Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Jón Valur bráðum einn vinsælasti bloggari landsins

Fyrir þá sem misstu af því þá er slóðin á bráðum vinsælasta blogg landsins:

jon­val­ur­jen­son.blog.is

(Nú er reyndar búið að loka síðunni en hún hlýtur að spretta upp á öðrum stað fljótlega.)

Ef þessi kæra verður tekin fyrir af dómstólum liggur eftirfarandi ljóst fyrir:

- Ekki má hafa aðra skoðun á sumu nema þá réttu

- Ekki má hafa aðrar skoðanir á því sem börn eru látin hlusta á í skólatíma í skyldunámi en þær að allt sé með felldu

- Ekki má tjá sig með öðrum hætti en þeim sem fellur að strangasta pólitíska rétttrúnaði

Þó má hugsa sér að staðan væri önnur ef frjálshyggjumenn fengju að taka að sér alla samfélagsfræðitíma í grunnskólum og færu þar að útskýra að ríkisvaldið er skipulagt glæpagengi með löggjöfina að vopni til að féfletta almenning og ráðskast með líf fólks. Þá mætti skrifa harðorðar færslur um frjálshyggjumenn og pipra vel og rækilega með persónulegri sannfæringu. 

Það er eins og þeir sögðu í Sovétríkjunum sálugu: Þar ríkti fullkomið málfrelsi - allir máttu tala fallega um kommúnistanastjórnina. 

Hvað sem því líður er slóðin á vinsælustu bloggsíðu landsins í dag:

jon­val­ur­jen­son.blog.is


mbl.is Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlit í stað ábyrgðar

Íslendingar virðast hafa óendanlega þolinmæði gagnvart opinberu eftirliti.

Ég þekki mann sem var að reyna koma upp fiskbúð í Reykjavík á sínum tíma. Hann lenti á milli margra eftirlitsstofnana, frá sveitarfélaginu til MAST. Ekki gat hann fengið þessar eftirlitsstofnanir til að tala saman eða verða sammála. Hann var beðinn um að setja niðurfall á ákveðinn stað af einni stofnun en að fjarlægja það af annarri. Ferlið dróst um marga mánuði og kostaði hann fúlgur fjár. 

Á endanum opnaði samt fiskbúð. Stuttu seinna þurfti að selja hana eftir mikla baráttu. Stofnféð var einfaldlega farið út í buskann.

En gott og vel, kannski eiga ekki allir skilið að spreyta sig í rekstri. Kannski er allt í lagi að sumum viðskiptahugmyndum sé sturtað í klósettið strax af eftirlitsiðnaðinum því ef menn geta ekki þrætt þröng einstigi eftirlitsins hvernig eiga þeir þá að geta fótað sig á markaðinum?

Mín skoðun er samt sú að opinbert eftirlit slævi alla ábyrgðartilfinningu okkar og á bak við hana geti ýmislegt skotið rótum sem má telja óæskilegt. Opinbert eftirlit er líka einokunaraðili og bolar sem slíkur öðrum eftirlitsaðilum af markaðinum. Þar sem frjálst eftirlit er að finna er það knúið áfram af gagnrýnum neytendum og óháðum fyrirtækjum sem keppa í trausti um að votta fyrirtæki og framleiðslu rétt. Ekki er heldur víst að opinbert eftirlit sé í stöðu til að framfylgja bestu kröfunum. Það framfylgir bara reglunum og þær reglur eru oft í engri snertingu við raunveruleikann. 

Leggjum niður eftirlitsstofnanir matvælaiðnaðar á Íslandi. Niðurstaðan verður hreinni og öruggari og betur merkt matvæli fyrir minni tilkostnað þar sem eftirspurn er eftir slíku. Þeir sem vilja ekkert eftirlit, t.d. þeir fjölmörgu Íslendingar sem hafa borðað "street food" í fjarlægum löndum, geta svo notið þess eins og þeir vilja. 


mbl.is Óþolandi að menn hagi sér svona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondir menn og sósíalismi

Fidel Castro, fyrrverandi einræðisherra Kúbu, er látinn. Margir fagna því og kannski skiljanlega. Maðurinn stóð fyrir harðríki og þjáningum milljóna manna.

Hann er samt bara einn maður. Hann var með skoðanir. Það höfum við öll. Hann hafði hins vegar hugmyndafræðilega réttlætingu fyrir ofbeldi og þjófnaði sem var tekin alvarlega. Fólk reis ekki upp gegn henni. Þvert á móti, það studdi hana. Þess vegna komst hann upp með að beita ofbeldi og stunda þjófnað. 

Sósíalismi hefur gefið ofbeldi og þjófnaði svipaða hugmyndafræðilega réttlætingu í öðrum ríkjum og á öllum tímum. Það er ekki fyrr en að sósíalisma er hafnað að þeir sem vilja beita ofbeldi og stunda þjófnað missa möguleikann á að framfylgja þeim ásetningi sínum.

Kúba er ekki frjáls þrátt fyrir dauða Castro. Hins vegar má vona að fólkið á Kúbu hafi nú séð hvað fór úrskeiðis og velji nú aðra braut. 


mbl.is Fagna dauða Castro
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liggur ekkert á að mynda stjórn

Erfitt reynist að púsla saman örflokkum og stærri flokkum til að mynda ríkisstjórn. Það gerir ekkert til. Menn ættu að boða til kosninga í maí 2017 og Ísland ætti að vera án ríkisstjórnar á meðan eða skipa málamyndastjórn sem sæi um að reka ráðuneytin á lágmarksafköstum.

Um kosti þess má lesa í þessari grein Telegraph

Ef engin er ríkisstjórnin er ekki hægt að skuldsetja ríkið eða innlima það í erlend ríkjasambönd. Engin ríkisstjórn þýðir engar stórar og dýrar áætlanir. Engin ríkisstjórn þýðir engin umdeild mál sem er þröngvað í gegnum þing og endar með ósköpum og ósætti.

Markaðir kunna vel að meta stöðugleikann sem fylgja óvirkri ríkisstjórn. Þeir geta þá gert áætlanir sem eru líklegri til að standast en ef ríkisstjórnin hækkar skatta að meðaltali aðra hverja viku eins og seinasta vinstristjórn Íslendinga.

Íslendingar ættu prófa friðsældina sem fylgir óstarfhæfri eða óvirkri ríkisstjórn fram að kosningum sem ætti að setja á dagskrá í maí 2017.

Eða fer Ísland á hvolt þegar þingmenn eru í sumarfríi? Nei, Íslendingar geta þá loksins slappað af.


mbl.is Meirihlutastjórn reynd til þrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta atvinnugreinin sem á að ríkisvæða?

Sjávarútvegurinn er baðaður í svo mörgum óvissu- og áhættuþáttum að það er engu lagi líkt. Ákvarðanir einhvers valdasjúks forsætisráðherra í fjarlægu landi geta haft stór áhrif á afkomuna. Ef eitthvað stórt ríki ákveður að rýra kaupmátt gjaldmiðils síns hefur það áhrif. Ef einhver hitastigsbreyting á sér stað í hafinu hefur það áhrif. Ef veður til veiða er slæmt lengi hefur það áhrif. Ef einhver arabinn ákveður að draga úr olíuframleiðslu sinni hefur það áhrif. 

Mannlegir þættir eins og kjaradeilur hafa áhrif. Rangar ákvarðanir um hvar á að veiða hvað og hvenær og hvernig hafa áhrif. 

Er þetta virkilega atvinnugreinin sem margir Íslendingar vilja ríkisvæða með því að sjúga út hagnaðinn þegar hann er til staðar og hlaupa til með björgunaraðgerðir þegar eitthvað bjátar á?

Er ekki betra að atvinnugreinin sjálf taki á sig sveiflurnar og borgi venjulegan skatt af hagnaði þegar vel árar en taki á sig niðurskurðinn þegar illa árar?

Íslenska ríkið var nátengt rekstri bankanna þegar allt fór á hliðina haustið 2008. Innlánstryggingar, lánveitandi til þrautavara og umsvifamikið regluverk - allt átti þetta að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi þar sem ekkert átti að geta komið upp á. Síðan kom hið ófyrirséða og dró ríkissjóð með sér í hítina. 

Er reynsla Íslendinga sú að íslenska ríkið eigi að blanda sér enn frekar inn í áhættusaman og óvissan rekstur?

Þá hafa Íslendingar ekki lært mikið af hruninu. 


mbl.is 3% samdráttur vegna viðskiptabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn eru peð og peðum má fórna

Kennarar eiga mikla samúð skilið. Þeir eru múlbundnir innan kerfis sem verðlaunar hvorki dugnað né áhuga. Til að fá launahækkun þarf einfaldlega að eldast eða bæta við sig gráðum. 

Ekki er samt hægt að hrósa þeim fyrir lausnamiðaða hugsun. Þeir vilja að því er virðist hvergi annars staðar vera. Þeim líkar vel við að vera opinberir starfsmenn með tryggðan lífeyri og allt að því óendanlegt starfsöryggi. 

Af því leiðir að þegar ekki er orðið við kröfum þeirra er bara eitt til ráða: Að fara í skák við hið opinbera. Til að spila skák þarf peð og þar koma börnin til leiks. Þeim er fórnað. Sótt er hart og peðum óspart beitt. Hvergi skal slakað á fyrr en mótherjinn hefur ekki samvisku í að drepa fleiri peð.

Svipaða leið fóru starfsmenn í heilbrigðiskerfinu fyrir skömmu en þar voru sjúklingarnir peðin.

Spá kennarar og hjúkrunarfræðingar og aðrir opinberir starfsmenn aldrei í því af hverju starfsmenn einkafyrirtækja fara hvorki í verkfall né hópuppsagnir?


mbl.is Stærsta hópuppsögn kennara í 20 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn leiðir vinstristjórn til valda, eða hvað?

Hinir svokölluðu miðjuflokkar, Viðreisn og Björt framtíð, vilja nú láta á það reyna hvort hægt sé að leiða vinstriflokkana til valda. Framsóknarflokkurinn gerði það sama eftir hrunið 2008 og í aðdraganda kosninga vorið 2009. Hann sat eftir með sárt ennið - fékk ekkert í skiptum fyrir greiðann. Hvað gerist núna?

Innan Viðreisnar eru einstaklingar sem hafa tjáð sig eins og hörðustu frjálshyggjumenn. Hér er lítið dæmi. Hvað ætla þeir að gera sem aðilar að ríkisstjórn sem beinlínis boðar stóraukin ríkisafskipti? Því höfum það á hreinu: Vinstri-grænir ætla að sigla skútunni og hafa sér til halds og trausts litla Samfylkingu og kjaftfora Pírata. 

Innan Bjartar framtíðar eru einstaklingar sem hafa ekki tekið illa í að Íslendingar yfirgefi sovéskt fyrirkomulag áfengisverslunar og komi á norrænu fyrirkomulagi. Geta þeir ekki bara gleymt því?

Sjáum hvað setur. 


mbl.is Ekki óleysanlegt verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður vægast sagt spennandi ríkisstjórnarsáttmáli

Vinstri-græn, Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn ætla að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Viðreisn og BF tókst ekki að sannfæra Sjálfstæðisflokkinn um að kasta hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi heims á haugana né taka upp aðlögunarviðræður við Evrópusambandið. Þeir leita því lengra til vinstri.

En hvað eiga þessir fimm flokkar sameiginlegt? Jú, að vilja kasta hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi heims á haugana. Mikið annað dettur mér ekki í hug.

Kannski geta þeir náð saman um lista yfir skattahækkanir.

Kannski geta þeir náð saman um jafnlaunalögguna.

Þeir geta sennilega auðveldlega orðið sammála um aukin ríkisútgjöld. Styrkja skal ríkiseinokunina hvar sem hana má finna.

En hvað annað? Það kemur í ljós. 

Ég legg aftur til að Alþingismenn nái saman um málamyndastjórn þvert á alla flokka sem starfar til vors og að þá verði kosið aftur. 


mbl.is Samþykkja formlegar viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið

Hrunið haustið 2008 var svolítil afleiðing af því að bankakerfið er þannig skrúfað saman að þar er gróðinn einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Það borgar sig hreinlega að gíra bankann sinn alveg í botn og taka sem mesta áhættu til að hámarka gróðann því tapið lendir á öðrum.

Þetta er galin hugmynd en ennþá bráðlifandi og í fullri framkvæmd, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.

En það er til önnur hugmynd sem er álíka galin, ef ekki verri. Hún er sú að þjóðnýta gróðann en einkavæða tapið. Fyrir þessari hugmynd tala nú margir stjórnmálamenn. Þeir tala vissulega undir rós en það breytir ekki innihaldinu.

Sérstaklega beina sömu stjórnmálamenn spjótum sínum að útgerðinni. Þeir sjá að hún er yfir það heila að skila hagnaði. Ekki skoða þeir einstaka rekstrarliði. Þeir sjá bara fyrirsagnirnar sem segja frá hagnaði eftir afskriftir og skatta. Þeim finnst þetta vera alltof háar fjárhæðir til að skilja eftir í vösum þeirra sem öfluðu þeirra. Þeir vilja dreifa þessari upphæð - taka hana frá þeim sem sýndu útsjónarsemi og til annarra sem eru ekki eins útsjónarsamir.

Það er ekkert sjálfgefið að útgerðir geti skilað hagnaði og raunar tapar útgerðin fé í flestum ríkjum heims. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að umráðaréttur yfir takmörkuðum veiðiréttindum leiði til hagnaðar. Raunar þarf mikla sérþekkingu og reynslu til að vita hvenær á að veiða hvaða fisk með hvaða skipi, hvert á að sigla honum að lokinni veiði, hvernig á að vinna hann og á hvaða markað á að senda hann og hvernig. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að aðstæður séu til staðar til að skila hagnaði. Gengisbreytingar eru oft ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar. Markaðir geta verið dyntóttir. Olíuverð, flutningskostnaður, launakostnaður, veðurfar, ástand fiskistofna, ástand fiska, rekjanleiki fiskitorfa, hitastig sjávar, fæðuinnihald fiska, viðhald skipa og ótal margt annað spilar hlutverk á hverjum einasta degi í rekstri útgerða. Þessu er ekki haldið til haga.

Því sem er haldið til haga er að útgerðin í dag skilar hagnaði og að hann eigi að soga í ríkishirslurnar. 

Útgerðin hlýtur þá í staðinn að benda á að þegar illa árar - fiskarnir synda í burtu eða viðhaldskostnaður er of hár til að halda úti skipum eða launakröfur orðnar svo háar að útgerðin ræður ekki við þær - þá hlaupi ríkið undir bagga.

Útgerðin hlýtur að benda á að ef það á að þjóðnýta hagnaðinn þá dugi ekki að einkavæða tapið. Útgerðin hlýtur að biðja um að fá að komast á fjárlög - að sérstakur björgunarsjóður verði settur á fót sem bjargar gjaldþrota útgerðum og störfum í henni. 

Það dugir nefnilega ekki að þjóðnýta gróðann og ætla sér um leið að einkavæða tapið. Tapið verður þá líka að þjóðnýta. Ríkisvaldið verður að gera sig að virkum þátttakenda í öllum þeim rekstrarþáttum sem útgerðin þarf að eiga við í dag. Embættismenn verða að fá að setjast í stjórnir útgerðanna sem sérstakir fulltrúar ríkisvaldsins og hafa umboð til að setja fé skattgreiðenda í reksturinn ef þess gerist þörf, nú eða fella gengið sem hefur "oft skilað góðum árangri gegnum tíðina", sérstaklega fyrir fársjúkar atvinnugreinar eins og útgerðin var einu sinni á Íslandi.

Í stað þess að hafa aðskilnað reksturs og skattheimtu verður að samtvinna þetta tvennt. Skattheimtan verður háð rekstrarafkomu enda á að hirða hagnaðinn í ríkissjóð sem hlýtur að þýða að þegar tap verður á rekstrinum komi til baka eitthvað af fé úr ríkissjóði.

Þeir sem vilja þjóðnýta hagnað útgerðarinnar hljóta að hugleiða þetta. Ég skil skammsýna vinstrimenn - þeir hafa alltaf haldið að hagnaður í dag haldi áfram að vera hagnaður á morgun eftir gríðarlegar skattahækkanir. En hvað með aðra?


Nokkur orð um meintan arð af auðlindum

Á Íslandi er að mörgu leyti aðskilnaður á milli stjórnmála og sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn er starfsvettvangur einkafyrirtækja sem kaupa, lána, fjárfesta, borga, þéna og ýmist græða eða tapa. Þau þurfa að haga seglum eftir vindi og þræða flókið samspil gengisbreytinga, markaðsverðs á sjávarfangi, eldsneytiskostnaðar, flutninga, árstíðasveifla, aðgengi að starfsfólki, reksturs á skipum og húsnæði og svona mætti lengi telja.

Þeim sem tekst það tekst að skila hagnaði. Af honum er svo tekinn ríflegur skattur. Eftir stendur fé sem má nota til að fjárfesta fyrir (t.d. bæta aðbúnað eða endurnýja búnað) og greiða hluthöfum arð.

Þeim sem tekst það ekki tapa fé - eigin fé og ekki annarra. 

Stjórnvöld sitja svo hinum megin við borðið og taka við skattgreiðslunum. Þau taka enga áhættu en njóta ágóðans. 

Nú er verið að tala um að breyta þessu. Stjórnvöld vilja snarauka skattheimtuna. Bætist þá enn í flækjustig sjávarútvegsfyrirtækja. Svigrúmið til að taka á sig gengissveiflur minnkar til dæmis. Allt annað líður líka fyrir aukið fjárstreymi úr rekstri sjávarútvegsfyrirtækja - fjárfestingar, getan til að ná hæft starfsfólk og halda því, viðhald, endurnýjun og allt þetta.

Menn segja að sjávarútvegurinn hafi efni á þessu. Það gleymist að þótt sumir skili góðum hagnaði í dag þá gera aðrir það ekki endilega.

Menn gleyma því líka að ytri aðstæður breytast hratt fyrir sjávarútveginn. Gengi gjaldmiðla getur breyst hratt. Fiskurinn getur synt í burtu.

Spurningin er því: Ef ríkisvaldið ætlar sér að sjúga til sín enn meira fé þegar vel gengur ætlar það þá líka að hlaupa undir bagga ef og þegar náttúruleg áföll dynja á eða ytri aðstæður verða sjávarútveginum óhagstæðar?

Ætlar ríkisvaldið að blanda sér með þessum hætti í rekstur sem í dag er í höndum einkaaðila og taka á sig þá rekstraráhættu sem einkaaðilar búa við í dag?

Eða ætlar ríkið bara að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið? Og hvað halda stjórnvöld þá að verði um þessa iðngrein?

Maður spyr sig. Ég sé alveg dollaramerkin í augum margra stjórnmálamanna en ef ríkið ætlar sér að auka afskipti sín af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja er spurningin bara hvenær en ekki hvort skattgreiðendur þurfa að standa reiðubúnir og borga brúsann þegar eitthvað fer úrskeiðis.


mbl.is „Hreinskipt og gott samtal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband