Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Fréttamenn: Hvað liggur að baki þessum tölum?

Ekki er hægt að treysta tölum um atvinnuleysi og á það bæði við um Ísland og raunar flest ríki. Atvinnuleysi er erfitt vandamál fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn. Þeir kæfa hagkerfið með ríkisvaldinu og uppskera atkvæði, en niðurstaðan er atvinnuleysi og það dregur af þeim atkvæði. 

Ríkisstjórnir geta valið á milli margra aðferða til að fegra tölur um atvinnuleysi. Ein vinsæl aðferð er sú að sópa atvinnulausum á allskyns námskeið. Þannig hverfa þeir tímabundið af skrá yfir atvinnulausa. Önnur leið er sú að borga fyrirtækjum til að hafa fólk í vinnu við eitthvað annað en að skapa verðmæti. Enn ein leið er einfaldlega sú að telja á annan hátt: Telja ekki þá sem eru í hlutastarfi en vilja fullt starf, telja ekki þá með sem þiggja ekki atvinnuleysisbætur en vilja samt finna vinnu, telja ekki þá með sem eru með tímabundin störf, telja ekki þá með sem fara skyndilega af atvinnuleysisbótum og á örorkubætur þótt andleg eða líkamleg geta viðkomandi sé óbreytt, og svona mætti áfram telja.

Nú vil ég ekki ásaka íslensk yfirvöld um að ljúga vísvitandi. Þau apa auðvitað bara vitleysuna eftir öðrum ríkjum. Hins vegar sýna rannsóknir á tölfræði atvinnuleysis víða að tölum ber að taka með góðum fyrirvara [Bandaríkin|Svíþjóð|Bretland]. Svo já, gerum það.


mbl.is Dregur úr langtímaatvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi: Á innleið eða útleið?

Hvort tiltekið land er á leið inn í sósíalisma eða út úr sósíalisma er yfirleitt ekki mjög plássfrekt í umræðunni. Yfirleitt er talað um að tiltekið land sé núna ýmist sósíalískt eða kapítalískt eða eitthvað þar á milli. Hvað er Svíþjóð til dæmis? Er hún ekki frekar sósíalísk? Hvað með Ísland? Er ekki ríkur pilsfaldakapítalismi við lýði og hefur alla tíð verið?

Menn hafa smíðað ýmsar vísitölur, t.d. svokallaðar vísitölur efnahagslegs frelsis, og bera þar saman lönd á milli ára til að sjá hvert þau stefna. Þessar vísitölur eru samt umdeildar. Sósíalistum finnst ósanngjarnt að tengja saman svigrúm einstaklinga og fyrirtækja til að stunda viðskipti við lífskjör almennings í viðkomandi landi. Mörgum frjálshyggjumönnum finnst talnaleikfimin hreinlega vera óþörf: Hagfræðin getur sagt fyrir um þróun lífskjara án þess að safna gögnum.

Ég sting því hérna upp á einfaldari mælikvarða til að sjá hvort land er á leið inn í sósíalisma eða út úr honum: Viðhorfinu til erlendra fjárfestinga.

Dæmi: Á Íslandi er núna stefnt að því að henda útlendingum út af sjálfum fasteignamarkaðinum eða a.m.k. loka á hann fyrir útlendingum. Það er stefna í sósíalíska átt. Ísland er að verða meira og meira sósíalískt.

Dæmi: Í Venesúela er verið að henda erlendum fyrirtækjum úr landi eða þjóðnýta þau (að hluta eða í heild). Það er land á leið í dýpri og dýpri sósíalisma.

Dæmi: Í Kína er núna verið að opna meira og meira á fjárfestingar alþjóðlegra olíufélaga í leit að og vinnslu á náttúruauðlindum landsins. Kína er því að kasta af sér viðjum sósíalismans, þótt sumum finnist það ganga hægt.  

Dæmi: Í Svíþjóð hafa menn haldið sig frá skuldasöfnun á meðan kreppan geisaði yfir landið og lækka núna skatta. Að mér vitandi hafa Svíar í engu látið tortryggni í garð útlenskra fjárfestinga angra sál sína og þar eru raunar einhverjar bestu aðstæður í heimi fyrir útlendinga að fjárfesta. Þar eru menn því á leið frá sósíalisma.

Ísland og Venesúela eru því að stefna í sömu átt þótt löndin séu komin mislangt á leið sinni að drottnun ríkisvaldsins yfir öllum og öllu. Kína og Svíþjóð eru að vinda ofan af sínum sósíalisma. 


Ríkisstjórnin: Icesave-stjórnin?

Ríkisstjórnir á Íslandi fá oft nöfn, t.d. Viðeyjarstjórnin. Þetta eru auðvitað ekki "opinber" nöfn, en þau nöfn sem fólk notar sín á milli til að ræða ákveðnar ríkisstjórnir án hættu á ruglingi.

Núverandi ríkisstjórn hefur sjálf reynt að kalla sig norræna velferðarstjórn. Betra nafn er samt sennilega Icesave-stjórnin. Þetta nafn minnir okkur á svo mörg af afrekum ríkisstjórnarinnar, til dæmis:

 

  • Tilraun hennar til að klína skuldbindingum einkaaðila á íslenska skattgreiðendur án þess að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum (hvernig hefðu þorskastríðin svokölluðu farið ef sama viðhorf hefði ráðið ríkjum þá?)
  • Algjörlega misheppnaða endurreisn hagkerfisins, þar sem skuldugir Íslendingar voru t.d. afhentir erlendum vogunarsjóðum, verðbólgubálinu var haldið gangandi auk verðtryggingarinnar, höft sett á val einstaklinga og fyrirtækja á viðskiptum með peninga, og svona mætti lengi telja.
  • Ofurtrú íslensku ríkisstjórnarinnar á áliti "erlendra sérfræðinga" sem um leið voru á launaskrá hjá sömu ríkisstjórn.

 

Að vísu minnir þetta nafn, Icesave-stjórnin, eitthvað minna á afrek eins og aðförina að sjávarútvegnum, lokun landsbyggðarsjúkrahúsa á meðan tónlistarhöll er reist fyrir reykvísku elítuna, og endalausan söng um að hallarekstur ríkissjóðs árið 2012 sé ríkisstjórn frá árinu 2008 að kenna. Kannski ætti frekar að kalla ríkisstjórnina Ábyrgðarflótta-stjórnina, Ekkiméraðkenna-stjórnina, Síminnkandi-stjórnina eða Lofasvíka-stjórnina.

En mér líkar ágætlega við heitið Icesave-stjórnin. 


Fyrsta verk: Lesa Hagfræði í hnotskurn

Starfsmenn hjá hinu opinbera eru snillingar í að búa til vinnu handa sjálfum sér.

Nú er búið að stofna nefnd ("samráðsvettvangur") sem á t.d. að "[m]óta heildstætt og óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika."

Ég legg til að fyrsta verk þessarar nefndar verði að lesa tvær bækur eftir mann að nafni Henry Hazlitt.

Sú fyrri er til í íslenskri þýðingu og heitir Hagfræði í hnotskurn.  Hún er ekki löng en fyrir flesta er hún sennilega gríðarlega fræðandi. Ef óskað er eftir "frekari gögnum" um niðurstöður bókarinnar er af nægu að taka. 

Sú síðar heitir Man vs. The Welfare State og lýsir í knöppu máli afleiðingum þess að leyfa velferðarkerfinu að blása út.  Mér er sérstaklega minnisstæður kaflinn um Suður-Ameríkuríkið Uruguay, en þar var velferðarkerfinu leyft að ganga alla leið og drepa hagkerfið með öllu. Ríkt land varð fátækt. Vinnusamir íbúar landsins lögðust á ríkisspenann. Ríkidæmi varð að fátækt. 

Sjálfsagt ætlar hin nýja nefnd að framleiða stóra og flotta skýrslu sem mælir með öllu því sem skiptir engu máli en leggur enga áherslu á það sem skiptir raunverulegu máli. Ég vona samt að nefndin sýni hógværð og játi að allt sem er þarf til að stuðla að "langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika" er vel þekkt og mæli einfaldlega með því að setja í verk stórkostlegan niðurskurð hjá hinu opinbera, gríðarlega grisjun á reglugerðafrumskóginum og algjöran aðskilnað ríkisvalds og hagkerfis, þ.e. ríkisreksturs og peningaútgáfu. 


mbl.is Samráðsvettvangur eftir skýrslu McKinsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Doktoraverðbólgan

„Íslenskt atvinnulíf nýtur góðs af mannauði og kröftum fólks með doktorsmenntun, enda myndar það grunninn að því rannsókna- og þróunarstarfi sem fram fer á Íslandi og eykur um leið verðmætasköpun og nýsköpun í landinu,“ segir í tilkynningu frá Rannís. 

Neðar í sömu frétt: 

Flestir stunduðu doktorsnám í félagsvísindum, eða um 150 manns og þar af rúmlega 100 konur. Þar á eftir eru flestir í námi í raunvísindum og heilbrigðisvísindum en talsvert færri í hugvísindum og verkfræði. Konur eru rúmlega þrír fjórðu hluti þeirra sem stunda doktorsnám á heilbrigðissviði. 

Sérðu mótsögnina? 


mbl.is Aldrei fleiri doktorar útskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðreynd dagsins: Í Danmörku er nær engin raforka frá vindmyllum

Þetta vita fáir: Nánast ekkert af þeirri raforku sem er notuð í Danmörku kemur frá vindmyllum.

Samt eru fleiri vindmyllur hlutfallslega í Danmörku en í nokkru öðru landi í heimi, og Danir hafa mokað fé skattgreiðenda í þróun og smíði þeirra í mörg ár.

Danir eru raunar orðnir mjög þreyttir á að horfa á vindmyllur og niðurgreiða uppsetningu þeirra.

Bretar ætla að apa vindmylluvitleysuna upp eftir Dönum og Þjóðverjar eru búnir að rústa sínu raforkuframleiðslu- og dreifikerfi með því að veðja á vindmyllur.  


mbl.is Fyrstu vindmyllurnar til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar, en eitt skref í einu

Olíu er að finna á ótrúlegustu stöðum. Þökk sé tækniþróun og mikilli fjárfestingu stærstu olíuvinnslufyrirtækja heims er hægt að bora á dýpra og dýpra vatni, og lengra og lengra undir yfirborð jarðar, og í raun fyrirséð að enginn skortur verði á jarðefnaeldsneyti næstu áratugina, hvað sem líður spám um annað. Olíuvinnsla er nú stunduð á um 2,5 km vatnsdýpi og stefnan er víða sett á vinnslu á ennþá meira dýpi. Sjálfar borholurnar teygja sífellt lengra niður undir jarðskorpuna og í gegnum erfiðari og erfiðari jarðlög undir meiri og meiri þrýstingi og hita.

Mér er málið örlítið skylt sem starfsmaður fyrirtækis sem framleiðir varning fyrir svona sjávarvinnslu á olíu og gasi.  

Ekkert er öruggt í þessum heimi. Norðmenn hafa gatað botn Norðursjávar í fleiri áratugi og kortlagt jarðlögin í bak og fyrir, en samt tekst þeim reglulega að bora "þurrt", þ.e. bora án þess að rekast á olíu. Áhættan er mikil. Ég geng jafnvel svo langt að segja að stærsta áhættan við olíuvinnslu á íslensku landgrunni sé íslensk stjórnmál. Á einum degi gæti íslenskum stjórnmálamönnum dottið í hug að henda öllum lögum og reglum og skattprósentum út um gluggann og "semja" upp á nýtt. Þessu hafa íslensk iðnfyrirtæki þurft að kynnast. Í Noregi og víðar er mikil áhersla lögð á stöðug starfsskilyrði olíuvinnslunnar og fyrirfram þekkta opinbera álagningu. Fjárfestar í olíuleit og -vinnslu á Íslandi eru hugrakkar sálir sem eru vonandi með góða lögfræðinga á sínum snærum ef stjórnvöld ætla sér að svíkja alla samninga. 

Ég hlakka til að fylgjast með framvindu hins íslenska olíu"ævintýris". Sem verkfræðingur í "bransanum" eru allar mínar taugar þandar af spenningi. Sem áhugamaður um stjórnmál óttast ég hið versta fyrir hönd íslenskrar olíuvinnslu, sem er ekki fyrr búin að fá starfsleyfi fyrr en stjórnmálamenn byrja að draga í land.  


mbl.is 80% styðja olíuvinnslu á Drekasvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok sparperanna?

Yfir 140 lönd hafa lagt blessun sína yfir lagalega bindandi samning um kvikasilfur, en tilgangurinn er að draga úr magni kvikasilfurs í umhverfinu.

Einmitt það já.

Á öðrum stað segir:

 Evrópusambandið hefur bannað hefðbundnar ljósaperur í því skyni að draga úr losun koltvíildis (CO2) í andrúmsloftið og vinna þannig gegn gróðurhúsaáhrifum. Reglugerð sem kveður á um bann við gló- og halógenperum tók gildi árið 2009 en ákveðið var að innleiðing bannsins kæmi til framkvæmda í sex áföngum á tímabilinu 2009-2016.

Ef gló- og halógenperur eru komnar á bannlistann, hvað má þá nota í staðinn? Svar: Sparperur. Um þær segir á einum stað:

 Vegna kvikasilfursinnihalds í sparperum er því nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri til almennings:

 Sparperum má alls ekki henda með venjulegu sorpi heldur þarf að skila þeim til endurvinnslustöðva sem ber að sjá um að farga þeim á réttan hátt endurgjaldslaust.

 ...

 Á markaði eru einnig orkusparandi ljósaperur sem innihalda ekki kvikasilfur, svonefndar ljósdíóður eða LED-perur. 

"Endurgjaldslaust" þýðir: Á kostnað þín, sem skattgreiðanda, en ekki þín sem kaupanda sparpera.

LED-perur eru rándýrar.

Í stuttu máli: Kvikasilfur er aftur byrjað að streyma inn á heimilin okkar, en í stað þess að vera í batteríunum okkar er það nú komið í ljósaperurnar. 


mbl.is Dregið úr losun kvikasilfurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnulausir með doktorsgráðu

Þeir sem eru bæði atvinnulausir og með doktorsgráðu eru hratt vaxandi hópur, ekki bara á Íslandi heldur mun víðar þar sem ríkisvaldið hamast við að rúlla sem flestum í gegnum háskóla.

Ríkisvaldið hvetur fólk til að steypa sér í neysluskuldir (oft kallaðar "námslán" þótt ríkið niðurgreiði líka skólagjöld niður í brot af raunverulegum kostnaði). Ríkisvaldið hvetur fólk til að "fara í háskóla" og setur pressu á háskólana að búa til allskonar nám til að geta hleypt sem flestum að.

Í Bandaríkjunum flytja 85% útskrifaðra aftur heim til mömmu og pabba enda enga atvinnu að fá fyrir þá sem nýtast ekki atvinnulífinu eða útskrifast inn í hagkerfi sem ríkisvaldið er búið að lama. Þar mokar hið opinbera niðurgreiddum lánum ofan í vasa nemenda, sem nota þau til að borga skólagjöld, sem hafa hækkað stórkostlega síðan ríkið fór að lána nemendum af myndarbrag. Svokölluð menntaverðbólga.

Í Evrópu kosta háskólar sífellt hærri fjárhæðir í skiptum fyrir fleiri og fleiri gagnslausar gráður.

Á Íslandi á núna að gera fleiri og fleiri atvinnulausa að sprenglærðum eitthvað-fræðingum sem geta ekkert sem eftirspurn er eftir.

Frábært.  


mbl.is Fyrsta skref í að hækka menntunarstig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi getur virkað ef...

Þeir eru til sem telja að sósíalismi geti gengið upp. Þeir eru ennþá til sem trúa því að sósíalisma megi koma á án þess að brytja niður stóran hluta af samfélaginu ofan í fjöldagröf. 

Yfirleitt skjátlast þessu fólki. Bæði rök og saga tala einu máli: Sósíalismi er stefna harðræðis, blóðsúthellinga, hungurs, volæðis og varanlegrar fátæktar fram að hruni kerfisins, sem er óumflýjanlegt.

En það er von fyrir sósíalista sem vilja ekki fjöldamorð og aftökur á öllum sem eru ekki sammála þeim: Frjáls markaður!

Sósíalismi getur nefnilega gengið upp efnahagslega ef hann getur stuðst við verðmyndun á frjálsum markaði. Sósíalismi er þannig úr garði gerður að hann reikar stefnulaus um í efnahagslegu myrkri miðstýringar, en ef hann er bara eyland innan hins frjálsa markaðar þá getur hann apað eftir verðlagi hins frjálsa markaðar og þannig komist af efnahagslega. Þeir sem vilja ekki flýja sósíalismann gætu þá nokkurn veginn stundað framleiðslu og fínstillt athafnir sínar án þess að myrða samborgara sína og sólunda öllum takmörkuðu gæðum sínum (frá vinnuafli til hráefna í jörðu).

Sósíalistar: Það er von! Hún heitir: Frjáls markaður! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband