Varfærna stjórnin

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist lítill. Það á ekki að koma á óvart. Ríkisstjórnin er varfærin svo vægt sé til orða tekið. Almenningur hefur ekki fundið fyrir neinum skattalækkunum að ráði. Það er líka búið að telja almenningi í trú um að gott efnahagsástand á Íslandi sé eins og rigning sem hafi fallið af himnum ofan og komi því ekkert við að það ríki pólitískur stöðugleiki þar sem ríkið einbeitir sér að því að láta tekjur duga fyrir útgjöldum. Svo virðist vera mjög auðvelt fyrir stjórnarandstöðuna að komast að hljóðnema fjölmiðlanna og segja frá sinni sýn á hlutina.

Hvað á ríkisstjórnin að gera í þessu? Hún gæti gert margt. Það er t.d. hægt að stefna að því að lækka alla skatta verulega og um leið halda áfram að greiða niður skuldir ríkisins. Það sem þarf bara að gerast á móti er að einkavæða stóra hluta ríkisrekstursins, afnema aðgangshindranir að íslenskum markaði og lækka rekstrarkostnað stjórnsýslunnar. Í stað þess að ríkið sé atvinnurekandi þúsunda einstaklinga gæti ríkið gert þjónustusamninga við fyrirtæki sem sjá sjálf um starfsmannamálin og lífeyrissjóðsgreiðslurnar. 

Ríkisstjórnin gæti líka verið duglegri að segja frá stefnumálum sínum og rökstyðja þau. Það má ekki leyfa vinstrimönnum innan Alþingis og fjölmiðlanna að stjórna umræðunni.

Björt framtíð og Viðreisn eru nýliðar í íslenskum stjórnmálum. Reynsluleysið er að hamla þessum flokkum. Þeir telja sér best borgið með því að halda sér til hlés, nema reyndar fjármálaráðherra sem fær ekki nóg af athyglinni, hvort sem sú athygli er neikvæð eða jákvæð.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að ríkisvaldið einfaldi ríkisreksturinn, greiði niður opinberar skuldir og lækki skatta, og reyni almennt að búa í haginn fyrir verri tíð í hagkerfinu. Hvenær á að koma til móts við þá?


mbl.is „Súpa seyðið“ af stjórnarsamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo að þú heldur að gott efnahagsástand á Íslandi sé Sjálfstæðisflokknum að þakka, að margföldun erlendra ferðamanna, makríll og gott fisverð sé afleiðing góðrar efanahagsstjórnunar Sjálfstæðisflokksins. 

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ótrúlega góðar ytri aðstæður er stjórnin að standa sig með afbrigðum illa. Allir innviðir eru svo illilega vanræktir að til vandræða horfir. Einungis einkarekstur fær það sem hann þarf og gott betur því að hár arður til fjárfesta er forgangsmál sjálfstæðismanna. Hvernig verður ástandið þegar harðna fer á dalnum?

Ástand húsnæðismála hefur ekki verið verra í manna minnum. Nú er svo komið að stór hluti fólks hefur hvorki efni á að kaupa né leigja. Félagslega kerfið stendur þeim heldur ekki opið vegna þess að launin eru of há og biðlistar þar svo langir að það tekur gjarnan nokkur ár að fá íbúð.

Gott dæmi um óstjórnina er að það er látið óátalið að fólk sé hrakið úr íbúðum til að leigja þær erlendum ferðamönnum að mestu skattfrjálst. Ef hópur fólks væri ráðinn til að hafa upp á þessum og öðrum skattsvikurum kæmi ekki aðeins fé í kassann. Margar íbúðir myndu losna til útleigu vegna þess að það tekur því ekki að standa í þessu ef það kostar mikið bókhald og mun minni hagnað. Það er hins vergar ekkert gert vegna þess að frjálshyggjan bannar það.  

Það er undarlegt að heimta skattalækkanir þegar allir innviðir eru illilega sveltir.Þvert á móti er nauðsynlegt að hækka skatta á hæstu laun og miklar eignir. Þannig myndum við nálgast hin norðurlöndin sem eru talin bestu lönd heims til að búa í. Hvað varðar efnahagsstjórnun stendur Ísland þeim langt að baki.

Frjálshyggjumenn eru auðvitað ekki sammála enda eru möguleikar á að arðræna almenning þeim efst í huga. Þess vegna sögðu þeir fyrir hrun að við ættum að hætta að bera okkur saman við hin norðurlöndin vegna þess að þau standa okkur svo langt að baki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 09:10

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Ég ætla ekki að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir núverandi uppsveiflu. Hins vegar má drepa sérhverja uppsveiflu með rangri hagstjórn. Það má gefa Sjálfstæðisflokknum að hafa ekki kæft uppsveifluna, og ekki sjálfgefið að ríkisstjórn sleppi því að traðka á efnalegsuppsveiflu.

Uppsveiflu má t.d. kæfa með því að hækka skatta á þá sem þéna vel og safna eignum. Hagstjórn þín snýst um að taka peninga af sumum og færa öðrum og er ekki líkleg til árangurs.

Geir Ágústsson, 28.7.2017 kl. 11:39

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars sýnist mér efnahagsráðleggingar þínar enduróma vel þær sem ráðgjafar Donald Trump eru að hvísla að honum. Þú tekur því kannski sem hrósi?

http://www.vb.is/frettir/vill-haekka-skatta-efnafolk/140028/

https://fee.org/articles/the-dangerous-economic-nationalism-of-trumps-right-hand-man/

Geir Ágústsson, 28.7.2017 kl. 12:10

4 identicon

Það er af og frá að skattahækkanir á hátekju- og stóreignafólk kæfi uppsveiflu. Þvert á móti fylgir því uppsveifla og sveiflujöfnun að ríkið fær fé til framkvæmda eða til að safna í sjóð til mögru áranna.

Það er miklu betur farið með fé að verja því til nauðsynlegra sameiginlegra verkefna sem hafa verið svelt langtímum saman frekar en að þeim sé sóað í ofneyslu eða flutt úr landi í skattaskjól.

Það er sorglegt að fé sé þannig sólundað í stað þess að byggja upp og búa sig undir kreppu eða hrun sem eru óhjákvæmileg með krónu sem gjaldmiðil. Þannig er einnig hægt að draga verulega úr áhrifum nýs hruns. þetta er spurning um að taka hin norðurlöndin sér til fyrirmyndar í stað Trump.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 13:20

5 identicon

Það er ekki til eftirbreytni, ef af verður, að hafa hæsta skattþrep  44% miðað við 43 milljóna króna mánaðartekjur. Hér er það enn hærra eða um 46% og nær yfir alla tekjur yfir rúmlega 800.000. 

Ég gæti hugsað mér að bæta við allavega þrem skattþrepum. Tekjur yfir 1.200.000 bæru td 53% skatt, yfir 1.800.000 60% og yfir 2.400.000 67% skatt.

Þetta væri skref í rétta átt að norrænni velferð.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 13:58

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Á Norðurlöndunum er verið að reyna draga úr jaðaráhrifum þrepaskatta. Í Danmörku var milliþrepið afnumið fyrir margt löngu og verið er að reyna færa efsta þrepið út úr miðstéttartekjum. Það verður afnumið þegar menn sjá að það skilar hverfandi tekjum í ríkiskassann en veldur ómældum skaða.

Þú og helsti ráðgjafi Trump virðast vera á svipaðri vegferð: Að flækja skattkerfið í von um ágóða úr vösum þeirra efnameiri sem skilar sér vitaskuld seint og illa og aldrei í mæli sem skiptir máli fyrir afkomu ríkissjóðs.

Síðan hvenær hefur ríkið safnað í sjóði? Meira að segja í Noregi eru takmörk á því hvað ríkisvaldið getur leyft sér að eyða miklu af sparifé olíusjóðsins, a.m.k. takmörk í formi gagnrýni ef menn eru að brenna upp varasjóðnum í neysluskuldir. Í prinsaríkjum Miðausturlanda er öllum umframsjóðum eytt jafnóðum í Rolex-úr og einkaþotur. 

Ríkið safnar ekki í sjóði. Það eyðir jafnóðum eða hraðar því sem það hirðir, með valdi, af borgurunum. 

Geir Ágústsson, 28.7.2017 kl. 20:46

7 identicon

Rétt hjá þér Geir. Skaðinn er ómældur vegna þess að

menn mæla venjulega ekki hverjir flytja úr landi vegna of hárra skatta. Í Danmörku er einn af þeim forstjóri Saxo Bank sem flutti til Sviss á sínum tíma:

https://www.youtube.com/watch?v=7UGMUnyyKgs

Gunnar (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 23:25

8 identicon

Það er komin reynsla á hátekju- og stóreignaskatt. Hann var settur á eftir hrun með mjög góðum árangri.

Reynsla Bandaríkjanna af 90% og síðar 70% skatti frá stríði fram til 1980 var einnig mjög góð. Olíusjóðurinn norski er gott dæmi um að ríkið safni í sjóði með góðum árangri.

Ég er hins vegar aðeins að tala um að ríkið safni í sjóð til að jafna út hagsveiflur. Það er mikilvægt að geta lækkað skatta þegar illa árar en þá er nauðsynlegt að hækka þá í góðæri.

Það er furðulegt að líta á óráðsíu í miðausturlöndum sem eitthvert náttúrulögmál. Hún á þvert á móti að vera okkur víti til varnaðar.

Góður árangur norðurlandanna á sér rætur í fortíðinni. Hvað framtíðin ber í skauti sér ef áherslur breytast vitum við ekki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 23:25

9 identicon

Það er engin hætta á landflótta til útlanda þó að skattar hækki verulega á hæstu tekjur. Það sýndi sig á árunum eftir hrun. Auðvitað fer einn og einn en það skiptir engu máli í stóra samhenginu.

Fæstir hátekjumenn á Íslandi hafa möguæleika á jafn vel borguðum störfum erlendis. Svo er æði oft að fjölskyldan vill ekki flytja. Þetta er því bara áróður þeirra sem eru á móti slíkum skattahækkunum. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.7.2017 kl. 23:33

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Þér er tíðrætt um góða reynslu Bandaríkjamanna af einhverju, og talar í sama dúr og ráðgjafar Trump í ýmsum málum. Um leið er þér tíðrǽtt um Norðurlöndin. 

Bæði svæði urðu rík á tímum lágra skatta á laun og fyrirtæki en hafa svo verið á vegferð undanfarna áratugi þar sem fjármagnseignirnar eru étnar upp af skattkerfinu og fólk lifir á auðsöfnun fyrri tíma. Norðurlöndin eru að snúa af þessari þróun en Bandaríkin að bæta í. Það má því segja að súr reynsla Norðurlanda bíði Bandaríkjanna. 

Geir Ágústsson, 30.7.2017 kl. 13:04

11 identicon

Geir, hættu svona bulli. Betra að sleppa því að svara ef þú hefur ekkert betra til málanna að leggja. 

Bæði í Bandaríkjunum og norðurlöndunum hefur fjármagn aldrei verið meira en síðustu ár. Misskiptingin er hins vergar margfalt meiri í Bandaríkjunum en á norðurlöndunum þar sem almenn velferð hefur haft og hefur enn forgang.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.7.2017 kl. 14:07

12 identicon

Þessi umræða mun engan endi taka. Vinstrimenn líta á sömu gögn og munu alltaf komast að annarri niðurstöðu. Ég held að ástæðan sé í grunninn sú að þeim líkar af einhverjum ástæðum mjög illa við ójöfnuð - sama hvernig hann verður til. Frjálshyggjumönnum líkar hins vegar mjög VEL við ójöfnuð - ef ójöfnuðurinn verður til einungis vegna þess að einhverjir seldu eitthvað sem aðrir vildu kaupa. Vinstrimenn koma síðar og líta á útkomuna. Ef útkoman er ójöfn, sama hvernig útkoman varð til, byrja þeir að heimta að ríkið hirði pening frá einum og gefi öðrum til að skapa "meiri jöfnuð". Hversu mikinn jöfnuð? Það er náttúrulega alltaf opin spurning, því svarið er alltaf "meiri". Ef hátekjuskattur eins vinstrimanns hefur loksins verið settur á, mun alltaf finnast annar vinstrimaður sem biður um enn "meiri" hátekjuskatt. Eins og ég sagði: Þessi umræða mun engan endi taka.

SR (IP-tala skráð) 30.7.2017 kl. 14:52

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Talandi um fjármagn vs. raunverulegur auður þá er hérna holl upprifjun fyrir þá sem lifa í skýjaborgum:

https://www.youtube.com/watch?v=DpHZ-c3kw98

Geir Ágústsson, 30.7.2017 kl. 15:49

14 identicon

Jafnaðarstefna byggir á skynsemi og réttlæti, frjálshyggjan byggir á græðgi sem leiðir til gífurlegrar misskiptingar.

Það eru ekki bara þeir sem sitja eftir slyppir og snauðir sem líða fyrir taumlausa græðgi annarra. Þeir sem græða eru oft einnig fórnarlömb. Mikið vill meira og græðgin verður að fíkn og siðbælinda fylgir gjarnan í kjölfarið. Slík fórnarlömb hafa gjarnan engan áhuga á neinu nema peningum nema ef vera skyldi öðru sem veldur fíkn.

Gott dæmi um skaðsemi frjálshyggjunnar og lágra skatta auðmanna er ástandið í BNA í dag. Hagur almennings þar hefur farið svo versnandi að hann er búinn að gefast upp á að ástandið batni. Þeir kjósa því versta kostinn til að gefa frat í stjórnmálin.

Annað vandamál í Bandaríkjamann er að þeir hafa verið heilaþvegnir með hægristefnu. Þeir sitja því fastir í eigin eymd og er fyrirmunað að sjá leiðina út.

Allt of margir Íslendingar eru heilaþvegnir með hægristefnu. Þetta er krónískur andlegur sjúkdómur sem sem sést best á því að þrátt fyrir að allir viti að almenningur hefur það mjög gott á hinum norðurlöndunum og að ástandið í BNA er miklu verra kjósa menn Sjálfstæðisflokkinn. Samt benda skoðanir þeirra til þess að þeir séu kratar.

Þó að auðmönnum og tekjuháum væri gert að greiða miklu hærri skatta er ekki um að ræða að hinir ríku gefi til fátækra. Það er miklu frekar að þeir séu að skila aftur því sem þeir fengu fyrir lítið vegna þess hvernig kerfið virkar. Hærri skattar á auðmenn og hátekjufólk eru því ekki aðeins sanngjarnir, þeir eru nauðsynlegir til að draga úr sífellt auknum og stórskaðlegum ójöfnuði.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.7.2017 kl. 20:02

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Þér finnst þú greinilega vera að eiga við sjúklinga. Um leið ertu búinn að setja þig í stól læknisins sem telur sig þekkja öll einkennin og lækninguna við þeim. 

Það er lítil von um að eiga málefnalega umræðu um hugmyndafræði á þessum forsendum. 

Geir Ágústsson, 30.7.2017 kl. 23:01

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Ef mönnum vantar eitthvað til að eyða 6 mínútum af lífi sínu í, og hafa eitthvað til að hugsa um í 10 sinnum lengri tíma, þá get ég mælt með þessu:

https://www.youtube.com/watch?v=6Q0PCDEJWek

Geir Ágústsson, 31.7.2017 kl. 00:07

17 identicon

Við getum allt eins leikið sama uppnefningarleikinn.

Hér er mín tilraun.

Vinstrimenn vilja hirða pening af mönnum sem þénuðu peninginn. Athugið að vinstrimenn gera aldrei greinarmun á því hvort að tiltekinn einstaklingur hafi þénað auð sinn heiðarlega í frjálsum viðskiptum við aðra, eða óheiðarlega t.d. í gegnum hlunnindi frá ríkisvaldinu. Það er aukaatriði. Það sem skiptir vinstrimanninn máli er ójöfnuður sem slíkur, sama hvernig hann varð til.

Semsagt: Vinstrimenn vilja hirða annarra manna pening - þeir seilast eftir auð sem þeir framleiddu ekki sjálfir. Svo uppnefna þeir aðra en sjálfa sig gráðuga sjúklinga sem hafa engan áhuga á öðru en peningum!

Menn hljóta að koma auga á veruleikafirringuna hér. Vinstristefnan er svo sannarlega sjúkdómur. Nú er ég ekki sálfræðingur, en mig grunar sterklega að þessi sjúkdómur byggir í grunninn á öfundsýki.

SR (IP-tala skráð) 31.7.2017 kl. 07:30

18 identicon

Geir, finnst þér það vera heilbrigðismerki að stór hluti þjóðarinnar greiðir atkvæði gegn eigin hagsmunum sem þeir þó eru meðvitaðir um og berjast fyrir að öðru leiti? Finnst þér það vera heilbrigðismerki að ríkisstjórnin vinnur gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar?

SR, ef undan er skilinn sá litli hluti þjóðarinnar sem hefur gífurlega háar tekjur oft án þess að hafa neitt fyrir því, þá hugsa ég að vinstri menn séu tekjuhærri en hægri menn. Allavega eru þeir að meðaltali mun betur menntaðir. Fastafylgi Sjálfstæðisflokksins samanstendur að miklu leyti af kjánum á lágum launum.

Þetta snýst því ekki um að ákveðinn hópur vilji fá annarra manna fé til sín. Þetta snýst um réttlæti, öryggi fyrir íbúana og gott þjóðfélag. Þetta snýst um að vinna gegn veikleikum þjóðfélagsins sem, ef ekkert er að gert, valda því að fé streymir viðstöðulaust til fáeinna aðila með skelfilegum afleiðingum fyrir marga aðra.

Hægrimennska snýst um að frumskógarlögmálið eigi að fá að ríkja og magnast upp. Vinstrimennska snýst um að greina veikleika kerfisins og vinna gegn þeim til að fá betra þjóðfélag. Norðurlöndin eru gott dæmi um að þetta er stefna sem virkar. Bandaríkin eru hins vegar gott dæmi um hið gagnstæða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.7.2017 kl. 10:26

19 Smámynd: Geir Ágústsson

Mikill er kærleikur vinstrimanna, að vilja ríkisvald sem féflettir þá sjálfa (þessa vel menntuðu, tekjuháu vinstrimenn) og afhenta peninganna til kjánanna á botni tekjustigans (ómenntuðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins).

Geta vinstrimennirnir með háu tekjurnar ekki bara sjálfir sent sína eigin peninga til annarra án ríkisvaldsins í miðjunni?

Æi nei, það gera þeir ekki:

https://www.bloomberg.com/news/articles/2017-07-06/-voluntary-tax-plan-as-expected-fails-miserably-in-norway

Annars skal það enn og aftur ítrekað að örfáir ríkisbubbar geta ekki staðið undir útgjöldum ríkisins. Fjárfrekt ríkisvald bitnar alltaf mest á miðstéttinni og ýmist dregur úr henni þrótt eða kemur í veg fyrir að fólk geti unnið sig upp í miðstétt. 

Geir Ágústsson, 31.7.2017 kl. 17:52

20 identicon

Hér má sjá afleiðingar frjálshyggjunnar:

http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2017/08/01/otrulega-orettlatt-samfelag/

Því miður stefnir í þessa hátt hér á landi þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Það virðist stutt í að heilbrigt og vinnufært fólk lendi á götunni.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.8.2017 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband