Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Er 'danska leiðin' í boði?

Á Íslandi er vinsælt að apa upp alla vitleysuna sem finnst í útlöndum. Norræna "velferðarstjórnin" apaði upp norræna skattheimtu þar sem hún er hæst. Allskonar boð og bönn eru öpuð eftir þeim sem banna mest. Regluverkið er afritað þaðan sem það er strangast í okkar heimshluta. 

Gott og vel. Lítið land leitar innblásturs frá "stærri ríkjum" og "þeim löndum sem við viljum miða okkur við".

Hvernig væri samt til tilbreytingar að apa upp eitthvað sem er skárra en það sem nú er við lýði á Íslandi? Ég tek sem dæmi hið danska heilbrigðiskerfi (sem er fjarri því fullkomið og hefur í raun óteljandi vankanta, en ég tel samt vera að mörgu leyti skárra en hið íslenska). 

Miðað við umræðuna á Íslandi er hið danska kerfi sennilega það sem má kalla "tvöfalt": Samhliða hinu opinbera kerfi finnst mýgrútur einkaaðila sem bjóða upp á sjúkratryggingar og allskyns meðhöndlun, frá lýtaaðgerðum til krabbameinsmeðferðar. Einkaaðilar hafa möguleika á að kaupa sjúkratryggingar (t.d. hér og hér) og fyrirtæki kaupa gjarnan sjúkratryggingar fyrir starfsmenn sína (t.d. hér og hér). Það gera þau af tvennum ástæðum: Sem hluta af launakjarapakka sínum í hinni eilífu samkeppni um starfsfólk, og til að tryggja að starfsmenn sem veikjast festist ekki á margra mánaða biðlistum hins opinbera kerfis.

Ávinningar af hinu "tvöfalda kerfi" miðað við hið "einfalda" kerfi á Íslandi eru margir. Einn er sá að með því að borga sig út úr röðinni í hinu opinbera kerfi þá styttist sú röð fyrir hina sem láta skattféð duga fyrir sjúkratryggingu sinni. Annar er sá að einkaaðilar eru til staðar sem þurfa að keppa í bullandi samkeppni, og það þvingar verð niður og gæði upp. Nýjungar í heilbrigðisvísindum rata fyrr inn í þess konar kerfi. Þetta þekkja Íslendingar í þeim afkimum læknavísinda sem eru óskaddaðir af opinberum afskiptum, t.d. lýtaaðgerðum, sjónleiðréttingum og augnlækningum almennt.

Enn einn ávinningur er svo sveigjanleikinn þegar þjónustuaðilar eru margir. Enn annar er sá að heilbrigðisþjónusta getur jafnvel skapað gjaldeyri enda er góð heilbrigðisþjónusta mjög eftirsótt í heiminum og ekki allstaðar í boði. 

Meira mætti telja upp.

Boðskapur minn er þessi: Geta Íslendingar ekki til tilbreytingar hermt eftir einhverju sem virkar betur en það sem nú tíðkast á Íslandi í stað þess að apa bara upp það versta sem finnst?  


mbl.is Vilja ræða við Ragnar um grein hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílalánasjóð vantar

Á Ísland sárvantar bílalánasjóð. Of auðvelt er að taka bílalán á Íslandi. Of auðvelt er að steypa sér í skuldir vegna bílakaupa. Bílar eldast mun hraðar en fasteignir svo það að skulda bílalán er glapræði. Íslenska ríkið á að stofna Bílalánasjóð. Með því nást mörg markmið í einu: 

  • Fé skattgreiðenda streymir í bílalán, bæði beint í formi vaxtaniðurgreiðsla og óbeint í formi björgunaraðgerða á Bílalánasjóði.
  • Ríkisvaldið tekur lán til skamms tíma og lánar út til langs tíma. Þetta tryggir gríðarlega óvissu og tryggir að stjórnmálamenn hafa úr nægu að moða.
  • Verðbólur á ákveðnum svæðum og á ákveðnum tegundum bíla skjóta upp kollinum. Margir munu njóta þess í formi skammtímaávinnings og skammtímaánægju. 
  • Öllum er tryggður aðgangur að bíl enda munu kröfur til lánshæfis verða háð skilyrðum stjórnmála en ekki hins grimma markaðar.
  • Alltof fáir Íslendingar eiga bíla og ríkið liggur á alltof fáum ónýttum bílum sem gera ekkert nema safna vaxtagreiðslum.
  • Bílar eru dýr fjárfesting og afborganir hlaupa stundum upp í leiguverð á sæmilegu húsnæði. Alveg ljóst er að enginn ræður við slíkar fjárfestingar án aðstoðar ríkisvaldsins.  
  • Fólk úti á landi þarf jafnan stærri bíla en fólk á höfuðborgarsvæðinu en stórir bílar eru að jafnaði dýrari en þeir smærri, og það kemur illa niður á landsbyggðinni. Þessari mismunun þarf að útrýma.  
  • Sumir hafa efni á nýjum bílum með nýjustu tækni en ekki allir. Þetta er óréttlátt og þarf að leiðrétta með notkun skattfjár. Annaðhvort geta allir keyrt um á BMW, eða enginn (eins og gildir um heilbrigðiskerfið þar sem allir sitja við sama borð og eru jafnósáttir).
  • Starfsfólk fyrirtækja sem lána til bílakaupa þurfa að vinna við óþolandi aðstæður hins frjálsa markaðar. Þetta veldur því álagi og tryggir alltof mikið aðhald sem á endanum bitnar á almenningi í formi markaðsvaxta og verðlags sem endurspeglar ávöxtunarkröfu lánveitenda frekar en vaxtarverðmiða hins opinbera. 

Mörg pólitísk markmið gætu náðst í einu ef ríkisvaldið hefði bara vit á því að stofna Bílalánasjóð. Ég sé einfaldlega ekki ókostina.


mbl.is Gagnrýnin oft ósanngjörn og óvægin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgum fílunum - afnemum bann við sölu fílabeins!

Economists argue that if you are trying to protect an endangered species, then limiting the supply of its products can be counterproductive. If demand remains unchanged, supply reduction simply raises perceptions of scarcity and drives up prices. (PERC.org)

Einnig:

We know that destroying stockpiles reduces supply, but not necessarily demand. The ill-conceived USFWS gesture could create the perception that ivory is an increasingly scarce commodity on illegal markets, leading to higher prices and further poaching. It may simply place a higher price on the head of dead elephants while doing nothing to raise their value alive in the eyes of people who have to live with them and who bear the costs of protection. (PERC.org)

Einnig:

Perhaps this change of heart in Kenya marks a turning point. If African nations can provide positive incentives to protect elephants, then perhaps other nations of the world can rescind the ivory trade ban. (PERC.org

Svo, í stuttu máli: Björgum fílunum - afnemum bann við sölu fílabeins!  


mbl.is Svimandi gróði af veiðiþjófnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil dæmisaga um vatnsskort

„Cherrapunji er einn blautasti staður jarðar. Í venjulegu árferði mælist rigning um 11 metrar á ári. Gopalpura er í öðrum hluta Indlands og þar mælist rigning aðeins nokkrir sentimetar á ári. Á hvorum staðnum ætli sé vatnsskortur? Í svarinu liggur einnig svarið við því hvað er að vatnsmeðhöndlun í heiminum. Í Cherrapunji er vatni sóað og íbúar líða skort en í Gopalpura hafa menn lært að fara með vatnið og líta á það sem verðmæta auðlind. Því miður er ástandið víða í heiminum eins og í Cherrapunji. Flestar ríkisstjórnir hafa farið svo illa með vatnið að stórum hluta þess er sóað. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að fimmti hver jarðarbúi hefur ekki aðgang að hreinu vatni.“

Vefþjóðviljinn.


mbl.is Framtíðina mun skorta vatn og orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AAA: Afskaplega andlaus afstaða

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins, AAA, sem er hæsta einkunn sem matsfyrirtækið veitir. Horfur eru nú stöðugar en voru áður neikvæðar.

Látum okkur sjá. Engin eining, stofnun, stjórnvöld eða fyrirtæki skuldar meira en bandaríska alríkið. Bandaríska alríkið safnar gríðarlegum skuldum í hverjum einasta mánuði. Ekkert virðist benda til að sú skuldasöfnun sé að stöðvast. Loforð stjórnmálamanna um "niðurskurð" í útgjöldum og skuldasöfnun snúast um að hægja á skuldasöfnuninni, ekki stöðva hana.

Þetta komast Bandaríkin samt upp með í bili, rétt eins og mörg önnur vestræn ríki. Fyrst og fremst getur bandaríska alríkið þakkað fyrir að bandaríski dollarinn nýtur enn einhvers trausts. Við honum er tekið í viðskiptum. Bandaríska alríkið fær seðlabankann sinn til að prenta fé upp í skuldir þess.

Engin von er til þess að bandaríska alríkið muni borga skuldir sínar. Það mun bara prenta peninga upp í þær eins lengi og það getur, enda krefst mikils pólitísks hugrekkis að víkja af þeirri braut. Bandaríska alríkið mun aldrei ráðast í gríðarlegan niðurskurð og skerðingu lífskjara hjá bandarískum almenningi til að borga Kínverjum. Það er einfaldlega pólitískt sjálfsmorð.

Samt sem áður gefa hin svokölluðu matsfyrirtæki bandaríska ríkinu ennþá háa lánshæfiseinkunn. Eru þetta ekki sömu fyrirtæki og deildu út toppeinkunnum til allra hinna gjaldþrota fyrirtækja og banka fram til ársins 2008?

Við lifum í skrýtnum heimi þar sem sparnaður borgar sig ekki og stærstu skuldararnir fá bestu lánshæfiseinkunnina. Spilaborgin riðar til falls í mjög náinni framtíð. Næsta kreppa verður ríkisfjármálakreppa. Hún mun láta bankakreppuna til að líta út eins og lítinn hiksta við hlið flogakrampans sem bíður hins alþjóðlega hagkerfis. 


mbl.is Góðar fréttir fyrir Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun og verðmætaskapandi þjálfun: Ekki eitt og hið sama

Sitt er hvað, menntun og verðmætaskapandi þjálfun. Menntun getur auðvitað verið í formi verðmætaskapandi þjálfunar, og verðmætaskapandi þjálfun utan skóla mætti oft kalla menntun, en þetta er ekki sjálfkrafa eitt og hið sama. 

Menntaverðbólgan hrjáir íslenskt samfélag eins og flest í hinum vestræna heimi. Fólk útskrifast með margar háskólagráður og lendir á atvinnuleysisskrá eða heldur einfaldlega áfram að mennta sig. Ekki er víst að allar þessar gráður séu nýtilegar til nokkurs skapaðar hlutar.

Danir eru nógu kræfir til að segja það hreint út hvaða menntun leiðir til ráðningar og hvaða menntun er hreinlega gagnslaus. Hérna er til dæmis frétt í dönskum miðli með fyrirsögninni: Hérna er sú menntun sem þú skalt EKKI taka ef þú vilt finna vinnu.

Yrði ekki allt brjálað á Íslandi ef svona frétt yrði sögð?

Tölurnar tala sínu máli í Danmörku. Offramboð er á arkitektum og allskyns félagsvísindafólki. Skortur er á læknum, verkfræðingum (með 5 ára háskólagráðu), tannlæknum og meira að segja hagfræðingum og lögfræðingum.

Svona tölfræði fyrir Ísland liti eflaust svipað út. Ég er viss um að kynjafræðingar, bókmenntafræðingar og allskyns félagsfræðingar eru stórt hlutfall atvinnulausra á Íslandi, eða að stórt hlutfall fólks með þess konar gráður er að vinna við eitthvað allt annað en gráðan (eða gráðurnar) gefur til kynna - jafnvel við eitthvað sem krefst alls ekki langtímaskólagöngu.

Margt af því sem er kennt í háskólum er jafnvel eitthvað sem mætti kalla áhugamál. Tökum stjórnmálaheimspeki sem dæmi. Hana má læra með því að lána eða kaupa nokkrar bækur og byrja að lesa. Lestur getur farið fram utan vinnutíma, á kvöldin og um helgar, eða í leyfum. Að "mennta" sig sem stjórnmálaheimspeking er áhugamál og ætti ekki að vera á kostnað annarra en þeirra sem það stunda. 

Sitt er hvað, menntun og verðmætaskapandi þjálfun. Ef fleiri vissu þetta yrði minni tíma og minna fé sóað í skólastofnanir á Íslandi.


mbl.is Fá störf fyrir menntafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna eru stjórnarskrár ónýtur pappír

Upp úr miðöldum fæddist sú hugmynd að ríkisvaldið mætti skorða af með því að setja því stjórnarskrá. Stjórnarskrá mælti nákvæmlega fyrir um það hvað hið opinbera mætti gera og hvað ekki. Sumar stjórnarskrár banna ríkisvaldinu alveg að gera nokkurn skapaðan hlut sem ekki er talið sérstaklega upp. Aðrar segja hvaða fyrirvarar eigi að gilda ef ríkisvaldið vill þenja sig út, ræna eða ráðskast meira með fólk og fyrirtæki þess.

Hugmyndin var samt alltaf sú sama: Að setja ríkisvaldinu mörk svo það fari ekki að haga sér eins og einræðisherrar miðalda sem gerðu hvað sem þeir vildu á meðan þeir komust upp með það.

Þessi tilraun til að setja ríkisvaldinu mörk hefur samt mistekist eins og ítrekað hefur komið fram. Dómstólar ríkisvaldsins standa nánast aldrei í vegi fyrir neinu sem framkvæmdavaldi ríkisvaldsins dettur í hug að gera. Að dómstóll úrskurði einhverja löggjöf ólögmæta því hún er í trássi við stjórnarskrá er nánast fáheyrt. Ef sú staða kemur upp nægir yfirleitt að breyta örlitlu í orðalagi löggjafarinnar og þá sleppur hún í gegn.

En ef einhver áhugi er á því að setja ríkisvaldinu skorður og stjórnarskrár virka ekki, hvað er þá til ráða?

Tvennt kemur mér tilhugar:

Annað er að almenningur krefjist þess hreinlega að ríkisvaldið sé lagt niður. Kannski er það pólitískt óraunhæft.

Hitt er að almenningur byrji á ný að þróa með sér heilbrigða tortryggni gagnvart hinu opinbera og hætti að gleypa allt sem það lætur frá sér. Það ætti að vera mjög raunhæf og sanngjörn ósk.

Ég ber hana hér með fram. 


mbl.is Fer ekki gegn þýsku stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru 'verkfallsbrot'?

Verkfallsstjórn framhaldsskólakennara heimsækir alla framhaldsskólana í Reykjavík og nágrenni í dag til að afla upplýsinga og tryggja að verkfallsbrot eigi sér ekki stað. Jafnframt mun hún hafa samband við framhaldsskóla úti í landi í sömu erindum.

Hvaða umboð hefur þessi verkfallsstjórn? Getur hún flæmt kennara úr kennslustund ef hún uppgötvar "verkfallsbrot" eða jafnvel sigað á þá lögreglunni? 

Getur þessi verkfallsstjórn gert þetta í umboði ríkisvaldsins og þar með almennings og þar með þeirra kennara sem ekki vilja vera í verkfalli? Ekki svo að skilja að ég líti í raun á ríkisvaldið sem umboðsaðila almennings, svo ég orða þetta bara svona fyrir þá sem gera það.

Ef ég fer í verkfall get ég búist við að fá launaskerðingu sem svarar til tapaðs vinnutíma eða hreinlega brottreksturs fyrir að mæta ekki í vinnuna. Sumir eru greinilega jafnari en aðrir þegar kemur að aðgangi að járnhnefa hins opinbera. Öll fáum við samt að borga skatta til að fjármagna hann.


mbl.is Eiga rúmlega milljarð í sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsröðun já? Sjáum nú til

Þeir sem rífast um afraksturinn af mjólkun skattgreiðenda nota oft furðuleg orð eins og "forgangsröðun" til að réttlæta stærri skerf af hinum löglega fengna ránsfeng. 

Vissulega láta flestir skattgreiðendur flá sig án mótmæla, hvorki í orði né verki. Fæst viljum við fara í fangelsi til að sleppa við löglegan þjófnað á launum okkar. Skárra er að vera rændur og hafa möguleikann á að ganga um göturnar, en sviptur frelsi. 

Stjórnmálaflokkar sem sáu um að tæma ríkissjóð á seinasta kjörtímabili eiga auðvelt með að slá sig til riddara í dag og heimta að tómur ríkissjóður sé skuldsettur enn frekar.

Staðreyndin er nefnilega sú að ríkisvaldið eyðir um efni fram og skuldar of mikið. Ekki ein króna er aflögu. Skattgreiðendur verða ekki mjólkaðir frekar. Ríkisvaldið er nú þegar að bjóða sértæka skattaafslætti og sérstakar undanþágur til að lokka fé til landsins og tryggja að örfá störf verði til sem hefðu ekki orðið til í umhverfi fullrar skattheimtu.  

Það er eitt skýrasta dæmið um að lengra verði ekki gengið í skattheimtu á Íslandi nema ætlunin sé beinlínis að halda hagkerfinu gangandi á vímuefnum lána og peningaprentunar og rýra þannig alla vöðva þess þar til það deyr.

Ríkisvaldið þarf að koma sér úr rekstri alla menntastofnana og gefa eftir í skattheimtu og reglugerðafargani. Þessi svimandi og þunglamalegi og í raun gjaldþrota rekstur ríkisvaldsins á menntakerfinu var athyglisverð tilraun til að hunsa lögmál hagfræðinnar, og uppfyllti sjálfsagt blauta drauma margra sósíalista, en núna er kominn tími til að enda hana. 


mbl.is Furðuleg forgangsröðun stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að lausn: Einkavæða framhaldsskólana

Núna deila allir kennarar við framhaldsskóla við hinn eina samningaaðila hins opinbera. Þetta er erfið staða. Enginn kennari í henni mun koma út með rétt laun. Þeir bestu fá meðallaun, óverðskuldað. Þeir verstu fá meðallaun, óverðskuldað.

Betra væri að koma á fyrirkomulagi hinna verkfallalausu stétta - þeirra þar sem hver semur fyrir sig.

Þær stéttir, ef svo má kalla, eru starfsmenn einkafyrirtækja.

Hvernig væri að gera að kennara framhaldsskóla að starfsmönnum einkafyrirtækja og koma þessari eilífu verkfallshótun frá um leið og laun gætu byrjað að endurspegla getu og þekkingu hvers og eins kennara?

Er það alveg galið? Eða vilja allir synda á sjó meðaltalsins, þar sem þeir verstu hafa engan hvata til að standa sig betur í starfi, og þeir bestu hreinlega neikvæða hvata? 


mbl.is Lokatilraun til að forða verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband