Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Er ókurteisi að standa fastur á sínu?

Icesave-deilan á Íslandi hefur tekið á sig margar myndir. Eitt af því sem deilt er um er hvort það sé "áhættunnar virði" að standa fast á rétti íslenskra skattgreiðenda, t.d. af lagalegum ástæðum eða af því það er einfaldlega ekki talið rétlátt að almenningur þurfi að blæða fyrir viðskipti einhverra annarra við einhvern banka.

Íslendingar hafa áður staðið í þeim sporum að þurfa vega og meta kosti "áhættunnar" af því að standa fastir á sínu. 

Hér er lítið sögulegt dæmi frá tímum mikillar togstreitu í sögu Íslands. Enn áttu eftir að líða 2 ár þar til niðurstaða kæmist í málið. Spenna var í loftinu. Íslenskur blaðamaður spyr einhvern útlenskan sérfræðinginn hvað viðkomandi finnst að Íslendingar ættu að gera - standa fastir á sínu eða gefa eftir eða eitthvað annað.

Úr fréttinni:

Ég spurði Mckernan hvort hann væri þá þeirrar skoðunar, að Íslendingar ættu að slá af sinni afstöðu með því til dæmis að leyfa þeim þjóðum veiðar innan auðlindalögsögu sinnar, sem teldu sig hafa til þess sögulegan rétt - og jafnvel láta ákvörðunarrétt þar að lútandi í annarra hendur.

Hann svaraði því til, að væntanlega yrði að taka eitthvert tillit til hagsmuna ríkja, sem hefðu stundað veiðar við Ísland um langan aldur, t.d. Breta og Þjóðverja. Hins vegar virtist sér málstaður Íslendinga mjög sterkur og gildar röksemdir fyrir því, að þeir hefðu þessi mál í sínum eigin höndum, það er full yfirráð yfir auðlindasvæðinu. Á ráðstefnunni [Hafréttarráðstefnan í Caracas, 1974] væri greinilega mjög víðtækur skilningur á afstöðu ríkja eins og Íslands, sem væru svo alvarlega háð fiskveiðum, og hann væri þeirrar skoðunar, að þróun málanna á ráðstefnunni benti ótvírætt til þess, að Íslendingar myndu fá þessi mál að fullu í sínar hendur áður en langt um liði.

Eins og sést á spurningu blaðamanns þá voru uppi raddir á þessum tíma sem vildu gefa eftir í nafni málamiðlana og "sögulegs réttar" annarra, þótt réttarstaðan "virtist" mörgum vera mjög sterk Íslands-megin. 

Þá var spurt: Eiga Íslendingar að standa fastir á því að fá yfirráð yfir 200 mílum umhverfis Ísland, þótt það þýði að einhverjum útlendingum finnist að þeir eigi að halda sínu?

Nú er spurt: Eiga skattgreiðendur að hlaupa undir bagga þegar erlend ríki krefja hið íslenska um að setja ólöglega ríkisábyrgð á enn meira en nú þegar hefur verið gert?


Steingrímur J. er tvíhöfði

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, (SJS nýr) er mjög ósammála Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi þingmanni stjórnarandstöðunnar, (SJS gamall) í mörgum málum.

Listinn af deiluefnum þessara tveggja persónuleika lengist nánast viku frá viku.

Þeir eru ekki sammála um áhrif skattheimtu á verðmætasköpun atvinnulífsins og skattheimtu ríkisins.

Þeir eru ekki sammála um það hvenær má og á að blása til þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað mál, og mjög ósammála um það hvaða mál "henti" til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir eru á öndverðum meiði í afstöðu sinni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Annar þeirra gerir allt sem gera þarf til að fá lán frá þessum sjóði og fegrar mjög samstarf ríkissjóðs og AGS í fjölmiðlum.  Hinn varar mjög við samstarfi við AGS og segir slíkt vera stórhættulegt og til þess gert að blanda saman ólíkum erfiðleikum og gera að einum stórum.

Þeir eru mjög ósammála um hagstjórn. Annar þeirra er stuðningsmaður þess að hækka skatta í "góðæri" og lækka þá þegar illa árar. Hinn vill hækka skatta í sífellu og er óþreytandi við að finna upp nýja skatta, sama hvernig árar.

Í Icesave-málinu eru þessir menn mjög ósammála. Annar þeirra, SJS gamli, vill standa fastur á málstað Íslands og óhikað neita ólögmætum kröfum erlendra ríkisstjórna. Hinn vill borga, því meira því betra, því fyrr því betra.

Sá segir vel á minnst að Icesave-undanlátssemi muni leiða til bætts aðgengis að erlendu lánsfé til fjárfestinga á Íslandi og vísar þar, meðal annars, til þess að Landsvirkjun er á höttunum eftir slíku fé til að geta reist virkjun. SJS nýr og gamall eru þar með komnir á andstæðan pól í afstöðu sinni til fjölgun virkjana á Íslandi. 

Stundum verða þessir tveir menn ósammála því hvort þeir hafi lagt hendur á aðra eða ekki

Listinn er eflaust lengri og mætti prýða með fleiri tilvísunum, en eitt er ljóst: SJS nýr og SJS gamall eru svo sannarlega ósammála um margt og mikið!


mbl.is Samúð erlendra fjölmiðla ekki nóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auknar skuldir ríkissjóðs = gjaldþrot ríkissjóðs

Umræðan um "réttmæti" Icesave-fangelsisvistar Íslendinga vegna pólitískra aðgerða breskra og hollenskra stjórnvalda er, að því er virðist, löng og flókin. Menn játa eða neita fyrir lagalegan grundvöll kröfugerðanna frá Evrópusambandsríkjunum. Menn rífast um áhættuna af því að leita réttar síns fyrir dómstólum eða einfaldlega segja Bretum og Hollendingum að fara með kvabb sitt annað.

En hvað sem því líður þá er eitt nánast öruggt: Ef Icesave-klafinn leggst á ríkissjóð, þá er hann hættulega nálægt gjaldþroti.

Og hvaða gagn er af erlendum fjárfestingum og "atvinnusköpun" í landi sem er stjórnað af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Sá sjóður mjólkar Íslendinga þar til hann hefur endurheimt óumbeðin neyðarlán sem hann "veitir" svo Íslendingar geti greitt kröfuhöfum á gjaldþrota ríkissjóðinn.

Svo réttmætt eða ekki, of mikil áhætta eða ekki, þetta geta menn rifist um og þurfa í sjálfu sér ekki að verða sammála, því hyldýpi gjaldþrots blasir við ef skuldum verður enn bætt á ríkissjóð.

Icesave: Já = Gjaldþrot ríkissjóðs: Hví ekki?

Icesave: Nei = Gjaldþrot ríkissjóðs: Helst ekki.


mbl.is Áhættan af dómsmáli meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samþykki Icesave er gjaldþrot ríkissjóðs

Ef Icesave verður samþykkt þá eru enn minni líkur á því að Íslendingum takist að greiða úr þeim skuldum sem þeir eru í. Það verður að draga úr vaxtakostnaði hins opinbera af þeirri einföldu ástæðu að hann er að sliga ríkissjóð. Eitt skref í því er ekki að samþykkja kröfu sem lagalegur vafi er um að okkur beri að borga „bara til að koma því máli frá og svo vonandi sé hægt að fá erlent fjármagn til atvinnuppbyggingar.“

Ef ríkissjóður endar í gjaldþroti þá fer allt á annan endann; það eru engin efnahagsvandræði jafn alvarleg og gjaldþrot ríkissjóðs viðkomandi lands! (Ólafur Margeirsson á pressan.is)

Einnig:

Nú er það hins vegar svo að brúttó erlendar skuldir* Íslendinga (summa erlendra skulda hins opinbera, heimila og fyrirtækja) eru þegar um 130% af landsframleiðslu – að þrotabúum bankanna og beinni erlendri fjárfestingu slepptum. Ef Icesave er samþykkt hækkar það hlutfall í ca. 160-170%. Það er mjög ósennilega sjálfbært og í tilviki þeirra landa sem hafa lent í greiðsluþroti á erlendum skuldum var þetta hlutfall í kringum 70% að meðaltali þegar slíkt átti sér stað. (Ólafur Margeirsson á pressan.is)

En mun samþykki Icesave ekki opna flóðgáttir erlends fjármangs sem mun þá streyma til atvinnuuppbyggingar og fjárfestinga á Íslandi? Kannski. Kannski ekki. En hvaða gagn er af slíku þegar ríkissjóðir er kominn í þrot? Þá tekur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í raun við efnahagsstjórn Íslands og sá sjóður fær sínar afborganir sama hvað það kostar. 


mbl.is Icesave-málið ekki það stórt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakannanir og Icesave

Áhugavert er að bera saman fréttir um "stuðning við Icesave" nú og fyrir um ári síðan þegar Íslendingar voru í sömu sporum (með öllum þeim fyrirvörum sem þarf að gera við slíkan samanburð: Orðalag spurningar, úrtakið í aldri og búsetu, svarhlutfall og annað).

1. mars 2010 sagði vísir.is svona frá:

Nýjasta könnun Gallup varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna þá ætla 74 prósent að fella lögunum en það var RÚV sem greindi frá könnuninni í kvöldfréttum sínum í útvarpinu. (visir.is)

Í gær var skrifað á sama (frétta)vef:

Rétt rúmur helmingur þjóðarinnar myndi kjósa með Icesavelögunum kæmu þau til atkvæðagreiðslu í dag samkvæmt könnun MMR sem var framkvæmd í gær og í dag. MMR kannaði viðhorf Íslendinga til ákvörðunar forseta Íslands um að hafna nýjustu Icesave lögunum samþykkis. (visir.is)

Eins og menn muna þá var Icesave 2010 felldur með 98% greiddra atkvæða (um 60% kosningaþátttaka).

Hvað segir þetta okkur? Mér sýnist lexían vera sú að skoðanakannanir vanmeti stórkostlega andstöðu almennings við Icesave-klafa Breta, Hollendinga og meirihluta Alþingismanna.

Þessi túlkun mín er sennilega lituð af minni eigin afstöðu til Icesave. En þá það. 


mbl.is 57,7% myndu samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að semja til sigurs, eða semja af sér?

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í atkvæðagreiðslu um Icesave-frumvarpið, að samningaleiðin hefði verið reynd til þrautar í þessu máli. Það væri siðaðra manna háttur að leysa deilumál, ef það er hægt, með samkomulagi.

Þessi orð mælti fjármálaráðherra þegar hann rökstuddi á Alþingi hvers vegna Íslendingar eigi að samþykkja að kokgleypa öllum kröfum Breta og Hollendinga og gera íslenska skattgreiðendur ábyrga fyrir einhverju sem á ekki að koma þeim við.

Það er ávinningur hverri þjóð að leysa deilumál við aðra þjóð með samkomulagi ...

Þessi orð mælti Geir Hallgrímsson heitinn, forsætisráðherra Íslands þegar Íslendingum tókst að fá Breta til að samþykkja full yfirráð Íslands yfir 200 mílna hafsvæðinu umhverfis landið (sjá hér).

Í fyrra tilvikinu mælir ráðherra fyrir "samningi" þar sem í raun er búið að semja af sér.

Í síðara tilvikinu tókst Íslendingum að bola óréttlætinu af sér með samningum. Það var ekki auðvelt né fórnarlaust (sjá hér), en það tókst.

Sitt er hvað, að semja til sigurs, og semja af sér. 


mbl.is Menn verða stórir með samningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvupóstur til Breta: Case closed

Hvernig væri að senda Bretum tölvupóst (og Hollendingum í leiðinni) með eftirfarandi texta (á ensku):

Kæri móttakandi,

Íslensk stjórnvöld hafa nú enn einu sinni rekist á vegg í Icesave-málinu og tekst mjög líklega ekki að troða þessum kröfum ykkar ofan í kok íslenskra skattgreiðenda. Við lítum því svo á að okkur muni ekki takast það, og teljum að málinu sé lokið af okkar hálfu.

Ef þið hyggist leita annarra leiða til að bæta upp fyrir eigin pólitísku afglöp, þá vitið þið hvernig á að hafa samband við okkur.

Kær kveðja,

Íslensk stjórnvöld


mbl.is Skýrir kostir í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Legpláss til leigu

In Iran the practice of selling one's kidney for profit is legal. Iran currently has no wait lists for Kidney transplantation.[10] Kidney sales are legal and regulated. (wikipedia.org)

Einnig:

In developed countries, the severe shortage of transplantable kidneys has forced the transplant community to adopt new strategies to expand the kidney donor pool. However, compared with the Iranian model, none of these approaches has the potential to eliminate or even alleviate steadily worsening renal transplant waiting lists. (asnjournals.org)

Svo virðist sem löglegur markaður með nýru útrými biðlistum eftir nýrum. Þetta heitir að leyfa framboði og eftirspurn að mætast. Það þarf enga tilfinningasemi í málið: Ef markaðinum er leyft að starfa, þá hreinsar hann til. Framboð og eftirspurn mætast. Friður sé með yður.

En hvað með staðgöngumæðrun? Markaðurinn ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að vinna sína vinnu þar eins og á markaði nýrnaskorts. Það eina sem löggjafinn þarf að gera er að koma sér úr veginum. 


Persónulegar (en pólitískar) hugleiðingar um Sjálfstæðisflokkinn

Ég er stundum spurður hvort ég sé ekki "sjálfstæðismaður". Því svara ég alltaf neitandi. Ég er frjálshyggjumaður. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki frjálshyggjuflokkur. En hann hefur oft verið sá valkostur sem kemur einn til greina í kjörklefanum - aðrir flokkar eru einfaldlega miklu rauðari.

Ég hef taugar til Sjálfstæðisflokksins. Ég var einu sinni skráður í hann. Flokkurinn á sér að mörgu leyti glæsilega fortíð. Flokksmenn hans stóðu oft einir á málstað Íslands gagnvart útlöndum, hrintu viðskiptahöftum af Íslandi á sínum tíma, sögðu Bretum að hoppa upp í rassgatið á sér í þorskastríðunum, og svona má lengi telja. Saga íslenskra stjórnmála hefur oftar en ekki verið saga Sjálfstæðisflokksins á móti sósíalistunum. Þessu geta Sjálfstæðismenn í dag verið stoltir af.

Sömu Sjálfstæðismenn ættu hins vegar að líta í eigin barm. Svo virðist sem þeir hafi alveg gleymt hvernig á að rífa kjaft við vinstrimennina og virðast jafnvel sætta sig við einhvers konar hækju-stöðu þar sem Íslands-skaðleg mál eru borin í gegnum Alþingi með hjálp Sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn fylla heimasíðu sína af skynsamlegum og skýrum hugmyndum, en nefna þær ekki einu orði þegar fréttamenn spurja þá hvað þeir vilji gera til að uppræta kreppuna á Íslandi. Skammast þeir sín fyrir eigin stefnu?

Eina glætan í myrkrinu eru ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Þær rífa nú kjaft sem aldrei fyrr, bæði við eigin flokksforystu og vinstrimennina. Heimdallur hefur endurfæðst sem "samviska flokksins", sem betur fer, og þótt fyrr hefði verið! 

Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn nái vopnum sínum og þori á ný að taka slaginn við vinstrimennina. Þá gæti ég kannski hugsað mér að kjósa þá aftur. 


Allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft?

Við kjörborðið ráða kjósendur því hvort forsjárhyggja Steingríms J. Sigfússonar fær að festa hér rætur, þar sem lögmálið verður að allt sé bannað sem er ekki sérstaklega leyft.

Þessi orð skrifaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í aðdraganda seinustu Alþingiskosninga, þegar hann var að reyna lokka til sín atkvæði frjálshyggjumanna. 

Þótt Bjarni hafi nú komið út úr skelinni sem jafnaðarmaður sem á helst heima í Samfylkingunni, þá eru ofanrituð orð hans góðra gjalda verð. Viljum við að allt sem er ekki sérstaklega leyft sé bannað?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband