Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Endalok stjórnmálanna?

Sem gestur á Íslandi get ég varla orða bundist yfir mörgu sem ég verð vitni að þegar ég heimsæki landið og fylgist með fjölmiðlum í návígi og umræðunni almennt.

Íslensk stjórnmál vantar allt sem heitir hugsjónir. Það er alveg á hreinu. Stjórnmálaflokkar lenda hreinlega í vandræðum ef þeir gera tilraun til að framfylgja eigin stefnu. Augljóst er auðvitað afturköllun á umsókn Íslands í ESB. Það er stefna beggja ríkisstjórnarflokkanna og samt tókst að koma ríkisstjórninni í vörn í málinu. 

Hugsjónir skipta sem sagt engu máli og eru frekar til vandræða en hitt að láta stefnuna breytast með vindáttinni.

Íslenskur almenningur er líka algjörlega mótstöðulaus þegar stjórnmálamenn fara af stað. Þá má t.d. blóðmjólka í skatta til að reka allskyns opinbera þjónustu, en um leið má rukka þá ef þeir ætla sér að nýta þá opinberu þjónustu. Danir, svo dæmi sé tekið, tækju aldrei í mál að skattarnir himinháu væru ekki nóg gjaldtaka fyrir hinn opinbera rekstur. Íslendingar hins vegar láta rukka sig um allskonar komugjöld, innritunargjöld og hvaðeina ofan á skattheimtuna himinháu.

Íslenskir blaðamenn þjást líka af mjög hlutdrægu gullfiskaminni. Þeir muna ekkert af loforðum vinstrimannanna og umbera hvað sem er úr þeirri átt, en virðast hafa allar tilvitnanir á hreinu ef einhver hægramegin við miðju opnar á sér munninn. Auðvitað eiga allir að venja sig á að segja satt og lofa í hófi en meðferðin á loforðasvikunum er svo einhliða að maður trúir því varla. Enda rekur hið opinbera fréttastofu og nokkrar útsendingarstöðvar til að koma skoðunum vinstrimanna á framfæri, og vinstrimenn eiga að auki nokkra aðra fjölmiðla til að taka þátt í kórsöngnum frá vinstri.

Framtíðarsýn skortir líka víða. Menn lifa í núinu. Götur Reykjavíkur eru í klessu og viðhald á borginni í molum. Það er áríðandi skammtímavandamál sem varð til vegna skorts á langtímahugsun. Umferð borgarinnar er aðþrengd og jafnvel beint inn í íbúðarhverfi til að fela troðninginn á stærstu gatnamótunum. 

Til að toppa allt er grínisti nú orðaður við forsetastól og jafnvel stól forsætisráðherra eftir að hafa staðið sig hræðilega illa sem borgarstjóri. Einhvern tímann hefði þurft að standa sig vel í starfi til að fá stöðuhækkun. Nú er því snúið á haus.

Nú hljóma ég sennilega neikvæður og fúll á móti, en ég get ekki orða bundist. Íslendingar verða að fara spyrna við fótum, kalla eftir hugsjónafólki með þor og koma hinu opinbera á bak við girðingu aga í fjármálum og forgangsröðun. Annars verður illt verra. 


mbl.is Jón Gnarr líklegur forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höft eru völd

Hið opinbera þrífst á allskyns boðum og bönnum og auðvitað höftum líka. Höftum fylgja oft mikil umsýsla. Undanþágur þarf að meðhöndla. Vinna þarf úr umsóknum vegna þeirra. Úrskurði þarf að gefa út. Reglum þarf að framfylgja. Refsingum fyrir brot þarf að deila út. Allt þetta krefst starfsmanna sem eru með yfirmenn. Þetta þýðir þörf fyrir fjármagn úr ríkissjóði. Þess þarf að afla með sköttum og lántökum. Ofan á öllu þessu kerfi sitja þing- og embættismenn og baða sig í sviðsljósinu. Þeir eru mjög uppteknir við að halda öllu þessu kerfi í gangi. Það finnst þeim gott.

Af þessu leiðir að höft sem sett eru á er mjög erfitt að afnema aftur. Höftin búa til lífæðar fyrir stórar hjarðir opinberra starfsmanna og það er erfitt að skera á þær án þess að uppskera hávær mótmæli frá þeim sem missa spena á ríkisgyltunni úr munni sínum. Skattgreiðendur borga hver og einn e.t.v. ekki mikið fyrir uppihaldið á þessum opinberu starfsmönnum, og finna lítið fyrir hinum auknu útgjöldum, en hver og einn gríslingur finnur mjög áþreifanlega fyrir því ef straumur verðmæta í munn hans er stöðvaður. 

Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar vilja koma ríkisvaldinu úr iðnaði hafta, eftirlits og afskiptasemi ættu þeir að hugleiða að leggja niður Seðlabanka Íslands og koma ríkisvaldinu alveg út úr framleiðslu peninga. En það vilja þeir að vísu ekki. 


mbl.is Gjaldeyrishöftum aflétt innan tveggja ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar gegn verslunarfrelsi! Hvað næst?

Læknafélag Íslands telur það ekki vera nein sérstök rök að einhver breyting frá núverandi fyrirkomulagi auki verslunarfrelsi á Íslandi. Gott og vel. Þeir eru þá á móti auknu verslunarfrelsi.

Það er ótrúlegt hvað svona lítið og sjálfsagt mál hefur fengið mikla athygli. Í stað þess að hafa runnið mótstöðulaust í gegnum þingið hefur heill her manna eytt ógrynni klukkustunda í að greina, rýna, ræða og rífast yfir þessu saklausa máli. Í stað þess að Íslendingar taki t.d. Dani og Þjóðverja sér til fyrirmyndar er öllum aðferðum breytt til að viðhalda markaðsstöðu smyglara og heimabruggara á Íslandi og það talið vera til bóta fyrir hinn almenna áfengisneytanda á Íslandi.

En úr því menn eru að fiska á eftir rökum fyrir auknu verslunarfrelsi, og telja aukið frelsi í sjálfu sér ekki vera eftirsóknarvert, þá eru hér nokkur:

- Kaupmaðurinn á horninu fær á ný möguleika á að standa sig í samkeppninni við stórmarkaðina (sem oftar en ekki deila bílastæði með ÁTVR).

- Ungt fólk sem jafnvel og að jafnaði er bíllaust sér fram á að geta keypt sér áfengi í næstu búð frekar en næsta landasala (sem er jafnvel með heimsendingarþjónustu innifalda í verðinu).

- Löglegt og hreint áfengi, með innihaldslýsingu og framleitt með einhvers konar gæðastjórnun að leiðarljósi, verður e.t.v. tekið fram fyrir landann sem var bruggaður í gömlu og skítugu baðkari.

- Áfengi missir aðeins glansinn sem stórhættulegur en um leið gríðarlega spennandi neysluvarningur sem fullorðnir innbyrða um leið og þeir þykjast geta bannað stálpuðum unglingum að gera það sama.

- Hugsanlega minnkar líka hátíðleikinn við að sækja sér áfengi fyrir helgina eða með þriðjudagspastanu þegar þessi innkaup eru ekki lengur þvinguð inn í sérstakar verslanir sem yfirleitt eru langt frá öllum heimahúsum.

- Hugsanlega minnkar líka hvatinn til að byrgja sig upp á meðan opnunartíminn leyfir og kaupa frekar lítið og oftar frekar en sjaldnar og mikið, og kannski mun það hafa áhrif á neysluvenjurnar.

- Hugsanlega - og ég meina bara hugsanlega - á fullorðið fólk sjálft að geta ráðið því hvernig það fer með eigin líkama. Að vísu þýðir það stundum að kostnaði vegna heilsubresta er velt yfir á aðra (líkt og þegar knattspyrnumaðurinn slítur liðbönd eða skokkarinn skemmir á sér hásinarnar), en slíku má breyta með því að einkavæða heilbrigðiskerfið, sem ég legg hér með til að sé gert.

Vona að læknar taki það svo ekki nærri sér þegar ég held því fram að þeir sjálfir geti trútt um talað að predika. Ég er nokkuð viss um að þeir troðfylli alltaf innkaupapokann í fríhöfninni af áfengi eftir fylleríið erlendis á lyfjaráðstefnunni þar sem var vodki í hverju púnsglasi. En þeir um það. 


mbl.is Læknar vilja ekki vín í verslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kampavínssósíalistar

Elítufemínistar eru sennilega tegund fólks náskyld kampavínssósíalistunum og limósínu-frjálslyndum. Mér lýst vel á alla viðleitni til að afhjúpa þessa sjálfumglöðu fílabeinsturnbúa. Þeir hafa alltof mikil áhrif og ítök og misnota til að hlaða undir eigin rassgöt á kostnað skattgreiðenda fyrst og fremst. 


mbl.is Elítufeministarnir skála í kampavíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfur, úlfur!

download (1)download (2)
downloadthebigfreezeTime MagazineTIME2

Time-Covers


mbl.is Tíminn að renna út fyrir aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni svarar fyrir sig - loksins

Ríkisstjórnin virðist ætla að svara fyrir sig í ESB-málinu. Það er gott. Ég hef saknað þess hér og á fleiri sviðum. Óttinn við hljóðnema ESB-fjölmiðlanna er óþarfur. 

Ég ætla samt að leyfa mér að hugga stjórnarandstöðuna svolítið, enda er hún greinilega svekkt yfir því að ríkisstjórnin skuli ekki berjast fyrir stefnumálum hennar.

Utanríkisráðherra fer með mikil völd samkvæmt stjórnarskrá. Hann getur sótt um aðild Íslands að ýmsu og dregið til baka umsóknir um slíkt, enda sé ekkert bundið í lög eða aðild ekki staðfest. Það er ekki rétt að hann þurfi að hafa á bak við sig þingsályktunartillögu eða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Næsta ríkisstjórn verður kannski mynduð af ESB-flokkum. Þeir geta jafnauðveldlega og núverandi ríkisstjórn breytt stöðu Íslands í viðræðum við ESB um aðild. Utanríkisráðherra fer einfaldlega með umboð ríkisstjórnar til Brussel og afhentir bréf. Alþingi þarf svo að veita fjárlagaheimildir fyrir útgjöldum vegna slíkrar aðildarviðræðna og e.t.v. breyta stjórnarskránni þannig að hún heimili framsal fullveldis Íslands. En mikið flóknara er þetta ekki.

Utanríkisráðherra var í fullum rétti þegar hann stöðvaði aðildarviðræður, og sá næsti verður í fullum rétti ef hann hefur þær aftur.

Er þetta ekki ákveðin huggun fyrir ESB-flokkana?

Það er e.t.v. sárt fyrir suma að sjá að yfirvöld í lýðræðisríki berjist fyrir öðru en stefnu ríkisstjórnarinnar. En þannig er það nú. Ég hef fyrir löngu sætt mig við að mín pólitísku baráttumál fái lítinn hljómgrunn hjá þingmönnum. ESB-fólk ætti að temja með sér álíka umburðarlyndi, hafi hún á annað borð áhuga á lýðræði. 


mbl.is Dauðadæmt án pólitísks vilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fulltrúalýðræðið: Take it or leave it

Á Íslandi er fulltrúalýðræði. Kosið er til Alþingis. Ríkisstjórn er mynduð. Ráðherrar fara með völd. Ráðherra getur sótt um aðild að einhverju. Sá næsti getur dregið þá umsókn til baka. Alþingi getur samþykkt þá aðild. Næsta þing getur sagt henni upp.

Þetta vefst fyrir einhverjum, en á mjög sértækan hátt. Fráfarandi ríkisstjórn ákvað að sækja um aðild að ESB (án þjóðaratkvæðagreiðslu). Sú sem nú situr ákveður að draga hana til baka, enda í samræmi við stefnu hennar. Við fyrri verknaði heyrðist lítið. Við hinum seinni - sem er í eðli sínu af nákvæmlega sama tagi (nema andhverfan) - verður allt brjálað.

Þeir eru til sem eru hlynntir því að kjósa til þings og láta það fara með mikil völd, verða grundvöllur ríkisstjórnar og fela henni önnur völd. Þetta heitir fulltrúalýðræði. Séu menn ósáttir við það í grundvallaratriðum má alveg fara út í umræðu um önnur form ríkisvalds (eða afnám þess, ef svo ber undir). En það þýðir ekkert að fara í fýlu þegar sitjandi ríkisstjórn beitir völdum sínum þannig að einhverjum sárni (og vel innan ramma stjórnskipunarréttar og formlegra ramma hins opinbera).

Þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB mega vitaskuld halda áfram að berjast fyrir því áhugamáli sínu. Til vara legg ég samt til að menn bíti í það súra epli að núverandi stjórnvöld eru á öðru máli, hafa á bak við sig þingmeirihluta sem var niðurstaða frjálsra kosninga, og þau ráða. 

Sjálfur fagna ég því að umsókn um aðild að ESB sé nú dauður pappír en harma um leið að yfirvöld hafi öll þau völd sem þau hafa, og að almenningur sjái ekki hættuna á bak við ríkisvald sem kemst upp með að ráða eins miklu og raunin er. Munið að það var löglega skipuð ríkisstjórn sem ætlaði að hengja Icesave-kröfur Breta á háls íslenskra skattgreiðenda. Íslendingar hefðu súpað seyðið af þeirri framkvæmd í næstu mörgu ár. Hætturnar við of valdamikið ríkisvald eru miklar og alvarlegar.  


mbl.is Óeðlilegt samráðsleysi ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin: Pappír sem má leiða hjá sér

Á sá á einum stað spurt hvað væri til ráða ef Alþingi samþykkti lög sem ganga gegn stjórnarskránni, og hvaða tryggingar væru fyrir því að slíkt gerðist ekki, og hvað er til ráða ef það gerist.

Þetta er áhugavert efni. Stjórnarskráin kallast yfirleitt æðstu lög Íslands, og lög sem brjóta á ákvæðum hennar eiga helst ekki að sleppa í gegnum kerfið. Þau gera það nú samt held ég. Ég held að stjórnarskráin sé margbrotin. Ég held að það hafi engar afleiðingar fyrir hið opinbera.

Mig vantar í þessu samhengi aðstoð: Hvaða orð var það aftur sem Jóhanna Sigurðardóttir notaði þegar menn bentu henni á að norskur seðlabankastjóri í Seðlabanka Íslands væri ólögmætt skv. stjórnarskrá? Hún sagði að hann hefði verið tilnefndur en ekki skipaður, eða eitthvað álíka, og notaði síðan eitthvað orð? Var það "tækniatriði" eða hvað?

(Já, þetta er sama Jóhanna og lagði mikla áherslu á að setja nýja stjórnarskrá, sem henni langaði eflaust til að umbæri ótakmörkuð völd hins opinbera svo ríkisvaldið þyrfti ekki að óttast lögsóknir. En það er önnur saga.)

Nú er það auðvitað svo að stjórnarskráin er bara plagg og orðalag þess má túlka hvernig sem yfirvöldum þóknast, og dómstólar yfirvalda eiga það til að túlka í hag herra sinna. Nýlegur dómur Stálskipa gegn ríkisvaldinu staðfestir það. Þar var hugsanlegt stjórnarskrárbrot í formi auðlegðarskatts réttlætt af dómurum af því ríkisvaldið hafi þurft peningana. 

En það væri gaman að kafa dýpra. Það væri gaman að sjá hversu mörg lög er búið að afnema því þau voru talin brjóta gegn einhverjum ákvæðum stjórnarskrár. Það væri gaman að fá yfirlit yfir dómsmál gegn ríkisvaldinu í þessu samhengi, og fá yfirlit yfir úrskurðina.

Sú heiðarlega tilraun til að takmarka völd hins opinbera með stjórnarskrám hefur auðvitað mistekist fyrir löngu, bæði á Íslandi og annars staðar, en að sjá dæmi um það er eflaust áhugavert í sjálfu sér. 


Danir! Heyrið þið þetta?

Kári Stefánsson hefur greinilega aldrei farið til Danmerkur eða Þýskalands, svo eitthvað sé nefnt. Eða hvað?

Í mínu hverfi (í Álaborg í Danmörku) er stórmarkaður og ekki mjög langt frá honum er fjöldi ódýrra íbúða og í þeim býr fjöldinn allur af fólki sem drekkur áfengi frá morgni til kvölds, og margir alla daga.

Hinir drykkfelldu fóru á sínum tíma inn í búðina, keyptu sér eitthvað að drekka og settust svo á bekk nálægt inngangi búðarinnar.

Þetta þótti verslunarstjóranum ekki nógu gott. Þótt drykkfellt fólk sé yfirleitt sárasaklaust og friðsælt þá fylgdi því gleðiglaumur og e.t.v. svolítill óþrifnaður.

Það sem þá var gert var að færa einn bjórkæli í anddyri búðarinnar þar sem sjoppa var og drykkfelldir gátu því sparað sér skrefin og verslað sér áfengi án þess að fara inn í búðina.

Næsta skref var að reisa litla aðstöðu utandyra í nálægu rjóðri með yfirbyggðum bekkjum og ruslafötum. Þar sitja nú þeir drykkfelldu og ræða sín á milli og drekka sína bjóra, engum til ama og þeim sjálfum til ánægju.

Kári Stefánsson verður vonandi ekki hneykslaður á að heyra um þetta níðslu á drykkfelldum. Aðrir kalla fyrirkomulagið samt umburðarlyndi. Alkinn mun kaupa sér sopa og drekka hann. Spurningin er bara hvort hann þurfi að selja af sér spjarirnar og vera öllum til ama til að geta það, eða hvort hann fái að gera það í friði og fyrir kostnað sem nemur ekki aleigu hans. 


mbl.is Níðist á þeim sem minna mega sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisfyrirtæki biður um einkavæðingu á sér

Les ég tilkynningu frá Íslandspósti rétt þegar ég skil hana sem svo að Íslandspóstur sé að biðja um að vera einkavæddur, eða a.m.k. leystur frá kröfum sem fylgja ríkiseinokun hans á útburði áritaðs pósts?

Það væri hressandi tilbreyting svo ekki sé meira sagt.

Íslandspóst á auðvitað að einkavæða, helst í dag en í seinasta lagi á morgun. Hið opinbera víða um heim sópaði póstþjónustu á sínum tíma undir væng ríkiseinokunar til að afla sér tekna, enda var póstútburðir á sínum tíma ábatasamur. Nú eru aðrir tímar og ríkispósthúsin sólunda nú miklu fé og setja þungar byrðar á skattgreiðendur. Dæmi um það má finna víða um heim.

Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að Bjarni bóndi fái ekki jólakortin sín. Hann getur sótt þau í næstu bæjarferð í eitthvert pósthólfið, beðið um að fá þau rafrænt eða hreinlega afþakkað þau og fyllt upp í bréfalúguna sína. Að Íslandspóstur sendi bíl heim til hans með auglýsingabæklinga og tapi á því en komist ekki hjá þeim útburði vegna lagaskylda er svo brandari út af fyrir sig. Að skattgreiðendur niðurgreiði útburð auglýsinga var heldur varla tilgangurinn með ríkiseinokuninni, eða hvað?

Nú fyrir utan að póstur er meira og minna óþarfur í dag (eins og hann var þegar þetta atriði var tekið upp í Seinfeld á sínum tíma). Það er bara þannig með mjög fáum undantekningum. Og einkaaðilar hafa alltaf haft mikinn hug á að bera út hvers kyns efni og gera það með hagnaði, og væru örugglega búnir að hagræða gríðarlega á þessu sviði með betri þjónustu, lægra verði og skilvirkara dreifikerfi ef ekki væri fyrir ríkiseinokunina. En það kemur vonandi í ljós ef og þegar Íslandspóstur er skorinn úr snöru ríkisvaldsins og fær að athafna sig á frjálsum markaði, í samkeppni við önnur frjáls fyrirtæki.

Ríkisvaldið á að selja Íslandspóst á opnu útboði strax á morgun og moka andvirðinu í skuldahít sína. 


mbl.is Tapið mun aukast ár frá ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband