afnema úr lögum þá kafla hegningarlaganna er snúa að fíkniefnameðhöndlun ýmis konar.

Tíma lögreglu gæti þá verið betur varið. Það hættulegasta við fíkniefni er bannið við þeim. 


mbl.is Stórtækir fíkniefnasalar stöðvaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband