Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ég vona að hún meini ekki orð af þessu!

Condoleezza Rice er vonandi bara að smjaðra fyrir tískufyrirbrigði núna ("loftslagsbreytingar af mannavöldum"). Vonandi hefur hún ekki fallið fyrir eilífu sjónarspili fjölmiðla og vísindamanna á ríkisspenanum sem fá styrki í réttu hlutfalli við fjölda hörmunga sem þeir spá fyrir um. 

Bandaríkjamenn hafa farið mun rólegar í að hella sandi á efnahagskerfisvélina en mörg önnur ríki. Skattbyrðin og reglugerðafarganið er vissulega stíflandi, en það er þó stíflað af allskyns öðrum ástæðum en þeirri að gera of mikið úr áhrifum einnar minniháttar gróðurhúsalofttegundar á loftslag jarðar. 

Bandaríkjamenn hafa að vísu ekki alveg haldið sig frá "aðgerðum" gegn aukningu koltvísýringsútblásturs en vilja frekar gera það með tækniþróun en ríkisforsjá, t.d. í samstarfi við Kína, Indland og aðra vaxandi iðnaðarrisa. Það virðist hafa virkað ágætlega á meðan Kyoto-ríkin eru fjær því en nokkru sinni að ná sínum "markmiðum" (t.d. Kanada og Bretland þar sem Tony Blair hefur lofað öllu fögru svo árum skiptir).

Ætli ein ástæðan fyrir aukningu CO2-útblásturs í Evrópu sé aukin áhersla á lífræna ræktun? Svo sannarlega væri það skondið áfall fyrir sjálfsupptekna, snobbaða og hrokafulla menningarelítu gamla heimsins!


mbl.is Rice segir Bandaríkjamenn taka gróðurhúsaáhrifin alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að "veita" aðgang að frjálsum markaði í staðinn?

Norðmenn eru ágætt fólk. Þeir þéna vel á olíu sem rennur inn í vel smurða vél kapítalismans og nota afraksturinn til að bora jarðgöng og kaupa hluta- og skuldabréf út um allan heim. Eitt vantar þeim samt: Hagfræðiskilning.

Ungbarnadauði er ekki bein afleiðing af skorti á þróunaraðstoð. Hann er fylgifiskur sósíalisma. Þróunarríkin hafa ekki sama aðgang að heimsmarkaði og hin ríku Vesturlönd (og mörg Asíu- og Suður-Ameríku-lönd). Slæmt, og algjörlega á ábyrgð Vesturlanda.

Þetta er samt bara hálf sagan sögð. Þróunarríkin sjálf eru í mörgum tilvikum sinn versti óvinur. Þau eru mörg hver umkringd eigin tollamúrum og viðskiptahöftum (nánar um það hér). 

Það sem þróunarríkjum heims vantar er ekki bara plástur á sárið í formi norskra olíupeninga, heldur fríverslun og kapítalismi. Norðmenn gera sennilega sitt fram til ársins 2015, en hvað svo? Hvenær á að þrýsta á stjórnvöld þróunarríkja að fella niður varnarmúra sína í viðskiptum, samhliða því að fella niður vestræna varnarmúra, og leyfa ungbarnadauða að detta niður á vestræna tölfræði nánast af sjálfu sér?


mbl.is Norðmenn veita milljarði dala til baráttu gegn ungbarnadauða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapítalísk samviska komin í gamla manninn?

Mikhaíl Gorbatsjov er enginn engill. Fangabúðir og ógnarstjórn voru ekki síður hluti af hans stjórnartíð í Sovétríkjunum en fyrri "aðalritara" Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Það var ekki fyrr en Reagan sýndi hörku og lét af kurteisishjali að Gorbatsjov sá sig knúinn til að boða einhvers konar breytingar sem á endanum leiddu, bæði beint og óbeint, til falls Sovétríkjanna.

Engu að síður er ánægjulegt að sjá hvað stórfé getur gert fyrir samvisku gamals harðstjóra. Gorbatsjov ferðast nú um heiminn og þiggur stórfé fyrir fyrirlestrahöld og viðtöl. Að vísu er hann valda- og áhrifalaus í Rússlandi, en Vesturlandabúar hlusta á hann (mbl.is í hið minnsta), og sjá kannski að það er ekki allt fengið með hinu ofmetna lýðræði, sem að nafninu til ríkir í Rússlandi.

Snobbaðir Evrópubúar halda að allt sé fengið með því að afhenta ríkisvaldinu ábyrgð og fé og treysta því að opinberir embættismenn tryggi þetta og varðveiti hitt. Evrópubúar hafa gleymt því hvað stórt og öflugt ríkisvald er eyðileggjandi. Pútín er að sýna okkur á skýran hátt hvað gerist þegar allir þræðir samfélagsins liggja til miðstjórnarvaldsins.

Af einhverjum ástæðum sjá fæstir sömu ógn í Alþingi Íslands og Brussel Evrópusambandsins og þeir sjá í Moskvu Rússlands.  


mbl.is Gorbatsjov varar við endurfæðingu Stalínismans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannelítan breytir um áherslur

Nú þegar tóbaksreykingar eru víða orðnar að lögreglumáli þá finnst bannelítunni vera kominn tími til að breyta um áherslur. Fyrir löngu var það fyrirséð að feitmeti yrði næst á dagskrá, og nú skal halda á þá braut af fullum krafti. Skotar eru hvergi nærri þeir fyrstu til að hefja samningu reglugerðabálka sem "taka á" feitmetinu, og fleiri munu lönd munu senn fylgja á eftir. Meira að segja Danir gæla við slíka verkefnisaukningu lögreglunnar, og þá er mikið sagt!

Spurningin er bara þessi: Þegar bannelítan er orðin ánægð með "árangur" sinn í "baráttunni gegn offitu" (sem er í raun bara afleiðing þess að allir geti rukkað alla um kostnað vegna sjálfsskapaðra heilsuvandamála í gegnum ríkisvaldið), hvað tekur þá við?

Allar hugmyndir og kenningar vel þegnar!


mbl.is Offitutíðni í Skotlandi lítið lægri en í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg rosalega slæm hugmynd, ef marka má reynsluna

Það að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga er alveg rosalega slæm hugmynd ef marka má reynsluna af slíku. Í höndum sveitarfélaga hafa grunnskólar orðið illa úti og eru nú notaðir eins og betliskál til að kreista meira fé út úr ríkinu, enda þótt tekjustofnar fylgi hinum nýju verkefnum - tekjustofnar sem eru ekki síður úthugsaðir en aðrar útgjaldaáætlanir hins opinbera og eiga að nægja fyllilega fyrir verkefnunum sem þeir fylgja.

Sveitarfélög eru meira og minna rekin á hámarksútsvari á Íslandi á meðan ríkið leitast (a.m.k. í tíð fyrri ríkisstjórnar) við að lækka skatta samhliða því sem útgjöld eru aukin (því miður). Það hefur enda komið í ljós að vænleg leið til að auka tekjur ríkisins er að lækka skatta, og þessu hafa landsyfirvöld áttað sig á því á meðan sveitarfélögin hafa farið hina leiðina og hækkað skatta og fjölgað þeim.

Ríkið getur vitaskuld komið rekstri heilbrigðisþjónustu frá sér, en viðtakendur hennar eiga ekki að vera illa rekin sveitarfélög, heldur einkaaðilar. Það er miklu nær að gera heilbrigðiskerfið að einhverju sem minnir á bankakerfið frekar en grunnskólakerfið.


mbl.is Vill heilbrigðisþjónustu til sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er að finna hressandi mótsögn!

Þótt frétt þessi sé stutt þá tekst henni samt að rúma mjög svo stóra mótsögn sem kemur fram í eftirfarandi setningum:

"Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók í gær, sunnudaginn 23. september, við verðlaunum fyrir forystu á alþjóðavettvangi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir að stuðla að nýrri sýn á nýtingu hreinnar orku víða um heim." 

"Þá var einnig fjallað um baráttuna gegn fátækt í Afríku og tækifærin sem ný tækni skapar í þeim efnum."

Höfum eitt alveg á hreinu - "hrein orka" er ekki notuð af fátækum Afríkubúum af því hún er dýr. Það sem þeim vantar til að knýja tæki sín (eigi þeir yfirleitt einhver) er ódýr orka. Í Afríku þýðir það kol og olía, og á sumum svæðum gas.

Þeir sem eiga erfitt með að sætta sig við þetta tala gjarnan í gátum. Talað er um "nýja tækni" og "hreinni orku" þegar í raun er átt við að Afríkumönnum eigi að setja stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að notkun ódýru orkugjafanna sem finnast náttúrulega í Afríku og fátækt fólk hefur aðgang að.

"Baráttan gegn loftslagsbreytingum" er baráttan gegn aðgengi fátækra Afríkubúa að ódýrri orku.


mbl.is Forseti Íslands verðlaunaður fyrir baráttu gegn loftlagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangelsin fyllt

Í Bandaríkjunum hefur stríðinu gegn fíkniefnum verið fylgt eftir af miklum krafti í mörg ár. Fyrir vikið situr nú stærri hluti þjóðarinnar í fangelsi en í nokkru öðru landi, og fer sífellt fjölgandi. Kostnaður við stríðið er líka á uppleið sem aldrei fyrr, meðal annars vegna sífellt þéttriðnara eftirlitsnets meðfram strandlengjum og landamærum, auk eftirlits innanlands með óbreyttum borgurum.

Íslendingar virðast vera halda í sömu átt, frekar en að apað sé eftir Hollandi, Sviss, Kanada og fleiri barbaralöndum þar sem fíkniefni fá sífellt minni athygli yfirvalda. Dómsmálaráðherra vor á til dæmis eftirfarandi ummæli:

"Á andriki.is er látið eins og það skipti í raun litlu, að allt þetta fíkniefnamagn hafi verið gert upptækt á Fáskrúðsfirði og þeim sérkennilega málstað til stuðnings er vitnað í leiðara Jóns Kaldals í Fréttablaðinu. Vangaveltur af þessum toga minna á frásagnir af hjali hefðarfólks um heim, sem versnandi fer, en við því sé í raun ekkert að gera og þess vegna sé best að búa enn betur um sig í einangrun hefðarsetranna og halda áfram að hafa nóg að gera við að gera ekki neitt."

Pistill andriki.is

Viðhorfið er þetta: Heimur versnandi fer og á því þarf að taka frekar en að líta í hina áttina.

Þetta viðhorf finnst víðar og er raunar helsta vopn þeirra sem vilja útvíkka ríkisvaldið til að "leysa" allskyns vandamál í samfélaginu, (kynjaskipting í þægilegum skrifstofustörfum, böl hinna erlendu verkamanna sem kunna ekki íslenska löggjöf en voga sér samt að vinna á Íslandi, og fleira).

Ég vil hins vegar taka annan pól í hæðina og segja að við eigum að hætta að eyða orku lögregluþjóna okkar í eltingaleik við fíkniefni, og nota krafta þeirra frekar til að stöðva ofbeldisglæpi og þjófnaði, hvort sem þeir eiga sér stað í tengslum við fíkniefnaviðskipti eða eitthvað annað.

Raunar myndu ofbeldisglæpir verða mun fátíðari í fíkniefnaheiminum ef fíkniefni væru gerð lögleg, rétt eins og raunin er á hinum ofbeldislausa markaði höfuðverkjapilla og sígaretta og annars löglegs neysluvarnings sem má misnota en flestir láta það eiga sig. Þetta er hins vegar staðreynd sem margir kjósa að líta framhjá, því eitthvað þarf nú að mála eins og skrattann á vegginn til að réttlæta frekari útþenslu eftirlitsstofnana ríkisvaldsins, sem eitthvað er orðið eirðarlaust eftir að það hætti að mestu að reka fyrirtæki af ýmsu tagi!


mbl.is Einn þeirra sem handtekinn var erlendis úrskurðaður í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram er rússíbananum haldið keyrandi

Einhverjir halda því enn fram að til að "slá á " fjármálakreppu þurfi ríkisvald að niðurgreiða ríkisbakkað lánsfé til viðskiptabanka (prenta peninga) sem síðan láni hina ódýru peninga til kúnna sinna sem þá geti haldið áfram að eyða í allskyns verð-uppsprengdar fjárfestingar. Þeir eru enn til sem halda að þannig hefði átt að leysa Kreppuna miklu, fjármálakreppuna í Asíu fyrir nokkrum árum og nú þá sem við erum að verða vitni að.

Þeir sem halda þessu fram eru að fá hverja ósk sína á fætur annarri uppfyllta þessa dagana. Seðlabankar "leggja til" fé svo skiptir hundruðum milljóna (evra og dollara!), Seðlabanki Bandaríkjanna lækkar nú vexti og hvað er langt þangað til næsta björgunaraðgerð lítur dagsins ljós? Björgunaraðgerð sem má líkja við að henda götóttum björgunarvestum hverju á eftir öðru á ósyndan manni uns hann sekkur eins og steinn undan farginu. 

Nú þegar dálkahöfundar utan hins harða kjarna austurríska hagfræðiskólans eru byrjaðir að boða afnám peningafölsunarinnar þá hlýtur eitthvað að vera renna upp fyrir fólki, eða hvað? 


mbl.is Stýrivextir lækkaðir um 0,5% í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Windows-notendur skuli greiða tæplega hálfan milljarð evra í sekt fyrir vöruval sitt

Af hverju heldur fólk að tölvuiðnaðurinn sé svona frámunalega nýjungagjarn? Það er af því Microsoft hefur einskorðað sér að vera sá stærsti og sterkasti, og neyðir þar með keppinauta sína til að berjast á hæl og hnakka til að fá markaðshlutdeild. Google, Cisco og Macintosh geta ekki unnið á nema virkilega hugsa "outside the box".

Bull og rugl eins og þessi úrskurður evrópskra samkeppnisdómstólsins gagnast engum nema hinum daprari af keppinautum Microsoft. Neytendum er sendur reikningur upp á 500 milljarða evra. Þeim stóð lengi til boða að kaupa Microsoft án umrædds forrits, en sýndu því lítinn áhuga.

Sjáum hvað setur. Kannski Evrópusambandinu liði betur ef Microsoft hætti alveg að sinna Evrópumarkaði, t.d. sem sparnaðaraðgerð til að greiða sekt sína? Verða þá ekki allir glaðir?


mbl.is Úrskurður um brot Microsoft á samkeppnislögum staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækum Pólverjum bolað úr starfi

Nú hefur íslenskum verkalýðsforkólfum tekist að bola nokkrum Pólverjum úr starfi hér á landi. Vitaskuld er óheppilegt að þeir hafi ekki verið með dvalarleyfi og aðra pappíra sem ríkisvaldið úthlutar, enda gerir ríkisvaldið ýmislegt til að gera útvegun slíkra pappíra erfiða. En má ekki leysa slík formsatriði og leyfa hinum atvinnulausu Pólverjum að snúa aftur til starfa sinna? Hverra hagsmuna er verið að gæta með því að bola þeim úr starfi sínu á forsendum skriffinnsku hins opinbera?

Ekki er verið að standa vörð um hagsmuni hinna óheppnu Pólverja sem verkalýðsfélögin komu auga á. Miklu frekar eru hér að verki hagsmunaöfl úr íslenskri verkalýðshreyfingu sem kæra sig ekki um hina erlendu samkeppni. Að minnsta kosti er ekki að sjá á fréttinni að um neitt annað sé að ræða.


mbl.is Norðurál rifti samningi við pólskt verktakafyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband