Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Braskað með fé annarra

Að skylda fullorðið fólk til að spara er forræðishyggja. Hún dregur úr ábyrgðartilfinningu fólks og leyfir því að halda að engin ástæða sé til að spá í afkomu sína á efri árum. Nú fyrir utan þá staðreynd að fólk sem borgar í sjóð eða sjóði alla ævi fær líklega ekki meira úr þeim í vasann en sem nemur ellilífeyri ríkisins. 

Að veita viðtakendum þessa sparnaðar forráð yfir fé annarra er glapræði.

Að sömu viðtakendur noti sparifé annarra til að kaupa hlutabréf og að öðru leyti braska með fé annarra er á mörkum þess að vera heimskulegt.

Lífeyrissjóðir eiga að sýna auðmýkt og gera það sem þeir geta til að varðveita fé annarra úr því kerfið er eins og það er. Þeir eiga að kaupa verðmæti sem má ætla að haldi verðmæti sínum um alla framtíða. Góðmálmar eru hér upplagt dæmi. Hlutabréf í flugfélagi - ekki. 

Nú vill svo til að Icelandair skilar hagnaði og þrífst ágætlega á markaðinum. Það getur breyst á morgun. Það getur breyst ef eldgos á sér stað undir jökli og verður að gjóskugosi. Það getur breyst ef einhver vitleysingur gerir tilraun til að raska flugi á einhvern hátt. Þá geta milljarðar af skyldusparnaði landsmanna gufað upp.

Ég hef í mörg ár reynt að sannfæra atvinnurekanda minn um að borga mér bara í laun það sem hann leggur inn í bundinn sparnað hjá lífeyrissjóði. Það er því miður hægara sagt en gert. Ég ætla samt að halda áfram að reyna. Þó er ég betur staddir en margir að því leyti að ég er útlendur ríkisborgara í Danmörku og get hvenær sem er flutt úr landi og tekið lífeyrinn minn með, gegn nokkura tuga prósent skattlagningu. Ef bara allir væru svo heppnir! 


mbl.is Lífeyrissjóðir eiga mest í Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handahófskenndar tölur

Opinberar "mælingar" á verðbólgu eru í besta falli örlítil vísbending um breytingar á kaupmætti gjaldmiðils. Þetta gildir um allan heim.

Í versta falli eru þessar verðbólgutölur handahófskenndar - mælingar á flökti eða suði.

Það sem vantar á einhvern íslenskan fjölmiðil er að segja reglulega frá breytingum í magni peninga í umferð og birta reglulega hreyfingar á þessu magni. Þetta virðast vera frekar óaðgengileg gögn en þá er þeim mun meiri ástæða til að halda þeim til haga. Seðlabankinn er jú einokunaraðili með mikil völd sem hann vill varðveita eins vel og hann getur. Viðspyrnu þarf til svo hann eyðileggi ekki allt hagkerfi Íslands hraðar en stefnir í núna.


mbl.is Verðbólgan komin niður í 1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðabankinn ýtir undir fátækt í heiminum

Það var bara það sem ég vildi segja.

Ég held að Englendingar hafi ekki kvartað þegar þeir gátu ræktað vín á eigin landi á sínum tíma, eða þegar hvítir menn í Grænlandi gátu þar lifað af sauðfjárrækt, eða þeir á Íslandi þegar þeir gátu ræktað korn víða um land. En þeir lásu auðvitað ekki skýrslur Alþjóðabankans.


mbl.is Hlýnun ýtir undir fátækt í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið getur gert það sem það vill

Ríkissjóður gæti með skattlagningu herjað á eignamikil þrotabú, líkt og hina föllnu viðskiptabanka, og tæmt þau þannig að aðrir kröfuhafar sætu eftir með sárt ennið. 

Auðvitað getur ríkissjóður það. Ríkisvaldið getur, eðli síns vegna, gert hvað sem það vill við hvern sem er. Það getur slegið eign sinni á allt.

Þeir sem eru óánægðir með núverandi ríkisstjórn en voru ánægðir með fráfarandi ríkisstjórn geta þakkað fráfarandi ríkisstjórn fyrir þau auknu völd sem hún færði ríkisvaldinu og núverandi ríkisstjórn nýtur nú góðs af.

Næstkomandi ríkisstjórn getur svo þakkað núverandi ríkisstjórn fyrir að bæta enn við umráðasvæði ríkisvaldsins.

Þetta er þróun sem hefur átt sér stað flesta undanfarna áratugi. Ríkisvaldið heldur áfram að stækka. Dómstólar þess halda áfram að slaka á kröfum stjórnarskráar til takmörkunar á ríkisvaldinu. Almenningur heldur áfram að dofna í andspyrnu sinni við ágang hins opinbera. 

Ríkisvaldið getur gert það sem það vill. Það getur lýst heilu landflæmin sem þjóðgarð og þar með skert eignarétt landeigenda á því svæði mikið. Það getur friðlýst hús og raun gert þau verðlaus með þeim hætti enda ekki mikið varið í fasteign sem má ekki breyta og bæta svo neinu máli skiptir. Það getur komið á ritskoðun, gert aldraða að öreigum með því að hirða sparnað þeirra í gegnum skattheimtu, gert fullfrískt og vinnandi fólk að þurfalingum sem ná ekki endum saman vegna kostnaðarþunga hins opinbera, og svona má lengi telja.

Fagnið bara, þið sem viljið að ríkisvaldið hirði þrotabú bankanna, en hafið í huga að þið eruð kannski næst!

First they came for the Socialists, and I did not speak out—
Because I was not a Socialist.

Then they came for the Trade Unionists, and I did not speak out—
Because I was not a Trade Unionist.

Then they came for the Jews, and I did not speak out—
Because I was not a Jew.

Then they came for me—and there was no one left to speak for me.

Martin Niemöller (1892–1984)

Orð sem er alltaf hollt að hafa í huga.


mbl.is Ríkið getur tæmt þrotabúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar lög leiða til lögleysu

Bann við verslun með fílabein er ekki til þess fallið að vernda fíla eða tryggja að fílar munu alltaf reika um náttúruna.

Á sumum svæðum í Afríku er alltof mikið af fílum og þar þarf hreinlega að fella fíla til að minnka ágang frá þeim. Þar safnast fílabein upp í geymslum og er síðan brennt með reglulegu millibili. Ef þessi bein kæmust á markaðinn myndu þau valda verðhruni og minnka alla hvata til að leggja á sig hættulegar og ólöglegar veiðar á fílum.

Á öðrum svæðum eru fáir fílar eftir. Þar eru þeir veiddir af óprúttnum aðilum sem sjá fram á mikinn hagnað ef þeim tekst ætlunarverk sitt.

Enginn hefur sérstakan hag af því að vernda fíla og tryggja vöxt og viðgang fílastofnsins á löglegan hátt. 

Fílastofninn er í mikilli hættu vegna banns við verslun með fílabein.

Meira um sama efni má lesa hér, hér og hér.


mbl.is Taldir hafa selt bröskurum bein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta hrun verður verra

Bankahrunið var slæmt. Næsta hrun verður hrun ríkissjóða. Það verður mun verra. Þá duga engir sjóðir til að bjarga neinu. Verðbólga mun æða upp og vegna skuldsetningar verður því sem næst ómögulegt að hækka vexti til að temja hana. Eða eins og segir á einum stað:

Since the central banks are now destined to forever remain behind the inflation curve, it will continue to accelerate until the real threat of hyperinflation looms much larger than did the contrived threat of deflation.

Stjórnmálamenn hugsa ekki lengra en til næstu kosninga og eru þar að auki svo illa að sér í öðru en því sem seðlabankahagfræðingar segja að þeir munu ekkert gera til að forða okkur frá yfirvofandi hruni.

Við hin getum undirbúið okkur. Best er að skulda lítið. Fyrir þá sem skulda er best að stofna ekki til nýrra skulda. Enn betra en að skulda lítið er að eiga mikið og reyna að eiga eitthvað sem heldur kaupmætti sínum betur en ríkispeningar, t.d. góðmálma. Síðan er alltaf góð hugmynd að hugleiða hvaða verðmætaskapandi þjálfun, menntun og getu maður býr yfir og spá í því hvað verður alltaf eftirspurn eftir. Er til dæmis góð hugmynd að kunna ekkert nema franska bókmenntasögu til að geta aflað sér tekna ef ríkisvaldið missir 95% af eyðslugetu sinni? Er kannski góð hugmynd að læra forritunarmál eða einhverja handiðn? 

Næsta hrun verður stórt og sársaukafullt en nauðsynlegt til að sprengja á skuldabólur, verðbólgu og ofþanið ríkisvald flestra ríkja. Því miður. 


mbl.is Óttast að nýtt hrun nálgist óðfluga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögur

Ríkisstjórnin vinnur að tillögum sem ætlað er að taka á þeim vanda sem til staðar er á leigumarkaði hér á landi. Þetta sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar.

Mjög gott.

Ég er með nokkrar tillögur í þessu samhengi.

1) Lækka eða afnema fjármagnstekjuskatt af leigutekjum:

Leigjendur fá meira í vasann. Fleiri byrja að breyta aukaherbergjum og kjöllurum í leiguhúsnæði til að krækja í auknar tekjur. Framboð af leiguhúsnæði eykst. Verð á leiguhúsnæði lækkar. Leigjendur halda eftir meira í vasanum.

2) Minnka lögbundnar kröfur á leiguhúsnæði:

Eftir því sem er auðveldara að gera húsnæði að útleiguhúsnæði, því meira verður framboð af því. Leigjendur eiga sjálfir að vega og meta hvað þeir vilja að tilheyri leiguhúsnæði sínu og vega það og meta á móti upphæð húsaleigunnar. 

3) Koma hinu opinbera út af leigumarkaðinum:

Þegar hið opinbera niðurgreiðir leiguhúsnæði í samkeppni við einkaaðila er tvennt sem gerist: Útleigjendur þurfa að keppa við ríkisvaldið og mistekst það oft, og skattar eru hærri en þeir þyrftu að vera sem dregur úr kaupmætti leigjenda. Það, sem ekki sést, er að framboð á leiguhúsnæði er minna en það væri ef ríkisvaldið væri ekki á þessum markaði.

Ég er líka með tillögur sem draga enn frekar lífið úr leigumarkaðinum, svona ef menn vilja stefna að því:

A) Viðhalda núverandi skattheimtu af leigutekjum:

Bara svona til að gera það sem óarðbærast að bjóða upp á leiguhúsnæði.

B) Setja þak á húsaleigu:

Bara svona til að koma fjárfreku leiguhúsnæði af markaði, t.d. því í eldri byggingum.

C) Bæta við opinberu/niðurgreiddu leiguhúsnæði:

Markaðurinn er lélegur í dag en gæti orðið verri. Þetta eykur líka völd stjórnmálamanna og það kunna þeir vel við.

Ekki satt?


mbl.is Aðgerðir vegna leigjenda fyrirhugaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með einkaspítala?

Mikið er rætt um byggingu nýs ríkisspítala þessi misserin. Flestir gera sér grein fyrir því að slíkt er með öllu óraunhæf framkvæmd eins og staðan er í dag. Ríkisvaldið er einfaldlega of skuldsett og er með alltof margt á sinni könnu. Hvergi virðist mega skera niður eða forgangsraða upp á nýtt án þess að allt verði brjálað. Engin leið er að finna fjármuni fyrir svona framkvæmd þegar það er staðan.

En hvað með að breyta lögum og rekstrarumhverfi heilbrigðis- og tryggingakerfisins á Íslandi þannig að einkaspítali gæti orðið raunhæf framkvæmd? Þá meina ég spítala sem einkaaðilar reka með það að leiðarljósi að skila hagnaði sem rennur í eigin vasa.

Slíkir spítalar finnast á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi og bjóða upp á ljómandi valkost við biðraðirnar á ríkisspítalana. Rekstrargrundvöllur þeirra byggist á tvennu: Heilbrigðitryggingum (sem fólk kaupir sjálft eða fær í gegnum atvinnuveitanda sinn), og beinum greiðslum úr vösum sjúklinga.

Slíkur spítali gæti togað efnað fólk eða vel tryggt út úr röðunum á ríkisspítalana og stytt þær sem því nemur. Efnaminna fólk kemst því fyrr að hjá ríkislæknunum.

Slíkur spítali gæti boðið útlendingum upp á góða heilbrigðisþjónustu á Íslandi í samkeppni við erlenda einkaspítala og stuðlað að því að draga lækna til Íslands með sína þekkingu og menntun, sem gæti e.t.v. skilað sér í fyrirlestrum sömu lækna í Háskóla Íslands. Ísland hefur alla burði til að verða paradís fyrir útlenda en lasna auðmenn. Í kringum það gæti byggst heill iðnaður af endurhæfingarhótelum og öðru eins sem við getum lesið um í Taílandi og Indlandi. 

Slíkur spítali gæti líka boðið upp á eitthvað annað en ríkisspítalarnir, t.d. framsæknar aðferðir við erfiðum sjúkdómum sem er ekki pláss fyrir á ríkisspítölunum. Góðgerðarsamtök eða frjáls framlög gætu gert mörgum í neyð kleift að njóta þessarar þjónustu án þess að yfirgefa landið. 

Ríkisvaldið gætu svo smátt og smátt komið sér út úr beinum rekstri heilbrigðisþjónustu með því að senda sjúklinga í eins konar útboð þar sem greitt er fyrir að lækna sjúklinga. Ekki þarf að leita langt eftir fordæmi: Í Svíþjóð hefur slíkt verið við lýði í mörg ár og þar er blómlegur markaður fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu. 

Að enginn hafi enn nýtt sér hátt menntastig, góðar flugsamgöngur og hreina náttúru Íslands til að stofna umfangsmikla heilbrigðisþjónustu í einkarekstri segir mér eitt: Ríkisvaldið flækist hér fyrir, eins og á svo mörgum öðrum sviðum. 


mbl.is Greiða þarf af lánunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga um kaupgleði

Mér var einu sinni sögð saga af manni sem hafði verið staddur í raftækjaverslun á því sem hann hélt að væri venjulegum degi. Honum fannst hins vegar vera mjög mikið að gera í versluninni - hún var troðfull af fólki og allir að kaupa.

Maðurinn fann starfsmann í versluninni og spurði hvers vegna væri svona mikið að gera. Ekki væru jól í nánd. Venjulegur útborgunardagur dugði ekki til að réttlæta örtröðina í versluninni að því er manninum fannst.

Afgreiðslumaðurinn sagði að vaxtabætur hefðu verið greiddar út þennan daginn. Það væri því meira að gera núna en fyrir jól og raunar alla aðra daga. 

Vaxtabætur!

Sem sagt, bætur sem fólk fær frá ríkinu því það tók lán og borgar vexti (sem leiða svo til aukinnar eftirspurnar eftir lánum og þar með hærri vaxtakröfu frá bönkunum og því eins konar útborgunardagur fyrir þá líka).

Nú er viðbúið að eitthvað slíkt eigi sér stað vegna hinnar svokölluðu leiðréttingar. Skatturinn er okkur hulinn. Ávinningurinn er hins vegar sýnilegur strax. 

Ríkisvaldið er skondið fyrirbæri sem hefur áhrif á hegðun okkar. 


mbl.is Leiðrétting auki kaupgleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein millifærsluaðgerðin

Leiðréttingin svokallaða er komin í loftið. Hún er millifærsla á fé úr vösum sumra í vasa annarra. Yfirleitt er sami eigandi að báðum vösum en hvort viðkomandi fái meira en hann missti er undir kerfinu komið.

Þeir sem fagna þessari tilteknu millifærslu gera það af því þeir sjá fram á að fá meira í vasann en þeir misstu úr honum, eða atkvæði frá þeim sem fá meira í vasann en þeir misstu úr honum. 

Hið sama gildir um allar aðrar tegundir millifærslna, hvort sem þær heita barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, niðurgreiðslur á barnapössun eða lyfjum, og svona mætti lengi telja.

Hinn svokallaði forsendubrestur er fyrst og fremst brestur á þeirri forsendu að ríkisvaldið geti gefið út gjaldmiðil sem heldur kaupmætti sínum.

Hinn svokallaði forsendubrestur er líka brestur á þeirri forsendu að ríkisvaldið geti haft hemil á peningaframleiðslu bankanna með opinberu eftirliti á brotaforðakerfi í peningamálum.

En þannig er það. Kjósendur kusu yfirvöld sem tóku þá ákvörðun að fara út í millifærslu fjár að hluta og veita fólki aðgangi að eigin sparnaði að hluta. Um það snýst lýðræðið: Að meirihlutinn geti ákveðið að ræna minnihlutann, eða gera a.m.k. tilraun til þess. Í þessu tilviki er þeim sem spara refsað og þeim sem skulda umbunað. 

Ég vona að þeir sem eru fullir efasemda um ágæti svona aðgerða hugleiði í augnablik hvaða gríðarlegu völd við leyfum ríkisvaldinu að hafa yfir okkur.


mbl.is Útreikningar liggja fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband