Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Styrking krónunnar, á hvaða forsendum?

Meint styrking krónunnar er mér hulin ráðgáta.

Krónan var gríðarlega sterk í nokkur ár. Danska krónan fékkst fyrir tæpan tíkall. Dollarinn fékkst fyrir tæpar 80 krónur. Síðan kom hrunið. Danska krónan skaust í 25 krónur og dollarinn í tæpar 150 krónur.

Þá var skellt í lás. Gjaldeyrishöft og mikil inngrip Seðlabanka Íslands hófust. Hrun krónunnar var stöðvað á kostnað gjaldeyrisforða sem fenginn var að láni.

Núna dansar danska krónan í rúmlega 20 krónum og dollarinn í tæpum 130 krónum og hafa gert lengi. Gjaldeyrishöftin eru enn við lýði en bein inngrip Seðlabanka Íslands af gjaldeyrismarkaði virðast vera lítil sem engin.

Mín tilfinning er sú að krónan eigi inni töluvert fall sem var slegið á frest á sínum tíma. Krónan var í frjálsu falli áður en höft voru sett á hana. Hún hefur ekki fallið mikið síðan þá. En hvert hefði hún farið án haftanna á sínum tíma? Er ekki óumflýjanlegt að hún nái botni sínum á einn eða annan hátt, og að núverandi ástand sé bara logn á undan stormi?

Ég þekki ekki öll verkfæri hins opinbera til að hafa áhrif á verðmyndun gjaldmiðla sinna. Ég held samt að ekki sé allt sem sýnist.


mbl.is Gylfi: Vonandi varanleg áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangnefni: 'Aðilarviðræður'

Orðaval getur skipt miklu máli þegar eitthvað á að fegra eða setja í auðmeltanlegri umbúðir. Til dæmis er talað um að Ísland sé að hefja 'aðilarviðræður' við ESB. Réttara væri hins vegar að tala um 'aðlögunarviðræður' því ESB er ekki að fara breyta sínum innviðum eða skipuritum til að koma til móts við Ísland. Íslendingar eru að fara beygja og sveigja sitt stjórnkerfi til að falla að stjórnkerfi ESB. Þegar því er lokið, þá verður hugsanlega farið í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um hvort skrifa eigi undir lokaplaggið, sem á þeim tímapunkti verður varla annað en formsatriði.

En að öðru:

Það er fráleit afstaða hjá Vinstri grænum að láta Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra fara einan til fundar við ESB-menn á morgun. Reynslan sýnir, að það er ekki hægt að treysta orðum utanríkisráðherrans hér heima fyrir og þess vegna er engin ástæða til að treysta því, að hann gefi rétta mynd af stöðu mála á Íslandi í viðtölum við erlenda ráðamenn. Það er heldur ekki hægt að treysta því að hann segi rétt frá samtölum við erlenda ráðamenn, þegar hann er kominn heim til Íslands.

Sammála!


mbl.is Össur á leið til Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert er auðlind sem ekki er nýtt

Hvað er auðlind? Auðlind eru einhver gæði, t.d. heit vatnsbóla í iðrum jarðar eða málmtegund djúpt í jörðu sem einhver sækir á einn eða annan hátt, gerir að seljanlegri vöru og selur.

Ef stjórnvöld vilja ekki að ákveðin gæði jarðar séu auðlind þá er þeim upplagt að banna fjárfestum að leggja eigið fé undir í vinnslu og borun og sölu og leyfa þeim sem nú þegar hafa virkjað gæðin sitja eina að sölu þeirra. Það er enginn að pína stjórnvöld til að leyfa fjárfestum að færa neytendum eftirsótt gæði. Fjárfestar gera það því borgandi viðskiptavinir eru margir, og eftirspurnin mikil. 

Núna vilja Kanadamenn (sem af einhverjum ástæðum þykja nú voðalega slæmir því þeir eru ekki í EES) leggja mikið fé í að fjárfesta á Íslandi, sækja heitar vatnsbólur úr iðrum jarðar og færa borgandi viðskiptavinum. Þetta finnst sumum vera hræðilegt. Margir telja að vatnsbólurnar einar og sér séu einhvers virði en átta sig ekki á því að þær eru fyrst orðnar að "auðlind" ef einhver leggur fé og fyrirhöfn í að sækja þær og gera að seljanlegri vöru.


mbl.is Ekki óvenjulegt að tölvukerfi bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram heldur vitleysan

Stjórnmálamenn slá gjarnan um sig með "háleitum" markmiðum þar sem boðað er til funda og ráðstefna og miklu fé sturtað í átaksverkefni og auglýsingaherferðir, en á endanum hefur ekkert breyst.

Lífskjör almennings og geta hagkerfisins til að bæta þau velta að miklu leyti á aðgengi að ódýrri orku. Aðgerðir gegn CO2-losun (sem að vísu ná ekki til Eyjafjallajökuls eða Kötlu) eru bein árás á orkuaðgengi almennings og fyrirtækja, a.m.k. á meðan enn er hikað við að virkja fallvötn og jarðvarma og reisa kjarnorkuver. 

Ef CO2 hefur mikil áhrif á hitastig jarðar og ef mönnum tekst að sporna gegn losun CO2 (plöntum til mikillar ólukku) þá hefur eitt og aðeins eitt gerst: Við verðum fátækari á kaldari plánetu, í stað þess að vera ríkari og hlýrri plánetu.

Ekki eftirsóknarvert markmið að mínu mati.

Annars hélt ég að alvarlegri krísur á borð við hrunið á hinu blandaða hagkerfi hefðu fyrir löngu sópað þessari óspennandi gróðurhúsaumræðu út af borðinu. Einhverjir ætla sér samt að reyna halda lífi í henni, enda margir sem nú orðið lifa á því að framleiða hræðsluáróður ofan í almenning.


mbl.is Hvetja til meiri samdráttar í losun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamaður með markaðsvit?

Stjórnmálamenn tala oft eins og þeir viti manna best hvar viðskiptatækifærin liggi og hvar megi græða. Þeir tala gjarnan í fullkominni vissu, en af einhverjum ástæðum hætta þeir samt sjaldnast eigin fé og eigin frama til að stökkva á gullið þar sem þeir þykir næsta öruggt að það finnist.

Geysir Green Energy og "50 milljarða gróði" Dags B. Eggertssonar er dæmi um það. Hvar var hans fé í öllu því ævintýri, ef hann hefði fengið því framgengt á sínum tíma?

Loðdýraræktun átti einhvern tímann að skapa miklar tekjur. Sú spá stjórnmálamanna rættist ekki, og stórfé á reikning skattgreiðenda var sóað í það ævintýri.

Össur spáði Íslendingum milljarðahagnaði á fiskeldi á sínum tíma. Hvar finnast hlutabréf í nafni Össurar til að bakka þær fullyrðingar hans?

Svo átti ferðaþjónustan að gera allt gott á Íslandi, í nafni peninga og umhverfis. Kemur svo í ljós að ferðamenn traðka á gróðri og kaupa þjónustu sem skapar láglaunastörf, en ekki hálauna. 

Stjórnmálamenn sem tala um viðskiptatækifæri eru yfirleitt ávísun á tapaðar áhættufjárfestingar á kostnað skattgreiðenda. 


mbl.is Kína markaður fyrir fisk og ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Taka tekjur inn' segir Jóhanna

Orðanotkun vinstri manna (en þeir finnast í öllum flokkum á Alþingi í dag) er athyglisverð. Talað er um "breytingar á skattkerfinu" í stað þess að tala berum orðum um hækkandi skatta. Talað er um að ríkið "taki inn tekjur" í stað þess að tala berum orðum um hækkandi skatta.

Það nefnilega ekkert óvænt við að vinstristjórnin snarhækki skatta á alla línuna og hlaupi svo frá sökkvandi skipi. Það er mjög dæmigert og endurtekið ferli í íslenskri stjórnmálasögu. Núna er orðalaginu bara breytt.

Eða hver kannast ekki við þetta myndband um fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars og seinustu vinstri stjórnar? 


mbl.is Útilokar ekki skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama W Bush

Obama boðaði miklar "breytingar" á valdatíma sínum. Raunin hefur verið nokkuð önnur. Með ágætum rökum er hægt að segja að Obama hafi tekið upp allt sem George W Bush stóð fyrir og þanið út.

Dæmi:

Kreppuhagfræðin

George W Bush ákvað að kaupa sér leið út úr hruninu á internetbólunni með því að samþykkja stórkostlega peningaprentun undir leiðsögn Greenspan í seðlabanka Bandaríkjanna. Hin nýja bóla sem þá varð til kom (meðal annars) fram í snarhækkandi húsnæðisverði (hafði í tíð peningaprentunar Clinton-Greenspan komið fram í hlutabréfaverði á internetfyrirtækjum). 

Obama hefur framfylgt nákvæmlega sömu "hagfræði" með Bernanke í stól seðlabankastjóra. Tilraun er gerð til að prenta sig út úr hruninu, nema hvað núna er miklu meira prentað og miklu meira sett á ábyrgð skattgreiðenda. Menn tala um að "hagvöxtur" sé byrjaður að sjást í bandarísku hagkerfi, rétt eins og eftir internetbóluna. 

Stríð

Eitthvað nýtt þar? Fleiri hermenn, meiri útgjöld, sama áætlun. Friðarverðlaun Nóbels hafa greinilega engin áhrif ef þeim fylgja engar breytingar á aðferðafræði.

Útþensla velferðarkerfisins

Bush sparaði ekki á "velferðinni" á sínum valdatíma. Hann smellti lyfjaútgjöldum eldra fólks inn á reikning skattgreiðenda og kom á ýmsu öðru, t.d. eitthvað fyrir börn. Obama tekur hérna upp þráðinn og rúllar meira og minna öllu heilbrigðiskerfinu undir væng hins opinbera. Ekkert nýtt, bara hið sama í stærri mæli, rétt eins og með stríðsreksturinn og peningaprentunina.

Arfleifð Obama sem "fyrsta svarta forsetans" verður líklega bara sú, að hann hafi verið fyrsti svarti forsetinn. Að öðru leyti verður hans varla minnst fyrir annað en að hafa þanið hið opinbera stórkostlega út, og skilið eftir sig aðra sprungna bólu á hagkerfinu. 


mbl.is Treysta ekki lengur Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem nýta ekki fá að borga

"Borgarráð hefur samþykkt að veita..." fé almennings í eitthvað sem almenningur hefur bersýnilega engan áhuga á að fjármagna, en skal nú fá reikninginn fyrir því engu að síður.

Það er nokkurn veginn kjarni málsins hér.

Ég veit að almenningur er neyddur með sama hætti til að fjármagna allskonar af hinu og þessu sem hann nýtir ekki eða kærir sig um, en núna á krepputímum er bara verið að sá salti í sárin svo vinir Jóns Gnarr geti fengið sér þægilega innivinnu á reikning fólks sem hefur engan áhuga á að njóta afrakstursins. 


mbl.is 12 milljónir til „Heimilis kvikmyndanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með NAFTA?

Það að bendla ESB-aðild við ástand einstakra hagkerfa, t.d. Íslands, er eins og að segja að Íslendingar hefðu komið betur út úr kreppunni ef hér væru fleiri rauðhærðir, eða fleiri karlmenn - sem sagt alveg tilviljanakennd "ástæða" fyrir ástandi hagkerfis.

Sum ríki eru að jafna sig hraðar á kreppunni en önnur. Sum þeirra eru í ESB, sum ekki. 

Þjóðverjar halda uppi Evrópu með aðhaldi og sparsemi og þar reyna menn að eyða svipað mikið og þeir þéna. Þjóðverjum hefur vegnað vel bæði fyrir og eftir að ESB var stofnað. 

Grikkir, Spánverjar, Portúgalir, Ítalir og fleiri eru í slæmum málum því þar eyða menn meira en þeir þéna.

Á Íslandi eyða menn líka enn þeir þéna, og þar fer ríkisstjórnin fremst í flokki. Ef Ísland á að komast úr kreppunni þá þurfum við að eyða minna en við þénum. Með eða án ESB.

Nema auðvitað að hugmyndin sé sú að gera Íslendinga að þurfalingum á fjárframlögum frá ESB?


mbl.is Össur: ESB hefði komið í veg fyrir efnahagshrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Krugman segir það þá er það sennilega rangt

Paul Krugman er sérkennilegt fyrirbæri í sjálfu sér: Hann segir allt sem hið "viðtekna" í hagfræðinni boðar, og hefur fyrir vikið rangt fyrir sér í öllum meginatriðum.

Í grein sinni um Ísland tekur Krugman stöðuna á Íslandi í dag (í tölum og línuritum) og ber saman við ríki eins og Eistland, Írland og Lettland þar sem kreppan er að skella hvað harðast niður. Hann segir að út frá línuritum sínum megi sjá að gríðarleg skuldsetning ríkisins og gjaldeyrishöft séu að sigla Íslandi í gegnum kreppuna mun blíðar en þar sem menn hafa tekið á fjárlagahalla og skuldasöfnun. Honum skjátlast og hann lítur ekki til lengri tíma þegar reikningarnir fyrir lántökunum byrja að streyma inn.

Miklu nær væri að hlusta á t.d. þennan mann.

Á öðrum stað segir:

Krugman gagnrýnir stefnumótun stjórnvalda og segir að þriðja kreppan yrði fyrst og fremst fyrir tilverknað stefnu stjórnvalda. Hann segir stjórnvöld G20 ríkjanna of upptekin af verðbólgu meðan stóra hættan er að hans mati verðhjöðnun og of lítil neysla almennings. 

Krugman finnst sem sagt að yfirgengilega hátt húsnæðis- og hrávöruverð hafi verið merki um mikla uppsveiflu og góðæri, og að til að komast út úr kreppunni eigi að leyfa yfirverðlögum gæðum að vera það áfram. "Verðhjöðnun" sé slæm.

Slíka "visku" á að slá út af borðinu hið snarasta með "common sense". Dæmi: Tölvur lækka í verði á ógnarhraða og hafa verið að gera það í mörg ár. Samt er bullandi og blússandi góðæri hjá tölvuframleiðendum þar sem haugur framleiðenda slást um að vera með í "verðhjöðnuninni". Hvað segir Krugman við því?

Hverjum dettur svo í hug að NEYSLA sé góð lækning við kreppu? Það sem markaði í kreppu vantar er viðskiptavinir sem eiga pening, en ekki viðskiptavinir sem smátt og smátt sigla í gjaldþrot vegna skuldsettrar neyslu. 

Krugman skjátlast. Það er ágætt hugarfar þegar pistlar hans eru lesnir.


mbl.is Ísland sleppur betur en önnur Evrópuríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband