Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Starfsemi í miðbænum: Happdrætti

Þeir eru vitrir þessir borgarfulltrúar í Reykjavík. Þeir vita hvað er hið eina rétta hlutfall ýmis konar reksturs í miðbænum. Ekki dugar að finna húsnæði, leigja það út, afla fjármagns til að hefja starfsemi og hafa raðir af viðskiptavinum við dyrnar. Nei, að auki þarf sérstakt leyfi yfirvalda, sem eru háð einhverjum kvótum sem eru ákveðnir inni á skrifstofum ráðhússins. 

Yfirvöld eru sniðug að þessu leyti. Þau geta gert svokallaðar skipulagsáætlanir sem taka öllu öðru fram, þar á meðal samningum einkaaðila um ráðstöfun eigna þeirra. 

Nú efast ég ekki um að margir klappi þegar umsókn um opnum veitingahúss á Bankastræti er synjað, þar á meðan þeir sem í dag reka þar veitingahús. En hversu langt vilja menn leyfa yfirvöldum að hlutast til með eigur sínar og annarra? Geta yfirvöld dag einn ákveðið að allir garðar í Reykjavík þurfi að vera a.m.k. 50% grasflötur, eða hafa a.m.k. 3% blómanna af ákveðinni gerð, svo dæmi séu tekin? Hvað stöðvar yfirvöld sem geta rúllað yfir borgarana mótstöðulaust eins og valtari yfir mótstöðulausa laufblaðahrúgu?

Þeir eru til sem sjá aldrei neitt að því að yfirvöld séu með puttana ofan í hvers manns koki, en þeir eiga þá heldur ekki að kvarta þegar yfirvöld banka upp á hjá þeim einn daginn og segja viðkomandi að í dag eigi allir að klæðast bleikum samfestingi, því skipulagsáætlun borgarinnar geri ráð fyrir mikið af bleikum lit á götunum. 


mbl.is Má ekki fækka búðum í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist á einkennin en ekki sjúkdóminn

Vandamál íslenskra lántekenda eru ekki verðtryggingar eða breytilegir vextir óverðtryggðra lána heldur eru þetta einkenni sjúkdóms - þess sjúkdóms að kaupmáttur íslensku krónunnar er kerfisbundið rýrður. Raunar er yfirlýst stefna útgefenda krónunnar að rýra hann í verðgildi um u.þ.b. 2,5% á ári, m.ö.o. helminga hann á um einnar kynslóðar fresti.

Nú á að skerða rétt lánveitenda til að binda útlán sín við einhverja vísitölu kaupmáttar krónunnar. Gott og vel. Eitthvað kemur bara í staðinn eða lánsfé fer í felur eða það verður lánað út til einhvers sem er ekki bannað að tryggja gegn rýrnandi virði krónunnar. 

Í stað þess að plástra í sífellu þegar einkenni sjúkdóms koma fram þætti sumum eflaust skynsamlegra að ráðast að rótum sjúkdómsins. Eitt upplagt skref væri að leggja niður Seðlabanka Íslands og koma ríkisvaldinu út úr útgáfu peninga. Sem fyrst. 


mbl.is Afnám verðtryggingar hefjist 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð og eftirspurn, eða hvað?

Vegagerðin er með mikið á sinni könnu. Um það efast ég ekki. Hún er hins vegar ríkisstofnun sem tekur við fé og skammtar til framkvæmda eftir pólitískum fyrirmælum. Hún þarf því ekki endilega að sinna því sem sinna þarf, og getur einnig sinnt því sem engin þörf er á að sinna.

Ég álasa ekki Vegagerðinni. Hún þarf að uppfylla ákveðin lögbundin fyrirmæli og hefur til þess takmarkað fé. 

En hvað gerist þegar Vegagerðin er ekki að sinna einhverjum svæðum af því hún túlkar fyrirmæli sín sem svo að hún þurfi þess ekki? Hver getur þá hlaupið í skarðið?

Vegagerðin er greidd með skattfé. Fæstir hafa efni á að borga bæði skatta og aukalega fyrir þjónustu sem skattarnir greiða ekki fyrir. Þess vegna er t.d. fátt um valmöguleika við hið opinbera heilbrigðiskerfi (undantekningar eru lýtalækningar ýmis konar og annað sem löggjafinn hefur ekki kæft í fæðingu og allskyns hamlandi ákvæðum og heimatilbúnum lagakröfum).

Þeim er vorkunn sem búa á jaðarsvæðum Vegagerðarinnar. Þeirra kostir eru fáir aðrir en að senda bréf til yfirvalda og biðja vinsamlegast um að nauðsynlegum vegum sé ekki lokað þegar snjóar eða látnir grotna niður vegna viðhaldsleysis. En þeir sem vilja ríkiseinokun þurfa einfaldalega að éta það sem þeim er skammtað eða halda kjafti. 


mbl.is Vill vegi aftur á áætlun í Héraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja litla, gula hænan

Á einum stað segir:

Eftir að kvótakerfinu var komið á og aflaheimildir urðu framseljanlegar, stórjókst hagkvæmni í sjávarútvegi. Sífelldar gengisfellingar í þágu sjávarútvegsins hurfu. Samfelldir fréttatímar og fréttaskýringar um „erfiða stöðu sjávarútvegsins“ hurfu eins og skiltið „Afsakið hlé“. Hagkvæmnin varð slík að í stað vandamálanna urðu til ofsjónirnar yfir velgengninni. (Vefþjóðviljinn 18. febrúar 2015)

Ég held að ég bæti ekki neinu við þetta í bili. 


mbl.is Veiðigjöldum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar leiðir til að sóa tíma sínum

Um leið og stjórnandi segist vera orðinn mjög upptekinn af kynjahlutföllum og kynjahalla er voðinn vís. Í tilviki Þjóðleikhússins mætti kannski setja upp ímyndaðar samræður til að sjá hvers vegna:

Listamaður: Herra stjóri, eigum við ekki að sýna Ronju ræningjadóttur á næsta leikári? Hún er gríðarlega vinsæl, við fáum fjölda fyrirspurna og ég held að aðsókn verði góð.

Stjóri: Þetta hljómar eins og góð hugmynd, en bíddu nú við - er þá ekki kona í aðalhlutverki?

Listamaður: Jú, en hvers vegna spyrðu?

Stjóri: Nú því konur léku meirihluta aðalhlutaverkanna á seinasta leikári. Núna þurfum við fleiri karlmannshlutverk. Við skulum sýna Hamlet.

Listamaður: Hamlet? En það er svo þungt og langdregið og börnin koma jú ekki í leikhús til að sjá svoleiðis leikrit.

Stjóri: Nei sjáðu til, þú ert allur í þessu með að vilja sýna eitthvað sem einhver vill sjá. 

Listamaður: Já, en ekki hvað?

Stjóri: Sjáðu til, núna hallar á annað kynið. Ef leikarar eru skoðaðir naktir er mun meira af einni tegund kynfæra en annarri. Það gengur ekki. Vertu sæll.

Það er gott að vita að Þjóðleikhúsið ætlar vera eins opinber rekstur og hægt er: Með áherslu á eitthvað allt annað en skiptir máli.


mbl.is Hallar á karla í Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blásið í japanska bólu

Nánast allar fréttir um japanska hagkerfið eru rangar eða misvísandi.

Talað er um að loksins sé hagvöxtur í kortunum í Japan. Hlutabréf eru að hækka. Útflutningsfyrirtæki eiga að sögn að vera græða á veikara jeni.

Allt eru þetta aðrar leiðir til að segja einn hlut: Peningaprentvélarnar keyra á fullum afköstum í Japan.

Sparnaður Japana er að rýrna. Kaupmáttur launþegar er að rýrna. Innflutningur er að hækka í verði. Fé er að leita úr sparnaði og fjárfestingum í spákaupmennsku, t.d. með hlutabréf. Útflutningsfyrirtækin eru að fá niðurgreiddan launakostnað með rýrnandi kaupmætti gjaldmiðilsins. Þau munu verða háð áframhaldandi rýrnun. Þau munu ekki fá aðgang að sparnaði til að fjárfesta fyrir því hann mun smátt og smátt gufa upp, og verða háð enn einni innspýtingu nýprentaðra peninga í hagkerfið.

Japanir eru að apa upp alla vitleysuna frá Evrópu og Bandaríkjunum og keyra fram af sama þverhnípi, með bundið fyrir bæði augun og lokað fyrir eyrun.

Stundum er talað um hinn týnda áratug í Japan. Það er að vissu leyti réttnefni: Á meðan heimurinn keyrði sig á bólakaf í nýprentuðum peningum og skuldum voru Japanir í felum, með sinn sparnað, og með sína verðhjöðnun (eðlilegt ástand i umhverfi aukinnar framleiðslu og stöðugs peningamagns í umferð).

En núna stökkva Japanir fram á sjónarsviðið, verða öllum sýnilegir og sökkva í sama fúla fen og Evrópu- og Bandaríkjamenn.

Því miður. 

Enn meira miður er að viðskiptablaðamenn kokgleypa vitleysuna eins og þeim væri borgað fyrir það, enda fá þeir borgað fyrir það. 


mbl.is Allt að gerast í Tókýó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska ríkið á að kaupa mjúka dúnkodda

Mörg brýn verkefni bíða hins íslenska ríkisvalds.

Eitt brýnasta verkefnið er að afla tilboða í kaup á mjúkum dúnkoddum fyrir alla Íslendinga. Þeir verða bundnir þannig á fólk að ef það dettur á rassinn þá meiðir það sig ekki. Það vandamál ætti því að heyra sögunni til um alla framtíð. 

Einhverjum gæti dottið í hug að þetta væri slæm hugmynd. Ef fólk meiðir sig ekki þegar það dettur á rassinn mun það þá ekki bara passa sig síður, og jafnvel æða niður steinsteyptar tröppur í miklu óðagoti því það er óttalaust og vel dúðað?

Munu börn ekki læra jafnvægislistina síður ef þau detta aldrei þannig að þau meiði sig?

Munu fullorðnir ekki taka upp á ýmsum vafasömum athöfnum því það veit að rassinn er vel varinn? Til dæmis henda sér aftur á bak í alla stóla með þeim afleiðingum að þeir brotna oft í spað?

Munu skattahækkanirnar, sem þarf til að fjármagna koddakaupin, ekki draga svo mikið fé úr vösum skattgreiðenda að aðrar leiðir til að forðast rassmeiðsl fá aldrei fjárhagslegt tækifæri til að keppa við koddana? 

Jú, vissulega munu hin lögskipuðu öryggistæki - dúnkoddarnir - deyfa alla áhættufælni tröppuferðalanga og stólasetjara og hafa ýmsar beinar og óbeinar aukaverkanir í för með sér, en ríkisvaldið telur engu að síður mikilvægt að tryggja fólk gegn sársauka á rasskinnum. Ríkisvaldið sér hérna tækifæri til að slá sig til riddara á kostnað skattgreiðenda og það, umfram svo margt annað, er mikilvægt. Skítt með afleiðingarnar, beinar og óbeinar. 


mbl.is Hlynnt hugmynd um breytt lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttmæt gagnrýni, en ...

Ég tek undir gagnrýni þýðenda á orðum ráðherra.

Ráðherra getur samt lagt sitt af mörkum til að lágmarka skaðsemi reglugerðaflóðsins. 

Hún getur t.d. gefið það út að eftirfylgni ákveðinna reglugerða eigi ekki að vera forgangsmál.

Þannig er það í raun með margt. Laga- og reglufrumskógurinn er svo þykkur að ef einhver ætlar sér að þræða hann samkvæmt bókinni þá kemst hann aldrei úr sporunum. Ákveðnar reglur og ákveðin lög hafa fengið á sig ákveðinn stimpil sem eitthvað sem má alveg leyfa sér að víkja örlítið frá án þess að lögreglan geri mikið úr því eða rannsaki sem eitthvað forgangsmál.

Lögreglan gæti meira að segja gert meira af slíku. Í stað þess til dæmis að eyða tíma og fé í að brjótast inn í unglingapartý í heimahúsum og hella niður heimabruggi og drepa í jónum gæti lögreglan einbeitt sér að ofbeldisglæpum og þjófnuðum, t.d. með aukinni viðveru í miðbænum eftir myrkur um helgar. 

Yfirvöld gætu líka gert meira af því að sjá í gegnum fingur sér með ýmislegt, t.d. hætt að plaga fólk með tollafgreiðslu á hverri einustu bréfaklemmu sem er keypt til landsins með póstsendingu. 

Ráðherra hitti á rangan streng en getur engu að síður leyft sér að spila á sama hljóðfæri (bara svo ekki beri mikið á). 


mbl.is Þýðendur harma orð Sigrúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál en líklega bara meira af því sama

Fjölmiðlar skjóta hratt upp kollinum á Íslandi þessi misserin, og það er gott. Í fljótu bragði dettur mér í hug Kjarnann, Fréttatímann og Nútímann, auk þess sem eigenda- og ritstjóraskipti á DV mætti e.t.v. flokkast sem endurnýjun. Fyrir eru svo 365-miðlar, RÚV, Morgunblaðið, Viðskiptablaðið og sitthvað fleira. 

Þetta er mikill fjöldi, en hann er því miður nokkuð einsleit flóra. Fjölmiðlamenn eru yfirleitt vinstrisinnaðri en almenningur og það kemur vel fram í efnistökum flestra íslenskra fjölmiðla. Blaðamenn eru að öllu jöfnu frekar illa að sér í hagfræði, og það leynir sér heldur ekki (undantekningin er helst Viðskiptablaðið, og á köflum Morgunblaðið). 

Blaðamenn eru duglegir í að viða að sér miklu efni, en fæstir hafa þjálfun og þekkingu til að setja sig inn í það að neinu ráði og skilja orsakasamhengi. 

Þeir eru duglegir að taka viðtöl í tengslum við fréttir, en hafa tilhneigingu til að velja sér álitsgjafa sem taka undir þeirra eigin lífskoðanir og viðhorf. 

Blaðamenn telja sig hafa mikinn skilning á því mannlega í kringum okkur og einblína oft á þekkt nöfn eða efni sem getur orðið að grípandi fyrirsögnum, en klikka oftar en ekki á tæknilegu atriðunum, t.d. þeim hagfræðilegu eða lagatæknilegu.

Blaðamenn eru með lélegt langtímaminni og láta oft góð tækifæri í viðtölum framhjá sér fara, t.d. þeim að minna stjórnmálamenn á eigin orð frá því nokkrum mánuðum fyrr (stjórnmálamenn gleyma viljandi fyrri orðum ef tíðarandinn breytist þeim í óhag, en blaðamenn eiga að vera á varðbergi gagnvart slíku).

Fjölmiðlafólk vill sjálft meina að það veiti ráðamönnum og öflugum aðilum í viðskiptalífinu einhvers konar aðhald, en eru oftar en ekki bara klappstýrur fyrir persónulegar hetjur sínar og aðhaldið er því yfirleitt á einn veg. Af þessum ástæðum fær maður t.d. það á tilfinninguna að íslenskir hægrimenn séu alltaf sökudólgarnir: Séu þeir í stjórnarandstöðu er allt fráfarandi ríkisstjórn þeirra þeim að kenna, en séu þeir í ríkisstjórn er allt í dag þeim að kenna. 

Það sem eftir stendur að mínu mati er því að fólk eigi að láta Viðskiptablaðið duga fyrir allar fréttir af heimsviðburðum og hagfræðilegum atriðum, en geti svo valið fjölmiðil af handahófi fyrir fréttir af fólki og fjöri. 


mbl.is Stuð í útgáfuboði Stundarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir hættir að vinna?

Fráfarandi vinstristjórn tók undir þau rök fyrir átakinu "Allir vinna" að skattalækkanir hafi örvandi áhrif á vinnu: Menn leggi frekar í verkkaup þegar stærri hluti kostnaðarins fer í sjálfar framkvæmdirnar og minni hluti fer í ríkishítina.

Ekki var þó talin ástæða til að auka vinnu hárgreiðslufólks, venjulegra launþega og ræstingarfólks, svo dæmi séu tekin. 

Núna rennur átakið út. Skattar á vinnu iðnaðarmanna hækka með öðrum orðum og ná nú sömu hæðum og á annað sem er virðisaukaskattskylt. Færri vinna.

Ríkið "endurgreiddi" 16 milljarða sem það hirti og þótti það leiða til fjölgunar starfa. Núna ætlar ríkisvaldið að halda öllu og eyða sjálft. Störfum fækkar því hjá einkaaðilum en fjölgar væntanlega hjá hinu opinbera sem þrífst á þeim.

Væri ekki rökréttara að útvíkka hið svokallaða átak og gera að almennum skattalækkunum fyrir alla? Ef það er rétt sem Steingrímu J. sagði á sínum tíma, að átakið "Allir vinna" væri í raun hlutlaust fyrir afkomu ríkissjóðs (því fleiri vinna), mun þá ekki hið sama gilda um almennar og varanlega skattalækkanir á allt og alla? 

Þegar sjálfur Steingrímur J. er farinn að sjá ljósið frá hinni svokölluðu Laffer-kúrvu er þá einhver eftir sem sér það ekki? Þegar maðurinn sem var á móti frjálsu útvarpi, bjór á Íslandi og litasjónvarpi sér að skattalækkanir geti leitt til aukinnar skattheimtu til hans og skjólstæðinga hans, er þá einhver eftir sem sér það ekki?

(Að tekjur ríkissjóðs aukist í kjölfar skattalækkana er svo vandamál út af fyrir sig, því feitur ríkisrekstur leiðir ekki til neins nema valdameira ríkisvalds. Skatta á því að lækka hraðar og meira þar til ríkisvaldið sér fjárhag sinn skreppa saman, samhliða stórkostlegum uppskurði á ríkisrekstrinum sem fækkar verkefnum hans, stofnunum á hans vegum og kerfum sem hann hefur á sinni könnu.)


mbl.is 16 milljarðar króna til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband