Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Gjafir í boði þess sem þiggur

Aukin fjárútlát í formi styrkja til nemenda þýða hærri skatta þegar námsmenn ljúka námi.

Námsstyrkir eru því tilfærsla á fé frá námsmönnum snemma á lífsleiðinni til námsmanna síðar á lífsleiðinni - þegar lífsbaráttan hefst fyrir alvöru með húsnæðiskaupum, heimilisrekstri og öðru sem fylgir því að halda sér á floti í lífsbaráttunni.

Væri ekki nær að synda í hina áttina og lækka tekjuskatta og um leið fjárútlát til heilbrigðs fólks sem er að sækja sér menntun til að geta gert eitthvað skemmtilegt á ævinni?

Væri ekki nær að lækka skatta á þá sem eru að reyna láta enda ná saman á launatekjum sínum? Þá sem hafa ekki sótt sér menntun og vinna láglaunastörf? Af hverju á að hækka skatta á láglaunafólk til að námsmenn í langskólanámi - læknanir, verkfræðingarnir og aðrir - geti haft það náðugt frá vöggu til grafar?

Er elítuhyllin ekki komin aðeins of langt?

Auðvitað eru til námsmenn sem eiga lítið á milli handanna og berjast við að halda sér í námi. Ég hygg samt að þetta séu undantekningatilvik sem má alveg aðstoða á annan hátt en að flytja fé úr vösum lágtekjufólks í vasa verðandi hátekjufólks. 


mbl.is Námsmenn fái þrjár milljónir í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrautfjöður eða broddur

Ef Guðni Th. Jóhannesson verður forseti Íslands er ljóst að embættið mun taka miklum breytingum frá tíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Í stað manns sem er að enda sinn feril og er óhræddur við að taka umdeildar ákvarðanir kemur nokkuð ungur maður á uppleið - maður sem virðist vilja forðast með öllu að troða á tær af ótta við að orð hans verða tekin úr samhengi, hann verði misskilinn eða að hann hljóti gagnrýni fyrir.

Þetta er ekkert endilega slæmt. Svona voru meira og minna allir aðrir forsetar Íslands. Við snúum aftur til tíma þar sem forsetinn er fyrst og fremst skrautfjöður sem á að koma vel fyrir og mun vafalaust gera það. 

Um leið missum við broddinn af embættinu hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ólafur Ragnar Grímsson beit gjarnan frá sér. Hann beit í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þegar hann hafnaði fjölmiðlalögunum svokölluðu á sínum tíma. Hann beit í fráfarandi ríkisstjórn í Iceave-málinu. 

Með þessu er ég ekki endilega að leggja til að þeir sem vilja að embættið haldi broddi sínum kjósi Davíð Oddsson, þótt óneitanlega sé hann líka beittur og að sama skapi maður á enda ferils síns sem yrði óhræddur við að taka sjálfstæðar og jafnvel umdeildar ákvarðanir. Menn geta sleppt því að kjósa eða skilað auðu.

Spurningin er sem sagt: Ætla menn að hafa þægan forseta sem heldur sig til hlés í erfiðum málum, eða mann sem getur bitið frá sér?

Kjósendur gera þetta væntanlega upp við sig án minnar aðstoðar.


mbl.is Guðni með rúmlega 60% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennslubókardæmi sem ekki er kennt

Ástandið í Vensúela núna er fyrirsjáanlegt og óumflýjanlegt og á ekki að koma neinum á óvart. Venesúela er kennslubókardæmi um afleiðingar sósíalisma. Gallinn er sá að þetta kennslubókardæmi er lítið kennt.

Alveg þar til undir það allra síðasta voru vinstrimenn um allan heim að lofa yfirvöld í Venesúela fyrir ástandið þar í landi. Menn hafa jafnvel leyft sér að kalla Vensúela fyrirmynd fyrir önnur ríki. Þó var Vensúela ekki á annarri vegferð en mörg af fátækustu ríkjum heims hafa verið á um árabil, t.d. mörg þeirra sunnan Sahara. 

Þau ætla seint að læra hagfræði sem vit er í, þessum Suður-Ameríkuríkjum. Alltaf skal fjöldinn elta þann sem lofar mest. Margir Vesturlandabúar sem borða kapítalíska köku til að skíta sósíalískum skít gera svo illt verra með því að styðja við bakið á þeim sem syngja söngvana þeirra. Verst að nú vantar klósettpappírinn í Venesúela til að hreinsa upp þann skít. 


mbl.is 450% verðbólga í Venesúela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víkingar í ofsaveðri

Veðurfar víða um heim fer nú að líkjast því og mannkynið bjó við á tímum víkinganna. Kartöflur og rófur voru ræktaðar á Grænlandi og þar var hægt að stunda sauðfjárbúskap. Korn var ræktað víða um land á Íslandi. Um 1000 árum fyrr ræktuðu Rómverjar vín á Englandi og allar menningarþjóðir heims upplifðu gullöld. 

Þetta voru víst alveg voðalegir tímar. Torfbæirnir hljóta að hafa þolað vindkviður í fellibylsstyrk. Víkingaskipin hljóta að hafa þurft að brjótast í gegnum gríðarlegar öldur. Vínekrur Englands á tímum Rómverja hafa verið alveg sérstaklega sterkbyggðar.

Eða hvað?

Þeir sem tala um núverandi breytingar á loftslagi og hörmungar þeirra þurfa að fara passa sig. Heimsendaspár þeirra hafa nú dunið á okkur í ansi mörg ár og jafnvel áratugi. Strákurinn sem kallaði úlfur, úlfur var hunsaður eftir tvær falskar tilkynningar. Hvað eiga heimsendaspárnar að dynja oft á okkur þar til þær fá ekki langa og ítarlega umfjöllun í fjölmiðlunum lengur?

Þess má nú samt geta að auðvitað er allt í lagi að vera á varðbergi. Búist maður við stærri öldum þarf hann að styrkja flóðgarða sína. Búist hann við hvassari vindkviðum þarf hann að festa þakið betur. Sá sem vill halda aftur af mengun þarf að krefjast þess fyrir dómstólum að þeir verji eignir hans fyrir neikvæðum áhrifum af iðju annarra. 

Stjórnmálamenn hafa engu hlutverki að gegna hér. Þeir eiga hvorki að beita ríkisvaldinu til að skipta sér af né fjármagna einhliða vísindaáróður sem á að renna fræðilegum stoðum undir umsvifamikið ríkisvald.

Loks má auðvitað benda á að besta vörnin gegn öfgaveðrum er gott hús. Hverjir hafa efni á góðu húsi? Nú þeir sem eru efnaðir. Hverjir eru efnaðir? Þeir sem geta framleitt verðmæti. Hverjir geta það? Þeir sem búa við tryggan eignarétt, fyrirsjáanlegt ríkisvald og greiðan aðgang að heimsmarkaðinum.


mbl.is Öfgaveðurtilfellum mun fjölga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tungumál tala allir flugmenn?

Í fréttum er nú sagt frá því að seinkanir verði á "öllum ferðum Icelandair til Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada í dag vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra".

Ef ég færi í yfirvinnubann væri búið að reka mig á nokkrum vikum.

Á móti kemur að ef ég yrði þvingaður til að vinna yfirvinnu gegn vilja mínum myndi ég segja upp.

Svona lagað á að vera samkomulagsatriði milli einstaka starfsmanna og yfirmanna þeirra.

Nú getur auðvitað vel verið að allir flugumferðarstjórar séu búnir að ákveða að vinna ekki yfirvinnu og telja það vera sér til hagsbóta í kjarabaráttu. Með því að svipta atvinnurekanda sinn tekjum telja þeir að meira verði til ráðstöfunar í launaumslög þeirra sjálfra.

Það má samt spurja sig: Hvaða tungumál tala allir flugmenn heims sem fljúga á milli ríkja? Hvaða tungumál tala allir flugumferðarstjórar sem þjónusta þá?

Auðvitað tala allir ensku. Er þá einhver ástæða til að vera með íslenska flugumferðarstjóra? Má ekki bjóða þessa þjónustu út á alþjóðamarkaði?

Þeir sem vilja ekki vinna yfirvinnu geta þá setið heima og aðrir komið í þeirra stað.

Þetta er að mínu mati friðsæl lausn sem mjög margir aðilar á markaðinum nota. Nú sit ég t.d. í stól verkfræðings í Danmörku og þegar ég var ráðinn var danskan mín ekki upp á marga fiska. Ég var samkeppni við innlent vinnuafl - starfsmaður ákafur í að vinna yfirvinnu og gera sem mest (og er raunar enn). Dani sem vill ekki vinna yfirvinnu má alveg láta mig fá verkefnin sín. 

Bjóðum flugumferðarstjórn á Íslandi út sem fyrst og leyfum þeim sem vilja vinna yfirvinnu að gera það á meðan aðrir sofa lengur eða horfa á þætti úr sófanum heima hjá sér.


mbl.is Öllu Evrópu- og Bandaríkjaflugi seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræna módelið og það sovéska

Margir verða veikir í hnjánum þegar hið svokallaða norræna módel er nefnt, þ.e. blanda af opinberum rekstri og einkarekstri í einhverju.

Íslendingar eru duglegir að herma eftir frændum sínum á Norðurlöndum. Ef eitthvað er bannað í einhverju norrænu landi er það bannað á Íslandi. Ef eitthvað er ríkisrekið á einhverju hinna Norðurlandanna er það ríkisrekið á Íslandi. Hið sama gildir um niðurgreiðslur og þess háttar.

Þetta þýðir að Ísland er sennilega norrænast allra Norðurlandanna en verður þannig sovéskast þeirra allra. Sovéska módelið er oftar en ekki fyrirkomulagið sem Íslendingar taka upp á sína arma.

Á hinum Norðurlöndunum er starfsemi einkaaðila umborin miklu víðar en á Íslandi. Tökum nokkur dæmi:

Í Danmörku selja einkaaðilar áfengi til allt niður til 16 ára ungmenna. Í landinu er einnig ógrynni af einkareknum fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Atvinnuleysistryggingar eru í höndum og á ábyrgð einstaklinga sjálfra sem greiða sín eigin (skattfrádráttarbæru) iðgjöld til þar til gerðra tryggingafélaga. Allt ofannefnt er í höndum ríkisins á Íslandi. En Danir eru með umsvifamikið velferðarkerfi sem festir stóran hluta íbúanna í fátæktrargildru, t.d. með gjafmildum skilyrðum fyrir örorku, og það er fordæmið sem Íslendingar hafa tekið upp á sína arma. 

Í Svíþjóð og sérstaklega Stokkhólmi er að finna fjöldan allan af einkareknum skólum og fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Þar er til að mynda fullbúinn spítali í einkaeigu. Svíar geta víða valið á milli opinberra skóla og einkaskóla án þess að fá aukareikning. Í Svíþjóð má kaupa sér munntóbak löglega enda hafa Svíar lengi reykt mun minna en aðrar Evrópuþjóðir. Á Íslandi er allt ofannefnt í höndum ríkisins eða bannað með lögum. En Svíar setja áfengi í ríkisverslanir og herða aðgengi að því svo það hafa Íslendingar líka valið að gera. 

Í Noregi má einnig neyta hins sænska munntóbaks og þar er einnig að finna einkarekin fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. Bjór má kaupa í verslunum til kl. 20 á kvöldin. Ekkert ofannefnt gildir um Ísland. Norðmenn eru hins vegar duglegir að niðurgreiða gjaldþrota starfsgreinar úti á landi (sérstaklega sjávarútveginn sinn) og auðvitað skulu Íslendingar þá gera það sama (með landbúnaðinn sinn). 

Þegar þú tekur allt það strangasta, mest ríkisrekna og mest bannaða frá öllum Norðurlöndunum og raðar niður á Ísland er niðurstaðan ekki norræna módelið, heldur hið sovéska. 


mbl.is Hrifinn af norræna módelinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin opinbera einsleitni

Þeir eru margir sem vilja að hið opinbera sé svo gott sem eini aðilinn sem býður upp á menntun og barnagæslu. Sömu aðilar hafa allskyns skoðanir á því hvernig hið opinbera á að haga slíkum rekstri - hvað eigi að kenna hverjum og hvenær og þess háttar.

Um leið dynja miklar kröfur á hið opinbera úr ýmsum áttum. Oft eru þær mótsagnakenndar. Hvað er þá til ráða?

Sumir foreldrar vilja að börn sín læri um Jesú en aðrir um Allah. Sumir vilja að börnin borði eingöngu grænmetisfæði en aðrir vilja reglulegar kjötmáltíðir. Síðan er auðvitað hægt að láta leikskólana tala um hjónabönd samkynhneigðra við 4 ára börn eða sleppa því.

Þegar fólk snýr sér frá opinberum stofnunum og í átt að hinum frjálsa markaði blasir hins vegar allt önnur heimsmynd við því. Hérna eru allir sáttir við að geta labbað á milli verslana í samkeppnisrekstri og valið á milli þess dýra og ódýra, þess fjöldaframleidda og þess einstaka, þess einslita og þess skrautlega. Krafan er sú að fjölbreyttum óskum allra eigi að vera hægt að mæta í samkeppnisumhverfi einkaaðila. Ef allar verslanir tækju upp á því að selja nákvæmlega sömu tegund af svörtum sokkum væri fljótlega byrjað að tala um samráð, einokun og einsleitni og telja slíkt auðvitað vera ólíðandi.

Með öðrum orðum: Við heimtum einsleitni og sömu ramma og menntun fyrir öll börn allra en fjölbreytni, úrval og mismunandi áherslur fyrir okkur sjálf.

Í lokaverkefnum háskólanna er talað um að hitt og þetta vanti upp í öllum leikskólum og grunnskólum landsins, og að hið opinbera ætti að innleiða nýjar reglur fyrir allar stofnanir sem geyma börn á daginn. 

Einsleitni er krafist. Háværasta krafan hverju sinni á að gilda fyrir alla og gilda ofar óskum foreldranna sjálfra.

Þetta gengur auðvitað ekki upp. 

Væri ekki nær að boða einkavæðingu barnageymslunnar og reyna svo sem foreldri að hafa áhrif á nákvæmlega þá stofnun eða fyrirtæki sem hefur börn manns sjálfs til umráða á daginn? Svona eins og við gerum í fataverslunum, til dæmis. 

Væri það ekki friðsamlegri lausn en hin mótsagnakennda flóðbylgja kröfugerða á hið opinbera?


mbl.is Fræða ætti börn um ólík fjölskylduform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg samstaða í áríðandi máli

Alþingi sýnir mikil þroskamerki í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að afnema gjaldeyrishöftin á íslensku krónunni.

Alþingi hef­ur samþykkt frum­varp um af­l­andskrón­ur sem Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra lagði fram fyr­ir helgi.

Frum­varpið var samþykkt með 47 at­kvæðum. Sjö sátu hjá.

Þeir sem kusu gegn frumvarpinu voru einstaklingar eins og Katrín Jakobsdóttir og Birgitta Jónsdóttir, sem munu vera á móti öllum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem eru ekki aukin ríkisútgjöld eða ný höft eða skattar. 

Nú er að vona að ríkisstjórninni takist að klára þetta mál með öllu, helst fyrir haustið. Ef kosið er í haust og núverandi stjórnarandstöðuflokkum hleypt í ríkisstjórn verður þetta mál sett ofan í skúffu um langa framtíð. Það er engin einlæg ósk vinstrimanna að afnema nein höft á Íslandi því höft þýða völd í höndum hins opinbera. 

En munu þá ekki bara koma ný höft í staðinn? Kannski. Fráfarandi ríkisstjórn tókst að hækka skatta nálægt því 200 sinnum á einu kjörtímabili. Það er raunveruleg hætta á að vörugjöld snúi aftur sem og allir þeir tollar sem búið er að leggja af. 

Ríkisstjórnin hefur ekki gert mikið til að girða fyrir þetta og sýnir raunar slæmt fordæmi í mörgum málum, sérstaklega með hinum nýju búvörusamningum auk alltof hóflegra skattalækkana sem endurspegla alltof hægfara smækkun ríkisvaldsins. Hættan er skiljanlega og augljóslega sú að fólk sjái engan mun á ríkisstjórninni og vinstriflokkunum og verður það líklega hennar banabiti. Það er því þeim mun mikilvægara að klára afnám gjaldeyrishafta sem fyrst.  


mbl.is Frumvarp um aflandskrónur samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattalækkanir skila ávinningi jafnvel þótt vöruverð breytist ekki

Sumir hafa efast um að tollalækkanir hafi skilað sér "að fullu" til neytenda, t.d. afnám tolla á fatnaði og skóm. Menn skoða verðmiðana og bera þá saman við verðmiðana í hinu gamla umhverfi tollanna og draga ályktanir.

Gott og vel, aðhald er gott það ber að veita í hvívetna.

(Ekki er hægt að veita ríkisvaldinu aðhald nema á fjögurra ára fresti og þá varla nema að nafninu til svo þar geta menn sparað orkuna.)

En verðlækkanir í kjölfar tollalækkana eru bara einn mögulegur ávinningur. Aðrir eru til og það mætti jafnvel hugsa sér að þótt verðlækkanir yrðu engar þá væri samt ávinningur af skattalækkunum.

Segjum að ríkið afnemi 10% toll og verðlag helst óbreytt. Hvað er að gerast? Verslanir eru að taka meira af söluandvirðinu. Þær geta e.t.v. hækkað laun og krækt í betri starfsmenn úr öðrum greinum sem um leið fá meira á milli handanna. Þjónusta batnar og jafnvel skilvirkni.

Ef hagnaður í verslun eykst þá dregur það að fjárfesta í samkeppnisrekstur, jafnvel erlendar verslunarkeðjur sem bjóða upp á betra verð eða meira úrval eða betri gæði. Hugsanlega fá innlendir framleiðendur möguleika á að standa undir sér í hinu nýja og hærra verðlagi og skapa störf og tækifæri. Er allt þetta ekki ávinningur fyrir neytendur, a.m.k. til lengri tíma?

Annar möguleiki er sá að skuldsettar verslanir haldi verðlagi óbreyttu til að greiða upp skuldir, sem er alltaf gott, eða lagfæra húsnæði sitt, sem kemur sér t.d. vel fyrir iðnaðarmenn. Skuldlausir verslunareigendur hirða hins vegar ágóðann af hinni auknu álagningu og safna í fé sem verður eytt í eitthvað annað, t.d. í fjárfestingar eða neyslu sem kemur sér vel fyrir þá sem versla við þá. 

Enn einn möguleiki er sá að verslunareigendur haldi verðlagi óbreyttu til að hækka laun starfsmanna sinna og halda þeim frá því að vinna fyrir aðra. Sömu starfsmenn fá þá meira á milli handanna til að eyða sjálfir í allskyns vöru og þjónustu.

Sama hvað gerist við afnám tolla eða skatta er eitt ljóst: Ríkisvaldið er að hirða minna af sjálfsaflafé landsmanna og það í sjálfu sér er gott. Nákvæmlega hvernig ávinningurinn kemur fram kemur bara í ljós, en betra er fé í höndum þeirra sem afla þess en hinna sem krefjast þess með valdi. Alltaf. 


mbl.is Skilaði neytendum 4% lægra verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Spurt er:

Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Hagfræðin lýsir þessu ágætlega.

Í fyrstu hækkar verð á eplum - fleiri vilja krækja í hlut af sömu uppskeru og var til staðar á hinni fyrri eftirspurn.

Hærra verð þýðir meiri hagnaður eplaframleiðenda. Þeir bregðast við með því að bæta við trjám. Samkeppnisaðilar, t.d. peruræktendur, sjá hinn aukna hagnað á markaði epla og hefja sína eigin eplarækt. 

Hið aukna framboð í umhverfi sömu eftirspurnar þrýstir verðinu aftur niður. Jafnvægi næst á ný. Hagnaður eplaframleiðenda verður sá sami og í flestum öðrum greinum og fjárfestar í leit að nýjum tækifærum líta á aðra markaði.

Af einhverjum ástæðum virðast lögmál hagfræðinnar ekki eiga við um húsnæði í Reykjavík. Ástæðan er ekki sú að fjárfestar eru sofandi á verðinum og hættir að leita að heppilegri ávöxtun fyrir fé sitt. Ástæðan er ekki sú að menn hafi ekki trú á að hin aukna eftirspurn endist.

Ástæðan er einfaldlega sú að hið opinbera setur markaðinum stólinn fyrir dyrnar og meinar honum, beint eða óbeint, að auka við framboð þar sem eftirspurn er mikil.

Ástæðan er ekki sú að Airbnb hefur hafið innreið sína á Íslandi. Án Airbnb væri bara búið að finna aðrar leiðir til að hagnast á vel borgandi ferðamönnum sem vilja búa í póstnúmerum 101 og 105 í Reykjavík.

Hið opinbera er að sá eitri í jörð þar sem annars væri hægt að rækta eplatré. 


mbl.is Airbnb og lítið framboð hækkar verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband