Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Barbararíkið Danmörk og áfengið

Eftirfarandi grein mín birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég vona að hún veki a.m.k. einn forræðishyggju-siðapostula-fílabeinsturn-boðara-bannarann til umhugsunar svo að viðkomandi láti af andstöðu sinni við frjáls viðskipti og samskipti annarra.

************************** 

Margir Íslendingar hafa heimsótt og jafnvel búið í Danmörku. Þar í landi geta 16 ára unglingar keypt bjór og vín að 18% styrkleika í hvaða verslun sem er, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, eða á meðan þær hafa opið. 18 ára einstaklingar og eldri geta keypt sterkara áfengi löglega. Áfengisdeildir danskra verslana eru yfirleitt stórar, með miklu úrvali, og iðulega eru freistandi tilboð á allskyns áfengi í gangi. Sjónvarpsauglýsingar fyrir áfengi dynja á dönskum neytendum og auglýsingabæklingar streyma inn á dönsk heimili og allt er auglýst: Bjór, vodki, skot og léttvín.  

Flæðir þá ekki allt í áfengi í Danmörku? Nei, ætli það. Fólk umgengst áfengi öðruvísi en á Íslandi. Flestir kunna sér hófs (t.d. við kvöldverðarborðið) eða vita hvenær óhóf er við hæfi (t.d. á hinu danska jólahlaðborði). Auðvitað eru margir sem glíma við vandamál tengd áfengisneyslu en þeir þurfa ekki að selja af sér spjarirnar til að hafa efni á sopanum og geta jafnvel lifað eðlilegu lífi með litlar ráðstöfunartekjur (sem eru oft, en ekki alltaf, opinber framfærslu). 

Unglingadrykkja er ekkert sérstakt vandamál í Danmörku og danskir foreldrar kippa sér lítið upp við að unglingurinn þeirra sé byrjaður að drekka. Umræðan öll er miklu opnari og afslappaðri en á Íslandi. Unglingum finnst þeir síður þurfa að fara í felur með áfengisneyslu sína. Vissulega er gott fyrir unglinginn að fresta áfengisneyslu og skiptir þar hvert ár máli, en í stað þess að demba í sig sterku heimabruggi getur unglingurinn smakkað sig áfram með bjór og víngosi og fundið sín mörk á skipulegan hátt og jafnvel undir leiðsögn foreldra eða eldri vina.

Umræðan um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi endurspeglast að hluta af því að margir hafa beina hagsmuni af núverandi fyrirkomulagi (innlendir framleiðendur, stjórnmálamenn í atkvæðaleit, embættismenn í verkefnaleit og margir sem vilja hafa vit fyrir öðrum). Neytendur eru sundurleit hjörð og íslenskir neytendur sennilega með þeim minnst kröfuhörðu í Vestur-Evrópu þegar kemur að úrvali og verðlagi. Allt helst þetta í hendur við að viðhalda núverandi fyrirkomulagi áfengissölu á Íslandi.

Enn einu sinni á að leggja fram frumvarp á Alþingi sem fækkar eltingaleikjum íslenskra lögreglumanna við friðsama borgara með því að hætta að gera sölu á bjór og léttvínum í matvöruverslunum að lögbroti. Sumir segja að fyrir löngu sé kominn tími á slíkar lagabreytingar og að lengra eigi að ganga með því að heimila einnig sölu á sterku áfengi víðar en í verslunum ríkisins. Er þá jafnvel vísað til barbararíkisins Danmerkur sem fyrirmynd! Aðrir segja að of langt sé gengið í að gera áfengi aðgengilegt fyrir Íslendinga, enda drekki „aðrir“ yfirleitt „of mikið“ að mati þeirra sem tjá sig. Er þá opinbera elítan á sífelldum ferðalögum á kostnað skattgreiðenda í gegnum fríhafnir heimsins undanskilin.  

Ég segi fyrir mitt leyti: Fullorðið fólk á að fá að kaupa og innbyrða allt sem það vill og hver sem er á að geta selt því hvað sem er, með og án lyfseðils, utan og innan veggja ríkisbygginga (og foreldrar eiga einir að bera ábyrgð á uppeldi barna sinna). Að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum er jákvætt skref í þá áttina, og ég vona að það verði tekið, og að hið næsta, sem er tekið alla leið, fylgi skammt á eftir. 


Skiptir engu máli

Enn og aftur á að hringla með ráðuneytin. Gott og vel. Ríkisstjórnin ræður. Hún getur stofnað 50 ráðuneyti ef þannig liggur á henni. Hún getur sópað þeim öllum saman í eitt eða tvö ráðuneyti. Ekkert af þessu skiptir máli. Ríkisstjórnin ræður. Hún getur skipað ráðherra úr flokkum eða embættismenn sem fylgja fyrirmælum. Niðurstaðan er sú sama. Ef ríkisstjórnin vill lengja eða stytta tíma sem eitthvað innan einhvers ráðuneytis tekur þá gerir hún það, hvort sem ráðuneytin eru tvö eða tuttugu. Ef ríkisstjórnin vill að allir Íslendingar þurfi að fylla út eitt eyðublað á ári þá gera Íslendingar það. Ef ríkisstjórnin vill afnema umsóknarskyldu fyrir einhverju þá gerir hún það.

Rekstrarkostnaður ráðuneyta er dropi í haf ríkisrekstursins. Hann er aukaatriði. Ráðherrar hafa verið að bæta á sig hjörð aðstoðarmanna og fjölmiðlafulltrúa seinustu ár. Gott og vel. Kannski lágmarkar það skaðann af ráðherrunum. Kannski ekki. Það er líka aukaatriði.

Aðalatriðið eru heildarumsvif hins opinbera. Þau eru mikil, hvort sem ráðuneytin eru tvö eða tuttugu. Það sem skiptir máli er að minnka þessi umsvif. Ég er ekki að meina 5% niðurskurð hér og þar eða 20% lækkun framlaga til einhvers málaflokksins. Ég er að tala um að afnema eða einkavæða heilu afkima ríkisrekstursins, lækka skatta gríðarlega, afnema heilu lagabálkana og gefa Íslendingum svigrúm til að anda á ný.

Þetta ráðuneytatal er upplagt til að dreifa athyglina frá því sem skiptir máli. Hérna er fjallað um það sem skiptir máli: Bólgið ríkisbákn sem heldur áfram að sjúga takmarkað blóðið úr máttlausum skattgreiðendum.


mbl.is Skoða frekari skiptingu ráðuneyta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha? Dreifa skjáir athyglinni?

Spjaldtölvuvæðing grunnskólanna er hafin á fullu. Krakkar niður í 6 ár ganga með síma á sér, jafnvel snjallsíma. Kennarar moka krökkum í tölvuver eða setja skjá fyrir framan þá og láta forrit um kennsluna. Krakkar hópa sig saman og glápa hver á sinn skjá. Um leið og einhver þarf að bíða eftir einhverju í nokkrar sekúndur er skjárinn kominn á loft. Foreldrar horfa á skjá á meðan þeir ýta börnum sínum áfram í kerrum og vögnum, og horfa á skjá á meðan börnin leika sér á leikvelli. Krakkar kunna varla að skrifa með höndunum áður en þau fá lyklaborð frá skólakerfinu. 

Þetta er allt gott og blessað. Tækni er góð. Aðgengi að upplýsingum og afþreyingu er góð. Spjaldtölvur í stað kennara er örugglega góð sparnaðarleið fyrir skólakerfið. Ekki ætla ég að vera risaeðla sem spyrni fótum við framförum og nýjungum.

Eða hvað?


mbl.is Snjallsímar draga úr getu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hans Rosling og fátækt

Sigurður Már Jónsson gerir komu Hans Rosling til Íslands að umtalsefni í pistli. Það er gott mál. Ég ætla að gera það sama.

Hans Rosling vekur til umhugsunar. Á einum stað segir hann til dæmis: "Even the hard core in the green movement use the washing machine." Er það ekki umhugsunarvert? Meira að segja þeir sem predika hæst um mikilvægi þess að takmarka aðgengi mannkyns að auðlindum, orku og tækni nota þvottavélar. Horfðu á myndbandið til að fá alla ræðuna.

Hans Rosling á einn vinsælasta TED-fyrirlestur allra tíma og ekki finnst mér það skrýtið. Horfðu!  

 


SJS-heilkennið

Við lestur á lítilli grein datt mér í hug hvort lækna- eða sálfræðingastéttin ætti ekki inni að skilgreina nokkuð sem ég vil kalla SJS-heilkennið. Getur það verið? Ég býð hér upp á litla skilgreiningu: Að þakka sér fyrir allt sem er gott, en kenna öðrum um allt sem er slæmt. Viðhengd mynd skýrir vonandi heilkennið þannig að allir skilji.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hugsanlegar lausnir

Jafnréttisstofa eyddi 441 þúsund krónum á árinu 2013 í leigubílakostnað, en átta manns vinna hjá Jafnréttisstofu, sem er á Akureyri. Þetta kemur fram í ríkisreikningi ársins 2013. 

Gott og vel.  Ef þetta er vandamál þá er til lausn. Nokkrar hugmyndir: 

  • Að aðrir en bílsprófslausi yfirmaðurinn sæki fundina.
  • Að fundir fari fram á Skype.
  • Að yfirmanninum sé skipt út fyrir annan með bílpróf.
  • Að Jafnréttisstofa sé lögð niður og fundir hennar þar með.
  • Að fólk noti mikið lofaða strætisvagna í stað leigubíla.
  • Að aðrir starfsmenn - þeir með bílpróf - skutli fundargestum á milli funda. Þeir eru varla að gera eitthvað merkilegt hvort eð er.
  • Að fundir séu haldnir í húsakynnum stofunnar. Það hlýtur að vera upplagt fyrir stofnun sem heitir "stofa", ekki satt?
  • Að fundum sé safnað í tíma og rúmi saman þannig að ferðakostnaður vegna þeirra sé sem minnstur.

Rúmlega 1200 kr. á dag að meðaltali í leigubílakostnað er mikið fé. Það má spara skattgreiðendum. 


mbl.is Stýrir Jafnréttisstofu án bílprófs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýring á dugleysi þings og ríkisstjórnar?

Talsverð rakavandamál hafa verið í húsinu og hafa þau að mestu verið í veggjunum sem vísa mót suðri og austri. Mikið múrviðhald hefur því staðið yfir og þá einkum í þingflokksherbergi Vinstri grænna, sem er í suðausturhorni hússins á fyrstu hæð.

Það hlaut að vera!

Á einum stað segir:

[A]lgengustu áhrif myglusveppa eru tengd eiturefnum/ mycotoxínum sem þeir framleiða. Það eru til margar rannsóknir sem sýna fram á áhrif þessara eiturefna á heilsu manna og dýra. Þessi efni komast inn í líkamann við öndun, í gegnum húð eða við inntöku. Eituráhrifin valda bólguviðbrögðum í líkamanum sem gerir það að verkum að við finnum í upphafi til flensu-einkenna. Við langvarandi áhrif verða einkennin sterkari og ýmislegt fer að breytast í líkamanum. Ein algengasta breytingin er lækkun á MSH.

Skortur á MSH veldur síþreytu og stanslausum verkjum. Ennfremur stjórnar MSH starfsemi heiladinguls. 60 % þeirra sjúklinga sem hafa lækkað MSH hafa ekki nægjanlegt ADH eða þvagtemprandi hormón. Þessir sjúklingar eru sífellt þyrstir, hafa tíð þvaglát og oftar en ekki hafa óvenjulega næmni í snertingu við rafmagn. 40% sjúklinga með lækkað MSH hafa ekki stjórn á framleiðslu karlkynshormóna og önnur 40% hafa ekki eðlilega stjórn á framleiðslu yfirnýrnahettubarkarhormóna ACTH og kortisóls. MSH stýrir einnig varnarviðbrögðum í húð, meltingarvegi og í slímhimnu í nefi og lungum

Ég tel mig hafa fundið ástæðu á bak við þinghaldið seinasta vetur. Vonandi stendur það til bóta núna.


mbl.is Raki í veggjum Alþingishússins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um réttindi okkar, ef einhver eru

Í þessum pistli eftir einn besta pistlahöfund Íslands, Pawel Bartoszek, eru margar áhugaverðar vangaveltur.

Dæmi:

Við getum ímyndað atburðarrás þar sem harðstjórn sviptir stóran hluta þegna sinni rétti til lífs með lögfræðilega óaðfinnanlegum hætti. Er þjóðarmorð við slíkar aðstæður þá löglegt?

Annað dæmi:

En segjum að einhver ríki segi bara upp öllum mannréttindasáttmálum sem þau eru aðili að. Segjum að ríki hendi mannréttindum úr sínum stjórnarskrám. Má þá allt?

Enn eitt dæmið:

Sumir líta svo á að til séu einhver “náttúrulög” sem ná yfir önnur lög. Við getum þá kannski litið svo á að hægt sé að nota guð í lögfræðilegum skilningi eins og Einstein gerði í eðlisfræði. Sem feluorði fyrir einhverskonar “alheimsreglu”. En ef ég greini það í sundur þá kemst ég óhjákvæmilega að því að sum réttindi eru “óhagganleg” vegna þess að nógu mörgu fólki sem skiptir máli finnst að svo eigi að vera.

Að lokum:

Mannréttindi koma frá fólki. En það er ekki gott að hugsa það þannig. Kommúnistar hugsuðu þetta þannig. Sjáið hvernig það gekk.

Allir telja sig hafa einhver réttindi, til dæmis réttinn til bóta eða réttinn til að vera látinn í friði. En hvaðan koma þessi réttindi og hvernig eru þau rökstudd? Þetta er spurning sem heimspekingar af öllu tagi hafa velt fyrir sér lengi. Kristnir menn benda á Guð. Aðrir benda á ríkisvaldið. Enn aðrir tala um náttúrulegan rétt, óháðan bæði guði og mönnum. Heilu bækurnar finnast um efnið, sumar þeirra mörg hundruð ára gamlar. 

En kannski er þetta ekki svona flókið.

Fyrst þurfum við að verða sammála um að allir menn séu af sömu gerð. Enginn einn er æðri öðrum. Er hægt að sammælast um það? Ef ekki, hvernig á að rökstyðja flokkun á mönnum? Reyndu! Er það ætterni eða innistæða á bankabók eða húðlitur? Ég flyt sönnunarbyrðina á þann sem vill meina að menn séu ekki allir sömu tegundar.

Sem aukaforsenda skulum við gera ráð fyrir að einstaklingar einir hafi réttindi. Ríkisvaldið, Hagkaup og Frímúrarafélagið hafa ekki réttindi. Ef ég stel frá Hagkaup er ég að stela frá eigendum Hagkaupa, en ekki fyrirbærinu Hagkaup. Þegar ég greiði skatt til ríkisvaldsins er ég að láta fé fara úr mínum vasa og í vasa annarra. Embættis- og stjórnmálamenn ráðstafa fénu, ekki ríkisvaldið. 

Næst þurfum við að verða sammála um að ef allir menn eru sömu tegundar, með sömu réttindi, þá megi enginn einn gera eitthvað við aðra sem hann bannar að sé gert við hann sjálfan. (Sadó-masókistinn fær ekki frjálsar hendur hér, því hann gefur leyfi til að meiðast, og þarf því leyfi til að meiða aðra.)

Af ofangreindu leiðir að ríkisvaldið er glæpastofnun, frjáls markaður samskipta og viðskipta hið eina réttláta fyrirkomulag samfélagsins, skattar eru þjófnaður, þrælahald brýtur á réttindum rétt eins og skattlagning, eignarrétturinn er framlenging sjálfseignarréttar einstaklinga á eigin líkama, og að frjálshyggja sé hin eina réttláta stefna sem ber að stefna að. Q.e.d.

(Lesandann bið ég afsökunar á mjög stuttri röksemdarfærslu, en ég get vísað í margar og þykkar bækur eða styttri greinar og ritgerðir ef áhugi er á slíku.) 


Heilræði

Ég ætla að leyfa mér að bjóða þingmönnum Sjálfstæðisflokksins upp á eftirfarandi heilræði fyrir vinnufund þeirra:

1) Lesið landsfundarályktanir ykkar eigin stjórnmálaflokks. Þar er margt gott að finna (en líka slæmt). Svo virðist sem þessar ályktanir séu yfirleitt nýttar eins og klósettpappír og það hefur farið í taugarnar á mörgum kjósendum ykkar og flokksfélögum. Hvernig væri að breyta til og fylgja þeim eftir í þetta skipti?

2) Gerið hnébeygjur. Sterk hné kikna síður undan álagi og þrýsting en veik hné. Mörgum hefur fundist hné ykkar vera í veikara lagi. Í viðleitni til að forðast neikvæða umfjöllun og neikvæða gagnrýni hafa hné ykkar kiknað hvað eftir annað. Hnébeygjur eru því við hæfi.

3) Gleymið næsta kjörtímabili. Nú veit ég að þingmennska er vel borguð og leiðir jafnvel til einstaka flugferða í gegnum fríhafnir heimsins þar sem áfengi og tóbak er ódýrt, en reynið samt að gleyma næsta kjörtímabili. Þess í stað ættuð þið að fylgja sannfæringu ykkar, ef einhver er, og reyna að berjast fyrir hugsjónum en ekki vinsældum. Hver veit, kannski leiðir hugsjónabaráttan til þess að almenningur fer að bera virðingu fyrir störfum  ykkar og endurnýjar þingsæti ykkar! 

4) Hættið að blína á peninga í vösum annarra. Ég veit að það er gaman að eyða peningum annarra, en reynið að gera eins lítið af því og þið getið. Þeir sem vilja borga fyrir rekstur ríkisvaldsins geta millifært á bankareikning þess. Enginn gerir það. Enginn vill því borga til ríkisvaldsins. Skattlagning er þjófnaður. Því minna sem er stolið, því betra. Hafið það í huga.

5) Klifrið úr fílabeinsturninum. Fílabeinsturnar eru hættulegir andlegri heilsu fólks og leiða til mikilmennskubrjálæðis. Úr fílabeinsturni virðast allir drekka of mikið, eyða í vitleysu og haga sér eins og kjánar. Þannig er það samt ekki. Venjulegt fólk kann að drekka áfengi og á að fá að kaupa það hvar sem er, kann alveg að eyða eigin launum og hagar sér yfir það heila bara ágætlega. Úr fílabeinsturninum sést þetta samt illa. Í fílabeinsturnum finnst fólki það haga sér betur en aðrir, drekka hófsamar og eyða fé af skynsemi. Þannig er það samt ekki. Fólk í fílabeinsturnum er eins og annað fólk.

6) Reynið að hafa sem minnst að gera í vetur. Veljið mikilvæg mál til að vinna að en ekki óendanlega mörg mál sem halda öllum þingmönnum uppteknum í allan vetur. Þingmenn eiga skilið að vera í löngum fríum og hafa lítið að gera, helst ekki neitt. Alþingissalurinn er lítill og loftlaus, borðin lítil og bergmálið mikið. Það er ekki á nokkurn mann leggjandi að eyða miklum tíma þar. Reynið að hafa sem minnst að gera í vetur.

Að því sögðu óska ég þingmönnum góðs vinnufundar.  


mbl.is Fundað um mál komandi þingvetrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymum ekki stjórnmálamönnunum

Í allri umræðu á Íslands gleymist oft að vorkenna stjórnmálamönnum. Þeir eru jú fólk líka, sem hafa hagsmuna að gæta og með tilfinningar sem þarf að taka tillit til. Þótt fólk hafi boðið sig fram til að stjórna öðrum er ekki þar með sagt að það hætti að vera manneskjur, er það?

Tökum til dæmis umræðuna um skatta. Mörgum finnst þeir of háir, skattkerfið of flókið og ríkissjóður of frekur á fé landsmanna. Lagt er til að lækka skatta og einfalda skattkerfið, og jafnvel draga úr umsvifum ríkisins! En hvað verður þá um stjórnmálamanninn? Hann hefur úr minna af fé annarra að moða. Hann þarf kannski að sjá á eftir vinsældum sem skattféð aflaði honum. Hann þarf kannski að gefa eftir aðstoðarmenn og fjölmiðlafulltrúa, fá minni skrifstofu, ferðast sjaldnar um fríhöfn Keflavíkurflugvallar og fær færri klukkustundir í sjónvarpi landsmanna.

Við megum ekki gleyma stjórnmálamanninum og hans hagsmunum og tilfinningum. Ef hann hefur úr minna af fé okkar að moða hvernig á hann þá að tryggja endurkjör sitt? Hvernig á hann þá að ráða yfir okkur?

Annað dæmi er regluverkið. Sumum finnst það of flókið. Sumt má flytja inn og sumt ekki. Sumt má flytja inn án tolla og annað ekki. Sumt er niðurgreitt og annað ekki. Sumt má selja í hvaða búð sem er, hvenær sem er, og annað ekki. Þessi frumskógur heldur stjórnmálamönnum við efnið. Við frumskóginn má alltaf bæta. Lögfræðingar lifa í vellystingum.

Sumar hjartalausar manneskjur hafa engu að síður, í ljósi alls þessa, lagt til að reglufrumskógurinn verði skorinn niður, jafnvel niður í einn lítinn runna sem allir sjá og skilja. Sagt er að það muni einfalda líf hins almenna borgara, auka viðskipti við útlönd og viðskipti útlanda við Íslendinga, auka skilvirkni, skapa verðmæti, bæta velferð landsmanna, fjölga tækifærum og minnka óvissuna í umgengni við ríkisvaldið. En hvað með aumingja stjórnmálamanninn? Hvað á hann að gera ef hann getur ekki í sífellu bætt trjám í frumskóginn og flækjum þar sem engar voru?

Á stjórnmálamaðurinn kannski bara að vera heima og gráta allan daginn úr verkefnaskorti? Á hann ekki að fá að ráða neinu? Á hjörð embættismanna að fara á vergang og neyðast til að finna vinnu hjá einkaaðilum? Er ekki nóg atvinnuleysið fyrir?

Miskunnarleysi þeirra sem berjast fyrir lægri sköttum og færri reglum er takmarkalaust. Ekkert tillit er tekið til stjórnmálamannsins, sem vill bara fá að eyða fé okkar og stjórna lífum okkar. Þessu tillitsleysi mótmæli ég. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband